2017

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 193/2017

13.12.2017

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2017, miðvikudaginn 13. desember, er tekið fyrir mál nr. 121/2017; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. […], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Þórarinn Egill Þórarinsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 7. september 2017, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. […], fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatts, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2013 og 2014.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A sem fyrrum framkvæmdastjóra, stjórnarformanni og prókúruhafa X ehf. (nú afskráð), kt. […] er gefið að sök eftirfarandi:

Skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur. Offramtalinn innskattur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að standa skattyfirvöldum skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi X ehf. (nú afskráð) vegna uppgjörstímabilanna maí – júní til og með nóvember – desember rekstrarárið 2013 og allra uppgjörstímabila rekstrarársins 2014, en A var skráður í ársskilum virðisaukaskatts vegna þeirra sömu ára, þrátt fyrir að umfang starfsemi hans hafi verið slík að honum hafi borið að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti á tveggja mánaða fresti vegna umræddra ára. Vanframtaldi A með þeim hætti virðisaukaskattsskylda veltu um alls 7.907.755 kr. vegna fyrrgreindra uppgjörstímabila ársins 2013 og útskatt um alls 2.016.477 kr. vegna sömu uppgjörstímabila, en A hafði staðið skattyfirvöldum skil á virðisaukaskattsskýrslu vegna alls ársins 2013 þar sem virðisaukaskattsskyld velta var tilgreind 438.247 kr. og útskattur 111.753 kr. Þá vanframtaldi A virðisaukaskattsskylda veltu um alls 11.964.797 kr. vegna fyrrgreindra uppgjörstímabila ársins 2014 og útskatt um alls 3.051.023 kr. vegna sömu uppgjörstímabila, en A hafði staðið skattyfirvöldum skil á virðisaukaskattsskýrslu vegna alls ársins 2014 þar sem virðisaukaskattsskyld velta og útskattur voru tilgreind 0 kr. Þá er A gefið að sök að hafa offramtalið innskatt á fyrrnefndri virðisaukaskattsskýrslu vegna ársins 2013 um 75.846 kr. en engin gögn þeim kostnaði til stuðnings hafa verið lögð fram né liggja fyrir.

Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og útskattur sem og offramtalinn innskattur svo sem hér greinir:

    Vanframtalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur Offramtalinn innskattur
Rekstrarár Uppgjörstímabil
2013 maí – júní 2.135.187 544.473  
2013 júlí – ágúst 2.120.135 540.634  
2013 sept. – okt. 2.654.675 676.942  
2013 nóv. – des. 1.436.005 366.181  
2013 Ársskil -438.247 -111.753 75.846
Samtals kr.   7.907.755 2.016.477 75.846
2014 jan.– feb. 873.475 222.736  
2014 mars – apríl 1.033.820 263.624  
2014 maí – júní 2.403.000 612.765  
2014 júlí – ágúst 1.806.739 460.719  
2014 sept. – okt. 2.476.888 631.606  
2014 nóv. – des. 3.370.875 859.573  
Samtals kr.   11.964.797 3.051.023  
Samtals bæði árin kr.   19.872.552 5.067.500 75.846

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr. sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 7. september 2017, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 12. september 2017, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 7. september 2017, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem hann hafi sem fyrirsvarsmaður X ehf., kt. […], nú afskráð, vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti félagsins þau uppgjörstímabil árin 2013 og 2014 sem greinir í bréfinu. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf hinn 3. mars 2015 rannsókn á bókhaldi og skattskilum X ehf. er beindist að skilum félagsins á innheimtum virðisaukaskatti vegna rekstraráranna 2013 og 2014. Skráður tilgangur X ehf. á þessu tímabili var verktakaþjónusta, málningarvinna, útseld þjónusta, rekstur fasteigna, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur. Samkvæmt gögnum málsins var bú X ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 30. mars 2016 og lauk skiptum 9. ágúst 2016. Var félagið afskráð 19. ágúst 2016. Vegna rannsóknarinnar var tekin skýrsla af gjaldanda, A, hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins dagana 1. september 2015, 21. október 2015, 6. nóvember 2015 og 20. nóvember 2015, en skýrslur voru einnig teknar af B, C, D, E, F og G vegna málsins. Með bréfi, dags. 9. desember 2015, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, sem þá lá fyrir, dags. sama dag, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Að fengnum athugasemdum tilnefnds verjanda gjaldanda með bréfi, dags. 8. janúar 2016, tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 1. júní 2016, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar þar sem fram kom að andmæli umboðsmanns gjaldanda hefðu leitt til breytinga á töflu 5.2 í skýrslunni auk þess sem aukið hefði verið við fjölda fylgiskjala með skýrslunni.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 1. júní 2016, segir að rannsókn á skattskilum X ehf. hafi einkum verið byggð á upplýsingum sem fram hafi komið við fyrrgreindar skýrslutökur, sölureikningum útgefnum í nafni X ehf. sem ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri hafi aflað og sem fyrirsvarsmaður félagsins hafi afhent, gögnum og upplýsingum frá viðskiptaaðilum X ehf. og tengdum aðilum, s.s. tölvupóstum, greiðslugögnum o.fl., bankareikningi X ehf. og upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda.

Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að starfsemi X ehf. hafi verið skráð í flokknum „krár, kaffihús og dansstaðir“ þrátt fyrir að félagið hafi stundað byggingastarfsemi. Þá hafi félagið verið skráð í ársskil virðisaukaskatts þrátt fyrir að hafa haft með höndum það umfangsmikla starfsemi að skila hefði átt virðisaukaskattsskýrslum á tveggja mánaða fresti. Hvað þetta varðar hafi komið fram við skýrslutökur af gjaldanda að um mistök hefði verið að ræða. Þá er rakið að staðin voru skil á tveimur virðisaukaskattsskýrslum á rannsóknartímabilinu, einni vegna rekstrarársins 2013 og annarri vegna rekstrarársins 2014. Í fyrri skýrslunni hafi skattskyld velta verið tilgreind 438.247 kr. (útskattur 111.753 kr.) og 0 kr. í þeirri síðari. Var það niðurstaða skattrannsóknarstjóra ríkisins að X ehf. hefði verið ranglega skráð í ársskil og að staðið hafi verið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum vegna rekstrartímabilsins 28. júní 2013 til og með 31. desember 2014.

Í skýrslunni er rakið að gjaldandi hafi afhent embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins sölureikninga X ehf., en skattrannsóknarstjóri hafi ennfremur aflað sölureikninga frá viðskiptamönnum félagsins. Fyrirliggjandi séu 239 útgefnir, ógildir eða ónotaðir sölureikningar, en nokkrir þeirra hafi verið gefnir út á árinu 2015. Séu sölureikningarnir úr a.m.k. tíu reikningsheftum, en komið hafi fram tíu sölureikningar nr. 10. Sölureikningar sem gefnir hafi verið út í nafni X ehf. séu 157 talsins að fjárhæð samtals 102.314.890 kr. með virðisaukaskatti, en til að númeraraðir séu samfelldar vanti 261 sölureikning. Komið hafi fram að nokkuð margir aðilar hafi með samþykki fyrirsvarsmanns X ehf. gefið út sölureikninga í nafni félagsins vegna vinnu þeirra. Þá hafi greiðslur ýmist verið inntar af hendi inn á bankareikning þeirra sem skrifuðu út sölureikninga í nafni félagsins vegna eigin vinnu eða inn á bankareikning X ehf. og þaðan til þessara aðila. Engar vinnuskýrslur, yfirlit eða tilboð vegna sölureikninganna séu fyrirliggjandi, en lýsing á sölureikningunum sé oft óskýr, t.a.m. sé aldrei tilgreind efnisnotkun eða efniskaup. Hafi rannsóknin leitt í ljós að útgefnir sölureikningar hafi einungis að litlu leyti verið gefnir út vegna vinnu sem fyrirsvarsmaður X ehf. hafi innt sjálfur af hendi. Við skýrslutökur sagði gjaldandi að hann hefði ekki vitað um alla þá sölureikninga sem gefnir hefðu verið út í nafni X ehf. Sagði gjaldandi þá sölureikninga sem vantaði líklega ekki hafa verið notaða. Taldi skattrannsóknarstjóri ríkisins ekki forsendur til að leggja mat á áætlaðan undandrátt vegna vöntunar sölureikninga.

Að því er varðar útgefna sölureikninga X ehf. er rakið í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að rannsóknin hafi leitt í ljós að gjaldandi hafi gefið út sölureikninga vegna vinnu sinnar á hendur H, Y ehf., Z ehf., Æ ehf. og W ehf. í nafni X ehf. Við skýrslutökur af gjaldanda hafi umræddir sölureikningar verið lagðir fyrir hann og kannaðist gjaldandi við að hafa gefið þá út og fengið þá greidda. Sagði gjaldandi útgefna sölureikninga á hendur Z ehf., Æ ehf., W ehf. og Y ehf. vera vegna vinnu hans fyrir þessi félög. Þá sagði gjaldandi að hluta fjárhæðar sölureikninga sem gefnir voru út á hendur H hafi verið skuldajafnað á móti skuld hans við H. Í þessu sambandi sagðist gjaldandi hafa gefið út sölureikninga eftir að hann tók við félaginu og að hann hefði dagsett þá aftur í tímann. Við skýrslutökur af gjaldanda kom ennfremur fram að B, E, C, D, F og K hefðu gefið út sölureikninga í nafni X ehf. með heimild frá gjaldanda, en gjaldandi hefði litið á þessa einstaklinga sem undirverktaka hjá félaginu. Þá kom fram staðfesting af hálfu gjaldanda á því að virðisaukaskattsskýrslur X ehf. rekstrarárin 2013 og 2014 hefðu verið efnislega rangar. Sagði gjaldandi hausinn á sér ekki hafa verið í lagi á þessum tíma og svo hefðu hlutirnir bara rúllað áfram með þessum hætti.

Var það niðurstaða skattrannsóknarstjóra ríkisins að miða við að þeir sölureikningar sem gjaldandi bæri við að hefðu verið dagsettir aftur í tímann hafi verið gefnir út á uppgjörstímabilinu maí-júní 2013. Launamiðar sem J gaf út á gjaldanda vegna vinnu námu 4.206.491 kr. árið 2013 og 6.573.598 kr. árið 2014 eða samtals 10.780.017 kr. Þar sem einungis væru fyrirliggjandi sölureikningar að fjárhæð 6.348.120 kr. vegna vinnu gjaldanda fyrir J taldi skattrannsóknarstjóri rétt að miða við þá fjárhæð í niðurstöðum skýrslunnar. Er tekið fram í skýrslunni að samkvæmt upplýsingum frá fyrirsvarsmanni Z ehf. hafi útgefnir sölureikningar X ehf. á hendur félaginu einungis verið greiddir að hluta en eftir hafi staðið skuld að fjárhæð rúmlega 3.000.000 kr.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er gerð grein fyrir skýrslum sem teknar voru af B, E, C, D og F á árunum 2015 og 2016. Við skýrslutökurnar voru viðkomandi aðilar spurðir út í sölureikninga, sem gefnir voru út í nafni X ehf., að því er virtist vegna vinnu þeirra fyrir hin ýmsu félög. Í niðurlagi kaflans um rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskyldri veltu og útskatti X ehf. er rakin sú niðurstaða skattrannsóknarstjóra ríkisins að gefnir hafi verið út sölureikningar í nafni félagsins vegna vinnu framangreindra aðila sem þeir hafi fengið greidda. Sé það mat skattrannsóknarstjóra ríkisins að þeir sölureikningar tengist ekki virðisaukaskattsskyldri starfsemi X ehf.

Í kafla um rannsókn á innskatti X ehf. kemur fram að á virðisaukaskattsskýrslu vegna rekstrarársins 2013 hafi innskattur verið tilgreindur 75.846 kr. og á skýrslu vegna rekstrarársins 2014 hafi innskattur verið tilgreindur 0 kr., en engin gögn um innskattsbær rekstrargjöld hafi verið afhent. Við skýrslutökur af gjaldanda hafi gjaldandi ekki sagst geta afhent nein gögn vegna kostnaðar, en það sem hann hefði keypt eða leigt hefði hann staðgreitt. Var það niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins að innskattur hefði verið oftalinn.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags 1. júní 2016, eru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og virðisaukaskattsskilum skattaðila vegna rekstrartímabilsins 28. júní 2013 til og með 31. desember 2014 eru:

 • Staðin hafa verið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum.

 • Bókhald hefur ekki verið fært.

 • Varðveislu bókhaldsgagna er ábótavant.

 • Samfelld númeraröð sölureikninga liggur ekki fyrir.

 • Nokkrir aðilar gáfu út sölureikninga í nafni skattaðila vegna vinnu þeirra með samþykki fyrirsvarsmanns skattaðila.

 • Skattskyld velta og útskattur eru vantalin.

 • Gögn um innskattsbær rekstrargjöld hafa ekki verið afhent.

 • Innskattur er oftalinn.“

   

  Þá er gerð töluleg grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Þar kemur fram að skattskyld velta gjaldanda sé vantalin um 7.907.755 kr. rekstrarárið 2013 og um 11.964.797 kr. rekstrarárið 2014. Þá sé útskattur vantalinn um samtals 5.067.500 kr. greind ár og innskattur oftalinn um samtals 75.846 kr.

  Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 9. júní 2016. Með bréfi, dags. 24. október 2016, tilkynnti ríkisskattstjóri að þegar litið væri til þess að gjaldþrotaskiptum á X ehf. væri lokið og að félagið hefði verið afskráð hinn 19. ágúst 2016, hefði ríkisskattstjóri ekki í hyggju að nýta sér heimild til endurákvörðunar samkvæmt fyrrgreindu ákvæði 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

  Gjaldandi hefur sem fyrr segir ekki gert athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og við skýrslutökur, sem fram fóru hjá skattrannsóknarstjóra vegna rannsóknar málsins, kom fram viðurkenning gjaldanda á því að virðisaukaskatts­skýrslur X ehf. fyrir rekstrarárin 2013 og 2014 hefðu verið efnislega rangar. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

  Eins og fram er komið eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins, að því er varðar skattskylda veltu X ehf. rekstrartímabilið 28. júní 2013 til og með 31. desember 2014, byggðar á útgefnum sölureikningum félagsins. Námu útgefnir sölureikningar X ehf. samtals 102.314.890 kr. á tímabilinu, en þar var að stórum hluta um að ræða sölureikninga sem tilteknir einstaklingar, þ.e. B, C, D, E, F og K, voru taldir hafa gefið út í nafni X ehf. vegna vinnu þeirra fyrir ýmsa aðila. Var það niðurstaða skattrannsóknarstjóra ríkisins að þær fjárhæðir sem tilgreindar væru á þeim sölureikningum sem þessir aðilar hefðu gefið út tengdust ekki virðisaukaskattsskyldri starfsemi X ehf. og teldust því ekki til skattskyldrar veltu og útskatts félagsins. Lýtur krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda að sölureikningum sem gjaldandi gaf út í nafni X ehf. á hendur J að fjárhæð 6.348.120 kr., Y ehf. að fjárhæð 11.467.438 kr., Z ehf. að fjárhæð 5.206.258 kr., Æ ehf. að fjárhæð 1.010.000 kr. og W ehf. að fjárhæð 1.458.236 kr., eða samtals 25.490.053 kr., vegna vinnu fyrir greinda aðila. Í virðisaukaskattsskýrslu X ehf. fyrir rekstrarárið 2013 var gerð grein fyrir skattskyldri veltu að fjárhæð 438.247 kr. og útskatti 111.753 kr. Á þessum grundvelli er í skýrslu skattrannsóknarstjóra gerð grein fyrir meintri vantalinni skattskyldri veltu félagsins að fjárhæð 7.907.755 kr. rekstrarárið 2013 og 11.964.797 kr. rekstrarárið 2014, eða samtals 19.872.552 kr. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins staðfesti gjaldandi að hafa gefið út sölureikninga X ehf. á hendur ofangreindum aðilum vegna vinnu gjaldanda á vegum félagsins og að hann hefði fengið þá greidda. Tekið skal fram að í skýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram að upplýsinga og gagna hafi verið aflað frá fyrirsvarsmanni Z ehf. um útgefna sölureikninga X ehf. á hendur félaginu og í svari hans við fyrirspurn skattrannsóknarstjóra hafi komið fram að sölureikningar X ehf. á hendur Z ehf. hafi aðeins verið greiddir að hluta, en eftir standi skuld upp á rúmlega þrjár milljónir króna. Í meginmáli skýrslunnar er ekkert frekar vikið að þessu, en í umfjöllun skattrannsóknarstjóra um andmæli tilnefnds verjanda gjaldanda er bent á að viðskipti þessi hafi átt sér stað og ekki hafi verið sýnt fram á að um tapaða kröfu sé að ræða í skilningi reglna þar um. Í ljósi þess sem fyrir liggur um afdrif X ehf. þykir naumast fá staðist að horfa til þeirra reglna í þessu sambandi. Sem fyrr segir námu útgefnir sölureikningar X ehf. á hendur Z ehf. samtals 5.206.258 kr. Í tölvubréfi skattrannsóknarstjóra til fyrirsvarsmanns Z ehf. (sjá fylgiskjöl 27.1-27.2 með rannsóknarskýrslu) kemur fram að rannsókn hafi leitt í ljós að greiðslur Z ehf. og fyrirsvarsmanns þess félags til gjaldanda vegna umræddra sölureikninga hafi numið samtals 1.639.500 kr. Þykir samkvæmt framansögðu varhugavert að miða í máli þessu við hærri vanframtalda skattskylda veltu en 1.306.375 kr. (útskattur 333.125 kr.) vegna útgefinna sölureikninga X ehf. á hendur Z ehf.

  Samkvæmt þessu og að virtum gögnum málsins verður miðað við skattskylda veltu að fjárhæð samtals 17.030.514 kr. og útskatt að fjárhæð 4.342.781 kr. í máli þessu. Þykja gögn málsins ekki gefa tilefni til annars en að byggja á því að virðisaukaskattur, sem gjaldanda bar að standa skil á vegna X ehf., hafi numið þeirri fjárhæð sem greinir í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að teknu tilliti til framangreindrar lækkunarfjárhæðar. Af hálfu gjaldanda hefur ekkert komið fram um tilefni til frádráttar innskatts. Verður því byggt á niðurstöðum rannsóknarskýrslu um þann þátt málsins, en sem fyrr segir nam offramtalinn innskattur 75.846 kr.

  Með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins telst hafa verið leitt í ljós að innsendar virðisaukaskattsskýrslur X ehf. vegna rekstrartímabilsins 28. júní 2013 til og með 31. desember 2014 hafi verið rangar og að ekki voru gerð skil á virðisaukaskatti X ehf. í samræmi við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988. Gjaldandi bar sem daglegur stjórnandi og fyrirsvarsmaður X ehf. ábyrgð á því að rétt skil væru gerð á virðisaukaskattsskýrslum félagsins og virðisaukaskatti. Með stoð í gögnum málsins, m.a. framburði gjaldanda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, þykir því fullsannað að gjaldandi hafi með saknæmum hætti vanrækt greinda skyldu sína. Af þessum sökum ber að ákvarða gjaldanda sekt samkvæmt 6. mgr., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

  Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Að þessu gættu, málsatvikum að öðru leyti og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 8.500.000 kr. til ríkissjóðs.

  Úrskurðarorð:

  Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 8.500.000 kr. til ríkissjóðs.

   

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum