2015

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 82/2015

18.3.2015

Úrskurður nr. 82/2015

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2015, miðvikudaginn 18. mars, er tekið fyrir mál nr. 260/2014; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 16. september 2014, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2009, 2010, 2011 og 2012.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur. Vanræksla á afhendingu virðisaukaskattsskýrslna á lögmæltum tíma.

A er gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti sem hann innheimti í sjálfstæðri starfsemi sinni, sem fólst í suðu og smíðum í járni, vegna uppgjörstímabilanna mars–apríl til og með nóvember–desember rekstrarárið 2009, janúar–febrúar til og með september–október rekstrarárið 2010, janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2011 og janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2012. Þá er A gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs, á lögmæltum tíma, skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna mars–apríl til og með nóvember–desember rekstrarárið 2009, janúar–febrúar til og með september–október rekstrarárið 2010, mars–apríl til og með nóvember–desember rekstrarárið 2011 og janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2012.

Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna framangreindra uppgjörstímabila nemur samtals kr. 5.552.902. Fjárhæðin sundurliðast svo sem hér greinir: 

Rekstrarár Uppgjörstímabil Vangoldinn virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs, kr.
2009 mars – apríl 207.645
2009 maí – júní 281.907
2009 júlí – ágúst 221.007
2009 sept. – okt. 328.236
2009 nóv. – des. 209.402
Samtals kr.   1.248.197
2010 jan. – feb. 191.760
2010 mars – apríl 215.378
2010 maí – júní 289.313
2010 júlí – ágúst 234.550
2010 sept. – okt. 287.243
Samtals kr.   1.218.244
2011 jan. – feb. 296.587
2011 mars – apríl 155.558
2011 maí – júní 217.036
2011 júlí – ágúst 165.849
2011 sept. – okt. 380.218
2011 nóv. – des. 190.319
Samtals kr.   1.405.567
2012 jan. – feb. 271.174
2012 mars – apríl 242.633
2012 maí – júní 62.209
2012 júlí – ágúst 457.709
2012 sept. – okt. 290.481
2012 nóv. – des. 356.688
Samtals kr.   1.680.894
Samtals öll árin   5.552.902

Er það mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, þessu hafi A komið til leiðar með saknæmum hætti, að því er frekast verður séð af ásetningi, eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi A brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr., samanber aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Framanlýst háttsemi A varðar hann sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sektum í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 16. september 2014, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 18. september 2014, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 16. september 2014, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem hann hafi vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti í sjálfstæðri starfsemi sinni þau uppgjörstímabil árin 2009 til og með 2012 sem greinir í bréfinu. Þá hafi gjaldandi vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskattsskýrslum á lögmæltum tíma umrædd ár. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf hinn 13. maí 2014 rannsókn á skattskilum gjaldanda er beindist að skilum á innheimtum virðisaukaskatti vegna rekstraráranna 2009, 2010, 2011 og 2012. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 30. maí 2014. Með bréfi, dags. 2. júní 2014, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina sem þá lá fyrir, dags. sama dag, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Andmæli bárust ekki. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 23. júní 2014, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 23. júní 2014, segir að rannsókn á skattskilum gjaldanda hafi einkum verið byggð á upplýsingum sem fram hafi komið við fyrrgreinda skýrslutöku, innsendum virðisaukaskattsskýrslum gjaldanda og samanburðarskýrslum virðisaukaskatts, upplýsingum frá héraðsdómi Reykjavíkur, samantektum á sölureikningum svo og tekjubókhaldi ríkissjóðs, sbr. fylgiskjöl með skýrslunni, en þar er um að ræða yfirlit um greiðslur gjaldanda vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, virðisaukaskatts og opinberra gjalda. Fram kemur í skýrslunni að rannsókn á virðisaukaskattsskilum gjaldanda hafi falist í því að bera fjárhæð innheimts virðisaukaskatts samkvæmt innsendum virðisaukaskattsskýrslum og samanburðarskýrslum virðisaukaskatts saman við greiðslur gjaldanda til innheimtumanns ríkissjóðs. Er gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu rannsóknarinnar að gjaldandi hafi ekki staðið skil á innheimtum virðisaukaskatti innan lögboðins frests vegna allra uppgjörstímabila virðisaukaskatts árin 2009, 2010, 2011 og 2012, að undanskildu uppgjörstímabilinu nóvember-desember 2010, samtals að fjárhæð 5.768.353 kr. Þá hafi gjaldandi vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum á lögmæltum tíma öll framangreind uppgjörstímabil að undanskildu uppgjörstímabilinu janúar-febrúar 2011.

Við skýrslutöku af gjaldanda, sem fram fór 30. maí 2014, kom fram að hann hefði starfað við suðu og smíðar úr járni á því tímabili sem málið varðar. Gjaldandi staðfesti að fyrirliggjandi virðisaukaskattsskýrslur, þ.m.t. samanburðarskýrslur virðisaukaskatts, vegna rekstraráranna 2009, 2010, 2011 og 2012 væru vegna rekstrar síns. Sagði gjaldandi tilgreindan sérkunnáttumann hafa annast gerð skýrslnanna og hefðu þær verið byggðar á útgefnum sölureikningum. Taldi gjaldandi skýrslurnar gefa rétta mynd af rekstrinum. Fram kom af hálfu gjaldanda að virðisaukaskatti hefði ekki verið skilað á lögmæltum tíma vegna peningaskorts. Gjaldanda var kynnt að samkvæmt gögnum málsins næmi virðisaukaskattur, sem ekki hefði verið greiddur á lögmæltum tíma, samtals 5.768.353 kr. og gerði gjaldandi ekki athugasemdir við þá fjárhæð. Kvaðst gjaldandi ekki hafa óskað eftir því við innheimtumann ríkissjóðs að greiðslum vegna skattskulda yrði ráðstafað með tilteknum hætti.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, er refsivert ef skattskyldur maður afhendir eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Samkvæmt fortakslausum ákvæðum nefndra laga og með stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 27. febrúar 1997 (H 1997:789), 25. september 1997 (H 1997:2446), 14. janúar 1999 (H 1999:79), 18. febrúar 1999 (H 1999:544 og 550), 10. júní 1999 (H 1999:2645) og 30. mars 2000 (H 2000:1422), geta skattskyldir aðilar unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt.

Til grundvallar niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð vangreidds virðisaukaskatts árin 2009, 2010, 2011 og 2012 liggja virðisaukaskattsskýrslur og samanburðarskýrslur virðisaukaskatts sem gjaldandi hefur staðfest að varði sjálfstæðan rekstur sinn, sbr. skýrslutöku af gjaldanda 30. maí 2014, þar sem einnig kom fram af hálfu gjaldanda að skýrslurnar gæfu rétta mynd af rekstri hans. Af hálfu gjaldanda hafa engar athugasemdir verið gerðar við niðurstöður í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Að svo vöxnu og að virtum gögnum málsins verður því byggt á fjárhæð vangreidds virðisaukaskatts samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. og kröfugerð skattrannsóknarstjóra í máli þessu. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra í máli þessu er byggð á niðurstöðum í skýrslu embættisins að öðru leyti en því að ekki krafist sektar vegna vangreidds virðisaukaskatts uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2009 vegna töku bús gjaldanda til gjaldþrotaskipta.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins og greinargerð með kröfugerð embættisins til yfirskattanefndar er gerð grein fyrir greiðslum gjaldanda til innheimtumanns ríkissjóðs vegna staðgreiðslu, virðisaukaskatts og opinberra gjalda frá því að skuldir vegna virðisaukaskatts, sem um ræðir í máli þessu, byrjuðu að myndast 7. apríl 2009. Þar kemur fram að á tímabilinu 7. apríl 2009 til og með 15. september 2014 var ekki um neinar greiðslur að ræða af hálfu gjaldanda vegna virðisaukaskatts hans eða staðgreiðslu opinberra gjalda. Þá kemur fram í gögnum málsins að greiðslur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna opinberra gjalda gjaldanda, þ.m.t. tryggingagjalds, voru óverulegar á þeim tíma sem hér um ræðir.

Samkvæmt framanrituðu þykir nægilega komið fram með stoð í gögnum málsins og framburði gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 30. maí 2014 að gjaldandi hafi vanrækt skyldur sínar, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, til að standa á tilskildum tíma skil á innheimtum virðisaukaskatti að fjárhæð 5.552.902 kr. uppgjörstímabilin mars-apríl til og með nóvember-desember 2009, janúar-febrúar til og með september-október 2010 og öll uppgjörstímabil virðisaukaskatts árin 2011 og 2012. Vegna þeirra skýringa gjaldanda að fjárhagsörðugleikar hafi valdið þeim vanskilum á virðisaukaskatti sem í málinu greinir skal tekið fram að ekki telst tæk varnarástæða að fé hafi ekki verið til í rekstri gjaldanda til að standa skil á umræddum gjöldum, sbr. m.a. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar Íslands frá 30. mars 2000 (H 2000:1422).

Með vísan til þess sem rakið hefur verið telst fullnægt þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, og ber að ákvarða gjaldanda sekt samkvæmt þessum lagaákvæðum vegna vanrækslu á skilum virðisaukaskatts sem að framan greinir. Eins og lög nr. 50/1988 hljóða eftir breytingar, sem á þeim voru gerðar með lögum nr. 42/1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem vanrækt var greiðsla á, þó að teknu tilliti til álags. Samkvæmt breytingu á greindum lögum með lögum nr. 134/2005 eiga fésektarákvæði þessi þó ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindum virðisaukaskatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu, enda hafi verið gerð skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar. Í tilviki gjaldanda er til þess að líta að virðisaukaskattsskýrslur, og eftir atvikum samanburðarskýrslur virðisaukaskatts, liggja fyrir vegna allra uppgjörstímabila sem málið varðar og eru fjárhæðir í málinu byggðar á þeim. Hins vegar varðar mál þetta umtalsverð vanskil á virðisaukaskatti vegna langs tímabils og án þess að gjaldandi hafi innt neinar greiðslur af hendi til innheimtumanns ríkissjóðs á þeim tíma. Því þykja ekki vera fyrir hendi lagaskilyrði til þess að ákvarða sekt vegna vanrækslu á skilum virðisaukaskatts lægri en lágmarksákvæði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 mælir fyrir um.

Samkvæmt framansögðu og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 10.500.000 kr. til ríkissjóðs.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 10.500.000 kr. til ríkissjóðs.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum