2019

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 40/2019


13.3.2019

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2019, miðvikudaginn 13. mars, er tekið fyrir mál nr. 204/2018; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 18. desember 2018, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, fyrir brot á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, beggja með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2016 og 2017.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A, sem stjórnarmanni, framkvæmdastjóra, prókúruhafa og daglegum stjórnanda X ehf., nú afskráð, er gefið að sök eftirfarandi:

1. Vangoldin afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna.

A er gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna X ehf., nú afskráð, vegna greiðslutímabilanna september til og með desember rekstrarárið 2016 og janúar til og með september rekstrarárið 2017. Vangoldin afdregin skilaskyld staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna X ehf., vegna framangreindra greiðslutímabila nemur samtals kr. 4.694.600. Fjárhæðin sundurliðast svo sem hér greinir:

Rekstrarár Greiðslutímabil Vangoldin skilaskyld staðgreiðsla
2016 september 256.427
2016 október 427.903
2016 nóvember 590.783
2016 desember 357.607
Samtals kr. 1.632.720
2017 janúar 318.608
2017 febrúar 333.941
2017 mars 307.283
2017 apríl 392.726
2017 maí 244.630
2017 júní 264.850
2017 júlí 337.172
2017 ágúst 461.792
2017 september 400.878
Samtals kr. 3.031.880
Samtals bæði árin kr. 4.694.600

Það er mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að þetta hafi A gert á saknæman hátt, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi A brjóta í bága við ákvæði 1. og 2. mgr. 20. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, sbr. aðalreglur 1.-3. gr., 1. tl. 5. gr., 1. mgr. 7. gr. og 1. og 3. mgr. 8. gr. þeirra laga.

Framangreind háttsemi varðar A sekt samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum.

2. Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur.

A er gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti, sem innheimtur var í rekstri X ehf., nú afskráð, vegna uppgjörstímabilanna mars – apríl og júlí – ágúst rekstrarárið 2017. Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna framangreindra uppgjörstímabila nemur samtals kr. 67.349, að teknu tilliti til virðisaukaskatts af töpuðum kröfum. Fjárhæðin sundurliðast svo sem hér greinir:

Rekstrarár Uppgjörstímabil Vangoldinn virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs kr.
2017 mars – apríl 349.718
2017 júlí – ágúst 343.133
2017 Vsk./tap kr. -625.502
Samtals kr. 67.349

Það er mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að framangreindu hafi A komið til leiðar með saknæmum hætti, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi A brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Framangreind háttsemi varðar A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 18. desember 2018, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 19. desember 2018, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 18. desember 2018, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem hann hafi sem fyrirsvarsmaður X ehf., vanrækt að standa skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna félagsins tiltekin greiðslutímabil árin 2016 og 2017 og vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti félagsins þau uppgjörstímabil árið 2017 sem greinir í bréfinu. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf hinn 8. júní 2018 rannsókn á skattskilum X ehf. er beindist að skilum félagsins á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtum virðisaukaskatti vegna rekstraráranna 2016 og 2017. Skráður tilgangur X ehf. á þessu tímabili var rekstur smurbrauðstofu og bakarís, lánastarfsemi, fjárfestingar af hverju tagi og önnur skyld starfsemi. Samkvæmt gögnum málsins var bú X ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 9. nóvember 2017 og lauk skiptum 6. febrúar 2018. Var félagið afskráð 23. febrúar 2018. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins þann 19. júní 2018. Með bréfi, dags. 14. ágúst 2018, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina sem þá lá fyrir, dags. sama dag, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Engar athugasemdir voru gerðar og var lokaskýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 6. september 2018, efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 6. september 2018, segir að rannsókn á skattskilum X ehf. hafi einkum verið byggð á upplýsingum sem fram hafi komið við fyrrgreinda skýrslutöku, innsendum staðgreiðsluskilagreinum og sundurliðunum af hálfu félagsins, virðisaukaskattsskýrslum, upplýsingum úr bókhaldi X ehf., hreyfingum á bankareikningi félagsins, upplýsingum frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og tekjubókhaldi ríkissjóðs, sbr. fylgiskjöl með skýrslunni, en þar er um að ræða yfirlit um greiðslur X ehf. vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, virðisaukaskatts og opinberra gjalda.

Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að rannsókn embættisins á staðgreiðsluskilum X ehf. hafi falist í því að bera fjárhæðir afdreginnar staðgreiðslu samkvæmt staðgreiðsluskilagreinum og sundurliðunum félagsins saman við greiðslur þess til innheimtumanns ríkissjóðs. Í skýrslunni er gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu rannsóknarinnar að fyrirsvarsmaður X ehf. hafi ekki staðið skil innan lögboðins frests á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna félagsins greiðslutímabilin september, október, nóvember og desember 2016 og janúar til og með október 2017 samtals að fjárhæð 5.110.043 kr. Er tekið fram að ekki hafi verið í valdi fyrirsvarsmanns félagsins að standa skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna tímabilsins október 2017 að fjárhæð 415.443 kr. sökum töku bús X ehf. til gjaldþrotaskipta 9. nóvember 2017.

Rannsókn á virðisaukaskattsskilum X ehf. var samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins fólgin í því að bera fjárhæð innheimts virðisaukaskatts samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum saman við greiðslur þess til innheimtumanns og er rakin sú niðurstaða rannsóknarinnar að fyrrum fyrirsvarsmaður félagsins hafi ekki staðið skil á virðisaukaskatti vegna félagsins innan lögboðins frests uppgjörstímabilin mars-apríl og júlí-ágúst 2017 að fjárhæð samtals 696.855 kr. Fram kemur að greiddar hafi verið 152.177 kr. inn á höfuðstól virðisaukaskattsskuldar vegna þeirra tímabila sem rannsóknin taki til, þar af 130.000 kr. innan lögboðins frests.

Sérstakur kafli er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um tapaðar kröfur þar sem fram kemur að kröfur X ehf. á hendur Z ehf. (áður Y ehf.) og Þ ehf., en bú beggja þessara félaga hafi verið tekin til gjaldþrotaskipta, teljist tapaðar í skilningi laga um virðisaukaskatt. Nemi virðisaukaskattur af töpuðum kröfum 625.502 kr.

Gjaldandi staðfesti við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 19. júní 2018 að hann hefði verið stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi X ehf. á rannsóknartímanum. Kvaðst gjaldandi hafa annast daglegan rekstur og fjármál félagsins. Við skýrslutökuna voru bornar undir gjaldanda fyrirliggjandi staðgreiðslu-skilagreinar og virðisaukaskattsskýrslur X ehf. vegna þeirra greiðslu- og uppgjörstímabila sem rannsóknin tók til og kvaðst gjaldandi telja að gögnin væru vegna X ehf. Kvað gjaldandi skilagreinar og skýrslur þessar hafa verið byggðar á bókhaldsgögnum félagsins og taldi gjaldandi gögnin gefa rétta mynd af rekstri félagsins. Gjaldanda var kynnt að samkvæmt gögnum málsins hefði staðgreiðsla opinberra gjalda að fjárhæð 5.110.043 kr. vegna launamanna X ehf. tiltekin greiðslutímabil árin 2016 og 2017 ekki verið greidd á lögmæltum tíma og að virðisaukaskattur að fjárhæð 696.855 kr. tiltekin uppgjörstímabil árið 2016 hefði ekki verið greiddur á lögmæltum tíma. Gerði gjaldandi ekki athugasemdir við fjárhæðirnar. Gjaldandi greindi frá því að sökum rekstrarerfiðleika hefði afdreginni staðgreiðslu og innheimtum virðisaukaskatti ekki verið skilað á lögmæltum tíma. Sagði gjaldandi að nokkuð hefði verið um að útgefnir sölureikningar hefðu ekki verið greiddir. Var gjaldandi spurður að því hvort þar hefði aðallega verið um að ræða Víði og Kost og sagði gjaldandi þá að þetta ætti líka við um veitingahús og fiskbúðir. Gjaldandi kvaðst aðspurður ekki muna eftir því að hafa óskað eftir því við innheimtumann að greiðslum X ehf. yrði ráðstafað með sérstökum hætti.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, er refsivert ef skattskyldur maður afhendir eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, er með samsvarandi hætti lýst refsivert ef launagreiðandi innir ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum borið að halda eftir. Samkvæmt fortakslausum ákvæðum nefndra laga og með stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 27. febrúar 1997 (H 1997:789), 25. september 1997 (H 1997:2446), 14. janúar 1999 (H 1999:79), 18. febrúar 1999 (H 1999:544 og 550), 10. júní 1999 (H 1999:2645) og 30. mars 2000 (H 2000:1422), geta fyrirsvarsmenn lögaðila unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt.

Gjaldandi, A, var stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi X ehf. á þeim tíma sem mál þetta varðar. Við skýrslutöku staðfesti gjaldandi að hafa annast daglegan rekstur og fjármál félagsins þann tíma sem málið varðar. Verður samkvæmt framansögðu að telja að gjaldandi hafi sem fyrirsvarsmaður X ehf. borið ábyrgð á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts félagsins og er sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins því réttilega beint að gjaldanda.

Til grundvallar niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð vangreiddrar staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts X ehf. árin 2016 og 2017 liggja staðgreiðsluskilagreinar og virðisaukaskattsskýrslur sem gjaldandi hefur staðfest að varði rekstur einkahlutafélagsins, sbr. skýrslutöku af gjaldanda 19. júní 2018, þar sem einnig kom fram það álit gjaldanda að gögnin gæfu rétta mynd af rekstrinum. Við skýrslutöku af gjaldanda hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins sagði gjaldandi sem fyrr segir að nokkuð hefði verið um að sölureikningar hefðu ekki fengist greiddir. Verður að skilja framburð gjaldanda þannig að hann telji að um tapaðar viðskiptakröfur sé að ræða í skilningi 2. tölul. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988. Í niðurstöðum rannsóknarskýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. og kröfugerð skattrannsóknarstjóra í máli þessu, er tekið tillit til tapaðra viðskiptakrafna X ehf. á hendur Z ehf. (áður Y ehf.) og Þ ehf. Ekki hafa komið fram aðrar athugasemdir af hálfu gjaldanda af þessu tilefni eða vegna niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð vangreidds virðisaukaskatts eða staðgreiðslu opinberra gjalda. Þykja gögn málsins ekki gefa tilefni til annars en að byggja á því að staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur, sem gjaldanda bar að standa skil á vegna X ehf., hafi numið þeim fjárhæðum sem greinir í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra í máli þessu er byggð á niðurstöðum í skýrslu embættisins.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins og greinargerð með kröfugerð embættisins til yfirskattanefndar er gerð grein fyrir greiðslum X ehf. til innheimtumanns vegna staðgreiðslu, virðisaukaskatts og opinberra gjalda frá því að skuldir sem um ræðir í máli þessu vegna skilaskyldrar staðgreiðslu og virðisaukaskatts byrjuðu að myndast 18. október 2016. Fram kemur að á tímabilinu 18. október 2016 til og með 14. desember 2018 bárust engar greiðslur vegna staðgreiðslu opinberra gjalda. Greiðslur vegna höfuðstóls virðisaukaskatts námu 1.895.515 kr. Var þar að hluta um að ræða greiðslur vegna uppgjörstímabila sem mál þetta varðar, nánar tiltekið virðisaukaskatt að fjárhæð 152.177 kr. vegna uppgjörstímabilsins mars-apríl 2017, en af þessari fjárhæð voru staðin skil á 130.000 kr. innan lögboðins frests og er tekið tillit til þessarar fjárhæðar í niðurstöðum rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins. Eins og mál þetta er lagt fyrir af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins þykir rétt að sú fjárhæð sem eftir stendur, þ.e. 22.177 kr., sem skil voru gerð á samkvæmt framangreindu áður en mál þetta var sent yfirskattanefnd til meðferðar, komi til frádráttar fjárhæð vangreidds virðisaukaskatts samkvæmt kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins, enda er það í samræmi við það sem tíðkast hefur við meðferð hliðstæðra mála fyrir yfirskattanefnd. Verður því miðað við vangreidda staðgreiðslu að fjárhæð 4.694.600 kr. og vangreiddan virðisaukaskatt að fjárhæð 45.172 kr. í máli þessu. Þá kemur fram í gögnum málsins að greiðslur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna opinberra gjalda gjaldanda, þ.m.t. tryggingagjalds, voru óverulegar á þeim tíma sem hér um ræðir.

Samkvæmt framanrituðu þykir nægilega komið fram með stoð í gögnum málsins og framburði gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 19. júní 2018 að gjaldandi hafi vanrækt skyldur sínar, sem mælt er fyrir um í 1. og 2. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, til að standa á tilskildum tíma skil á staðgreiðslu opinberra gjalda greiðslutímabilin september, október, nóvember og desember 2016 og janúar til og með september 2017 að fjárhæð samtals 4.694.600 kr. Þá var virðisaukaskattur X ehf. uppgjörstímabilið júlí-ágúst 2017 að fjárhæð 45.172 kr. ekki greiddur innheimtumanni ríkissjóðs á tilskildum tíma, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988. Vegna þeirra skýringa gjaldanda að rekstrarerfiðleikar X ehf. hafi valdið þeim vanskilum á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti sem í málinu greinir skal tekið fram að ekki telst tæk varnarástæða að fé hafi ekki verið til í rekstri félagsins til að standa skil á umræddum gjöldum, sbr. m.a. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar Íslands frá 30. mars 2000 (H 2000:1422).

Með vísan til þess sem rakið hefur verið telst fullnægt þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 42/1995. Ber að ákvarða gjaldanda, A, sekt samkvæmt þessum lagaákvæðum vegna vanrækslu á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts í rekstri X ehf.

Eins og lög nr. 45/1987 og lög nr. 50/1988 hljóða eftir breytingar, sem á þeim voru gerðar með lögum nr. 42/1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem vanrækt var greiðsla á, þó að teknu tilliti til álags. Samkvæmt breytingu á greindum lögum með lögum nr. 134/2005 eiga fésektarákvæði þessi þó ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindri staðgreiðslu eða virðisaukaskatti samkvæmt skilagrein staðgreiðslu eða virðisaukaskattsskýrslu, enda hafi verið gerð skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar. Í tilviki gjaldanda er til þess að líta að skilagreinar staðgreiðslu og virðisaukaskattsskýrsla liggja fyrir vegna allra greiðslu- og uppgjörstímabila sem málið varðar og eru fjárhæðir í málinu byggðar á þeim og bókhaldi félagsins. Hins vegar varðar mál þetta vanskil á staðgreiðslu og virðisaukaskatti vegna alllangs tímabils og á þeim tíma hafa óverulegar greiðslur verið inntar af hendi til innheimtumanns ríkissjóðs vegna X ehf. Því þykja ekki vera fyrir hendi lagaskilyrði til þess að ákvarða sekt vegna vanrækslu á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts lægri en lágmarksákvæði 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 mæla fyrir um.

Samkvæmt framansögðu og að teknu tilliti til álags samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 9.000.000 kr. til ríkissjóðs.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 9.000.000 kr. til ríkissjóðs.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum