2018

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 87/2018

16.5.2018

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2018, miðvikudaginn 16. maí, er tekið fyrir mál nr. 113/2017; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. […], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 24. ágúst 2017, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. […], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuársins 2011.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:


Skil á efnislega röngu skattframtali. Vanframtaldar skattskyldar tekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2012, vegna tekjuársins 2011, með því að vanframtelja tekjur sínar sem til eru komnar vegna afhendingar á hlutabréfum í X ehf. og Z ehf., í formi gjafa, samtals að fjárhæð 29.292.740 kr.

Leiddi háttsemi A til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofns hans en vera bar gjaldárið 2012 vegna tekjuársins 2011, og þar með ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars, svo sem hér greinir:

Vanframtaldar tekjur Tekjuskattur Útsvar
29.292.740 9.072.329[1] 4.241.589[2]

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. 1. mgr. 4. tölul. A. liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. gr. og 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 24. ágúst 2017, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 30. ágúst 2017, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Að ósk umboðsmanns gjaldanda var viðbótarfestur veittur til að skila vörn í málinu. Var sá frestur framlengdur tvisvar og var lokafrestur veittur til 22. febrúar 2018.

Með bréfi, dags. 16. febrúar 2018, hefur gjaldandi lagt fram vörn í málinu. Er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá yfirskattanefnd en til vara að gjaldanda verði ekki gerð sekt. Í vörninni eru málavextir raktir.

Til stuðnings aðalkröfu er byggt á því í vörninni að annmarkar hafi verið á rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum gjaldanda og rökstuðningi embættisins að því er varðar meintar vanframtaldar tekjur hans. Ógjörningur sé að átta sig á því á hverju útreikningur skattrannsóknarstjóra á meintum vanframtöldum tekjum gjaldanda sé byggður, en skattrannsóknarstjóri komist að þeirri niðurstöðu að vanframtaldar tekjur gjaldanda tekjurárið 2011 nemi 21.246.034 kr. Byggi skattrannsóknarstjóri í þessu sambandi í fyrsta lagi á því að gjaldanda hafi verið færðir 200.000 hlutir í X ehf. og að virði þessara hluta hafi verið 21.246.034 kr., eða sem samsvarar 106,23 kr. á hlut, en til að ákvarða verðmæti hlutanna reikni skattrannsóknarstjóri út svokallaða hreina eign félagsins sem hann telji vera 192.276.610 kr. Í öðru lagi byggi skattrannsóknarstjóri á því að gjaldanda hafi verið færðir 30.000 hlutir í Z ehf. (þá Y ehf.) og að virði þeirra hluta hafi verið 8.046.706 kr., eða 268,22 kr. á hlut. Á sama hátt og í tilviki X ehf. reikni skattrannsóknarstjóri hreina eign félagsins sem hann telji vera 160.934.126 kr. Verði skattrannsóknarstjóri að rökstyðja með viðhlítandi hætti á hverju verðútreikningur hans byggist þannig að óyggjandi sé að vanframtaldar tekjur gjaldanda séu ekki ákvarðaðar of háar. Þá komi ekki fram við hvaða lagaheimild skattrannsóknarstjóri styðji heimild sína til að enduráætla meintar vanframtaldar tekjur gjaldanda. Eina lagaheimildin sem skattrannsóknarstjóri vísi til sé 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 en í ákvæðinu sé ekkert kveðið á um hvernig ákvarða skuli verðmæti þeirra gjafa eða verðmæta sem ákvæðið taki til. Með vísan til þessa sé ennfremur ljóst að andmælaréttur gjaldanda hafi verið fyrir borð borinn. Beri samkvæmt framansögðu að vísa málinu frá yfirskattanefnd.

Að því er varakröfu gjaldanda varðar er rakið að faðir gjaldanda, B, hafi einhliða ákveðið umræddar eignatilfærslur án vitundar og án samráðs við gjaldanda. Hafi tilgreindur endurskoðandi séð um skattskil gjaldanda, en hann hafi jafnframt séð um öll skattskil, endurskoðun og fleira fyrir föður hans og öll hans félög. Hafi umræddar eignatilfærslur verið gerðar samkvæmt beiðni frá föður gjaldanda og hafi endurskoðandinn verið í góðri trú um að um raunveruleg kaup og sölu hafi verið að ræða. Er tekið fram í vörninni að ekki hafi átt sér stað nein kaup eða sala, enda liggi enginn samningur slíkum gerningi til grundvallar. Geti gjaldandi ekki borið ábyrgð á því að faðir hans hafi einhliða og án nokkurs samráðs við hann ákveðið tilfærslu á umræddum eignarhlutum. Hvað varði skattframtal hans verði að hafa í huga að gjaldandi hafi enga þekkingu á skattskilum eða skattamálum og hafi hann um árabil fengið endurskoðanda sínum að sjá um skattskil sín. Hafi gjaldandi lengi verið launamaður og framtal hans því í raun mjög einfalt. Það að einn aðili vilji kaupa eða selja hlutafé feli ekki í sér gilt afsal eða viðtöku þess ef gagnaðili samþykki það ekki á neinn hátt. Hafa beri í huga að jafnvel þótt ráðstafanir þessar hafi verið færðar í skattframtal gjaldanda feli það ekki í sér samþykki fyrir afsali eða viðtöku hlutafjárins þar sem fyrir liggi að gjaldandi sá ekki um skil á skattframtölum sínum heldur treysti hann endurskoðanda sínum fyrir því að skil væru í samræmi við réttar tekjur og eignir hans. Telji gjaldandi augljóst að faðir hans hafi með eignatilfærslunum aðeins verið að koma sér hjá álagningu auðlegðarskatts sem tekinn hafi verið upp á þeim tíma sem um ræðir. Með hliðsjón af öllu framangreindu telur gjaldandi að saknæmisskilyrði séu ekki fyrir hendi. Vísar umboðsmaður gjaldanda m.a. til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 504/2011 og úrskurðar yfirskattanefndar nr. 61/2016 máli sínu til stuðnings. Þá hafi gjaldandi umsvifalaust óskað leiðréttingar á skattframtölum sínum árin 2012 til og með 2016 þegar honum hafi orðið ljósar umræddar eignatilfærslur, sbr. meðfylgjandi bréf endurskoðanda gjaldanda til ríkisskattstjóra, dags. 20. febrúar 2017.

Fallist yfirskattanefnd ekki á að gera gjaldanda ekki sekt samkvæmt framansögðu byggir gjaldandi á því að refsilokaástæður séu óumdeilanlega fyrir hendi í tilviki gjaldanda en gjaldandi sé ekki lengur skráður fyrir neinu hlutafé í X ehf. og Z ehf. Liggi fyrir að skattframtali ársins 2016 hafi verið skilað og álagning byggð á skattframtalinu, en í skattframtalinu hafi umræddar eignatilfærslur verið leiðréttar þannig að gjaldandi sé ekki lengur skráður eigandi að neinu hlutafé í framangreindum félögum.

Þá telur umboðsmaður gjaldanda að þær verðmatsaðferðir sem notaðar hafi verið til leiða fram meintar vanframtaldar tekjur gjaldanda séu með öllu órökstuddar og án vísunar til réttarreglna, svo sem nánar er rakið í vörninni.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 24. ágúst 2017, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Gjaldandi hefur lagt fram athugasemdir sínar í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á skattskilum gjaldanda vegna tekjuársins 2011, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 3. maí 2017. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 18. október 2016. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 6. desember 2016. Skýrslur voru einnig teknar af B 17. nóvember 2016 og C 25. október 2016 vegna málsins. Var rannsókn í máli gjaldanda byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutökur þessar, svo og var byggt á skattframtölum gjaldanda, upplýsingum frá Fasteignaskrá Íslands og upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda. Þess er að geta að með bréfi, dags. 20. febrúar 2017, sendi C, endurskoðandi, beiðni til ríkisskattstjóra með ósk um leiðréttingu á skattframtölum gjaldanda árin 2012 til og með 2016. Í bréfinu kom fram að í skattframtali gjaldanda árið 2012 hefði því verið stillt upp að gjaldandi hefði keypt eignarhluti í einkahlutafélögunum X ehf. og Z ehf. en á móti selt 80% af eignarhlut sínum í W ehf., en ákveðnir annmarkar hefðu verið á framkvæmdinni. Hefði gjaldandi fyrir sitt leiti rift gjörningnum og færi þess því á leit að skattframtöl hans yrðu leiðrétt þannig að eignarhald hans á X ehf. og Z ehf. yrði fellt úr skattframtölum hans og breytingar á eignarhaldi hans á W ehf. yrðu sömuleiðis felldar brott. Hinn 20. maí 2017 lagði tilnefndur verjandi gjaldanda svo fram bréflegar athugasemdir við skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 3. maí 2017, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar þar sem tekið var fram að hvorki framkomin andmæli né beiðni umboðsmanns gjaldanda um leiðréttingar á skattframtölum gjaldanda þættu gefa tilefni til breytinga á skýrslunni.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 3. maí 2017, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á tekjum og skattskilum skattaðila vegna tekjuársins 2011 eru eftirfarandi:

  • Staðin voru skil á efnislega röngu skattframtali.

  • Það er mat skattrannsóknarstjóra að afhending á hlutabréfum til skattaðila teljist gjafir. Þessir gjafagerningar mynda skattskyldar tekjur í hendi skattaðila, sbr. 4. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Skattskyldar tekjur skattaðila eru því vanframtaldar vegna þessa.“

    Samkvæmt tölulegum niðurstöðum skýrslunnar, sem gerð var grein fyrir í töflu í niðurstöðukafla skýrslunnar, voru vantaldar tekjur gjaldanda vegna gjafa taldar nema 29.292.740 kr. tekjuárið 2011.

    Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103 gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 5. maí 2017. Í greinargerð skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 24. ágúst 2017, segir að ríkisskattstjóri hafi ekki boðað gjaldanda skattbreytingar á grundvelli skýrslunnar og sé endurákvörðunarþætti málsins því ekki lokið.

    3. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 3. maí 2017, er fjallað um rannsókn á tekjum gjaldanda og verðmat embættisins á hlutabréfum í W ehf., X ehf. og Z ehf. Að því er varðar hlutabréf í W ehf. var rakið að gjaldandi hefði verið skráður eigandi 196.000 hluta í W ehf. í árslok 2010 og 40.000 hluta í árslok 2011. Samkvæmt skattframtali félagsins fyrir rekstrarárið 2010 hefði skattalegt eigið fé vegna auðlegðarskatts verið neikvætt um 36.334.313 kr. Væri verðmæti hlutabréfa reiknað af eigin fé því lægra en 0 kr. og því ekki um að ræða vantalinn söluhagnað. Hvað snerti hlutabréf í X ehf. var rakið í skýrslunni að samkvæmt skattframtali gjaldanda hefði gjaldandi keypt hlutabréf í X ehf. á nafnverði fyrir 200.000 kr. á árinu 2011. Gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins grein fyrir ætluðu verðmæti X ehf. út frá upplýsingum í skattframtali félagsins og fasteignamati eigna þess og tók fram að þar sem skattalegt eigið fé vegna auðlegðarskatts hefði numið 192.276.610 kr. og nafnverð útistandandi hlutafjár 1.810.000 kr. reiknaðist innra virði hlutafjár X ehf. 106,23. Tók skattrannsóknarstjóri fram að þar sem gjaldandi hefði fengið 200.000 hluti í félaginu í sinn hlut hefði virði hluta gjaldanda í X ehf. numið 21.246.034 kr. Því næst rakti skattrannsóknarstjóri ríkisins að samkvæmt skattframtali gjaldanda hefði gjaldandi keypt 30.000 hluti í Z ehf. á nafnvirði á árinu 2011. Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins með sama hætti grein fyrir ætluðu verðmæti hlutafjár Z ehf. og rakti að þar sem skattalegt eigið fé vegna auðlegðarskatts hefði numið 160.934.126 kr. og nafnverð útistandandi hlutafjár 600.000 kr. reiknaðist innra virði hlutafjár Z ehf. 268,22. Var rakið í skýrslunni að gjaldandi hefði fengið 30.000 hluti í félaginu í sinn hlut og hefði virði hluta gjaldanda í Z ehf. því numið 8.046.706 kr.

    Við skýrslutöku af gjaldanda 7. desember 2016 var skattframtal gjaldanda árið 2012 lagt fyrir gjaldanda. Kannaðist gjaldandi við skattframtalið og sagði ótilgreinda endurskoðandaskrifstofu hafa séð um gerð þess. Kvaðst gjaldandi aðspurður ekki hafa farið yfir skattframtalið áður en það var sent inn. Sagði gjaldandi að í flestum tilfellum hefðu skattframtölin innihaldið forskráðar upplýsingar og hefði hann aðeins verið spurður um upplýsingar í sambandi við ökutækjastyrk. Aðspurður um breytingar á hlutafjáreign hans í W ehf., X ehf. og Z ehf. samkvæmt hlutafjármiðum sagði gjaldandi að hann hefði ekki vitað af breytingum á hlutafjáreign sinni á þeim tíma sem skattframtalið var gert, hann hefði aðeins séð þessar breytingar eftir á þegar hann hefði fengið skattframtalið sent í pósti frá endurskoðandanum. Taldi gjaldandi að faðir hans, B, hefði haft frumkvæði að breytingunum en engir samningar hefðu verið gerðir um kaup eða sölu hlutabréfanna. Sagðist gjaldandi ekki hafa fengið miklar upplýsingar um hvað faðir hans hefði verið að gera en gjaldandi hefði litið svo á að um skipti á hlutabréfum hefði verið að ræða.

    B, faðir gjaldanda, greindi frá því við skýrslutöku hinn 17. nóvember 2016 að hann hefði staðið í þeirri trú að það væri leyfilegt að afhenda börnum sínum lítinn hlut í fyrirtækjunum. Kvaðst B telja að skapast hefði ákveðin hefð samkvæmt skattalögum að líta fram hjá slíkum minni háttar breytingum á eignarhaldi þegar um afkomendur væri að ræða, líkt og í þeim tilvikum þegar bændabýli gengju til erfingja.

    Við skýrslutöku af C, endurskoðanda, sem fram fór 25. október 2016, sagði C að B hefði tekið ákvörðun um breytingu á eignarhaldi á umræddum einkahlutafélögum án samráðs við gjaldanda eða önnur börn B.

    Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu rannsóknarinnar að gjaldandi hafi fengið í sínar hendur hlutabréf að verðmæti 21.246.034 kr. í X ehf. og 8.046.706 kr. í Z ehf., eða hlutabréf að andvirði samtals 29.292.740 kr. Hafi gjaldandi verið tengdur stjórnun félaganna X ehf. og Z ehf. með formlegum hætti en hann sé sonur B og hafi hlutabréf í félögunum einnig verið færð á önnur börn B og aðra aðila við sama tækifæri. Í ljósi fjölskyldutengsla og þess hvernig staðið hafi verið að málum sé það niðurstaða skattrannsóknarstjóra ríkisins að um gjöf hafi verið að ræða sem skattskyld sé samkvæmt 1. mgr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, enda verði ekki séð að um tækifærisgjöf hafi verið að ræða. Þá liggi ekki fyrir nein gögn sem gefi til kynna að um fyrirframgreiddan arf hafi verið að ræða. Er tekið fram í skýrslunni að gjaldanda, C og B virðist bera saman um að B hafi framkvæmt umrædda gjörninga án nokkurrar aðkomu gjaldanda og án vitneskju hans.

    4. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins er sem fyrr segir reist á því að gjaldandi hafi vanrækt að gera grein fyrir í skattframtali sínu árið 2012 tekjum sem honum hafi hlotnast með því að hafa þegið að gjöf frá föður sínum hlutabréf í X ehf. og Z ehf. að andvirði samtals 29.292.740 kr., sem færð voru gjaldanda til eignar í skattframtali hans greint ár. Hafi tekjurnar verið skattskyldar í hans hendi á grundvelli 1. mgr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu gjaldanda er byggt á því að hlutir í umræddum félögum verið færðir sem eign gjaldanda í skattframtali hans án hans vitundar og að frumkvæði föður hans. Þá hafi gjaldandi aldrei samþykkt þær breytingar sem um ræðir og hafi þær nú verið leiðréttar. Ennfremur eru af hálfu gjaldanda gerðar athugasemdir við útreikning skattrannsóknarstjóra ríkisins á verðmæti þeirra hlutabréfa sem um ræðir.

    Í niðurstöðukafla rannsóknarskýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins tiltekur skattrannsóknarstjóri eins og áður greinir að gjaldanda, B (föður gjaldanda) og C endurskoðanda virðist öllum bera saman um að umræddar tilfærslur á eignarhlutum í W ehf., X ehf. og Z ehf. hafi verið gerðar að frumkvæði B og að gjaldandi hafi ekki átt aðkomu að þeim eða vitað af þeim fyrr en eftir á. Virðist samkvæmt framansögðu sem skattrannsóknarstjóri ríkisins dragi ekki dul á þær skýringar gjaldanda að hann hafi verið í góðri trú um að skattskil hans væru í samræmi við lög á þeim tímapunkti þegar staðin voru skil á skattframtalinu til ríkisskattstjóra gjaldárið 2012. Tekið skal fram að til þess getur komið að saknæmisskilyrði vegna refsiverðra brota á skattalögum teljist uppfyllt þótt komist sé að þeirri niðurstöðu að skattaðili hafi verið í góðri trú um skattskil sín við lok framtalsfrests, enda teljist sýnt fram á að viðkomandi skattaðili hafi með athafnaleysi sínu í kjölfar þess að hafa orðið þess var að annmarkar væru á skattskilum hans sýnt eftirfarandi ásetning (dolus subsequens) til brota á skattalögum eða slíkt stórkostlegt hirðuleysi að refsingu varði.

    Í máli þessu er krafist sektar á hendur gjaldanda fyrir að hafa staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2012 með því að vanframtelja tekjur sínar sem honum hlotnuðust í formi gjafa vegna afhendingar á hlutabréfum í X ehf. og Z ehf., samtals að fjárhæð 29.292.740 kr. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að gerð var grein fyrir eignarhaldi gjaldanda á hinum umdeildu hlutabréfum í X ehf. og Z ehf. í skattframtölum hans árin 2012 til og með 2015 og er því ekki um að ræða að gjaldandi hafi dulið eignir sínar í skattframtali ársins 2012 heldur er krafist refsingar fyrir að hafa vanrækt að gera grein fyrir þeim verðmætum sem fólgin voru í hlutabréfunum í X ehf. og Z ehf. í hendi gjaldanda umfram þau verðmæti sem gjaldandi lét af hendi í formi hlutabréf í W ehf. á sama tíma. Við skýrslutöku bar gjaldandi því við að hann hefði talið að um skipti á hlutabréfum hefði verið að ræða, þ.e. að hann hefði þegið hlutabréf í X ehf. og Z ehf. í skiptum fyrir hlutabréf í W ehf., en fram er komið að gjaldandi var skráður eigandi 196.000 hluta í W ehf. í árslok 2010 og 40.000 hluta í árslok 2011. Þegar gjaldandi var spurður hvort verðmæti væru fólgin í hlutabréfum hans í W ehf. á þessum tíma sagði gjaldandi að félagið væri að byggja 70 herbergja hótel í Æ og að hann hefði talið ákveðin verðmæti í því til framtíðar. Sagði gjaldandi að hann hefði ekki efast um að faðir hans hefði verið að gera rétt með eignatilfærslunum en þeir hefðu ekki rætt mikið saman.

    Telja verður að gjaldandi hafi sýnt af sér nokkurt hirðuleysi í tengslum við þær ályktanir sínar að jafnræði væri með þeim verðmætum sem hann lét af hendi í umræddum eignatilfærslum, sem voru hlutabréf í W ehf., og þeim hlutabréfum í X ehf. og Z ehf. sem gjaldandi tók við í skiptum fyrir hlutabréfin í fyrst nefnda félaginu, eftir að gjaldandi varð meðvitaður um eignatilfærslurnar. Varhugavert þykir þó að telja sannað, eins og málið horfir við, að gjaldandi hafi uppfyllt þær auknu gáleysiskröfur sem skattalög gera vegna refsiverðra brota gegn lögunum. Að þessu athuguðu og með hliðsjón af atvikum málsins verður gjaldanda ekki gerð sekt vegna vanframtalinna tekna gjaldárið 2012.

    Ú r s k u r ð a r o r ð :


    Gjaldanda, A, verður ekki gerð sekt í máli þessu.



[1] Vantalinn tekjuskattur í 25,8 % þrepi : (8.166.600-4.120.562)*0,258 = kr. 1.043.878

   Vantalinn tekjuskattur í 31,8 % þrepi : 25.246.702*0,318 = kr. 8.028.451

   Vantalinn tekjuskattur samtals = 1.043.878 + 8.028.451 = 9.072.329

[2] Útsvar 14,48% : 29.292.740*0,1448 = kr. 4.241.589

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum