2018

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 143/2018

3.10.2018

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2018, miðvikudaginn 3. október, er tekið fyrir mál nr. 113/2018; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. […], B, kt. […], og X ehf., kt. […], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 12. júlí 2018, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. […], B, kt. […], og X ehf., kt. […], fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2015 og 2016. 

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A, sem stjórnarmanni með prókúru, daglegum stjórnanda, og eiganda X ehf. og B, sem daglegum stjórnanda X ehf., kt. […], er gefið að sök eftirfarandi:

Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur. Mögulegur innskattur.

A og B er gefið að sök, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, að hafa vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum til skattyfirvalda vegna uppgjörstímabilanna janúar – febrúar til og með nóvember – desember rekstrarárið 2015 og janúar - febrúar til og með nóvember – desember rekstrarárið 2016, og vanframtelja með því skattskylda veltu og virðisaukaskatt vegna rekstrar X ehf. Samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin skattskyld velta samtals 26.004.639 kr. og vanframtalinn útskattur samtals 6.241.112 kr. Mögulegur innskattur nemur samtals 2.036.994 kr.

Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur svo sem hér greinir:

  Vanframtalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur Mögulegur innskattur
Rekstrarár Uppgjörstímabil
2015 jan. – feb. 0 0 0
2015 mars – apríl 403.226 96.774 89.739
2015 maí – júní 2.869.542 688.690 220.973
2015 júlí – ágúst 2.067.626 496.230 251.590
2015 sept. – okt. 3.137.884 753.092 133.907
2015 nóv. – des. 1.186.227 284.695 116.643
Samtals kr.   9.664.505 2.319.481 812.852
2015 jan. – feb. 0 0 0
2016 mars – apríl 1.003.647 240.875 105.839
2016 maí – júní 3.822.942 917.506 260.708
2016 júlí – ágúst 2.930.440 703.305 156.856
2016 sept. – okt. 3.535.029 848.407 248.129
2016 nóv. – des. 5.048.076 1.211.538 301.765
Samtals kr.   16.340.134 3.921.631 1.073.297
Samtals bæði árin 26.004.639 6.241.112 1.886.149

Sú háttsemi A og B sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr. sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A og B sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. Þá varða brot þessi X ehf. sekt samkvæmt 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Þess er krafist að X ehf., A og B verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 12. júlí 2018, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfum yfirskattanefndar, dags. 13. júlí 2018, var gjaldendum veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef þau vildu ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál þeirra og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Með bréfi, dags. 27. ágúst 2018, hefur gjaldandi, B, lagt fram vörn í málinu. Í vörninni er gerð aðalkrafa um að B verði ekki gerð sekt í málinu en til vara er þess krafist að gjaldendum, B og A, verði gerð refsing í einu lagi og gert að greiða hana in solidum með X ehf. Til stuðnings aðalkröfu er byggt á því að gjaldandi, B, hafi ekki haft með höndum daglega stjórn X ehf. Hafi eiginmaður B, A, stýrt félaginu og hafi B aðeins verið að aðstoða hann sem eiginkona hans. Þó svo að A hafi falið B ýmis verk, svo sem að greiða reikninga, hafi B ekki tekið neinar sjálfstæðar ákvarðanir um reksturinn, enda hafi hún ekki talið sig hafa heimild til þess. Vísar umboðsmaður gjaldanda til úrskurða yfirskattanefndar nr. 296/2010 og 267/2009 máli sínu til stuðnings. Hvað snertir varakröfu gjaldanda er tiltekið að gjaldendur, A og B, séu hjón og með sameiginlegan fjárhag. Verði gjaldendum gerð sekt sé ljóst að sektin verði vegna þess sem þau verði talin bera sameiginlega ábyrgð á. Liggi því beinast við að gera þeim sameiginlega sekt en annað feli í raun í sér tvöfalda refsingu. Tekur umboðsmaður gjaldanda fram, að því er varðar fjárhæð sektar, að samkvæmt 37. gr. reglugerðar nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna, beri að taka tillit til huglægrar afstöðu hins brotlega, en einnig skuli saknæmi rannsakað sérstaklega, sbr. 17. gr. sömu reglugerðar. Enginn ásetningur hafi verið til staðar til að svíkja undan skatti og hafi ávallt staðið til að hafa hlutina í lagi. Þá beri að taka tillit til þess að X ehf. hafi innt af hendi greiðslur til sýslumannsins á Vestfjörðum vegna virðisaukaskatts án þess að skýrslu hafi verið skilað.

Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldendum, A og X ehf.

III.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 12. júlí 2018, er gerð sú krafa að gjaldendum, A og B, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með því að þau hafi sem fyrirsvarsmenn X ehf., kt. […], vanrækt skil á virðisaukaskatti félagsins þau uppgjörstímabil árin 2015 og 2016 sem þar greinir. Þá er þess krafist að X ehf. verði gerð sekt af sömu ástæðum. Gjaldandi, B, hefur lagt fram athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Gjaldandi, A, hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi, A, hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á skattskilum X ehf. rekstrarárin 2015 og 2016, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 29. desember 2017. Rannsókn þessi hófst formlega 27. mars 2017 og beindist að virðisaukaskattsskilum X ehf. Skráður tilgangur félagsins á þessu tímabili var bygginga- og verktakastarfsemi, rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Vegna rannsóknar málsins voru teknar skýrslur af gjaldendum hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. skýrslutökur af gjaldendum, A og B, hinn 3. nóvember 2017. Var rannsóknin einkum byggð á upplýsingum sem komu fram við skýrslutökur þessar, bókhaldi X ehf., upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda, upplýsingum og gögnum frá viðskiptamönnum X ehf., upplýsingum frá Íslandsbanka hf. og upplýsingum og gögnum frá ríkisskattstjóra. Með bréfum, dags. 28. nóvember 2017, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldendum skýrslu um rannsóknina, sem dagsett var sama dag, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Með bréfi tilnefndra verjenda gjaldenda, dags. 19. desember 2017, lögðu gjaldendur fram sameiginleg andmæli við skýrslu skattrannsóknarstjóra. Að svo búnu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 29. desember 2017, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar þar sem tekið var fram að umfjöllun í köflum 3 til og með 7 í skýrslunni hefði verið breytt lítillega með tilliti til andmæla gjaldenda og með tilliti til þess að virðisaukaskattsskýrslum hefði verið skilað eftir upphaf rannsóknar.

Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 29. desember 2017, að virðisaukaskattsskýrslum X ehf. fyrir rekstrarárin 2015 og 2016 hafi verið skilað eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hófst, eða þann 22. september 2017. Þá hafi virðisaukaskattsnúmer X ehf. verið lokað allt rannsóknartímabilið, en því hafi verið lokað 30. júní 2014.

Í skýrslunni er rakið að fyrirliggjandi séu 63 sölureikningar útgefnir af X ehf. á rannsóknartímabilinu en 103 sölureikninga vanti til að númeraröð sé samfelld. Við skýrslutöku af gjaldanda, A, kom fram að hann teldi að sölureikningar í númeraröð milli sölureikninga nr. 214 og 300 hefðu ekki verið gefnir út. Sagði gjaldandi að hann teldi að aðrir sölureikningar sem vantaði hefðu innihaldið villur og verið endurgerðir. Hið sama kom fram við skýrslutöku af gjaldanda, B. Taldi skattrannsóknarstjóri ríkisins ekki ástæðu til að leggja mat á ætlaðan undandrátt vegna vöntunar sölureikninga. Við skýrslutökuna var gjaldandi, A, beðinn um að útskýra hvers vegna sölureikningar hefðu verið gefnir út rekstrarárin 2015 og 2016 þrátt fyrir að virðisaukaskattsnúmeri X ehf. hefði verið lokað um mitt ár 2014. Sagði gjaldandi að hann hefði ekki vitað um lokun virðisaukaskattsnúmersins við útgáfu sölureikninganna, eða fyrr en a.m.k. einu og hálfu ári síðar. Hefði gjaldandi fengið símtal frá fjármálastjóra Ísafjarðarbæjar sem hefði tjáð honum að hann mætti ekki lengur gefa út sölureikninga með virðisaukaskatti þar sem hún fengi virðisaukaskattinn ekki endurgreiddan. Við skýrslutöku af gjaldanda, B, sagðist gjaldandi aðspurð hafa vitað það á einhverjum tímapunkti að búið væri að loka virðisaukaskattsnúmeri X ehf. en taldi sig ekki hafa vitað það á réttum tíma þar sem póstur hefði stundum verið opnaður seint. Í skýrslunni kemur fram að gefnir hafi verið út fjórir sölureikningar án virðisaukaskatts vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi X ehf. Við skýrslutöku sagði gjaldandi, B, að þetta hefði verið gert þar sem Ísafjarðarbær hefði hringt í hana og tilkynnt henni að búið væri að loka virðisaukaskattsnúmeri X ehf. og að sölureikninga ætti að gefa út án virðisaukaskatts. Var tekið fram í skýrslunni að hreyfingalisti yfir viðskipti Ísafjarðarbæjar við X ehf. bæri með sér að umræddir sölureikningar félagsins hefðu verið samþykktir án virðisaukaskatts.

Í kafla um rannsókn á skattskyldri veltu og útskatti X ehf. kemur fram að sölureikningar að fjárhæð samtals 14.540.809 kr. rekstrarárið 2015 og 21.967.080 kr. rekstrarárið 2016 hafi verið bornir undir gjaldendur við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Kvaðst gjaldandi, A, kannast við verkin að baki sölureikningunum og sagðist hafa handskrifað reikninga inn í bók á grundvelli vinnuskýrslna og efniskaupa. Hafi gjaldandi, B, svo skrifað út sölureikninga sem byggt hafi á upplýsingum úr bókinni. Hið sama kom fram við skýrslutöku af gjaldanda, B. Við skýrslutökuna kvaðst gjaldandi, A, telja að sölureikningarnir væru greiddir að fullu. Sagðist gjaldandi, B, ekki muna eftir ógreiddum sölureikningum en sagðist geta trúað því að einhverjir minni aðilar ættu eftir að greiða. Í skýrslunni er tekið fram að rannsóknin hafi leitt í ljós að sölureikningar hafi verið greiddir að fullu með tveimur undantekningum, þ.e. sölureikningur nr. 319 að fjárhæð 33.580 kr. hafi ekki verið greiddur og 39.535 kr. vanti til að sölureikningur nr. 309 að fjárhæð 349.085 kr. væri greiddur að fullu. Meðfylgjandi andmælabréfi gjaldenda við frumskýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins voru gögn sem staðfestu að sölureikningur nr. 319 hefði verið greiddur.

            Í kafla um rannsókn á innskatti X ehf. er greint frá því að samkvæmt bókhaldsgögnum hafi mögulegur innskattur numið 894.211 kr. árið 2015 og 1.142.783 kr. árið 2016.

            Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 3. nóvember 2017 kom fram af hálfu gjaldanda, A, að hann hefði verið stofnandi og starfsmaður X ehf. og staðfesti gjaldandi að hafa verið skráður stjórnarmaður og prókúruhafi félagsins. Sagðist gjaldandi aðspurður ekkert hafa komið nálægt bókhaldi félagsins. Hefði eiginkona hans séð um daglegan rekstur félagsins en sjálfur hefði hann séð um verklega hlutann er laut að trésmíðavinnu. Þá hefði hann einnig verið í því að semja um verk félagsins. Sagðist gjaldandi hafa verið eini starfsmaður félagsins á rannsóknar-tímabilinu en eiginkona hans hefði séð um bókhaldið. Aðspurður um hver hefði átt að sjá um skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins sagði gjaldandi að eiginkona sín hefði átt að sjá um það, hún hefði séð um að senda út reikninga og svoleiðis. Við skýrslutökuna voru útgefnir sölureikningar X ehf. árin 2015 og 2016 að fjárhæð 14.540.809 kr. fyrra árið og 21.967.080 kr. seinna árið lagðir fyrir gjaldanda og kannaðist gjaldandi við sölureikningana og sagðist halda að þeir hefðu allir fengist greiddir að fullu. Þegar gjaldandi var spurður að því hvers vegna ekki voru staðin skil á virðisaukaskattsskýrslum X ehf. árin 2015 og 2016, sem leitt hafi til þess að vanrækt hafi verið að gera grein fyrir skattskyldri veltu að fjárhæð samtals 21.587.522 kr. (útskattur 5.181.005 kr.) í rekstri félagsins, sagði gjaldandi að hann hefði staðið í þeirri meiningu að „hún væri að skila inn þessum skýrslum“, en eiginkona hans hefði átt að sjá um þetta. Sagðist gjaldandi einnig hafa haldið að eiginkona hans væri að „borga þessi gjöld“ og að allt væri í góðu lagi.

            Gjaldandi, B, staðfesti við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 3. nóvember 2017 að hún hefði verið varamaður í stjórn X ehf. Greindi gjaldandi frá því að hún hefði verið hægri hönd eiginmanns síns í rekstri félagsins. Eiginmaður hennar væri X og hefði reksturinn snúist um hans vinnu. Aðspurð um aðkomu sína að félaginu sagði gjaldandi að hún hefði reddað hinu og þessu að beiðni eiginmannsins, s.s. hún hefði sent tölvupósta og annast greiðslur. Taldi gjaldandi að fyrirliggjandi sölureikningar hefðu verið greiddir að fullu en sagðist geta trúað því að einhverjir minni aðilar ættu eftir að borga þótt hún myndi ekki í svipinn eftir neinum tilteknum. Gjaldandi var spurð að því hvers vegna ekki hefði verið staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins árin 2015 og 2016 og sagði gjaldandi að hún hefði bara ekki staðið sig betur, hún kynni þetta ekki og hefði verið að reyna en á endanum hefði hún ekki getað klárað það sem þurfti að gera. Hefði gjaldandi þá leitað til frænku sinnar sem hefði hjálpað henni að komast í gegnum þetta. Sagði gjaldandi að hún hefði notast við kerfi sem hét Vaskhugi í um 10-15 ár og það hefði gengið vel en svo hefði sölumaður tjáð henni að hætt yrði að uppfæra hugbúnaðinn og hefði hún þá að upplagi sölumannsins skipt yfir í annan hugbúnað sem hafi verið ólíkur hinum fyrri. Hafi þetta orðið virkilega erfitt hjá henni þá en einnig hefði ýmislegt komið upp á í fjölskyldunni sem hefði gert að verkum að hún hefði „ekki getað verið akkúrat þar“. Aðspurð sagði gjaldandi að ekki hefði verið tekin sérstök ákvörðun um að skila ekki virðisaukaskattsskýrslum greind uppgjörstímabil en hún hefði ekki komist í að „koma […] möppunum saman“ og þá hefði hún ekki kunnað að koma þessu inn í kerfið. Undir lok skýrslutökunnar kom tilnefndur verjandi gjaldanda á framfæri þeim athugasemdum að gjaldandi, B, hefði aðeins verið skráður varamaður í stjórn félagsins. Hefði hún aðeins verið að aðstoða eiginmann sinn en hann hefði sagt henni hvað hún ætti að gera og hverjum hún ætti að borga o.s.frv.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 29. desember 2017, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og virðisaukaskattsskilum skattaðila vegna rekstraráranna 2015 og 2016 eru eftirfarandi:

·    Staðin voru skil á virðisaukaskattsskýrslum eftir að rannsókn hófst.

·    Bókhaldsgögn bera með sér að hafa verið færð inn í bókhaldskerfi en óljóst er að hvaða marki það var gert áður en rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst.

·    Ekki hafa fengist afhentar upplýsingar úr bókhaldi skattaðila nema að takmörkuðu leyti.

·    Gefnir voru út sölureikningar eftir að virðisaukaskattsnúmeri skattaðila hafði verið lokað.

·    Gefnir voru út fimm sölureikningar vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi skattaðila án þess að virðisaukaskattur væri tilgreindur.

·    Skattskyld velta og útskattur eru vanframtalin.

·    Fyrirliggjandi eru gögn vegna mögulegs innskatts skattaðila.“

 

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta X ehf. væri vantalin um 9.664.505 kr. árið 2015 (útskattur 2.319.481 kr.) og um 16.340.134 kr. árið 2016 (útskattur 3.921.631 kr.), en mögulegur innskattur væri 894.211 kr. fyrra árið og 1.142.783 kr. seinna árið.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál X ehf. sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 12. júlí 2018. Í greinargerð skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 12. júlí 2018, kemur fram að endurákvörðunarþætti málsins sé ólokið.

Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur gjaldanda, A, er reist á því að hann hafi verið skráður stjórnarmaður og prókúruhafi X ehf. á þeim tíma sem mál þetta varðar. Sektarkrafa á hendur gjaldanda, B, er hins vegar sett fram á þeim grundvelli að hún hafi verið daglegur stjórnandi einkahlutafélagsins og séð um fjármál þess á umræddu tímabili.

Ekki hafa borist athugasemdir frá gjaldanda, A, í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 3. nóvember 2017 sagði gjaldandi, A, að hann hefði ekki vitað af því að ekki hefðu verið staðin skil á virðisaukaskattsskýrslum X ehf. árin 2015 og 2016 og að hann hefði talið að allt væri í góðu lagi. Sagði gjaldandi að eiginkona sín hefði átt að sjá um þetta. Þetta viðhorf var ítrekað í andmælabréfi tilnefnds verjanda gjaldanda, A, til skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 17. janúar 2018, í tilefni af tilkynningu skattrannsóknarstjóra ríkisins til gjaldenda um fyrirhugaða ákvörðunartöku um refsimeðferð málsins. Sem skráðum stjórnarmanni X ehf. bar gjaldanda að afla sér vitneskju um rekstur félagsins, þar á meðal um það hvort það stæði í skilum með greiðslu staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts, svo og að annast um að starfsemi félagsins væri jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Vísast um þetta m.a. til dóms Hæstaréttar Íslands 25. september 1997 (H 1997:2446). Sé misbrestur á því að fyrirsvarsmaður fyrirtækis sinni ábyrgðarskyldu sinni kann sú vanræksla að baka honum refsiábyrgð, enda sé honum kunnugt um refsiverð brot í tengslum við rekstur fyrirtækisins eða hann hefur að öðru leyti sýnt af sér saknæman eftirlitsskort.

Gjaldandi, A, hefur sem fyrr greinir ekki gert neinar athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Samkvæmt því sem fram er komið snerist rekstur X ehf. alfarið um vinnu hans og verður að telja leitt í ljós að hann hafi að öllu leyti séð um verklega þætti rekstursins, en gjaldandi, A, var eini starfsmaður félagsins á rannsóknartímabilinu samkvæmt framburði hans við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra. Þá er fram komið af hálfu gjaldanda í málinu að hann hafi falið eiginkonu sinni að sjá um bókhald félagsins og skil á virðisaukaskatti. Þykja skýringar gjaldanda um að hann hafi ekki vitað af því að virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti X ehf. hafi ekki verið skilað ekki sannfærandi í ljósi framangreinds. Þykir fjarstæðukennt að gjaldandi hafi verið grandlaus um að ekki hafi verið staðin skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti félagsins þau tvö ár sem mál þetta tekur til, m.a. þegar litið er til þeirra fjárhæða sem um teflir í málinu. Að framangreindu virtu verður að telja að gjaldandi hafi borið ábyrgð á skilum virðisaukaskatts X ehf. og telst hann því bera refsiábyrgð samkvæmt þeim ákvæðum laga nr. 50/1988 er fyrr greinir vegna þeirra misbresta sem voru á skattskilum félagsins á þeim tíma sem sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins tekur til.

Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur gjaldanda, B, er sem fyrr segir sett fram á þeim grundvelli að hún hafi verið daglegur stjórnandi X ehf. og séð um fjármál félagsins á umræddu tímabili, en gjaldandi, B, var varamaður í stjórn félagsins greint tímabil. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 3. nóvember 2017 greindi gjaldandi, A, frá því að daglegur rekstur og fjármál X ehf. hefðu verið í höndum eiginkonu hans, þ.e. gjaldanda, B. Þessum sjónarmiðum var sem fyrr segir haldið á lofti í fyrrnefndu andmælabréfi tilnefnds verjanda gjaldanda, A, til skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 17. janúar 2018. Í vörn gjaldanda, B, til yfirskattanefndar ber B því hins vegar við að hún hafi ekki verið fyrirsvarsmaður X ehf., enda hafi hún aðeins verið skráður varamaður í stjórn og ekki haft neina heimild til að taka ákvarðanir fyrir hönd félagsins. Hafi gjaldandi, A, verið allt í öllu og aðeins falið gjaldanda, B, að inna af hendi ýmis verk. Af þessu tilefni skal tekið fram að ekki verður talið að ákvæði 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, um ábyrgð og eftirlitsskyldur félagsstjórnar taki til varamanns sem ekki gegnir stjórnarstörfum í einkahlutafélagi í raun. Á hinn bóginn getur komið til þess að meta verði ábyrgð varamanns með hliðstæðum hætti og aðalmanns hafi varamaður tekið virkan þátt í starfsemi og stjórn viðkomandi einkahlutafélags. Af framburði gjaldanda, B, við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 3. nóvember 2017 verður ráðið að hún hafi m.a. haft það hlutverk að annast skil á virðisaukaskattsskýrslum X ehf. og inna af hendi greiðslur fyrir hönd félagsins, en fram kom af hálfu gjaldanda að hún hefði m.a. lent í vandræðum með skil á virðisaukaskattsskýrslum þegar þau hefðu skipt um tölvukerfi. Þá hefði gengið á ýmsu í fjölskyldunni sem orðið hefði til þess að þessum þætti rekstrarins hafi ekki verið sinnt nægilega vel. Að virtum framburðum gjaldenda hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, sem að framan eru raktir, og með hliðsjón af gögnum málsins að öðru leyti þykir nægilega í ljós leitt að gjaldandi, B, hafi tekið virkan þátt í stjórnun einkahlutafélagsins og haft með höndum skil á virðisaukaskatti og virðisaukaskattsskýrslum vegna rekstrarins. Þykir ekki varhugavert að telja að gjaldandi hafi ásamt A borið ábyrgð á skilum virðisaukaskatts félagsins á þeim tíma sem um ræðir og er sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins því réttilega beint að báðum gjaldendum.

Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldendum samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldendum í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Eins og fram er komið eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins, að því er varðar skattskylda veltu X ehf. árin 2015 og 2016, byggðar á útgefnum sölureikningum félagsins að fjárhæð samtals 14.540.809 kr. rekstrarárið 2015 og 21.967.080 kr. rekstrarárið 2016. Á þessum grundvelli er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins gerð grein fyrir meintri vantalinni skattskyldri veltu að fjárhæð 9.664.505 kr. rekstrarárið 2015 og 16.340.134 kr. rekstrarárið 2016, eða samtals 26.004.639 kr. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins sagði gjaldandi, A, að hann teldi að útgefnir sölureikningar X ehf. hefðu allir fengist greiddir. Við skýrslutöku af gjaldanda, B, sagði B að hún teldi að allir sölureikningar hefðu fengist greiddir en það gætu þó verið einhverjir minni aðilar sem ættu eftir að greiða. Af hálfu gjaldanda hefur ekkert komið fram til stuðnings því að einhverjir sölureikningar hafi ekki fengist greiddir. Samkvæmt þessu og að virtum gögnum málsins þykir ekkert komið fram sem gefur tilefni til annars en að miða við þær fjárhæðir innheimts virðisaukaskatts X ehf. sem gögn málsins bera með sér.

Af hálfu gjaldenda hefur ekkert komið fram um frekari tilefni til frádráttar innskatts en reiknað er með í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Verður því byggt á niðurstöðum rannsóknarskýrslu um þann þátt málsins.

Samkvæmt framansögðu telst hafa verið leitt í ljós með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að skil voru ekki gerð á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti X ehf. í samræmi við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988 öll uppgjörstímabil áranna 2015 og 2016 þrátt fyrir skattskylda veltu í rekstri félagsins samkvæmt því sem rakið er að framan. Gjaldendur báru sem fyrirsvarsmenn X ehf. ábyrgð á því að skil væru gerð á virðisaukaskattsskýrslum félagsins og virðisaukaskatti í samræmi við fyrrgreind ákvæði. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins þykir bera að fallast á ályktun skattrannsóknarstjóra ríkisins um að gjaldendur hafi með saknæmum hætti vanrækt þessar skyldur sínar umrædd uppgjörstímabil árin 2015 og 2016, en virðisaukaskattur sem ekki var greiddur á lögmæltum tíma nam 4.204.118 kr. Af þessum sökum ber að ákvarða gjaldendum sekt samkvæmt 6. mgr., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Þegar höfð eru í huga lagarök, sem búa að baki framangreindu ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um lágmarks- og margfeldissektir, með tilliti til háttsemi gjaldenda og afleiðinga hennar, þykir rétt að ákveða sektarfjárhæð í máli þessu heildstætt en með tiltekinni skiptingu milli gjaldenda. Samkvæmt framansögðu og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldenda hæfilega ákveðin 8.000.000 kr. til ríkissjóðs sem skiptist þannig milli þeirra að gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 4.000.000 kr. og gjaldandi, B, greiði sekt að fjárhæð 4.000.000 kr.

Að virtum dómi Hæstaréttar 21. júní 1991 (H 1991:1236) og með vísan til 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, þykir rétt að gera X ehf., kt. […], að greiða greindar sektir in solidum með A og B.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Gjaldendur, A og X ehf., greiði in solidum sekt að fjárhæð 4.000.000 kr. til ríkissjóðs. Gjaldendur, B og X ehf., greiði in solidum sekt að fjárhæð 4.000.000 kr. til ríkissjóðs.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum