2015

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 308/2015

18.11.2015

Úrskurður nr. 308/2015

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2015, miðvikudaginn 18. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 320/2014; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 4. desember 2014, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuáranna 2006 til og með 2009.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Skil á efnislega röngum skattframtölum. Vanframtaldar tekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2007, 2008, 2009 og 2010, vegna tekjuáranna 2006, 2007, 2008 og 2009, og með því vanframtalið tekjur sínar, samtals að fjárhæð kr. 26.018.524, sem til eru komnar vegna starfa A við viðhald á skipum fyrir X hf., kt. [...], og Z ehf., kt. [...].

Leiddi háttsemi A til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofns hans en vera bar gjaldárin 2007, 2008, 2009 og 2010, vegna tekjuáranna 2006, 2007, 2008 og 2009, og þar með ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars, svo sem hér greinir:  

Reiknaður tekjuskattur og útsvar

Tekjuár Vanframtaldar tekjur, kr. Tekjuskattur, kr. Útsvar, kr.
       
2006 3.223.041 765.472 419.962   Kr. 3.223.041 * 13,03% = kr. 419.962.
2007 5.441.551 1.237.953   Vanframtaldar tekjur kr. 5.441.551 * 22,75% = kr. 1.237.953. 709.034   Kr. 5.441.551 * 13,03% = kr. 709.034.
2008 8.901.796 2.025.159   Vanframtaldar tekjur kr. 8.901.796 * 22,75% = kr. 2.025.159. 1.159.904   Kr. 8.901.796 * 13,03% = kr. 1.159.904.
2009 8.452.136 2.036.965   Vanframtaldar tekjur kr. 8.452.136 * 24,10% = kr. 2.036.965. 1.122.444   Kr. 8.452.136 * 13,28% = kr. 1.122.444.
Samtals kr. 26.018.524 6.065.549 3.411.344

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. 1. tölul. A. liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. gr., 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum.

Við endurákvörðun ríkisskattstjóra á stofni A til tekjuskatts og útsvars gjaldárin 2007, 2008, 2009 og 2010, sem framkvæmd var með úrskurði, dags. 18. ágúst 2014, á grundvelli niðurstaðna framangreindrar skýrslu, hefur A verið gert að sæta álagningu tekjuskatts og útsvars á álag á vangoldinn skattstofn samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, samtals kr. 2.369.223, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 4. desember 2014, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 9. desember 2014, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Var bréfið endursent yfirskattanefnd 15. janúar 2015 með því að þess hefði ekki verið vitjað.

Með tölvupósti, dags. 4. febrúar 2015, lýsti umboðsmaður gjaldanda því yfir að gjaldandi væri búsettur erlendis og hefði ekki móttekið bréf yfirskattanefndar vegna fyrirhugaðrar refsimeðferðar í málinu. Óskaði umboðsmaður gjaldanda eftir því að afrit af bréfi yfirskattanefndar yrði sent til sín.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 4. febrúar 2015, var kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins og afrit af gögnum málsins send umboðsmanni gjaldanda og var frestur gjaldanda til að taka afstöðu til kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins framlengdur til 23. mars 2015.

Með bréfi, dags. 23. mars 2015, lagði umboðsmaður gjaldanda fram athugasemdir fyrir hans hönd. Í bréfinu er tekið fram að gjaldandi hlíti því að yfirskattanefnd afgreiði mál hans. Hins vegar sé farið fram á að yfirskattanefnd fresti meðferð málsins ótímabundið, eða þar til dómur Mannréttindadómstóls Evrópu gengur í máli nr. [...]: „B and Others v. Iceland“. Í bréfinu er rakið að fyrir Mannréttindadómstól Evrópu sé til meðferðar mál gegn íslenska ríkinu þar sem til úrlausnar sé það álitaefni hvort íslenskar réttarreglur um beitingu hvoru tveggja skattaálags og refsingar, þ.e. fangelsisrefsingar eða fésektar, samræmist meginreglunni um „ne bis in idem“, sem leggi bann við endurtekinni málsmeðferð eða refsingu fyrir sömu háttsemi. Í ljósi nýlegra dóma Mannréttindadómstólsins, einkum í máli Mikko Tapani Nykänen gegn finnska ríkinu, verði að telja líklegt að dómur í málinu gangi íslenska ríkinu í óhag. Þá hafi á annan tug sakamála verið frestað ótímabundið fyrir íslenskum dómstólum vegna þessa.

Með bréfi formanns yfirskattanefndar, dags. 2. september 2015, var beiðni gjaldanda um frestun málsmeðferðar hafnað. Var gjaldanda að nýju veittur frestur til 18. september 2015 til að leggja fram vörn í málinu.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 18. september 2015, ítrekaði umboðsmaður gjaldanda beiðni um að meðferð máls gjaldanda fyrir yfirskattanefnd verði frestað. Í bréfinu eru gerðar athugasemdir við bréf formanns yfirskattanefndar frá 2. september 2015 og fyrri röksemdir varðandi frestun málsmeðferðar ítrekaðar.

Með bréfi formanns yfirskattanefndar, dags. 27. október 2015, var beiðni gjaldanda hafnað. Með bréfinu var frestur gjaldanda til að bregðast við bréfi yfirskattanefndar frá 9. desember 2014 framlengdur til og með 9. nóvember 2015.

Ekki hafa borist frekari athugasemdir frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 4. desember 2014, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem hann hafi staðið skil á röngum skattframtölum árin 2007, 2008, 2009 og 2010 með því að vanrækja að telja fram í skattframtölum sínum tekjur sem til væru komnar vegna starfa hans við viðhald á skipum fyrir X hf. og Z ehf. tekjuárin 2006, 2007, 2008 og 2009. Gjaldandi hefur lagt fram athugasemdir sínar í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á skattskilum gjaldanda vegna tekjuáranna 2006, 2007, 2008 og 2009, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 17. desember 2013. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 19. desember 2012. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 21. ágúst 2013, en vegna málsins voru einnig teknar skýrslur af C hinn 10. október 2013, D hinn 5. apríl 2013 og E hinn 16. apríl 2013. Var rannsókn í máli gjaldanda einkum byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutökur þessar, auk þess sem byggt var á skattframtölum gjaldanda, upplýsingum frá fjármálastofnunum, gögnum frá X hf. (áður Y hf.) og upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda. Með bréfi, dags. 5. nóvember 2013, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, dags. sama dag, sem þá lá fyrir, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Að beiðni umboðsmanns gjaldanda var andmælafrestur framlengdur tvisvar og var lokafrestur veittur til 10. desember 2013. Athugasemdir voru gerðar af hálfu gjaldanda með tölvupósti 10. desember 2013 og síðar með bréfi dagsettu sama dag.  Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman lokaskýrslu sína um rannsókn á máli gjaldanda, dags. 17. desember 2013, sem var samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar þar sem tekið var fram að framkomin andmæli þættu ekki gefa tilefni til breytinga á skýrslunni.

Í skýrslunni voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á skattskilum og tekjum skattaðila eru:

·1  Staðin hafa verið skil á skattframtölum vegna tekjuáranna 2006 til og með 2009.

·2  Skattaðili hefur vantalið tekjur sínar á skattframtölum vegna tekjuáranna 2006 til og með 2009.

·3  Skattframtöl skattaðila vegna tekjuáranna 2006 til og með 2009 eru efnislega röng.

·4  Engin kostnaðargögn eru til staðar.

·5  Skattaðili hefur ekki haldið bókhald vegna verktakavinnu sinnar.“

Samkvæmt tölulegum niðurstöðum skýrslunnar, sem gerð var grein fyrir í töflu í niðurstöðukafla skýrslunnar, voru vantaldar tekjur gjaldanda taldar nema 3.223.041 kr. árið 2006, 5.441.554 kr. árið 2007, 8.901.796 kr. árið 2008 og 8.452.136 kr. árið 2009.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103. gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 19. desember 2013. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af boðunarbréfi ríkisskattstjóra til gjaldanda, dags. 5. mars 2014, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldanda gjaldárin 2007, 2008, 2009 og 2010 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 18. ágúst 2014. Samkvæmt úrskurðinum hækkaði tekjuskatts- og útsvarsstofn gjaldanda um 3.223.041 kr. gjaldárið 2007, eða úr 3.041.708 kr. í 6.264.749 kr., um 5.441.554 kr. gjaldárið 2008, eða úr 3.500.088 kr. í 8.941.639 kr., um 8.901.796 kr. gjaldárið 2009, eða úr 2.347.493 kr. í 11.249.289 kr., og um 8.452.136 kr. gjaldárið 2010, eða úr 5.194.985 kr. í 13.647.121 kr. Í úrskurðinum kom fram að um væri að ræða vantaldar launatekjur gjaldanda sem hann hefði fengið greiddar frá erlendum félögum, W og Æ. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi á vanframtalinn skattstofn gjaldanda samkvæmt heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Gjaldandi nýtti sér ekki heimilaðar málskotsleiðir vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 17. desember 2013, að gjaldandi hafi staðið skil á skattframtölum vegna tekjuáranna 2006 til og með 2009. Við skýrslutöku af gjaldanda sagði gjaldandi að kona sín hefði útbúið framtölin og byggt þau á hefðbundnum gögnum eins og launamiðum. Sagðist gjaldandi ekki vita annað en að skattframtölin væru rétt, en sagðist ekki hafa farið yfir þau sérstaklega áður en staðið var skil á þeim.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er gerð grein fyrir rannsókn á launatekjum gjaldanda. Er rakið að fyrirliggjandi gögn sýni að á rannsóknartímabilinu hafi gjaldandi fengið greiðslur frá W, kt. [...], en félagið sé með lögheimili á Þ og sé X ehf. umboðsaðili þess á Íslandi. Í skýrslunni er rakið að greiðslur frá W til gjaldanda hafi numið 3.223.041 kr. árið 2006 og 3.096.375 kr. árið 2007, eða samtals 6.319.416 kr. Við skýrslutöku af gjaldanda var lagður fyrir hann bankareikningur hans ásamt samantekt skattrannsóknarstjóra yfir innborganir á þann bankareikning frá W. Sagði gjaldandi að um verktakagreiðslur hefði verið að ræða. Hann hefði farið reglulega í verktakaferðir fyrir X hf. og Z ehf. og þá unnið fyrir erlend fyrirtæki. Sagði gjaldandi D hafa samið um þetta við sig hjá X hf., en hann hefði ekki gefið út reikninga vegna vinnunnar þar sem hann hefði talið að þar sem um erlent fyrirtæki væri að ræða kæmi það Íslandi ekki við. Við skýrslutöku af gjaldanda var lagður fyrir hann tölvupóstur frá D til gjaldanda, dags. 24. ágúst 2007, þar sem rætt er um uppgjör og gjaldandi spurður að því hvort hann vilji fá þá greiðslu frá erlendu félagi eða X hf., og svarpóstur frá gjaldanda, dags. 28. ágúst 2007, þar sem fram kemur að gjaldandi vilji fá þetta frá erlendu félagi og gefur upp reikningsnúmer sitt. Sagðist gjaldandi ekki muna eftir þessum pósti, sem hann staðfesti að væri frá sér kominn, en taldi hugsanlegt að umfjöllunarefnið tengdist sölu á fyrirtækinu. Aðspurður hvort greiðsla að fjárhæð 1.923.630 kr., sem lögð var inn á bankareikning hans 29. ágúst 2007, tengdist uppgjörinu, sagðist gjaldandi ekki vera viss og taldi greiðsluna geta verið verktakagreiðslu vegna vinnu erlendis. Við skýrslutökuna var jafnframt lagður fyrir gjaldanda tölvupóstur þar sem D sendir hinn 29. ágúst 2007 uppgjör vegna ágúst 2007 til E, en á uppgjörinu kemur nafn gjaldanda fram ásamt umræddri fjárhæð. Kvaðst gjaldandi ekki vita hvað þetta væri og sagðist þá ekki geta svarað því hvort greiðslan væri vegna uppgjörs við starfsmenn X hf. eða vegna vinnu hans erlendis.  

Við skýrslutöku af D, fyrirsvarsmanni X hf., sem fram fór 5. apríl 2013, var hann spurður út í greiðslur af bankareikningi W og sagði D að almennt væri um að ræða greiðslur til verktaka, en tjáði sig ekki sérstaklega um greiðslur félagsins til gjaldanda.

Við skýrslutöku af E, fyrirsvarsmanni X hf., 16. apríl 2013, neitaði E að tjá sig um nokkuð er tengdist W.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er einnig gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknar embættisins á greiðslum frá Æ til gjaldanda. Í skýrslunni er rakið að greiðslur frá Æ til gjaldanda hafi numið 2.345.176 kr. árið 2007, 8.901.796 kr. árið 2008 og 8.452.136 kr. árið 2009. Við skýrslutöku var lagður fyrir gjaldanda bankareikningur hans ásamt samantekt yfir innborganir á þann bankareikning frá Æ. Sagði gjaldandi að um verktakagreiðslur vegna starfa hans erlendis fyrir þetta félag hefði verið að ræða og að svipað fyrirkomulag hefði verið á greiðslum frá þessu félagi og á greiðslum frá W. Hefði gjaldandi fengið greitt fyrir vinnu sína eftirá og ættu greiðslur í upphafi árs því líklega við um vinnu vegna ársins á undan. Aðspurður sagðist gjaldandi ekki hafa gefið út reikninga þar sem hann hefði staðið í þeirri trú að um erlent fyrirtæki væri að ræða og að hann þyrfti ekki að borga skatt af þessu á Íslandi. Sagði gjaldandi að C hefði samið við sig um þetta hjá Z ehf. Við skýrslutöku staðfesti C framburð gjaldanda um að hann hefði starfað sem verktaki erlendis í tengslum við störf hans hjá Z ehf., m.a. fyrir Æ. Sagðist C ekki hafa gefið til kynna að gengið yrði frá skattgreiðslum vegna þessarar vinnu erlendis. Þá sagði C að Æ hefði ekki haldið eftir staðgreiðslu af umræddum verktakagreiðslum sem gjaldandi fékk frá félaginu.

Var það niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi hefði vantalið greiðslur frá W og Æ í skattframtölum sínum vegna tekjuáranna 2006 til og með 2009.

4. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem gerir ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Eins og fram er komið eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum gjaldanda tekjuárin 2006, 2007, 2008 og 2009, sem liggja til grundvallar sektarkröfu í máli þessu, byggðar á upplýsingum um innborganir á bankareikning gjaldanda frá tveimur erlendum félögum, W og Æ, en gjaldandi gerði ekki grein fyrir neinum tekjum frá umræddum félögum í skattframtölum sínum árin 2007, 2008, 2009 og 2010. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra sagði gjaldandi að um væri að ræða verktakagreiðslur vegna starfa sinna fyrir umrædd félög en viðurkenndi jafnframt að engir reikningar hefðu verið gerðir vegna umræddra greiðslna. Sagðist gjaldandi hafa staðið í þeirri trú að skattar hefðu verið greiddir erlendis og að hann þyrfti ekki að standa skil á skatti af greiðslunum á Íslandi. Sagðist gjaldandi aðspurður hafa reglulega verið sendur af X hf. og Z ehf. í „verktakaferðir“ þar sem hann hefði unnið erlendis og fengið greitt frá þessum erlendu fyrirtækjum. Hefði gjaldandi samið við D hjá X hf. og C hjá Z ehf. um þetta fyrirkomulag.

Samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins fór X hf. með umboð fyrir W hér á landi, upplýsingar um félag þetta voru sendar frá starfsmönnum X hf. og heimilisfang félaganna var það sama. Þá liggur fyrir að fyrirsvarsmenn X hf. voru með prókúru hjá W og höfðu með höndum aðra umsýslu vegna félagsins. Þykja tengsl X hf. og W því ekki svo óveruleg að ekki megi álykta að umræddar greiðslur frá W á tekjuárunum 2006 og 2007 hafi verið launagreiðslur í tengslum við starf gjaldanda fyrir X hf. Hið sama verður talið gilda um tengsl Æ og Z ehf., en fyrir liggur að Z ehf. fór með umboð fyrir Æ á Íslandi. Tekið skal fram gjaldandi neytti ekki kæruréttar til yfirskattanefndar vegna úrskurðar ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 18. ágúst 2014, en með úrskurði þessum voru allar framangreindar greiðslur skattlagðar hjá honum sem laun.

Eins og málið liggur fyrir samkvæmt framansögðu verður ekki talið að neitt hafi komið fram sem gefur tilefni til annars en að byggja í máli þessu um sektarákvörðun á hendur gjaldanda á niðurstöðu í skýrslu skattrannsóknarstjóra um fjárhæð vantalinna tekna gjaldanda.

Fullsannað þykir samkvæmt því sem að framan er rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins að gjaldandi, A, hafi ekki gert grein fyrir skattskyldum tekjum samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 að fjárhæð 3.223.041 kr. í skattframtali árið 2007, 5.441.551 kr. í skattframtali árið 2008, 8.901.796 kr. í skattframtali árið 2009 og 8.452.136 kr. í skattframtali árið 2010. Eins og atvikum málsins er háttað samkvæmt framansögðu verður talið að fullnægt sé í tilviki gjaldanda þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 109. gr. laga nr. 90/2003. Hinar röngu upplýsingar í skattframtölum gjaldanda leiddu til lægri álagningar opinberra gjalda hans en vera bar gjaldárin 2007, 2008, 2009 og 2010, þannig að brot gjaldanda varða við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995. Nánar tiltekið nam vanálagður tekjuskattur 765.472 kr. gjaldárið 2007, 1.237.953 kr. gjaldárið 2008, 2.025.159 kr. gjaldárið 2009 og 2.036.965 kr. gjaldárið 2010, og vanálagt útsvar 419.962 kr. fyrsta árið, 709.034 kr. annað árið, 1.159.904 kr. þriðja árið og 1.122.444 kr. fjórða árið.

Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektarfjárhæðar er til þess að líta að langur tími liðinn frá því að gjaldandi framdi brot sitt, en dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldanda verði um kennt. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 10.700.000 kr. til ríkissjóðs og 6.000.000 kr. til bæjarsjóðs Hafnarfjarðar.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 10.700.000 kr. til ríkissjóðs og 6.000.000 kr. til bæjarsjóðs Hafnarfjarðar.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum