Bindandi álit

Bindandi álit 3/2018

18.4.2018

Bindandi áliti breytt með úrskurði Yfirskattanefndar 69/2019.

Um álitsbeiðendur:

Í álitsbeiðni kemur fram að B sé stofnsett og skráð í Noregi og beri þar í landi fulla og ótakmarkaða skattskyldu. Félagið sé skráð í norsku kauphöllinni. B sé móðurfélag félagasamstæðu um skipaeign í sjóflutningum og að samstæðan myndi vel á annan tug félaga og að skipastóll samstæðunnar telji yfir 100 skip. Höfuðstöðvar félagsins séu í Bergen, Noregi, en að samstæðan hafi umboðsskrifstofur annarsstaðar í Noregi, […] og Íslandi.

A ehf. sé stofnsett og skráð á Íslandi og hafi, auk flutningsþjónustu og tengdrar þjónustu, með höndum skipasmíði og alhliða þjónustu við erlend skip. A ehf. hafi verið hluti samstæðu B frá árinu 2006 og að allir hlutir í félaginu séu í eigu B. A ehf. eigi alla hluti í Z Ltd.

Z Ltd. sé skipafélag stofnsett og skráð á Kýpur. Það hafi allt frá skráningu félagsins á árinu 1990 sætt tonnaskattlagningu á Kýpur samkvæmt löggjöf þess ríkis og nái slíkur skattur yfir hagnað af kaupskipaútgerð, útgreiðslu þess hagnaðar í formi arðs, hagnaðar af sölu skipa og vaxtatekna. Þá upplýsa álitsbeiðendur um að félagið hafi borið ótakmarkaða skattskyldu í Noregi frá og með rekstrarárinu 2012. Sú skattskylda helgist af því að raunveruleg framkvæmdastjórn félagsins sé í Noregi og því teljist það heimilisfast í Noregi gagnvart tekjuskattlagningu samkvæmt norskum lögum. Meðfylgjandi beiðni fylgja skjöl því til staðfestingar. Þá kemur fram í álitsbeiðni að árlegur álagður tonnaskattur á Kýpur sé færður sem rekstrarkostnaður í norskum tekjuskattsskilum félagsins. Tekjur félagsins séu af tvennum toga, annars vegar tekjur af tímaleigu skipa og hins vegar fjármunatekjur. Tekjur af tímaleigu skipa vegi þar mun þyngra og að sama skapi séu útgerðarkostnaður og fyrning skipa höfuð kostnaðarliðir félagsins. Tekjuskattsskylda félagsins í Noregi sé samkvæmt almennum reglum, þ.m.t. að því er skatthlutfall varðar, en ekki eftir sérreglum um skattlagningu skipaútgerðar.

Fyrirhugaðar ráðstafanir álitsbeiðenda:

Í álitsbeiðni kemur fram að fyrirhuguð sé sú breyting á samstæðunni að færa eignarhald á öllum hlutum í Z Ltd. frá A ehf. til móðurfélagsins B. Ætlunin sé að lækka hlutafé A ehf. með greiðslu til eina hluthafans, B. Fyrirhugað sé að halda hluthafafund í A ehf. þar sem stjórn félagsins muni leggja fyrir fundinn tillögu sína um lækkun hlutafjár með greiðslu til hluthafans í formi allra hluta í Z Ltd.

Þá er í álitsbeiðni upplýst um að eigið fé A ehf. hafi samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi numið … króna í lok árs 2016 og greinist í hlutafé (… króna), lögbundinn varasjóð (… króna), þýðingarmunur (… króna), bundinn hlutdeildarreikning (… króna) og óráðstafað eigið fé (… króna). Þá er gerð nánari grein fyrir þýðingarmuni og lögbundnum hlutdeildarreikningi í beiðninni. Samkvæmt ársreikningum hafi eignarhlutur A ehf. í Z Ltd. numið … króna í árslok 2016, færðum á verði sem svari til hlutdeildar í bókfærðu eigin fé Z Ltd.

Á móti fjárhæð hluta í Z Ltd., sem greiddir yrðu til hluthafa, yrðu við hlutafjárlækkunina leystir upp að fullu eiginfjárreikningarnir þýðingarmunur og bundinn hlutdeildarreikningur, enda stafi þeir alfarið af eignarhlutum, en aðrir eiginfjárreikningar yrðu lækkaðir hlutfallslega. Miðað við framangreindar fjárhæðir eiginfjárreikninga og bókfærðs verðs eiginhluta í Z Ltd. muni eiginfjárreikningar A ehf. eftir hlutafjárlækkunina samanstanda af … króna nafnverðsreikningi hlutafjár, … króna lögboðnum varasjóði og … króna óráðstöfuðu eigin fé.

Álitaefni:

Álitsbeiðendur telja að uppi séu skattaleg álitaefni sem þeir hafi ríka hagsmuni af að fá bindandi álit ríkisskattstjóra um áður en ráðist verði í fyrirhugaða hlutafjárlækkun. Álitaefnin lúti að því hvort álitsbeiðendur, annar hvor eða báðir, skuli sæta álagningu tekjuskatts á Íslandi vegna fyrirhugaðrar lækkunar hlutafjár A ehf. með útgreiðslu til B í formi allra hluta í Z Ltd., verði henni hrundið í framkvæmd.

Álitsbeiðendur óska eftir bindandi áliti um eftirfarandi álitaefni:

Varðandi B:

  1. Falla undir skattskyldu á Íslandi, tekjur B sem myndast við hlutafjárlækkunina?
  2. Ef svar við 1. álitaefni er jákvætt, ber þá að leiða tekjurnar fram sem mismun bókfærðs verðs eigin fjár Z Ltd., samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi félagsins, og þess verðs sem B galt fyrir þá eignarhluti í A ehf. sem niður falla við hlutafjárlækkunina?
  3. Ef svar við 1. álitaefni er jákvætt, er B þá heimilt að færa til frádráttar sömu fjárhæð og tekjunum nemur, þannig að ekki komi til skattlagningar teknanna við álagningu opinberra gjalda?
  4. Ef svar við 2. álitaefni er neikvætt, hvaða aðferð ber þá að viðhafa við að leiða fram tekjur B?

Varðandi A ehf.:

  1. Ber í skattalegu tilliti að líta á afhendingu hlutanna í Z Ltd. til B sem innlausn A ehf. á verðhækkun hlutanna á eignarhaldstíma A ehf.?
  2. Ef svarið við 1. álitaefni er jákvætt, ber þá að fara með verðhækkunina sem söluhagnað hlutabréfa í skilningi 18. gr. laga nr. 90/2003?
  3. Ef svar við 2. álitaefni er jákvætt, heimilast A ehf. þá frádráttur sem nemur söluhagnaðinum, samkvæmt 9. tölul. a 31. gr. laga nr. 90/2003?
  4. Ef svar við 1. álitaefni er jákvætt, en svar við 2. álitaefni er neikvætt, á hvaða lagagrundvelli ber þá að skattleggja verðhækkun hlutanna í Z Ltd.?

Sjónarmið álitsbeiðenda:

I. Varðandi B

Í álitsbeiðni vísa álitsbeiðendur til hinnar almennu skilgreiningar skattskyldra tekna sem sett er fram í upphafsákvæði 7. gr. laga nr. 90/2003, að til skattskyldra tekna teljast hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skipti ekki máli hvaðan tekjurnar stafa eða í hvaða formi þær eru. Þá vísa álitsbeiðendur jafnframt 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 þar sem fram kemur að til skattskyldra tekna teljist arður af hlutum og hlutabréfum í félögum sbr. 11. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 11. gr. sé kveðið á um að til arðs af hlutum í einkahlutafélögum og hlutabréfum í hlutafélögum, sem beri ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi teljist auk venjulegra arðgreiðslna sérhver afhending verðmæta til hluthafa sem telja verði tekjur af hlutareign þeirra í félaginu. Í 4. mgr. sömu lagagreinar sé sérstaklega kveðið á um að til arðs teljist lækkun hlutafjár, sem greidd er út til hluthafa, umfram kaupverð. Álitsbeiðendur vísa til þess að efni þess ákvæðis hafi verið lögfest með lögum nr. 154/1998, og að í almennum athugasemdum við frumvarp til breytingalaganna segi um ákvæðið:

„Í fimmta lagi er lögð til breyting sem snertir skattlagningu við slit félaga og lækkun hlutafjár. Er gert ráð fyrir að færa það ákvæði í sama horf og það var í fyrir gildistöku laga um fjármagnstekjuskatt, þ.e. að líta á úthlutun sem arðgreiðslu en ekki söluhagnað. Þó er gert ráð fyrir sömu skattlagningarreglum og gilda um söluhagnað þannig að breytingin hefur ekki áhrif á skattskyldu innlendra aðila en leiðir til þess að erlendur aðili yrði við félagsslit og lækkun hlutafjár skattskyldur hér á landi á sama hátt og hann hefði orðið vegna arðgreiðslu.“

Álitsbeiðendur telja að af framangreindum ákvæðum megi ráða að við fyrirhugaða móttöku B á hlutum í Z Ltd. myndist í skattalegu tilliti tekjur B sem nemi mismun peningalegs verðmætis móttekinna hluta í Z Ltd. og þess verðs sem félagið galt fyrir þá hluti í A ehf. sem falli niður við hlutafjárlækkunina. Jafnframt megi ráða að þær tekjur teljist til arðstekna í skilningi 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 og að þær tekjur yrðu skattskyldar í hendi B, skv. 7. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2003.

Álitsbeiðendur telja vafa á því með hvaða hætti skuli ákvarða peningalegt verðmæti hlutanna í Z Ltd. í þessu sambandi þar sem ekki sé fyrir að fara beinu lagaákvæði þar um.

Álitsbeiðendur vísa til þess að í 9. gr. laga nr. 90/2003 sé kveðið á um aðferðir við að leiða fram skattskyldar tekjur í þeim tilvikum sem starfsmaður félags nýtir kauprétt sinn á hlutum í félaginu og að við þær aðstæður skuli gangverð hlutanna lagt til grundvallar. Þegar hvorki sé fyrir að fara skráðu verði á skipulögðum verðbréfamarkaði né gangverði í viðskiptum, skuli miða við bókfært verð eigin fjár félags samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi þess. Þá vísa álitsbeiðendur til þess að í skattframkvæmd hafi með vísan til þessa lagaákvæðis verið talið almennt viðhlítandi að miða gangverð hluta við bókfært verð eigin fjár viðkomandi félags (innra virði þess), samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi, í þeim tilvikum sem ekki liggi fyrir glöggar upplýsingar um gangverð hlutanna í viðskiptum. Í því sambandi benda álitsbeiðendur á úrskurð yfirskattanefndar nr. 156/2014.

Álitsbeiðendur vísa jafnframt til ákvæðis XXXIII. til bráðabirgða við lög nr. 90/2003 þar sem, varðandi útleiðslu auðlegðarskattsstofns, sé mælt fyrir um að hlutir í félögum sem ekki séu skráðir til viðskipta á markaði skuli taldir fram á skattalegu bókfærðu eigin fé félags. Þá benda álitsbeiðendur á að samkvæmt leiðbeiningum ríkisskattstjóra í ákvarðandi bréfi nr. 005/2010 skuli í tilvikum óskráðra hluta í erlendu félagi miða við skattalegt bókfært eigið fé erlenda félagsins samkvæmt skattframtali í heimalandi þess, að því tilskildu að í heimalandinu væri byggt á sambærilegum reglum og hér á landi.

Álitsbeiðendur vísa til þess að samkvæmt áritun óháðs endurskoðanda í ársreikningi Z Ltd. fyrir rekstrarárið 2016 hafi við samningu ársreikningsins verið beitt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, samþykktum af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, í samræmi við löggjöf á Kýpur. Samkvæmt ársreikningnum hafi eigið fé Z Ltd. numið … evra í lok árs 2016. Eigið fé Z Ltd. í árslok 2016 sé í norsku skattframtali félagsins tilgreint … norskar krónur.

Álitsbeiðendur benda á að í 31. gr. laga nr. 90/2003 sé kveðið á um heimildir lögaðila til færslu frádráttar frá tekjum í skattskilum. Í 9. tölul. greinarinnar sé kveðið á um heimild til frádráttar fjárhæðar sem nemi fengnum arðstekjum og vísa álitsbeiðendur sérstaklega til fyrstu tveggja málsliða 9. töluliðar, sbr.:

„Þá fjárhæð sem hlutafélög, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., og félög og samlög sem falla undir 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. hafa fengið greidda í arð skv. 4. tölul. C-liðar 7. gr. af hlutum og hlutabréfum í félögum er greinir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr.,sbr. XII. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Sama gildir um fjárhæð sem félög í sömu félagaformum sem skattskyld eru skv. 7. tölul. 3. gr. og eru heimilisföst í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum hafa fengið greidda í arð.“

Álitsbeiðendur benda á að niðurstaða yfirskattanefndar í úrskurði nr. 13/2017 hafi verið sú að frádráttarheimild sem um ræðir nái til arðsfjárhæðar við hlutafjárlækkun, að því tilskildu að úthlutun fjár við hlutafjárlækkunina væri heimil að hlutafélagarétti. Arðsmóttakandinn í því máli hafi verið íslenskt samlagshlutafélag, sem ekki bar sjálfstæða skattaðild, og varðaði álitaefnið frádráttarrétt hluthafa í samlagshlutafélaginu er sættu skattlagningar vegna rekstrar þess. Í þessu samhengi benda álitsbeiðendur á að þau félagaform sem falla undir tilvitnaðan 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. séu hlutafélög og einkahlutafélög, auk samlagshlutafélaga sem beri sjálfstæða skattaðild. B sé stofnsett og skráð í Noregi og beri þar í landi fulla og ótakmarkaða skattskyldu. Félagaform B sé á norsku nefnt allmennaksjeselskap (ASA). Slík norsk félög séu samsvarandi íslenskum hlutafélögum skv. lögum nr. 2/1995. Aðgreining í norskum rétti á aksjeselskap og allmennaksjeselskap svari til aðgreiningar einkahlutafélaga og hlutafélaga í íslenskum rétti. Aðgreiningin sé í tilviki beggja ríkjanna tilkomin vegna aðildar þeirra að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og sé til samræmingar við félagaréttartilskipun Evrópusambandsins.

II. Varðandi A ehf.

Álitsbeiðendur upplýsa um að komi til framkvæmdar fyrirhugaðrar lækkunar hlutafjár A ehf. fengi félagið ekkert endurgjald fyrir þá hluti í Z Ltd. sem úthlutað yrði til B. A ehf. myndu því engar tekjur hlotnast við hlutafjárlækkunina, sbr. skilgreiningu skattskyldra tekna í 7. gr. laga nr. 90/2003. Fyrir liggi að virði hlutanna í Z Ltd. nemi nú mun hærri fjárhæð en A ehf. guldu fyrir hlutina við öflun þeirra. Vakni því það álitamál hvort rétt kunni að vera að líta á afhendingu hlutanna í Z Ltd. til B sem innlausn A ehf. á verðhækkun þeirra á eignarhaldstímanum og ef svo er, hvort skattleggja beri hækkunina hjá A ehf. og þá á hvaða lagagrundvelli.

Álitsbeiðendur vísa til þess að samkvæmt 8. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 teljist til skattskyldra tekna hagnaður af sölu eigna, eins og nánar sé mælt fyrir um í 12. – 27. gr. sömu laga. Kveðið sé á um skattskyldu hagnaðar af sölu hlutabréfa í 18. gr. laganna. Álitsbeiðendur telja að þrátt fyrir notkun orðsins „hlutabréf“ í greininni sé yfir vafa hafið að ákvæði hennar taki til sölu hluta í íslenskum einkahlutafélögum, enda þótt ekki séu gefin út hlutabréf í slíkum félögum, svo og til sölu hluta í erlendum félögum sem eru í félagsformum sambærilegum íslenskum hlutafélögum og einkahlutafélögum. Það sé hugtaksatriði í sölu að endurgjald komi fyrir það sem látið sé af hendi. Í samræmi við það hugtaksatriði ákvarðist skattskyldur hagnaður af sölu hlutabréfa sem mismunur söluverðs og kaupverðs, skv. 2. mgr. 18. gr. Í 20. gr. laganna sé söluverð skilgreint heildarandvirði að frádregnum beinum kostnaði við söluna. Í 25. gr. sé kveðið á um að það teljist sala eignar þegar hún sé látin af hendi í makaskiptum. Álitsbeiðendur benda á að orðhlutinn „maka“ standi þar í merkingunni jafningi og vísi orðið makaskipti því til skipta á eignum jöfnum að verðmæti. Sé eign seld á óeðlilega lágu verði teljist mismunur eðlilegs verðs og söluverðs til skattskyldra tekna þess aðila að viðskiptunum sem njóti hins lága verðs, skv. 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003. Álitsbeiðendur benda á að engu almennu ákvæði sé fyrir að fara í lögum nr. 90/2003 sem mæli fyrir um myndun skattskyldra tekna hjá þeim sem lætur eign af hendi án endurgjalds.

Álitsbeiðendur telja að af bindandi áliti ríkisskattstjóra nr. 1/08, frá 4. febrúar 2008, megi ráða þann skilning ríkisskattstjóra að til skattlagningar íslensks félags (slitafélags) hefði getað komið vegna samruna þess við erlent félag, samkvæmt þágildandi lagaákvæðum. Ríkisskattstjóri hafi með álitinu látið uppi það álit sitt að slit íslensks félags með samruna við erlent félag félli ekki undir þágildandi ákvæði 1. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003. Um skattskyldu sem af því kunni að hljótast segi svo í álitinu: „Eitt ræðst þannig af öðru og samruni sem uppfyllir ekki framangreind skilyrði 1. mgr. 51. gr. getur þannig haft í för með skattlagningu hjá hluthöfum í því félagi sem slitið er sem og hjá félaginu sjálfu.“ Ríkisskattstjóri víki ekki nánar að því með hvaða hætti tekjur kynnu að myndast hjá slitafélaginu, eða á hvaða lagagrunni þær skyldu skattlagðar, enda hafi álitsbeiðni ekki gefið tilefni til þess.

Álitsbeiðendur benda á að með 6. gr. laga nr. 142/2013 voru breytingar gerðar á 51. gr. laga nr. 90/2003 á þann veg að greinin taki nú ekki aðeins til samruna félaga innanlands heldur einnig til samruna íslensks félags við félag innan EES, EFTA eða í Færeyjum. Í 3. mgr. 51. gr. sé nú kveðið á um að við slit íslensks félags við samruna yfir landamæri skuli fara með yfirteknar eignir, réttindi, kröfur og skuldbindingar sem seldar eða innleystar væru. Við þær aðstæður skuli reikna skattskyldar tekjur miðað við mismun á gangverði eigna og skattalegu stofnverði þeirra að teknu tilliti til áður fenginna fyrninga. Ákvörðun skatts skuli fara fram innan tveggja mánaða frá tilkynningu um staðsetningu samruna, en heimilt sé að fresta greiðslu skattsins um allt að fimm ár.

Í athugasemdum frumvarps þess sem varð að lögum nr. 142/2013 segi m.a. um ákvæði þessi:

„Að óbreyttum lögum yrði litið á samruna íslensks hlutafélags, sem rennur saman við annað hlutafélag þvert á landamæri, sem slit á hinu yfirtekna félagi með tilheyrandi uppgjöri á söluhagnaði þeirra eigna sem yfirteknar yrðu við samrunann og vegna úttektar hluthafa úr félaginu. Frumvarpið gerir hins vegar ráð fyrir því að unnt verði að fresta greiðslu skattskuldar um allt að fimm ár.“

Af þeim orðum megi ráða þá sýn frumvarpshöfunda að til staðar hafi verið lagaheimild til skattlagningar viðlíka þeirri sem mælt var fyrir um með lagabreytingunni. Ekki komi fram í umræddu frumvarpi hvar þá lagaheimild sé að finna.

Álitsbeiðendur telja að af framangreindum orðum í bindandi áliti ríkisskattstjóra nr. 1/08 og í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 142/2013 megi ráða þá sýn ríkisskattstjóra og frumvarpshöfunda að fyrir setningu þeirra laga hafi verið til staðar lagaheimild til að skattleggja sem söluhagnað slitafélags, mismun gangverðs og stofnverðs eigna sem færðust yfir til erlends viðtökufélags við samruna félaganna, enda þótt slitafélagi hafi ekkert gagngjald hlotnast. Þar sem ekki verði ráðið hver sú lagaheimild kunni að vera virðist ekki unnt að útiloka með öllu að fyrirhuguð endurgjaldslaus afhending A ehf. á hlutum í Z Ltd. til B, við lækkun hlutafjár í A ehf., kunni að leiða til myndunar skattskylds söluhagnaðar hjá A ehf.

Álitsbeiðendur upplýsa um að hlutir A ehf. í Z Ltd. séu færðir til eignar í ársreikningi 2016 á … króna, sem svari til hlutdeildar í bókfærðu eigin fé Z Ltd. umreiknuðu í íslenskar krónur. Það verðmæti sé tilkomið vegna uppsafnaðs hagnaðar Z Ltd. Kæmi til skattlagningar A ehf. af uppsafnaðri verðhækkun hlutanna væri í raun verið að skattleggja hagnað Z Ltd., enda muni A ehf. engar tekjur hlotnast af afhendingu hlutanna við fyrirhugaða hlutafjárlækkun. Álitsbeiðendur benda á að slík skattlagning virðist stríða gegn ákvæðum gildandi tvísköttunarsamnings milli Íslands og Kýpur. Í 1. tölul. 8. gr. samningsins sé mælt fyrir um að hagnaður fyrirtækis í samningsríki af rekstri skipa í flutningum á alþjóðaleiðum skuli einungis skattlagður í því ríki. Í 4. tölul. 13. gr. samningsins sé mælt fyrir um að hagnaður félags í samningsríki, sem hljótist af sölu skipa sem notuð eru í flutningum á alþjóðaleiðum, eða lausafjár sem tengt er notkun slíkra skipa, skuli einungis skattlagður í því samningsríki.

Í 9. tölul. a 31. gr. laga nr. 90/2003 sé kveðið á um heimild félaga í tilteknum félagsformum, þ.m.t. einkahlutafélaga, til að draga frá tekjum sínum hagnað af sölu hlutabréfa í hlutafélögum, einkahlutafélögum og samlagshlutafélögum. Álitsbeiðendur telja yfir vafa hafið að réttur þessi nái yfir hagnað af sölu hluta í einkahlutafélögum þótt ekki séu gefin út hlutabréf í slíkum félögum. Frádráttarrétturinn sé ekki bundinn við hagnað af sölu hluta í íslenskum félögum, heldur nái hann einnig til hagnaðar af sölu hluta í erlendum félögum, að uppfylltu því skilyrði að hagnaður af starfsemi erlenda félagsins hafi verið skattlagður með sambærilegum hætti og gert er hér á landi. Umrætt ákvæði hafi verið lögfest með 2. gr. laga nr. 38/2008. Þá vísar álitsbeiðandi til athugasemda með frumvarpi til laganna þar sem segi: „Skattfrelsi söluhagnaðar tekur til hagnaðar af sölu hlutabréfa í félögum óháð heimilisfesti þeirra. Ef um er að ræða sölu hlutabréfa í félagi sem heimilisfast er utan Íslands er gert að skilyrði að félagið hafi sætt sambærilegri skattlagningu af starfsemi sinni og gildir hér á landi.“

Álitsbeiðendur benda á að sé til staðar lagagrundvöllur fyrir því að telja til skattskylds söluhagnaðar A ehf., mismun gangverðs og stofnverðs hluta í Z Ltd., vakni það álitaefni hvort frádráttarheimild 9. tölul. a 31. gr. laga nr. 90/2003 eigi við um þann söluhagnað.

Álitsbeiðendur benda á að A ehf. sé einkahlutafélag og því sé ljóst að félagið geti almennt haft slíka frádráttarheimild. Z Ltd. sé í félagsformi samsvarandi íslenska einkahlutafélagsforminu með fastákveðið hlutafé (… evrur), skipt í tiltekinn fjölda hluta (… hluti) og beri A ehf., sem eini hluthafi þess, einvörðungu ábyrgð á skuldbindingum félagsins með hlutafénu. Því megi ljóst vera að frádráttarheimildin geti formsins vegna náð til hagnaðar af sölu hluta í Z Ltd. Eftir standi þá hvort Z Ltd. hafi sætt skattlagningu af starfsemi sinni.

Álitsbeiðendur benda á að í ákvæði 9. tölul. a 31. gr. laga nr. 90/2003 sé ekki að finna önnur viðmið um sambærilega skattlagningu en að skatthlutfall sem lagt sé á hagnað hins erlenda félags sé eigi lægra en almennt skatthlutfall í einhverju aðildarríkja OECD, EES eða EFTA eða í Færeyjum. Skilyrðið um sambærilega skattlagningu eigi sér samsvörun í skilyrði fyrir frádrætti sem mótteknum arði nemi í 9 tölul. sömu lagagreinar. Það ákvæði hafi verið lögfest með 4. gr. laga nr. 95/1998. Í athugasemdum frumvarps til þeirra laga komi fram sá tilgangur með umræddu skilyrði að því væri ætlað að koma í veg fyrir „að þeir innlendir aðilar sem valið hafa að setja sig niður í erlendum skattavinjum búi við betri skattaskilyrði en aðrir“. Í athugasemdum komi jafnframt fram að megintilgangur með frádráttarheimildinni væri „að koma í veg fyrir að hagnaður af atvinnurekstri verði skattlagður meira en aðrar tekjur vegna tvísköttunar, þ.e. skattlagningar hjá því fyrirtæki þar sem hagnaðurinn myndast og síðan aftur hjá eiganda hlutafjárins.“

Í álitsbeiðni kemur fram að Z Ltd. hafi borið ótakmarkaða skattskyldu í Noregi frá og með rekstrarárinu 2012. Tekjuskattsskylda félagsins í Noregi sé eftir almennum þarlendum reglum. Þá benda álitsbeiðendur á að tekjuskattshlutfall í Noregi hafi á þessum árum verið hærra en á Íslandi. Þá hafi Z Ltd. á sama tíma, og jafnframt allt frá því félagið hóf starfsemi, sætt tonnaskattlagningu á Kýpur. Álitsbeiðendur vísa einnig til þess að með lögum nr. 86/2007 hafi tonnaskattur kaupskipaútgerðar verið lögtekinn á Íslandi en þau lög verið felld brott með 33. gr. laga nr. 164/2011 þar sem íslensku reglurnar fólu í sér ólögmæta ríkisaðstoð, m.a. fyrir þá sök að íslenski tonnaskatturinn var of lágur í samanburði við tonnaskatt annarra ríkja innan EES. Álitsbeiðendur benda á að við samanburð skattlagningar kaupskipaútgerðar á Íslandi og á Kýpur verði ekki litið framhjá þeirri staðreynd að lög nr. 86/2007 voru gildandi réttur á árunum 2008 til 2011 og að þau hafi kveðið á um lægri tonnaskatt en sambærileg löggjöf á Kýpur, jafnt fyrir sem eftir breytingu kýpversku löggjafarinnar á árinu 2010.

Forsendur ríkisskattstjóra:

1. Almennt

Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, var komið á fyrirkomulagi þar sem einstakir skattaðilar geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar fyrirhugaðra ráðstafana.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, er það forsenda þess að ríkisskattstjóri veiti bindandi álit, að um sé að ræða álitaefni er varðar verulega skattalega hagsmuni þess sem eftir álitinu leitar og að ekki hafi verið ráðist í þær aðgerðir sem álitið varðar. Álitaefnið þarf þannig að varða fyrirhugaðar aðgerðir og skattalega stöðu álitsbeiðenda sjálfra í því sambandi.

Ríkisskattstjóri fellst á að uppfyllt séu skilyrði fyrir útgáfu bindandi álits í þessu tilviki.

Álitinu er aðeins ætlað að vera bindandi fyrir skattyfirvöld við skattlagningu álitsbeiðenda að því er þau atvik varðar er álitið tekur til, sbr. 6. gr. laga nr. 91/1998. Álitið bindur þannig ekki skattyfirvöld með sama hætti gagnvart öðrum þeim er kunna að telja sig vera í sambærilegri stöðu hvað varðar málsatvik og réttaráhrif hins bindandi álits.

Álitið er byggt á skattalegri stöðu álitsbeiðenda miðað við gildandi rétt og framfærða málavexti en verði breytingar þar á kunna þær forsendur sem álitið er reist á að falla úr gildi og þar með álitið sjálft.

II. Skattskylda A ehf. vegna afhendingar hluta í Z Ltd. til B

Eins og fram hefur komið er Z Ltd. dótturfélag A ehf., sem aftur er dótturfélag B. Z Ltd. er skráð á Kýpur en ber ótakmarkaða skattskyldu í Noregi, þar sem raunveruleg framkvæmdastjórn félagsins er þar í landi. Nánar hefur verið upplýst:

  • að Z Ltd. er skráð og stofnað á Kýpur á árinu 1990
  • að Z Ltd. hefur sætt tonnaskattlagningu á Kýpur frá stofnun
  • að núgildandi tonnaskattskerfi Kýpur var lögfest í maí 2010 og hefur gilt frá því rekstrarári
  • að Z Ltd. hefur borið ótakmarkaða almenna skattskyldu í Noregi frá og með rekstrarárinu 2012

Fyrirhugað er að lækka hlutafé í A ehf., sem skattskylt er hér á landi skv. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, og greiða út eignir félagsins sem samsvara lækkun hlutafjárins til aðaleiganda þess eða B. Í þessu tilviki yrði lækkunarfjárhæðin greidd út í formi hlutafjár eða sem næmi heildarhlut hluta A ehf. í Z Ltd.

Samkvæmt 2. málsl. 3. mgr. 34. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, skulu eftir hlutafjárlækkunina vera eignir sem svara a.m.k. til hlutafjárins og lögmæltra varasjóða. Þá ber að hafa í huga ákvæði 4. mgr. tilvitnaðrar lagagreinar um að ef greiða á af eignum félagsins hærri fjárhæðir en sem nemur lækkunarfjárhæðinni, þá skuli geta þess bæði í ákvörðuninni og áskorun skv. 36. gr. laganna ásamt því að tilgreina þá fjárhæð sem umfram er.

Samkvæmt 2. málsl. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 telst sú fjárhæð sem greidd er út til hluthafa umfram kaupverð við lækkun hlutafjár til arðs. Í því tilviki sem hér um ræðir er upplýst að skráð hlutafé A ehf. er … kr., en ekki liggur fyrir, hvaða fjárhæð kaupverð hlutafjár í hendi aðaleiganda nemur.

Lækkun hlutafjár hefur í för með sér innlausn þess hlutafjár sem lækkuninni nemur og lætur félag við þær aðstæður af hendi reiðufé, sem heimilt er að ráðstafa úr frjálsum sjóðum félagsins. Við þær aðstæður að reiðufé er ekki fyrir hendi kann það að leiða til þess að félag telur sig tilknúið að selja eignir eða láta eignir af hendi. Afsali félag eignum sínum hefur það almennt í för með sér annað hvort söluhagnað eða tap. Almennt þykir engu varða við tölulegt uppgjör hagnaðar eða taps, hvaða forsendur búa að baki því að félag ráðstafar eignum sínum. Yfirfærsla eigna frá einum skattaðila til annars fer almennt fram á gangvirði og skal í skattalegu tilliti hið sama gilda í viðskiptum milli tengdra aðila, hvort heldur afhending fer fram gegn endurgjaldi í reiðufé eða greitt er á annan hátt. Forsendur skattaðila ráða þannig ekki einar og sér ákvörðun á verðlagningu yfirfærðra verðmæta, þar með talið skattskyldum tekjum samningsaðila. Á þetta við hvort heldur raunveruleg sala hefur átt sér stað, almenn úttekt eiganda á fjárhagslegum verðmætum, eignir hafa verið yfirfærðar við ólögmætan samruna eða skipti félaga, gjöf eða skattákvörðun er byggð á flutningi fjárhagslegra réttinda milli félaga við millilandasamruna, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003 eða skipti, sbr. 4. mgr. 52. gr. tilvitnaðra laga. Þá mætti lengi telja upp afbrigði verðákvörðunar eða verðleiðréttingar ríkisskattstjóra við aðilaskipti að fjárhagslegum verðmætum samkvæmt 57. gr. laga nr. 90/2003. Afhending rekstrareigna, þ.e. eigna sem aflað hefur verið til að selja aftur með hagnaði eða nýta í þágu rekstrar, telst almennt skattskyld nema annað sé tekið fram. Þá þykir mega vísa til tilvísunar álitsbeiðenda í almennar athugasemdir við þá breytingu á ákvæðum um skattskyldan arð, sem gerð var með lögum nr. 95/1998, þ.e. „Í fimmta lagi er lögð til breyting sem snertir skattlagningu við slit félaga og lækkun hlutafjár. Er gert ráð fyrir að færa það ákvæði í sama horf og það var í fyrir gildistöku laga um fjármagnstekjuskatt, þ.e. að líta á úthlutun sem arðgreiðslu en ekki söluhagnað. Þó er gert ráð fyrir sömu skattlagningarreglum og gilda um söluhagnað þannig að breytingin hefur ekki áhrif á skattskyldu innlendra aðila en leiðir til þess að erlendur aðili yrði við félagsslit og lækkun hlutafjár skattskyldur hér á landi á sama hátt og hann hefði orðið vegna arðgreiðslu.“

Afhending rekstrarfjármuna, úttekt úr rekstri, eða önnur ráðstöfun á eignum atvinnurekstrar, sem aflað var í tekjuöflunarskyni verður almennt ekki gerð án þess að þeirri eignarskerðingu sé í skattalegu tilliti mætt með endurgjaldi eða í ígildi þess sem samsvari þeim tekjum sem sú eign sem var látin af hendi hefði öllu jafna gefið af sér, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands nr. 143/2009 og 217/2015. Þykir ekki skipta máli hvort heldur gjaldfærður hefur verið fjármagnskostnaður við kaupin, eignum viðhaldið eða þær fyrndar. Ljóst er þannig að ekki er unnt að komast undan skattskyldu söluhagnaðar hjá sjálfstæðum rekstraraðila við það eitt að afhenda eignir eigendum án endurgjalds, sem gjöf eða í formi úthlutaðs arðs. Þykir og nokkuð langt til seilst að vísa til þess að ákvæði í tvísköttunarsamningum standi í vegi þess að seljendum hlutabréfa sé almennt ákvörðuð skattskylda söluhagnaðar, hvort heldur mismunur söluverðs og stofnverð hefur myndast vegna spár um framtíðarverðgildi félags eða aukins innra virði þess.

Samkvæmt framansögðu er litið á afhendingu A ehf. á hlutum í Z Ltd. sem sölu og fer um ákvörðun skattskylds söluhagnaðar A ehf. eftir ákvæðum 18. gr. laga nr. 90/2003, sbr. meginreglu 9. gr. laganna. Skattskyldur söluhagnaður hluta í Z Ltd. ákvarðast sem mismunur á gangverði eða innra virði þess félags samkvæmt þeim ársreikningi sem næstur fer á undan fyrirhugaðri úthlutun og stofnverði þeirra hluta í hendi A ehf.

III. Skattskylda B vegna móttöku hluta í Z Ltd. frá A ehf.

B, eigandi allra hluta í A ehf., er skráð í Noregi en ber hér á landi eftir atvikum takmarkaða skattskyldu við þær aðstæður sem nefndar eru í 7. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003.

Samkvæmt 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 telst til arðs lækkun hlutafjár sem greidd er út til hluthafa. Fari greiðslan fram með öðrum hætti en að reitt sé fram reiðufé skal meta þau verðmæti sem annars eru afhent til peningaverðs og er þá viðmið við almennt gangverð haft í huga, sbr. það sem síðar segir. Í samræmi við tilvísun umboðsmanns álitsbeiðanda til athugasemda í frumvarpi að baki 4. mgr. 11. gr., sbr. lög nr. 154/1998, fer um ákvörðun skattskyldu arðsfjárhæðar sem um söluhagnað væri að ræða, þ.e. mismunur verðmætis úthlutaðra hluta í Z Ltd. á úthlutunardegi í formi arðgreiðslu og upphaflegs kaupverðs innleystra hluta B í A ehf. telst til arðs í skilningi tilvitnaðs 2. málsl. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003.

Ákvörðun verðmætis hlutabréfa skal á úthlutunardegi miðast við þá meginreglu sem mörkuð er í 9. gr. laga nr. 90/2003, þ.e. að til skattskyldra tekna telst mismunur á kaupverði og gangverði bréfanna á þeim degi sem kaup fara fram. Með gangverði er átt við skráð markaðsverð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði. Þá er í ákvæðinu tekið fram að ef hlutabréf í félagi eru ekki skráð í kauphöll, þá skuli miða við gangverð þeirra í viðskiptum, annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi. Má í þessu sambandi vísa til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 354/2015, en þar segir:

„Fyrir liggur að R var skráð í Danmörku, en samkvæmt því sem fram er komið voru hlutabréf í félaginu ekki skráð á skipulegum verðbréfamarkaði á þeim tíma sem málið varðar. Þá liggja engar upplýsingar fyrir um viðskipti með hlutabréf í félaginu, en ríkisskattstjóri krafði kæranda um slíkar upplýsingar með bréfi sínu, dags. 30. júlí 2013, sem ekki var svarað af hálfu kæranda. Við verðmat hlutabréfanna í R miðaði ríkisskattstjóri við söluverðið 5.133.866 kr. vegna sölu á árinu 2008 og 3.456.631 kr. vegna sölu á árinu 2009 og leit í því sambandi til hlutfalls eigin fjár af skráðu heildarhlutafé félagsins, þ.e. innra virðis félagsins í árslok 2008 og 2009, en samkvæmt því hefði gengi bréfanna í viðskiptunum átt að vera 0,900 en ekki 17,523 fyrra árið og 0,950 en ekki 12,476 síðara árið. Það sem reynir hér á að leysa úr, er því hvort mat ríkisskattstjóra í þessu sambandi sé byggt á nægilega traustum grundvelli.

Í þeim tilvikum þegar glöggra upplýsinga nýtur ekki um gangverð hlutabréfa í viðskiptum verður að telja að almennt sé viðhlítandi að byggja mat á gangverði hlutabréfanna á bókfærðu verði eigin fjár viðkomandi félags samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi þess, sbr. lög nr. 3/2006, um ársreikninga. Er nú gert ráð fyrir slíkri verðviðmiðun í lögum um tekjuskatt, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2003, og raunar víðar í skattalöggjöf, sbr. t.d. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt. Í andmælabréfi umboðsmanns kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 6. desember 2013, voru ekki gerðar sérstakar athugasemdir við mat ríkisskattstjóra á verðmæti hlutafjár í R, en lögð áhersla á að kærandi hefði fjármagnað kaup sín á hlutafé í hinu erlenda félagi með lánveitingu frá L hf. og ekki hagnast á fjárfestingunni. Í kæru til yfirskattanefndar er viðmiðun ríkisskattstjóra mótmælt, en látið sitja við almennar hugleiðingar um verðmat fyrirtækja auk þess sem skírskotað er til skýringa sem fram komu í bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 20. mars 2013, og lutu að því að lækkun á innra virði R yrði að mestu rakin til þess að horfur hefðu verið á því að stærsti leigutaki félagsins, R, myndi ekki endurnýja leigusamning við félagið. Hafi þær fréttir „[rýrt] virði félagsins tímabundið“, eins og sagði í bréfinu. Ekki verður séð að þessar athugasemdir séu sjónarmiðum kæranda varðandi verðmæti hlutafjárins til styrktar, enda hlýtur óvissa um framtíðarhorfur í rekstri af þeim toga sem hér er lýst að hafa í för með sér lækkun á markaðsverðmæti hlutabréfa í félagi.“ (feitletrað hér)

IV. Heimild A ehf. til frádráttar samkvæmt 9. tölul. a 31. gr. laga nr. 90/2003

Fram hefur komið að litið er svo á að fara beri með afhendingu hlutabréfa í Z Ltd. sem sölu þeirra bréfa í hendi A ehf. Sala hlutabréfa eða hluta á almennt undir 18. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt því ber að skoða hvort útleiddur söluhagnaður svo sem lagt er upp með hér að framan eigi mögulega undir frádráttarheimild 9. tölul. a 31. gr. laga nr. 90/2003. Fram hefur komið að Z Ltd. er skráð á Kýpur en hefur borið ótakmarkaða skattskyldu samkvæmt norskum skattalögum frá og með rekstrarárinu 2012 vegna heimilisfestar stjórnarmanna þar í landi.

Ákvæði 9. tölul. a 31. gr. tekjuskattslaga kemur inn sem breyting á þeim lögum með c-lið 2. gr. laga nr. 38/2008 og skyldi þegar taka gildi og koma til framkvæmda við álagningu 2009. Ákvæðið hefur samstöðu hvað varðar frádráttarbærni með 9. tölul. 31. gr., sem lögfest var með 4. gr. laga nr. 95/1998. Í ákvæði 9. tölul. segir: „ef það félag sem arðinn fær sýnir fram á að hagnaður hins erlenda félags hafi verið skattlagður með sambærilegum hætti og gert er hér á landi.“ Texti 9. tölul. a er svohljóðandi: „ef seljandi sýnir fram á að hagnaður af starfsemi hins erlenda félags hafi verið skattlagður með sambærilegum hætti og gert er hér á landi.“ Ljóst þykir að í báðum tilvikum er verið að fjalla um að álagning tekjuskatts sé sambærileg og hér á landi en ekki að lagðir hafi verið á aðrir sambærilegir skattar. Má í þessu sambandi vísa til athugasemda að baki 4. gr. laga nr. 95/1998, en þar segir: „Greinin kveður einnig á um að hið sama skuli gilda um arð sem móttekinn er frá útlöndum að uppfylltu því skilyrði að þar hafi hagnaður hlutafélagsins, sem verið er að úthluta, verið skattlagður með svipuðum hætti og gert er hér á landi. Tilgangurinn með því skilyrði er að koma í veg fyrir að þeir innlendir aðilar sem valið hafa að setja sig niður í erlendum skattavinjum búi við betri skattaskilyrði en aðrir.“ Ljóst þykir af þeim forsendum sem raktar eru í greinargerð með breytingu þessari að hér er átt við álagningu tekjuskatts en ekki annarra skatta. Sama á við um forsendur að baki 9. tölul. a 31. gr. að átt er við tekjuskatt sambærilegan því sem lagður er á hér á landi eða „ það skatthlutfall …….sé eigi lægra en almennt skatthlutfall í einhverju aðildarríkja Efnahags– og framfarastofnunarinnar í París (OECD) …“ en ekki aðra skatta svo sem tonnaskatt. Þá má benda á að við mat á skattskyldu vegna eignarhalds á CFC félögum er litið til samanburðar á tekjuskattshlutfalli hér á landi en ekki annarra skatta.

Fram hefur komið að Z Ltd. var stofnað á Kýpur á árinu 1990 og hefur sætt tonnaskattlagningu í einu eða öðru formi frá upphafi skráningar. Þá hefur verið upplýst um að félagið hafi verið skattskylt í Noregi frá árinu 2012. Ljóst er að þannig að hagnaður félagsins hefur frá upphafi ekki sætt sambærilegri skattlagningu eða verið skattlagður með sambærilegum eða svipuðum hætti og hér á landi, þrátt fyrir að hafa sætt skattskyldu í Noregi hin síðari ár. Skattskylda ein og sér leiðir t.a.m. ekki til skattlagningar nema hagnaður hafi verið af rekstri lögaðila. Sá arður sem innleystur er við lækkun hlutafjár kann að vera uppsafnaður til margra ára, t.d. á lágskattasvæði, og myndast fyrir upphaf skattskyldu, þannig að síðar tilkomin skattskylda til eins eða fleiri ára verður ekki talin uppfylla skilyrði um sambærilega skattskyldu. Þá verður ekki talið að þannig uppsafnaður hagnaður á starfstíma félags hafi sætt sambærilegri skattlagningu og hér á landi. Vísa má til almennra athugasemda með frumvarpi, sbr. þskj. 508 — 325. mál, 135. löggjafarþing 2007 - 2008, því sem lagt var fram til grundvallar þeirri breytingu á tekjuskattslögum sem heimilaði frádrátt söluhagnaðar af hlutabréfum, en þar segir:

„ Í þessu frumvarpi er að finna tillögur um breytingar á skattskyldu hagnaðar af sölu hlutabréfa óháð eðli og eignarhaldstíma hlutabréfanna í hendi seljanda, sem í mörgu svipar til norsku reglnanna. Þó ganga þær nokkuð lengra en þær norsku að því leyti að þær eru ekki bundnar við hlutabréfaviðskipti innan EES heldur ná þær einnig til hlutabréfa í fyrirtækjum sem staðsett eru utan EES, en þó ekki á lágskattasvæðum. Ástæða þess er m.a. sú að eðlilegt er talið að sambærilegar reglur gildi um skattlagningu arðs og söluhagnaðar af hlutabréfum, en í gildandi lögum eru sambærileg ákvæði varðandi skattfrelsi arðgreiðslna milli fyrirtækja.“

Ekki er þannig unnt að halda því fram að félagið hafi á umræddu tímabili sætt sambærilegri skattlagningu eða verið skattlagt með svipuðum hætti, þrátt fyrir að hafa verið skattskylt í Noregi hin síðari ár.

Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að uppfyllt séu skilyrði frádráttar samkvæmt 9. tölul. a 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

V. Heimild B til frádráttar samkvæmt 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003

Fyrirhuguð lækkun hluta í A ehf. varðar B sem eiganda alls hlutafjár í félaginu. Þá fjármuni sem samsvara lækkun hluta er ætlað að greiða út til eina hluthafa félagsins í formi úthlutunar hlutabréfa í Z Ltd. í eigu A ehf. Verðmæti sem úthlutað er við lækkun hlutafjár eða hluta teljast til arðs, sbr. 2. málsl. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Ljóst er að arðgreiðsla í þessu formi kallar á að afhentir hlutir í Z Ltd. verði metnir til gangvirðis, sbr. það sem segir hér að framan. Skattskyldur arður í hendi B við niðurfærslu bréfanna í A ehf. myndi þannig ákvarðast sem mismunur á fjárhæð (raunvirði) þeirrar úthlutunar hluta í Z Ltd. sem samsvarar lækkun hlutafjár (hluta í A ehf.) og þess verðs sem goldið var fyrir þá hluti í upphafi. Löglega úthlutaður arður samkvæmt XII. kafla laga nr. 2/1995 og laga nr. 138/1994 heimilast til frádráttar að uppfylltum skilyrðum 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Móttakandi arðs skal t.a.m. vera félag, sbr. 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, heimilisfast á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.

B er skráð og skattskylt í Noregi, þannig að telja verður að uppfyllt séu framangreind skilyrði heimildar til frádráttar á fjárhæð móttekins og skattskylds arðs sem úthlutað yrði með lögmætum hætti.

Álitsorð:

Ríkisskattstjóri hefur komist að eftirfarandi niðurstöðu vegna þeirra álitaefna sem sett eru fram í álitsbeiðninni:

  1. Litið yrði á afhendingu hluta í Z Ltd. sem sölu og færi um ákvörðun skattskylds söluhagnaðar A ehf. vegna afhendingar hluta í Z Ltd. til B eftir ákvæðum 18. gr. laga nr. 90/2003, sbr. meginreglu 9. gr. laganna. A ehf. yrði ekki heimilt að færa til frádráttar sömu fjárhæð og tekjunum næmi, skv. 9. tölul. a 31. gr. laga nr. 90/2003.
  2. Tekjur B vegna fyrirhugaðrar hlutafjárlækkunar yrðu skattskyldar á Íslandi. Um ákvörðun arðsfjárhæðar færi sem um söluhagnað væri að ræða, þ.e. mismunur verðmætis úthlutaðra hluta í Z Ltd. á úthlutunardegi og upphaflegs kaupverðs innleystra hluta B í A ehf. teldust til arðs í skilningi 2. málsl. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Ákvörðun verðmætis hlutabréfa bæri á úthlutunardegi að miða við þá meginreglu sem mörkuð er í 9. gr. laga nr. 90/2003. B yrði heimilt að færa til frádráttar sömu fjárhæð og arðinum næmi, skv. 9. tölul. a 31. gr. laga nr. 90/2003.
Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum