2015

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 78/2015

18.3.2015

Úrskurður nr. 78/2015

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2015, miðvikudaginn 18. mars, er tekið fyrir mál nr. 167/2014; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 5. maí 2014, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstrarársins 2011.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A sem fyrrum stjórnarformanni X ehf. (nú afskráð), er gefið að sök eftirfarandi:

Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur.

A er gefið að sök, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, að hafa vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum til skattyfirvalda vegna uppgjörstímabilanna mars–apríl til og með nóvember–desember, og vanframtelja með því skattskylda veltu og virðisaukaskatt vegna rekstrar X ehf. Samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 16.332.370 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 4.164.755.

Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur svo sem hér greinir: 

    Vanframtalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur
Rekstrarár Uppgjörstímabil    
2011 mars – apríl 3.187.000 812.685
2011 maí – júní 1.396.000 355.980
2011 júlí – ágúst 4.896.370 1.248.575
2011 sept. – okt. 6.853.000 1.747.515
2011 nóv. – des. 0 0
Samtals kr.   16.332.370 4.164.755

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr. sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 5. maí 2014, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 7. maí 2014, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Var bréf þetta sent gjaldanda í tölvupósti þar sem heimilisfang gjaldanda í Noregi er óþekkt. Svar barst frá gjaldanda með tölvupósti hinn 15. maí 2014 þar sem gjaldandi kvaðst ætla að setja sig í samband við yfirskattanefnd vegna málsins innan uppgefins frests. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 5. maí 2014, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem hann hafi sem fyrirsvarsmaður X ehf., nú afskráð, vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti félagsins þau uppgjörstímabil árið 2011 sem greinir í bréfinu. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og skattskilum X ehf. vegna rekstraráranna 2010 og 2011, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 27. nóvember 2013. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 27. febrúar 2013 og beindist aðallega að virðisaukaskattsskilum félagsins á rannsóknartímabilinu. Vegna rannsóknarinnar var tekin skýrsla af gjaldanda, A, hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 24. apríl 2013, en skýrsla var einnig tekin af B hinn 3. september 2013 vegna málsins. Var rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins byggð á upplýsingum sem fram komu við þessar skýrslutökur, en einnig var byggt á sölureikningum X ehf., upplýsingum frá fjármálastofnunum og upplýsingum úr upplýsingakerfum ríkisskattstjóra. Með bréfum, dags. 11. nóvember 2013, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda og skiptastjóra þrotabús X ehf. skýrslu um rannsóknina, sem dagsett var sama dag, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Engar athugasemdir bárust. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman lokaskýrslu sína um rannsókn á máli X ehf., dags. 27. nóvember 2013, sem var samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar, auk þess sem tvær misritanir í fyrri skýrslu voru leiðréttar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 27. nóvember 2013, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og virðisaukaskattsskilum skattaðila fyrir rekstrarárin 2010 og 2011:

·1  Virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið janúar-febrúar rekstrarárið 2011 hefur verið skilað.

·2  Virðisaukaskattsskýrslum fyrir önnur uppgjörstímabil rekstrarársins 2011 hefur ekki verið skilað.

·3  Fært bókhald hefur ekki verið afhent.

·4  Bókhald vegna rekstrarársins 2011 hefur ekki verið fært.

·5  Varðveislu bókhaldsgagna er ábótavant.

·6  Skattskyld velta er vantalin.

·7  Útskattur er vantalinn.

·8  Mögulegur vantalinn innskattur er kr. 598.884.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta X ehf. væri vantalin um 16.332.369 kr. og útskattur um 4.164.756 kr. rekstrarárið 2011, en mögulegur innskattur næmi 598.884 kr.

3. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 27. nóvember 2013, kemur fram að gjaldandi, A, var stjórnarmaður X ehf. á því tímabili sem rannsóknin tók til. Að því er varðar skattskilagögn kemur fram að virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2011 var skilað til skattyfirvalda en ekki voru gerð skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins vegna annarra uppgjörstímabila rekstrarársins 2011. Þá kemur fram að engin bókhaldsgögn vegna X ehf. hafi verið afhent embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins. Hafi gjaldandi sagt við skýrslutöku að bókhald hafi mögulega verið fært fram í janúar 2011 en skatturinn hefði tekið allt bókhald félagsins í desember 2010. Er rakið í skýrslunni að skiptastjóri þrotabús félagsins hafi ekki getað afhent bókhald félagsins og hafi gjaldandi sagt við skýrslutöku hjá skiptastjóra að engin starfsemi hefði verið í félaginu og ekkert bókhald verið fært. Skattrannsóknarstjóri ríkisins aflaði afrita af sölureikningum X ehf. úr bókhaldi Y ehf. og var þar um að ræða sölureikninga á númerabilinu 11-28. Tvo sölureikninga vantaði til að númeraröð sölureikninga væri samfelld. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins skýrði gjaldandi vöntun sölureikninga með því að umræddir reikningar hefðu verið gallaðir. Taldi skattrannsóknarstjóri ríkisins ekki ástæðu til að leggja mat á ætlaðan undandrátt vegna vöntunar sölureikninga.

Niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð skattskyldrar veltu X ehf. árið 2011 byggja á umræddum sölureikningum félagsins, samtals að fjárhæð 27.119.257 kr., öllum gefnum út á hendur Y ehf. Þegar gjaldandi var spurður út í sölureikningana við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins bar hann við minnisleysi og sagðist ætla að afla upplýsinga um greiðslur á bankareikningi hjá skiptastjóra. Yfirlit bankareiknings X ehf. nr. [...] og yfirlit yfir greiðslur Y ehf. að fjárhæð 8.138.127 kr. voru lögð fyrir gjaldanda við skýrslutökuna og sagði gjaldandi að það ætti eftir að greiða restina, hann hefði ekki reynt að innheimta mismuninn þar sem hann hefði átt bæði fyrirtækin. Við skýrslutöku gat meðeigandi gjaldanda í Y ehf., B, ekki skýrt með fullnægjandi hætti hvort sölureikningar hefðu verið greiddir að fullu. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er rakið að fyrir liggi lánardrottnahreyfingar Y ehf. vegna X ehf. fyrir tímabilið janúar til og með júní 2011 og samkvæmt hreyfingalista hafi sölureikningar nr. 20 og 22 (misritað 21) verið bakfærðir. Tekur skattrannsóknarstjóri ríkisins tillit til þess í niðurstöðum rannsóknarskýrslu sinnar við mat á skattskyldri veltu og útskatti X ehf. rekstrarárið 2011. Er tekið fram í skýrslunni að ekki liggi fyrir upplýsingar um hvernig útgefnir sölureikningar X ehf. vegna rekstrarársins 2011 hafi verið greiddir eða hvort þeir hafi verið greiddir að fullu af hálfu Y ehf., en sölureikninganna hafi verið aflað úr bókhaldi Y ehf. og hafi þeir virst vera fylgiskjalamerktir. Hafi gjaldandi ítrekað verið boðaður til skýrslutöku að nýju en hann hafi ekki sinnt því. Er niðurstaða skattrannsóknarstjóra um þennan þátt málsins sú að skattskyld velta hafi verið vantalin um 16.332.369 kr. og útskattur um 4.164.756 kr. uppgjörstímabilin mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst og september-október 2011.

Í kafla um rannsókn á innskatti X ehf. er vísað til þess að engin bókhaldsgögn hafi verið afhent vegna félagsins, en á virðisaukaskattsskýrslu vegna uppgjörstímabilsins janúar-febrúar 2011 hafi verið gerð grein fyrir innskatti að fjárhæð 598.884 kr. Við skýrslutöku hafi gjaldandi ekki sagst muna til þess að félagið hefði orðið fyrir frekari kostnaði en tilgreindur væri á virðisaukaskattsskýrslunni. Var það niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins að mögulegur innskattur næmi 598.884 kr.

Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 24. apríl 2013 staðfesti gjaldandi, A, að hann væri eigandi og stjórnarmaður X ehf. og að hann hefði stjórnað daglegum rekstri félagsins. Sagði gjaldandi að félagið hefði verið stofnað til að halda utan um persónulegan rekstur sinn, hann væri gjaldþrota og hefði því notað kennitölu X ehf. til þess að hefja starfsemi fasteignasölu. Aðspurður um hvort hann gæti afhent bókhald félagsins sagði gjaldandi að hann gæti ekki afhent neitt meira en skattrannsóknarstjóri ríkisins væri með, enda hefði skatturinn tekið öll bókhaldsgögn X ehf. og Y ehf. í desember 2010. Sagði gjaldandi að bókhald hefði ekki verið fært eftir það. Við skýrslutökuna voru útgefnir sölureikningar X ehf. árin 2010 og 2011 lagðir fyrir gjaldanda og kannaðist gjaldandi við sölureikningana. Sagðist gjaldandi ekki muna hvort reikningarnir hefðu verið greiddir en sagðist ætla að kanna það. Aðspurður sagði gjaldandi að reikningarnir hefðu ekki verið gefnir út vegna vinnu hans fyrir X ehf., en að öðru leyti kvaðst gjaldandi ekki vita hvers vegna reikningarnir hefðu verið gefnir. Fram kom að gjaldandi og B hefðu ásamt bókara félagsins útbúið reikningana. Við skýrslutökuna voru lögð fyrir gjaldanda yfirlit bankareiknings X ehf. hjá W, nr. [...], og samantekt yfir innborganir á bankareikninginn, en samkvæmt gögnunum námu innborganir 8.138.127 kr. en útgefnir reikningar 34.698.138 kr. Þegar gjaldandi var spurður að því hvað gæti skýrt þennan mismun sagði gjaldandi að það ætti bara eftir að greiða restina. Kvaðst gjaldandi ekki hafa reynt að innheimta restina þar sem hann hefði átt bæði fyrirtækin. Sagðist gjaldandi vilja skoða yfirlit yfir bankareikningana og útprentanir úr viðskiptahugbúnaði félagsins áður en hann gæti tjáð sig frekar um málið. Þá gat gjaldandi aðspurður ekki skýrt útborgun í seðlum af bankareikningi félagsins að fjárhæð 6.630.000 kr. Var gjaldandi ennfremur spurður að því hvort félagið hefði borið frekari kostnað en fram kæmi á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna september-október 2010 og janúar-febrúar 2011 og kvað gjaldandi svo ekki vera, þ.e. ekki svo hann myndi eftir. Kvaðst gjaldandi ekki geta útskýrt hvers vegna öðrum virðisaukaskattsskýrslum X ehf. hefði ekki verið skilað. Sagði gjaldandi að sem stjórnarformaður og framkvæmdastjóri félagsins hlyti sú ábyrgð að hvíla á honum að skila virðisaukaskattsskýrslum, en hann myndi ekki hvers vegna skýrslum var ekki skilað, enda væru tvö ár liðin síðan þetta var. Hann væri með rekstur í tveimur öðrum fyrirtækjum og myndi ekki hvað ætti sér stað í daglegum rekstri í hverju einasta fyrirtæki sem hann kæmi nálægt.

4. Gjaldandi hefur sem fyrr segir ekki gert athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og við skýrslutöku, sem fram fór hjá skattrannsóknarstjóra vegna rannsóknar málsins, kom fram viðurkenning gjaldanda á því að hann hefði ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti X ehf. þau uppgjörstímabil sem um ræðir, þó með þeim fyrirvara að útgefnir sölureikningar X ehf. hefðu ekki allir innheimst. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Eins og fram er komið eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins, að því er varðar skattskylda veltu X ehf. rekstrarárið 2011, byggðar á útgefnum sölureikningum félagsins að fjárhæð samtals 27.119.257 kr. Á þessum grundvelli er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins gerð grein fyrir meintri vantalinni skattskyldri veltu að fjárhæð 16.332.369 kr. uppgjörstímabilin mars-apríl til og með september-október 2011. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins kom sem fyrr segir fram af hálfu gjaldanda að útgefnir sölureikningar hefðu ekki allir innheimst. Neitaði gjaldandi því að útgefnir sölureikningar félagsins á hendur Y ehf. væru vegna vinnu hans, en gat ekki skýrt hvers vegna þeir hefðu verið gefnir út. Sagðist gjaldandi ætla að skoða gögn úr viðskiptabókhaldi félagsins og hafa aftur samband við skattrannsóknarstjóra ríkisins. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er rakið að gjaldandi hafi ítrekað verið boðaður aftur í skýrslutöku, en hann hafi ekki sinnt boðunum skattrannsóknarstjóra ríkisins. Gjaldandi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og hafa engar athugasemdir verið gerðar af hálfu gjaldanda við niðurstöðu skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð vangreidds virðisaukaskatts. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að gjaldandi hafi rennt neinum viðhlítandi stoðum undir staðhæfingu sína um að kröfur á hendur Y ehf. hafi ekki fengist greiddar og teljist tapaðar, en upplýsingar um greiðslur inn á bankareikning X ehf. þykja einar og sér ekki fullnægjandi í þessum efnum. Að svo vöxnu og að virtum gögnum málsins verður því byggt á niðurstöðum skýrslunnar að þessu leyti, sbr. og kröfugerð skattrannsóknarstjóra í máli þessu. Ekkert hefur komið fram í málinu sem gefur tilefni til þess að tekið verði tillit til rekstrarkostnaðar og innskatts.

Samkvæmt framansögðu telst hafa verið leitt í ljós með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að skil voru ekki gerð á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti X ehf. uppgjörstímabilin mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst og september-október 2011 þrátt fyrir skattskylda veltu í rekstri félagsins samkvæmt því sem rakið er að framan.

Gjaldandi, A, var stjórnarmaður X ehf. á þeim tíma sem málið varðar og við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins kom fram af hálfu gjaldanda að hann hefði stjórnað daglegum rekstri félagsins. Bar gjaldandi ábyrgð á daglegum rekstri félagsins, þar á meðal fjárreiðum, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og að skil væru gerð á virðisaukaskattsskýrslum félagsins og virðisaukaskatti í samræmi við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins þykir bera að fallast á ályktun skattrannsóknarstjóra ríkisins um að gjaldandi hafi með saknæmum hætti vanrækt þessar skyldur sínar umrædd uppgjörstímabil árið 2011, en virðisaukaskattur sem ekki var greiddur á lögmæltum tíma nam 4.164.754 kr. Af þessum sökum ber að ákvarða gjaldanda sekt samkvæmt 6. mgr., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Eins og lög nr. 50/1988 hljóða eftir breytingar, sem á þeim voru gerðar með lögum nr. 42/1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin eða vanrækt var greiðsla á, þó að teknu tilliti til álags. Samkvæmt þessu, málsatvikum að öðru leyti og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 8.000.000 kr. til ríkissjóðs. 

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 8.000.000 kr. til ríkissjóðs.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum