2016

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 60/2016

30.3.2016

Úrskurður nr. 60/2016

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2016, miðvikudaginn 30. mars, er tekið fyrir mál nr. 196/2015; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 1. október 2015, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, framin vegna tekjuáranna 2006 og 2007.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Skil á efnislega röngum skattframtölum. Vanframtaldar tekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2007 og 2008, vegna tekjuáranna 2006 og 2007, með því að hafa vanframtalið tekjur sínar, samtals að fjárhæð kr. 12.954.656, sem til eru komnar vegna starfa A fyrir X hf., kt. [...].

Leiddi háttsemi A til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofns hans en vera bar gjaldárin 2007 og 2008, vegna tekjuáranna 2006 og 2007 og þar með ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars, svo sem hér greinir:

Tekjuskattur og útsvar af vanframtöldum tekjum.

  Vanframtaldar tekjur, kr.

Tekjuskattur af vanframtöldum tekjum, kr.

 

Fjárhæðir samkvæmt niðurstöðum endurákvörðunar ríkisskattstjóra, dags. 15. júlí 2014 að frádregnum tekjuskatti af álagi.

Útsvar af vanframtöldum tekjum, kr.

 

Fjárhæðir samkvæmt niðurstöðum endurákvörðunar ríkisskattstjóra, dags. 15. júlí 2014, að frádregnu útsvari af álagi.

Tekjuár      
2006 5.485.585

1.302.826

Tekjuskattur af álagi á hækkun stofns dreginn frá heildarhækkun tekjuskatts samkvæmt endurákvörðun: 1.628.533 kr. – 1.371.396 kr. * 0,2275 = 1.302.826 kr.

714.772

Útsvar af álagi á hækkun stofns dregið frá heildarhækkun útsvars samkvæmt endurákvörðun: 893.465 kr. – 1.371.396 kr. * 0,1303 = 714.772.

2007 7.469.071

1.699.214

Tekjuskattur af álagi á hækkun stofns dreginn frá heildarhækkun tekjuskatts samkvæmt endurákvörðun: 2.124.017 kr. – 1.867.268 kr. * 0,2275 = 1.699.214 kr.

973.220

Útsvar af álagi á hækkun stofns dregið frá heildarhækkun útsvars samkvæmt endurákvörðun: 1.216.525 kr. – 1.867.268 kr. * 0,1303 = 973.220.

Samtals kr. 12.954.656 3.002.040 1.687.992

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. 1. tölul. A. liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. gr. og 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með áorðnum breytingum.

Með framangetinni endurákvörðun ríkisskattstjóra á stofni A til tekjuskatts og útsvars gjaldárin 2007 og 2008, dags. 15. júlí 2014, hefur A verið gert að sæta álagningu tekjuskatts og útsvars á álag á vangoldinn skattstofn samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, samtals 1.172.508, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 1. október 2015, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 6. október 2015, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Með bréfi, dags. 7. desember 2015, lagði umboðsmaður gjaldanda fram athugasemdir fyrir hans hönd. Í bréfinu er tekið fram að gjaldandi hlíti því að yfirskattanefnd afgreiði mál hans. Hins vegar sé farið fram á að yfirskattanefnd fresti meðferð málsins ótímabundið, eða þar til dómur Mannréttindadómstóls Evrópu gengur í máli nr. 22007/11: „Johannesson and Others v. Iceland“. Í bréfinu er rakið að fyrir Mannréttindadómstól Evrópu sé til meðferðar mál gegn íslenska ríkinu þar sem til úrlausnar sé það álitaefni hvort íslenskar réttarreglur um beitingu hvoru tveggja skattaálags og refsingar, þ.e. fangelsisrefsingar eða fésektar, samræmist meginreglunni um „ne bis in idem“, sem leggi bann við endurtekinni málsmeðferð eða refsingu fyrir sömu háttsemi. Í ljósi nýlegra dóma Mannréttindadómstólsins, einkum í máli Mikko Tapani Nykänen gegn finnska ríkinu, verði að telja líklegt að dómur í málinu gangi íslenska ríkinu í óhag. Þá hafi á annan tug sakamála verið frestað ótímabundið fyrir íslenskum dómstólum vegna þessa.

Með bréfi formanns yfirskattanefndar, dags. 18. febrúar 2016, var beiðni gjaldanda um frestun málsmeðferðar hafnað. Var gjaldanda að nýju veittur frestur til 7. mars 2016 til að leggja fram vörn í málinu.

Með bréfi, dags. 9. mars 2016, hefur umboðsmaður gjaldanda lagt fram vörn í málinu. Í bréfinu gagnrýnir umboðsmaður gjaldanda þá ákvörðun að fallast ekki á að fresta máli gjaldanda og rekur að samkvæmt meðfylgjandi útprentun fréttar af vef mbl.is frá 4. janúar 2016 bíði 54 skattamál afgreiðslu hjá embætti sérstaks saksóknara (nú héraðssaksóknara) þar til Mannréttindadómstóll Evrópu hafi kveðið upp dóm í fyrrnefndu máli nr. 22007/11. Að því er varðar sektarkröfu skattrannsóknarstjóra er þess krafist að gjaldanda verði gerð lægsta mögulega sekt lögum samkvæmt. Áréttar umboðsmaður gjaldanda að skattyfirvöld hafi ríkulegar heimildir til að endurákvarða skatta leggi skattaðili ekki fram fullnægjandi upplýsingar eða gögn, en ekki sé hægt að færa sönnunarbyrði um sök með hliðstæðum hætti yfir á skattaðila þegar komi að ákvörðun refsingar. Verði að gera strangari sönnunarkröfur til málatilbúnaðar skattrannsóknarstjóra um refsikröfu heldur en gert hafi verið í fyrra máli gjaldanda sem laut að endurákvörðun opinberra gjalda hans. Óvissa sé um fjárhæðir, greiðslur séu að nokkru ósannaðar og lotun þeirra til tekna röng. Gögn og/eða staðfesting gjaldanda liggi fyrir um að hafa móttekið samtals 1.000.000 kr. tekjuárið 2006 og samtals 5.342.894 kr. tekjuárið 2007, sem ekki hafi verið gerð grein fyrir í skattskilum hans. Verði ekki séð að fram sé komin lögfull sönnun um að gjaldanda hafi hlotnast fjármunir umfram þetta. Þá áréttar umboðsmaður gjaldanda að gjaldandi hafi þegar hlotið viðurlög í formi 25% álags, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, og komi til viðurlagaákvörðunar beri að draga skatt af álagi frá sektarfjárhæð, sbr. 109. gr. sömu laga.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 1. október 2015, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem hann hafi staðið skil á röngum skattframtölum árin 2007 og 2008 með því að vanrækja að telja fram í skattframtölum sínum tekjur sem til væru komnar vegna starfa hans fyrir X hf., kt. [...], og Z ehf., kt. [...], tekjuárin 2006 og 2007. Gjaldandi hefur lagt fram athugasemdir sínar í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á skattskilum gjaldanda vegna tekjuáranna 2006 og 2007, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 16. desember 2013. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 18. desember 2012. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 20. ágúst 2013, en vegna málsins voru einnig teknar skýrslur af B hinn 5. apríl 2013 og C dagana 4. desember 2012 og 16. apríl 2013. Var rannsókn í máli gjaldanda einkum byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutökur þessar, auk þess sem byggt var á skattframtölum gjaldanda, upplýsingum frá fjármálastofnunum, gögnum frá X hf. (áður Y hf.) og upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda. Með bréfi, dags. 19. september 2013, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, dags. sama dag, sem þá lá fyrir, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Athugasemdir voru gerðar af hálfu gjaldanda með bréfi, dags. 22. október 2013. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman lokaskýrslu sína um rannsókn á máli gjaldanda, dags. 16. desember 2013, sem var samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar þar sem tekið var fram að framkomin andmæli þættu ekki gefa tilefni til breytinga á skýrslunni.

Í skýrslunni voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á skattskilum og tekjum skattaðila eru:

·1   Staðin hafa verið skil á skattframtölum vegna tekjuáranna 2006 og 2007.

·2   Greiðslur þær sem skattaðili fær frá W á árunum 2006 og 2007 eru launatekjur.

·3   Skattaðili hefur vantalið launatekjur sínar á skattframtölum vegna tekjuáranna 2006 og 2007.

·4   Skattframtöl skattaðila vegna tekjuáranna 2006 og 2007, eru efnislega röng.“

Samkvæmt tölulegum niðurstöðum skýrslunnar, sem gerð var grein fyrir í töflu í niðurstöðukafla skýrslunnar, voru vantaldar tekjur gjaldanda taldar nema 5.485.585 kr. árið 2006 og 7.469.071 kr. árið 2007.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103. gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 18. desember 2013. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af boðunarbréfi ríkisskattstjóra til gjaldanda, dags. 26. mars 2014, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldanda gjaldárin 2007 og 2008 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 15. júlí 2014. Samkvæmt úrskurðinum hækkaði tekjuskatts- og útsvarsstofn gjaldanda um 5.485.585 kr. gjaldárið 2007, eða úr 4.624.800 kr. í 10.110.385 kr., og um 7.469.071 kr. gjaldárið 2008, eða úr 4.571.491 kr. í 12.040.562 kr. Í úrskurðinum kom fram að um væri að ræða vantaldar launatekjur gjaldanda sem hann hefði fengið greiddar frá erlendu félagi, W. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi á vanframtalinn skattstofn gjaldanda samkvæmt heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

Umboðsmaður gjaldanda skaut úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun til yfirskattanefndar með kæru, dags. 19. ágúst 2014. Samkvæmt kærunni var þess aðallega krafist að úrskurður ríkisskattstjóra yrði felldur úr gildi, að frátalinni tekjuviðbót og álagsbeitingu á vantalinn skattstofn vegna vanframtalinna tekna að fjárhæð 5.342.894 kr. tekjuárið 2007, og til vara að úrskurður ríkisskattstjóra yrði felldur úr gildi, að frátalinni tekjuviðbót og álagsbeitingu á vantalinn skattstofn vegna vanframtalinna tekna að fjárhæð 1.000.000 kr. tekjuárið 2006 og 5.342.894 kr. tekjuárið 2007. Til þrautavara var þess krafist að álagsbeiting yrði felld niður umfram það sem leiddi af vanframtöldum tekjum gjaldanda að fjárhæð 1.000.000 kr. tekjuárið 2006 og 5.342.894 kr. tekjuárið 2007. Þá var gerð krafa um að gjaldanda yrði ákvarðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 209/2015, sem kveðinn var upp 8. júlí 2015, var kröfum gjaldanda hafnað.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 16. desember 2013, að gjaldandi hafi staðið skil á skattframtölum vegna tekjuáranna 2006 og 2007. Við skýrslutöku af gjaldanda kom fram að gjaldandi hefði sjálfur útbúið framtölin og byggt þau á hefðbundnum gögnum eins og launamiðum og gögnum frá Íbúðalánasjóði. Aðspurður hvort skattframtölin gæfu rétta mynd af tekjum og skuldum sagði gjaldandi svo vera, en sagði að við nánari skoðun vantaði einhverjar verktakagreiðslur.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er gerð grein fyrir rannsókn á launatekjum gjaldanda. Er rakið að rannsóknin hafi leitt í ljós að gjaldandi hafi þegið greiðslur frá W, kt. [...], án þess að gera grein fyrir þeim í skattframtölum sínum. Við skýrslutöku af gjaldanda var lagður fyrir hann bankareikningur hans ásamt samantekt skattrannsóknarstjóra yfir innborganir á þann bankareikning frá W, en samkvæmt samantektinni fékk gjaldandi greiðslur að fjárhæð 300.000 kr. hinn 3. júlí 2006, 200.000 kr. hinn 27. október 2006, 500.000 kr. hinn 7. desember 2006 og 300.000 kr. hinn 3. apríl 2007 frá félaginu. Sagði gjaldandi að um verktakagreiðslur hefði verið að ræða. Kvaðst gjaldandi aðspurður ekki muna hvort sú vinna hefði farið fram utan venjulegs vinnutíma og þá minntist hann þess ekki að hafa gefið út sölureikninga. Sagðist gjaldandi ekki hafa fært bókhald vegna þessara starfa. Þá voru lagðar fyrir gjaldanda útprentanir af tölvupóstum frá B, fyrirsvarsmanni X hf., til starfsmanna Æ þar sem fram kæmu fyrirmæli um greiðslur inn á bankareikning gjaldanda í Æ, en samkvæmt tölvupóstum þessum hefði gjaldandi fengið greiddar 2.493.285 kr. (USD 33.557) hinn 28. apríl 2006, 1.992.300 kr. (USD 29.000) hinn 15. desember 2006, 2.126.177 kr. (EUR 25.344) hinn 27. júní 2007 og 5.042.894 kr. (EUR 57.492) hinn 29. ágúst 2007 inn á bankareikning sinn hjá Æ. Svaraði gjaldandi því til að hann hefði fengið verktakagreiðslur, en sagðist ekki geta staðfest neinar fjárhæðir í því sambandi. Aðspurður um tölvupóst, dags. 24. ágúst 2007, þar sem fram kæmi að gjaldandi óskaði eftir því að hlutur hans í uppgjöri yrði lagður inn hjá Æ, sagðist gjaldandi ekki muna eftir tölvupóstinum en staðfesti að hann væri sendur í hans nafni. Sagðist gjaldandi hafa fengið gjöf í tengslum við sölu á rekstri X hf. til Z ehf. og hefði greiðsla að fjárhæð 5.042.894 kr., sem getið væri um í tölvupósti frá 29. ágúst 2007, tengst þeirri gjöf. Loks voru lögð fyrir gjaldanda útprentanir á hluta af tveimur skjölum frá X hf. sem báru heitin „[...] 2006.xls“ og „[...] 2007.xls“. Er rakið í skýrslu skattrannsóknarstjóra að í skjölum þessum komi fram færslur debet megin sem séu í samræmi við uppgefin laun gjaldanda árin 2006 og 2007, en þessu til viðbótar séu færslur merktar „Innlegg“ að fjárhæð 300.000 kr. 3. júlí 2006, 200.000 kr. 27. október 2006 og 500.000 kr. 7. desember 2006, sem komi heim og saman við greiðslur inn á bankareikning gjaldanda, og færsla merkt „Gr. til [...]“ að fjárhæð 2.493.285 kr. 28. apríl 2006, sem getið sé um í tölvupósti fyrirsvarsmanns X hf. til starfsmanna Æ. Þá séu kreditmegin á skjölunum mánaðarlegar færslur sem séu hærri en uppgefin laun gjaldanda og fari fjárhæðir hækkandi miðað við tilgreinda vísitölu í skjalinu. Einnig komi fram fjárhæðir launatengdra gjalda hvern mánuð. Aðspurður kannaðist gjaldandi ekki við skjölin og sagðist ekki muna hvernig samið hefði verið um laun hans. Sagði gjaldandi að um væri að ræða verktakagreiðslur fyrir störf hans fyrir þrjú erlend fyrirtæki; W., Þ. og Ö. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er rakið að svo virðist sem mismunur á þeim launum sem gefin séu upp á gjaldanda vegna vinnu hans fyrir X hf. og raunverulegum launum hans sé greiddur af W.

Við skýrslutöku af B, fyrirsvarsmanni X hf., sem fram fór 5. apríl 2013, var B spurður út í skjölin „[...] 2006.xls“ og „[...] 2007.xls“. Sagði B það geta verið að hann hefði búið þetta til, en hann myndi ekki hvað þetta væri og það væri ekkert sérstakt fyrir hann að tjá sig um. Sagði B að í seinni tíð hefðu verið gerðir skriflegir ráðningarsamningar við starfsmenn, en hann myndi ekki eftir því hvar þeir væru geymdir. Aðspurður um greiðslur af bankareikningi W sagði gjaldandi að um væri að ræða greiðslur til verktaka. Við skýrslutökur af C, fyrirsvarsmanni X hf., dagana 4. desember 2012 og 16. apríl 2013, neitaði C að tjá sig um nokkuð er tengdist W.

Var það niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins að þær greiðslur sem gjaldandi hefði fengið frá W á árunum 2006 og 2007 væru vantaldar launatekjur vegna starfa hans hjá X hf. Næmu vantaldar launatekjur gjaldanda samkvæmt þessu samtals 12.954.656 kr. greind ár.

4. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem gerir ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Eins og fram er komið eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum gjaldanda tekjuárin 2006 og 2007, sem liggja til grundvallar sektarkröfu í máli þessu, byggðar á upplýsingum um innborganir á bankareikning gjaldanda frá erlendu félagi, W, og gögnum um greiðslur af reikningi W hjá V, sbr. einnig tölvupósta frá B, fyrirsvarsmanni X hf., til Æ, en gjaldandi gerði ekki grein fyrir neinum tekjum frá umræddu félagi í skattframtölum sínum árin 2007 og 2008. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra sagði gjaldandi að um væri að ræða verktakagreiðslur vegna starfa sinna fyrir þrjú félög, W, Þ og Ö, en viðurkenndi jafnframt að engir reikningar hefðu verið gerðir vegna umræddra greiðslna. Þá sagði gjaldandi að hann hefði fengið gjöf í tengslum við sölu á rekstri X hf. til Z ehf. og að greiðsla að fjárhæð 5.042.894 kr. frá 29. ágúst 2007 tengdist þeirri gjöf.

Samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins fór X hf. með umboð fyrir W hér á landi, upplýsingar um félag þetta voru sendar frá starfsmönnum X hf. og heimilisfang félaganna var það sama. Þá liggur fyrir að fyrirsvarsmenn X hf. voru með prókúru hjá W og höfðu með höndum aðra umsýslu vegna félagsins. Þykja tengsl X hf. og W því ekki svo óveruleg að ekki megi álykta að umræddar greiðslur frá W á tekjuárunum 2006 og 2007 hafi verið launagreiðslur í tengslum við starf gjaldanda fyrir X hf. Tekið skal fram með úrskurði yfirskattanefndar nr. 209/2015, sem kveðinn var upp 8. júlí 2015, var kröfum gjaldanda um niðurfellingu á breytingum ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum gjaldanda samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 15. júlí 2014, hafnað, og framangreindar greiðslur skattlagðar hjá gjaldanda sem laun.  

Eins og málið liggur fyrir samkvæmt framansögðu verður ekki talið að neitt hafi komið fram sem gefur tilefni til annars en að byggja í máli þessu um sektarákvörðun á hendur gjaldanda á niðurstöðu í skýrslu skattrannsóknarstjóra um fjárhæð vantalinna tekna gjaldanda.

Fullsannað þykir samkvæmt því sem að framan er rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins að gjaldandi, A, hafi ekki gert grein fyrir skattskyldum tekjum samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 að fjárhæð 5.485.585 kr. í skattframtali árið 2007 og 7.469.071 kr. í skattframtali árið 2008. Eins og atvikum málsins er háttað samkvæmt framansögðu verður talið að fullnægt sé í tilviki gjaldanda þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 109. gr. laga nr. 90/2003. Hinar röngu upplýsingar í skattframtali gjaldanda leiddu til lægri álagningar opinberra gjalda hans en vera bar gjaldárin 2007 og 2008, þannig að brot gjaldanda varða við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995. Nánar tiltekið nam vanálagður tekjuskattur 1.302.826 kr. gjaldárið 2007 og 1.699.214 kr. gjaldárið 2008. Þá nam vanálagt útsvar 714.772 kr. fyrra árið og 973.220 kr. seinna árið.

Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektarfjárhæðar er til þess að líta að langur tími er liðinn frá því að gjaldandi framdi brot sitt, en dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldanda verði um kennt. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 5.300.000 kr. til ríkissjóðs og 3.000.000 kr. til bæjarsjóðs Garðabæjar.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 5.300.000 kr. til ríkissjóðs og 3.000.000 kr. til bæjarsjóðs Garðabæjar.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum