2018

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 139/2018 í máli nr. 70/2018, kveðinn upp 3. október 2018

3.10.2018

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2018, miðvikudaginn 3. október, er tekið fyrir mál nr. 70/2018; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. […], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 26. apríl 2018, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. […], fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstrartímabilsins 1. janúar 2014 til og með 30. apríl 2015.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A, sem fyrrum stjórnarmanni, prókúruhafa og daglegum stjórnanda X ehf. (nú afskráð), kt. […], er gefið að sök eftirfarandi:

Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi skattaðila vegna uppgjörstímabilanna janúar - febrúar, maí - júní og júlí - ágúst rekstrarárið 2014. Þá vanrækti A að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna september - október og nóvember - desember rekstrarárið 2014 og janúar - febrúar og mars - apríl rekstrarárið 2015. Með framangreindri háttsemi vanframtaldi A skattskylda veltu og útskatt skattaðila. Samkvæmt niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 20.701.929 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 5.160.028.

Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum svo sem hér greinir:

  Vanframtalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur
Rekstrarár Uppgjörstímabil
2014 jan. – feb. 2.879.243 734.207
2014 maí – júní 4.113.904 1.049.045
2014 júlí – ágúst 456.000 116.280
2014 sept. – okt. 1.476.255 376.445
2014 nóv. – des. 3.845.608 980.630
Samtals kr.   12.771.010 3.256.607
2015 jan. – feb. 4.962.274 1.190.946
2015 mars – apríl 2.968.645 712.475
Samtals kr.   7.930.919 1.903.421
Samtals bæði árin 20.701.929 5.160.028

 

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr. sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 26. apríl 2018, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 2. maí 2018, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Með bréfi, dags. 15. ágúst 2018, hefur gjaldandi lagt fram vörn í málinu. Krefst gjaldandi þess að honum verði gerð lægsta mögulega sekt lögum samkvæmt. Er tekið fram í vörninni að gjaldandi gangist við þeim brotum sem honum eru gefin að sök í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins en taka beri tillit til þess að gjaldandi hafi leitast við að upplýsa um málsatvik og hafi hann skýrt hreinskilningslega frá öllum málsatvikum. Þá hafi hann ekki notið ávinnings af brotunum og sé gjaldandi í dag eignalaus maður. Ennfremur hafi gjaldandi ekki áður gerst sekur um refsiverð brot á skattalögum. Í vörninni er rakið að ekki hafi allir sölureikningar X ehf. fengist greiddir og hafi gjaldandi ekki verið í þeirri aðstöðu, eftir töku bús félagsins til gjaldþrotaskipta, að hlutast til um innheimtu eða bakfærslu ógreiddra reikninga. Væri rétt að taka tillit til þeirrar fjárhæðar sem ekki hafi sannanlega innheimst af hálfu félagsins. Loks er tekið fram að draga beri álag frá sektarfjárhæð.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 26. apríl 2018, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem hann hafi sem fyrirsvarsmaður X ehf., kt. […], nú afskráð, vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti félagsins þau uppgjörstímabil árin 2014 og 2015 sem greinir í bréfinu. Gjaldandi hefur lagt fram athugasemdir sínar í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og skattskilum X ehf. vegna rekstrartímabilsins 1. janúar 2014 til og með 30. apríl 2015, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 15. desember 2017. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 27. mars 2017 og beindist aðallega að skilum félagsins á innheimtum virðisaukaskatti vegna rekstraráranna 2014 og 2015. Skráður tilgangur X ehf. á þessu tímabili var alhliða fjárfestingar og fjármálastarfsemi, en einnig hvers konar önnur starfsemi sem stuðli að því að megintilgangi félagsins verði náð. Samkvæmt gögnum málsins var bú X ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 24. júní 2015 og lauk skiptum 25. nóvember 2016. Var félagið afskráð 20. desember 2016. Vegna rannsóknarinnar var tekin skýrsla af gjaldanda, A, hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 6. nóvember 2017, en skýrsla var einnig tekin af B vegna málsins. Með bréfi, dags. 28. nóvember 2017, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, sem þá lá fyrir, dags. sama dag, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Engar athugasemdir voru gerðar af hálfu gjaldanda. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsókn á máli X ehf., dags. 15. desember 2017, sem var samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 15. desember 2017, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og virðisaukaskattsskilum skattaðila vegna rekstrartímabilsins 1. janúar 2014 til og með 30. apríl 2015 eru:

·    Staðin hafa veið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum vegna janúar-febrúar, maí-júní og júlí-ágúst 2014.

·    Virðisaukaskattsskýrslum vegna september-október og nóvember-desember 2014 og janúar-febrúar og mars-apríl 2015 hefur ekki verið skilað.

·    Bókhald hefur verið fært.

·    Númeraröð sölureikninga er samfelld.

·    Skattskyld velta og útskattur eru vanframtalin vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar, maí-júní, júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2014 og janúar-febrúar og mars-apríl 2015. 

·    Ekki er tilgreindur innskattur á virðisaukaskattskýrslum skattaðila.

·    Ekki eru fyrirliggjandi gögn vegna mögulegs innskatts.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta X ehf. væri vantalin um 12.771.010 kr. rekstrarárið 2014 (útskattur 3.256.607 kr.) og um 7.930.919 kr. (útskattur 1.903.421 kr.)  rekstrartímabilið janúar til og með apríl 2015.

3. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 15. desember 2017, kemur fram að gjaldandi var stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi X ehf. þann tíma sem málið varðar. Að því er varðar skattskilagögn kemur fram að virðisaukaskattsskýrslum X ehf. vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar til og með júlí-ágúst 2014 hafi verið skilað en ekki hafi verið staðin skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna september-október 2014 til og með mars-apríl 2015. Er í þessu sambandi rakinn sá framburður gjaldanda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins að hann hafi beðið bókara félagsins að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins. Við skýrslutöku af B, bókara félagsins, lagði B fram yfirlýsingu þar sem fram kom að hún hefði ekki treyst sér til að útbúa virðisaukaskattsskýrslur félagsins, fyrir utan eina, þar sem umbeðin gögn hefðu ekki borist frá gjaldanda. Vegna sambandsleysis hefði ekki tekist að afla samþykkis gjaldanda fyrir virðisaukaskattsskilum og hefði hún ekki haft heimild samkvæmt lögum eða frá gjaldanda til að standa skil á skýrslunum. Í skýrslunni er rakið að fyrir liggi að gefnir hafi verið út 155 sölureikningar í nafni X ehf. á rannsóknartímabilinu og sé númeraröð sölureikninga samfelld.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er gerð grein fyrir rannsókn á skattskyldri veltu og útskatti X ehf. Við skýrslutöku 6. nóvember 2017 voru útgefnir sölureikningar X ehf. rekstrartímabilið janúar 2014 til og með maí 2015 lagðir fyrir gjaldanda og staðfesti gjaldandi að þeir væru vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi X ehf. Sagði gjaldandi að heildarfjárhæð sölureikninganna væri of há og að einhverjir þeirra hefðu verið endursendir og ætti eftir að bakfæra. Í skýrslunni er rakið að samkvæmt samantekt skattrannsóknarstjóra ríkisins og samanburði á útgefnum sölureikningum og innborgunum inn á bankareikning X ehf. vanti 126.985 kr. upp á að sölureikningar sem gefnir hafi verið út á Vöku hf. séu greiddir að fullu en aðrir sölureikningar séu greiddir að fullu. Er þetta var borið undir gjaldanda við skýrslutökuna sagði gjaldandi að hann teldi að félagið ætti inni peninga hjá ríkissjóði vegna útgefinna sölureikninga en það væru sölureikningar sem gefnir væru út á síðari hluta ársins 2015. Í skýrslunni kemur fram að ekki hafi verið gefnir út sölureikningar í nafni félagsins eftir 20. maí 2015. Er rakið að samkvæmt rannsókninni hafi skattskyld velta X ehf. verið vanframtalin um 12.771.010 kr. (útskattur 3.256.607 kr.) rekstrarárið 2014 og um 7.930.919 kr. (útskattur 1.903.421 kr.) rekstartímabilið janúar til og með apríl 2015.

Í kafla um rannsókn á innskatti X ehf. er greint frá því að ekki hafi verið tilgreindur innskattur á þeim virðisaukaskattsskýrslum félagsins sem staðin hafi verið skil á. Þá séu ekki fyrirliggjandi gögn vegna mögulegs innskatts. Við skýrslutöku kvaðst gjaldandi geta lagt fram gögn um kostnað X ehf., en hann hefði þó ekki verið duglegur að safna gjaldagögnum. Er tekið fram í skýrslunni að engin gögn hafi borist skattrannsóknarstjóra ríkisins vegna mögulegs innskatts félagsins.

4. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á því að gjaldandi hafi sem fyrirsvarsmaður X ehf. staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum X ehf. uppgjörstímabilin janúar-febrúar, maí-júní og júlí-ágúst 2014 og vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins uppgjörstímabilin september-október 2014 til og með mars-apríl 2015. Vegna þessarar vanrækslu hafi skattskyld velta vegna þessara tímabila verið vantalin um samtals 20.701.929 kr. og útskattur um 5.160.028 kr. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Eins og fram er komið eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að því er varðar skattskylda veltu X ehf. uppgjörstímabilin janúar-febrúar, maí-júní, júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2014 og janúar-febrúar og mars-apríl 2015 byggðar á sölureikningum félagsins að fjárhæð 26.714.297 kr., þar af skattskyld velta 21.251.929 kr. (útskattur 5.300.278 kr.) og undanþegin velta 162.090 kr., sem gefnir voru út á tímabilinu 26. janúar 2014 til og með 28. apríl 2015. Á þessum grundvelli er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins gerð grein fyrir meintri vantalinni skattskyldri veltu að fjárhæð 20.701.929 kr. greind uppgjörstímabil. Í vörn gjaldanda til yfirskattanefndar gengst gjaldandi við þeim brotum sem honum eru gefin að sök í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins. Í vörninni er því hins vegar borið við að ekki hafi allir sölureikningar X ehf. fengist greiddir og að gjaldandi hafi ekki getað hlutast til um innheimtu eða bakfærslu sölureikninganna vegna töku bús félagsins til gjaldþrotaskipta. Vísar umboðsmaður gjaldanda til kafla 5.1 í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins og fylgiskjala 10.1-10.6 með skýrslunni í þessu sambandi. Hvað þetta varðar skal þess getið að í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er tekið fram að yfirlit um fjárhæðir innborgana og útgefinna sölureikninga (fskj. 10.6 með skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins) miðist við tímabilið 1. janúar 2014 til og með 30. júní 2015, en þegar tekið hafi verið tillit til breytingar á afmörkun rannsóknarinnar, þ.e. að rannsóknin miðist við tímabilið 1. janúar 2014 til og með 30. apríl 2015, sbr. og kröfugerð skattrannsóknarstjóra í máli þessu, séu sölureikningar vegna umræddra uppgjörstímabila sem málið varðar að fullu greiddir. Ekki hafa komið fram aðrar athugasemdir varðandi fjárhæð vanframtalinnar skattskyldrar veltu X ehf. Samkvæmt þessu verður miðað við greinda fjárhæð skattskyldrar veltu.

Með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins telst hafa verið leitt í ljós að innsendar virðisaukaskattsskýrslur X ehf. vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar, maí-júní og júlí-ágúst 2014 hafi verið rangar. Þá voru ekki gerð skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti X ehf. uppgjörstímabilin september-október 2014 til og með mars-apríl 2015 þrátt fyrir skattskylda veltu í rekstri félagsins samkvæmt því sem rakið er að framan.

Gjaldandi, A, var stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi X ehf. á þeim tíma sem málið varðar. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins kom fram af hálfu gjaldanda að hann hefði stjórnað daglegum rekstri félagsins. Bar gjaldandi ábyrgð á daglegum rekstri félagsins, þar á meðal fjárreiðum, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og að skil væru gerð á virðisaukaskattsskýrslum félagsins og virðisaukaskatti í samræmi við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins þykir bera að fallast á ályktun skattrannsóknarstjóra ríkisins um að gjaldandi hafi með saknæmum hætti vanrækt þessar skyldur sínar umrædd uppgjörstímabil árin 2014 og 2015, en virðisaukaskattur sem ekki var greiddur á lögmæltum tíma nam 5.160.028 kr. Af þessum sökum ber að ákvarða gjaldanda sekt samkvæmt 6. mgr., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Eins og lög nr. 50/1988 hljóða eftir breytingar, sem á þeim voru gerðar með lögum nr. 42/1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin eða vanrækt var greiðsla á, þó að teknu tilliti til álags. Samkvæmt þessu, málsatvikum að öðru leyti og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 9.900.000 kr. til ríkissjóðs.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 9.900.000 kr. til ríkissjóðs.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum