Bindandi álit

Bindandi álit 6/2018

25.6.2018

Um álitsbeiðendur:

Í álitsbeiðni kemur fram að A ehf. sé móðurfélag B ehf. og C ehf. þar sem bæði félögin séu 100% í eigu félagsins. A ehf. eigi einnig 99,99% hlut í D slhf. og E slhf. sem bæði séu ósjálfstæðir skattaðilar. Á móti A ehf. eigi dótturfélagið C ehf. 0.01% hlut í D slhf. og B ehf. eigi 0,01% hlut í E slhf.

Fyrirhugaðar ráðstafanir álitsbeiðenda:

Álitsbeiðendur upplýsa um að fyrirhugað sé að endurskipuleggja félagasamstæðuna á þann veg að breyta D slhf. og E slhf. í hlutafélög á grundvelli sértækrar heimildar samkvæmt 163. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Tilgangurinn með fyrirhugaðri endurskipulagningu sé að samræma og einfalda samstæðuna. Jafnframt sé fyrirhugað að félögin verði hluti af samsköttun samstæðunnar.

Álitaefni:

Álitsbeiðendur fara þess á leit við ríkisskattstjóra að embættið staðfesti eftirfarandi með bindandi áliti:

  1. Að fyrirhuguð breyting á ósjálfstæðu skattaðilunum E slhf. og D slhf. í hlutafélög, sbr. 3. mgr. 163. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, sé heimil samkvæmt lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt og að fyrirhuguð breyting hafi ekki í för með sér skattlagningu.
  2. Að félögunum E slhf. og D slhf. verði eftir breytingu í hlutafélög veitt samsköttun með samstæðunni.

Rökstuðningur álitsbeiðenda:

I.          Fyrirhuguð breyting á skattaðild E slhf. og D slhf.

Álitsbeiðendur vísa til þess að í XX. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög (hfl.) sé fjallað um samlagshlutafélög. Þar segi í 1. málsl. 1. mgr. 163. gr. laganna að hluthafafundur í samlagshlutafélagi geti, með þeim fjölda atkvæða sem krafist sé til breytinga á félagssamþykktum og samþykki ábyrgðaraðila, samþykkt að breyta samlagshlutafélagi í hlutafélag. Við breytinguna taki hlutafélagið við öllum eignum og skuldum samlagshlutafélagsins án þess að samþykki lánardrottna þurfi að koma til, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 163. gr. hfl. Breyting samlagshlutafélags í hlutafélag teljist hafa átt sér stað þegar félagssamþykktum hafi verið breytt á þann veg að það fullnægi kröfum laganna enda hafi breytingar á samþykktum verið skráðar og tilkynning þar að lútandi birt í Lögbirtingarblaði, sbr. 3. mgr. 163. gr. hfl. 

Þegar framangreindum ákvæðum um samlagshlutafélag hafi verið bætt við lög um hlutafélög með lögum nr. 88/2006 um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum, hafi samhliða verið gerðar breytingar á tekjuskattslögum nr. 77/2006 um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 88/2006 segi „lagt er til að samlagshlutafélag teljist ekki sjálfstæður skattaðili nema eftir því sé sérstaklega óskað við skráningu“. Sömu athugasemdir komi fram í athugasemdum við frumvarp laga nr. 77/2006 um breytingu á lögum um tekjuskatt. Þar sem sérstaklega þurfi að óska eftir því að samlagshlutafélag teljist sjálfstæður skattaðili við skráningu félagsins verði að telja að meginreglan sé sú að samlagshlutafélög séu ósjálfstæðir skattaðilar og séu í eðli sínu ósjálfstæðir skattaðilar við stofnun. 

Álitsbeiðendur vísa til þess að í héraðsdómi E-31/2010 hafi verið fjallað um það álitaefni hvort sameignarfélag sem var ósjálfstæður skattaðili gæti breytt skattskyldu sinni og verið sjálfstæður skattaðili frá og með ákveðnu tímamarki. Í niðurstöðum héraðsdóms hafi komið fram að ágreiningur málsins hafi lotið að túlkun á skattskyldu lögaðila og þeim skilyrðum sem um hana gildi samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í stofnsamningi sameignarfélagsins hafi komið fram að félagið væri ekki sjálfstæður skattgreiðandi og að í samræmi við skattframkvæmd yrði skattaleg staða sameignarfélags sem sé ósjálfstæður skattaðili ákvörðuð þegar í upphafi við stofnun félagsins.  

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðendur telji að þau sjónarmið sem lögð voru til grundvallar niðurstöðu héraðsdóms eigi ekki við í þessu tilviki enda sé skýr lagaheimild í 163. gr. hfl. fyrir breytingu á félagaformi samlagshlutafélags í hlutafélag. Sameignarfélög séu samstarfsform sem byggist á samningi tveggja eða fleiri aðila um sameiginlega fjárhagslega starfsemi þar sem félagsmenn beri allir beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins, sbr. 2. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög. Þau séu því að eðlinu til ólík samlagshlutafélögum. Auk þess sé eðlismunur á því hvort breytt sé um félagsform, t.d. með breytingu á samlagshlutafélagi í hlutafélag, eða breytingu á skattaðild líkt og í tilvitnuðum héraðsdómi. Að mati álitsbeiðenda hafi tilvitnaður héraðsdómur því ekki fordæmisgildi í þessu máli. 

Álitsbeiðendur vísa til þess að hvorki í hlutafélagalöggjöfinni né tekjuskattslöggjöfinni komi fram að aðeins samlagshlutafélög sem eru sjálfstæðir skattaðilar geti nýtt sér lagaheimild 163 gr. hfl. Þvert á móti sé meginreglan sú að samlagshlutafélög séu ósjálfstæðir skattaðilar og því hefði þurft að tilgreina sérstaklega ef slík félög ættu ekki að geta nýtt sér lagaheimild 163. gr. hfl. þar sem hlutafélög séu sjálfstæðir skattaðilar. 

Álitsbeiðendur telja í samræmi við framangreint og í samræmi við meginregluna um að samlagshlutafélög séu ósjálfstæðir skattaðilar að ákvæði XX. kafla hfl. eigi við um slík félög. Því sé ekkert því til fyrirstöðu að breyta E slhf. og D slhf. í hlutafélög, E hf. og D hf., að uppfylltum ákvæðum XX. kafla hfl., einkum 163. gr. laganna. 

Þá vísa álitsbeiðendur til þess að í 2. mgr. 53. gr. laga nr. 90/2003 segi að ef sameignarfélagi er breytt í hlutafélag þ.a. eigendur í fyrrnefnda félaginu fái eingöngu hlutabréf í síðarnefnda félaginu sem gagngjald fyrir eignarhluti sína í félagi því sem slitið var, ætti breytingin ekki að hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir eigendur sameignarfélagsins og félagið sjálft. Heimild til að breyta sameignarfélagi í hlutafélag sé því m.a. bundin við að sameignarfélaginu sé slitið og að nýr lögaðili, hlutafélag, sé stofnaður. Við slíka breytingu taki hlutafélagið við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum sameignarfélagsins. Séu ákvæði 53. gr. laga nr. 90/2003 ekki uppfyllt hafi verið litið svo á að um skattskylda sölu eigna væri að ræða. 

Álitsbeiðendur vísa til þess að ákvæði um samlagshlutafélög séu ólík ákvæðum um sameignarfélög þar sem skýra lagaheimild sé að finna um breytingu á samlagshlutafélögum í hlutafélög í 163. gr. hfl. Í ákvæðinu komi ekki fram að samlagshlutafélagi sé slitið og að nýr lögaðili sé stofnaður. Þvert á móti teljist breyting samlagshlutafélags í hlutafélag hafa átt sér stað þegar félagssamþykktum hefur verið breytt á þann veg að það fullnægi kröfum hlutafélagalaga enda hafi breytingarnar á samþykktum verið skráðar og tilkynning þar að lútandi birt í Lögbirtingarblaði, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 163. gr. hfl. Gefa skuli út hlutabréf í hlutafélagi áður en ár sé liðið frá breytingunni og óheimilt sé að gefa þau út fyrir breytinguna, sbr. 4. mgr. hfl. Í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 88/2006, segi um 163. gr. hfl. að „ákvæði 1.-3. mgr. eru byggð á 1. og 2. mgr. 107. gr. laga um einkahlutafélög […] auk þess eru í greininni 4. og 5. mgr. sem byggjast 3. og 4. mgr. 107. gr. laga um einkahlutafélög.“ Álitsbeiðendur vísa til þess að ákvæði 1. og 2. mgr. 107. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög hafi þá hljóðað svo: 

Hluthafafundur getur, með þeim fjölda atkvæða sem krafist er til breytinga á félagssamþykktum, samþykkt að breyta einkahlutafélagi í hlutafélag. Ákvæði 5. gr. a-c í lögum um hlutafélög gilda eftir því sem við á. Framlagning skýrslu og útsending hennar fer þó eftir 4. mgr. 63. gr. laga þessara. Tilkynningu um samþykktina skal innan tveggja vikna senda öllum skráðum hluthöfum sem sóttu ekki hluthafafundinn. 

Breyting einkahlutafélags í hlutafélag telst hafa átt sér stað þegar félagssamþykktum hefur verið breytt á þann veg að þær fullnægi kröfum laga um hlutafélög og félagið hefur verið skráð sem hlutafélag í hlutafélagaskrá. 

Gefa skal út hlutabréf í hlutafélagi áður en ár er liðið frá breytingunni. Óheimilt er að gefa þau út fyrir breytinguna. 

Ef liðin eru fimm ár frá breytingunni án þess að allir réttbærir aðilar hafi sett fram beiðni um að fá hlutabréf sín í hlutafélaginu getur stjórn hlutafélagsins með auglýsingu í Lögbirtingablaði skorað á aðila að vitja hlutabréfanna innan sex mánaða. Þegar fresturinn er liðinn og enginn hefur gefið sig fram getur stjórnin á kostnað viðkomandi hluthafa selt hlutabréfin hlutafélaginu fyrir milligöngu aðila sem að lögum er heimilt að versla með slík bréf. Frá söluandvirðinu getur félagið dregið kostnað við auglýsinguna og söluna. Hafi söluandvirðið ekki verið sótt innan fimm ára frá sölu rennur fjárhæðin til félagsins.“ 

Álitsbeiðendur benda á að þegar einkahlutafélagi er breytt í hlutafélag, og öfugt, hafi aðeins verið breytt um félagaform lögaðilans og hann haldið sömu kennitölu. Í þeim tilvikum hafi lögaðila ekki verið slitið og nýr lögaðili stofnaður, eins og eigi við um sameignarfélög sbr. 2. mgr. 53. gr. laga nr. 90/2003. 

Álitsbeiðendur vísa til þess að þar sem eignarhald verði óbreytt ásamt því að um sömu lögaðila verði að ræða, þrátt fyrir breytingu á félagaformi, telji álitsbeiðendur að breyting á félagaformi E slhf. og D slhf. í hlutafélag verði ekki talin leiða til skattlagningar, t.d. á yfirfærslu tekna eða eigna, eins og geti átt við um sameignarfélög. Álitsbeiðendur telja að fara eigi með breytingarnar í skattalegu tilliti eins og þegar einkahlutafélagi er breytt í hlutafélag. Við breytinguna verði félögin hlutafélög, sem séu sjálfstæðir skattaðilar, og telja álitsbeiðendur því einu breytinguna vera að ekki yrði lengur litið í gegnum félögin, þar sem skattstofninn verði færður til A ehf., B ehf. og C ehf. Þess í stað yrði skattstofninn skattlagður í félögunum sjálfum ásamt því að tap sem myndist í rekstrinum myndi haldast í félögunum sjálfum. 

Með vísan til framangreinds óska álitsbeiðendur eftir því að ríkisskattstjóri staðfesti að álitsbeiðendum sé heimilt að breyta E slhf. og D slhf., ósjálfstæðum skattaðilum, í hlutafélög, sbr. XX. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Þá óska álitsbeiðendur einnig eftir því að ríkisskattstjóri staðfesti að slík breyting hafi ekki í för með sér skattlagningu hjá félögunum. Álitsbeiðendur óska jafnframt eftir því að ríkisskattstjóri taki afstöðu til þess hvað verði um tap sem hefur þegar myndast í E slhf. og D slhf., þ.e. hvort það flyst með félögunum og verði nýtanlegt í hlutafélögunum E hf. og D hf. eða hvort það verði eftir í móðurfélaginu við breytingu á félagaformum dótturfélaganna. 

II.        Heimild E slhf. og D slhf. til samsköttunar með samstæðunni

Álitsbeiðendur vísa til þess að ríkisskattstjóri geti heimilað að tvö eða fleiri hlutafélög, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., séu skattlögð saman, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 90/2003. Skilyrði fyrir samsköttun sé að eigi minna en 90% hlutafjár í dótturfélögunum sé í eigu móðurfélagsins sem óski samsköttunar ásamt því að öll hlutafélögin þurfi að hafa sama reikningsár og eignarhald að hafa varað allt reikningsárið. A ehf. eigi 99,99% hlut í E slhf. og D slhf. og muni því eftir breytingu á félagaformi félaganna eiga 99,99% hlut í E hf. og D hf. Félögin hafi öll sama reikningsár og eignarhald A ehf. á félögunum hafi varað frá lokum árs 2016. Álitsbeiðendur telja því skilyrði ákvæðisins fyrir samsköttun uppfyllt. 

Í álitsbeiðni kemur fram að komist ríkisskattstjóri að þeirri niðurstöðu að skilyrði ákvæðisins teljist ekki uppfyllt þar sem eignarhald A ehf. á hlutafélögunum hafi ekki varað allt reikningsárið telja álitsbeiðendur að líta verði á breytingu félagaformsins sem nýstofnuð félög samkvæmt ákvæðinu, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 90/2003, og að skilyrði ákvæðisins væru uppfyllt. 

Álitsbeiðendur óska eftir því að ríkisskattstjóri staðfesti að álitsbeiðendur, þá E hf. og D hf., geti fengið samsköttun með samstæðunni á grundvelli umsóknar um slíkt. 

Forsendur ríkisskattstjóra:

I.          Almennt         

Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, var komið á fyrirkomulagi þar sem einstakir skattaðilar geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar fyrirhugaðra ráðstafana. 

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, er það forsenda þess að ríkisskattstjóri veiti bindandi álit, að um sé að ræða álitaefni er varðar verulega skattalega hagsmuni þess sem eftir álitinu leitar og að ekki hafi verið ráðist í þær aðgerðir sem álitið varðar. Álitaefnið þarf þannig að varða fyrirhugaðar aðgerðir og skattalega stöðu álitsbeiðenda sjálfra í því sambandi. 

Ríkisskattstjóri fellst á að uppfyllt séu skilyrði fyrir útgáfu bindandi álits í þessu tilviki.

Álitinu er aðeins ætlað að vera bindandi fyrir skattyfirvöld við skattlagningu álitsbeiðenda að því er þau atvik varðar er álitið tekur til, sbr. 6. gr. laga nr. 91/1998.  Álitið bindur þannig ekki skattyfirvöld með sama hætti gagnvart öðrum þeim er kunna að telja sig vera í sambærilegri stöðu hvað varðar málsatvik og réttaráhrif hins bindandi álits. 

Rétt er að benda á að ríkisskattstjóri veitir ekki bindandi álit um hvort tilteknar fyrirhugaðar aðgerðir séu lögmætar að félagarétti enda taka lög nr. 91/1998 eingöngu til álitamála sem snerta álagningu skatta og gjalda sem eru á valdssviði ríkisskattstjóra og falla undir úrskurðavald yfirskattanefndar. Engu að síður kann að vera nauðsynlegt að fjalla um hvort þær lagalegu forsendur, sem fyrirhuguðum skattalegu ráðstöfunum er ætlað að byggja á, fái almennt staðist. Á þeim grundvelli yrði síðan tekin afstaða til þess hvort af þeim leiði þau skattalegu réttaráhrif sem stefnt er að. 

II.        Breyting á skattaðild E slhf. og D slhf.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, hvílir full og ótakmörkuð skattskylda á skráðum hlutafélögum og einkahlutafélögum, svo og samlagshlutafélögum, enda sé þess óskað við skráningu að samlagshlutafélagið sé sjálfstæður skattaðili. Undantekningu frá framangreindu er að finna í 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 þar sem þeir lögaðilar eru undanþegnir skattskyldu sem um ræðir í 2. gr. og hér eiga heimili, ef þeir verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. 

Samkvæmt framangreindu búa tilteknir lögaðilar við þá sérstöðu í skattalegu tilliti að unnt er samkvæmt ákvörðun eigenda og að uppfylltum lagaskilyrðum að velja um, hvort félag beri sjálfstæða eða ósjálfstæða skattaðild, sbr. tilvitnaðan 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna. Ákvæðinu var breytt með 1. gr. laga nr. 77/2006, um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 77/2006 kemur fram að samkvæmt gildandi lögum sé samlagshlutafélag sjálfstæður skattaðili með sama hætti og hlutafélag þrátt fyrir að hluti félagsaðila í samlagshlutafélagi beri ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum þess. 

Í athugasemdum við 1. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 77/2006 kemur fram að lagt sé til að samlagshlutafélögum verði gert kleift að starfa án þess að vera sjálfstæðir skattaðilar með sambærilegum hætti og gildir um sameignarfélög og samlagsfélög. Þá segir: 

„Í a-lið greinarinnar er lögð til breyting á 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. í þá veru að við skráningu samlagshlutafélags í hlutafélagaskrá verði kveðið óafturkræft á um skattalega stöðu félagsins, þ.e. hvort það sé sjálfstæður skattaðili eður ei.“ (undirstrikað hér)           

Í álitsbeiðni kemur fram að samkvæmt samþykktum E slhf. og D slhf. séu félögin ósjálfstæðir skattaðilar. Nú standi til að endurskipuleggja samstæðuna og breyta E slhf. og D slhf. í hlutafélög á grundvelli heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 163. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og gera þau þannig að sjálfstæðum skattaðilum. 

Í 1. málsl. 1. mgr. 163. gr. laga nr. 2/1995 segir að hluthafafundur í samlagshlutafélagi geti, með þeim fjölda atkvæða sem krafist er til breytinga á félagssamþykktum og samþykki ábyrgðaraðila, samþykkt að breyta samlagshlutafélagi í hlutafélag og að við breytinguna taki hlutafélagið við öllum eignum og skuldum samlagshlutafélagsins án þess að samþykki lánardrottna þurfi að koma til, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 163. gr. laga nr. 2/1995. Breytingin teljist hafa átt sér stað þegar félagssamþykktum hafi verið breytt á þann veg að það fullnægi kröfum laganna enda hafi breytingar á samþykktum verið skráðar og tilkynning þar að lútandi birt í Lögbirtingarblaði, sbr. 3. mgr. 163. gr. laga nr. 2/1995. 

Líkt og að framan hefur verið rakið búa samlagshlutafélög við þá sérstöðu í skattalegu tilliti að geta valið um sjálfstæða skattaðild. Við fyrirhugaða breytingu félaganna úr samlagshlutafélögum í hlutafélög á grundvelli tilvitnaðra ákvæða hlutafélagalaga tapa álitsbeiðendur því vali og verða hlutafélögin að uppfylltum formkröfum sjálfstæðir skattaðilar samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 og bera þannig fulla og ótakmarkaða skattskyldu. 

Það er álit ríkisskattstjóra að við þá breytingu sem um ræðir verði þáttaskil í rekstri og skattaðild samlagshlutafélaganna þannig að rekstri hinna ósjálfstæðu skattaðila ljúki. Við þær aðstæður og þau þáttaskil skal skattleggja tekjur og eignir hinna ósjálfstæðu skattaðila hjá félagsaðilum í samræmi við 3. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 vegna síðustu rekstrartímabila samlagshlutafélaganna, þ.e. frá upphafi árs og allt þar til hlutafélög hafa hvort um sig formlega tekið yfir rekstur þeirra og eignir og skuldir. Af framangreindri breytingu á skattaðild félaganna leiðir uppskipting á skattalegum réttindum og skyldum, þannig að t.a.m. yfirfæranlegt tap tilheyrir þeim skattaréttarlegu skyldum og réttindum samlagshlutafélaganna, sem skipt var upp á eigendur til skattlagningar og flyst því ekki yfir til hlutafélaganna með sama hætti og yrði með bókfærðar eignir félagsins. Almennt verður að gera greinarmun á milli félagaréttar og skattaréttar. Við þær aðstæður að ekki er full samkvæmni milli þess sem mælt er fyrir um í ákvæðum hlutafélagalaga, s.s. um réttindi og skyldur við breytingar á formskipulagi félaga, og réttaráhrifa tekjuskattslaga gagnvart sömu málsatvikum, þá eru tekjuskattslög ráðandi þegar reynir á hvernig fara skuli með í skattalegu tilliti. 

III.       Heimild E slhf. og D slhf. til samsköttunar með samstæðunni

Í 1. mgr. 55. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er kveðið á um heimild til samsköttunar félaga.  Ákvæðið er svohljóðandi:

Ríkisskattstjóri getur heimilað að tvö eða fleiri hlutafélög, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. séu skattlögð saman.  Skilyrði samsköttunar eru að eigi minna en 90% hlutafjár í dótturfélögum séu í eigu móðurfélagsins sem óskar samsköttunar eða annarra dótturfélaga sem einnig taka þátt í samsköttuninni.  Jafnframt hafi öll hlutafélögin sama reikningsár og eignarhald hafi varað allt reikningsárið, nema þegar um nýstofnað dótturfélag er að ræða eða slit á dótturfélagi.  Samsköttun skal að lágmarki standa í fimm ár og ef samsköttun er slitið er ekki heimilt að fallast á hana að nýju fyrr en að liðnum fimm árum frá því að henni var slitið.  Samsköttun skal þó falla niður með félagi sé það tekið til gjaldþrotameðferðar eða sæti slitameðferð, sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002. 

Í álitsbeiðni kemur fram að A ehf. eigi 99,99% hlut í E slhf. og D slhf. og muni því eftir breytinguna á félagaformi félaganna eiga 99,99% hlut í E hf. og D hf. Félögin hafi öll sama reikningsár og eignarhald A ehf. á félögunum hafi varað frá lokum árs 2016.  Að þessu virtu er það álit ríkisskattstjóra að skilyrði 1. mgr. 55. gr. tekjuskattslaga fyrir samsköttun álitsbeiðanda yrðu uppfyllt.  Álitsbeiðendur þurfa þrátt fyrir niðurstöðu í þessu bindandi áliti að sækja um samsköttun til ríkisskattstjóra í samræmi við ákvæði 2. mgr. 55. gr. tekjuskattslaga. 

Álitsorð:

Ríkisskattstjóri hefur komist að eftirfarandi niðurstöðu vegna þeirra álitaefna sem sett eru fram í álitsbeiðninni:

  1. Samlagshlutafélögin bera ósjálfstæða skattskyldu til þess tímamarks að breyting verður á félagaformi á grundvelli heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 163. gr. laga nr. 2/1995. Við breytingu á félagaformi álitsbeiðenda, úr samlagshlutafélögum í hlutafélög hefst sjálfstæð skattaðild hlutafélaganna. Skattaréttarleg réttindi og skyldur, þ.m.t. skattalegt tap E slhf. og D slhf., sem áður tilheyrðu eigendum, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, myndu ekki flytjast til hlutafélaganna við breytinguna.
  2. Álitsbeiðendunum E slhf. og D slhf. yrði eftir breytingu í hlutafélög heimil samsköttun með móðurfélaginu A ehf. enda séu skilyrði 2. mgr. 55. gr. tekjuskattslaga uppfyllt.

Kæruréttur:

Kærufrestur á bindandi álitum til yfirskattanefndar er þrír mánuðir frá dagsetningu álitsins, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Kæra skal vera skrifleg. Í henni skal koma fram hvaða atriði álitsins sæta kæru og rökstuðningur fyrir kröfum. Frumrit eða endurrit hins kærða álits skal fylgja kæru, sem og þau gögn sem ætluð eru til stuðnings henni.

 

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum