Bindandi álit

Bindandi álit nr. 01/12

23.8.2012

Nauðasamningar – Umbreyting skulda í hlutafé – Skattskyld eftirgjöf skulda

Málsatvik og fyrirætlanir álitsbeiðanda:

Í beiðni er gerð svohljóðandi grein fyrir atvikum máls:

„Staða A

Hinn XX.XX.XXXX sagði þáverandi stjórn A af sér að eigin frumkvæði vegna fjárhagserfiðleika félagsins og Fjármálaeftirlitið skipaði degi síðar skilanefnd fyrir félagið samkvæmt lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. sem sett voru til að bregðast við hruni bankakerfisins á Íslandi. Skilanefnd tók strax við stjórnun A og fór með allar heimildir til stjórnar félagsins. Að beiðni skilanefndar skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur slitastjórn fyrir A XX.XX.XXXX í samræmi við breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Hinn XX.XX.XXXX var A með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur tekinn til formlegrar slitameðferðar með réttaráhrifum frá XX.XX.XXXX. Skilanefnd og slitastjórn önnuðust í sameiningu stjórn A til XX.XX.XXXX. Frá þeim tíma var skilanefndin lögð niður samkvæmt lögum nr. 78/2011 sem breyttu lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki („lög um fjármálafyrirtæki“) og tók þá slitastjórnin lögum samkvæmt við öllum þeim hlutverkum sem áður höfðu verið í höndum skilanefndar.

Hlutverk og skyldur slitastjórnar eru skilgreindar í ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum og í lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. („lög um gjaldþrotaskipti“). Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki er slitastjórn falið að koma fram fyrir hönd A í öllum málum, verja hagsmuni A og hámarka virði eigna A. Í ákvæðum 102. og 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki er tekið fram að slitastjórn beri lagaleg skylda til að hámarka eignir A og gæta hagsmuna allra kröfuhafa.

Slitastjórn er falið að annast starfsemi A, þar með talið að stýra rekstri A og gæta þess að allar eignir A séu meðhöndlaðar á viðeigandi hátt, ganga frá samningum og öðrum lagalegum gerningum fyrir hönd A, tryggja að hagsmunir og eignir komi fram og sé ráðstafað á eins hagkvæman hátt og unnt er og vera fulltrúi A á öllum sviðum.

Meginmarkmið slitastjórnar er að tryggja viðeigandi meðhöndlun eigna, standa vörð um þær og hámarka verðmæti þeirra fyrir hönd kröfuhafa og að skila verðmætum til kröfuhafa eins fljótt og kostur er.

Fjárhæðir krafna, eigna og uppsafnaðs taps

Fresti til að lýsa kröfum gagnvart A lauk XX.XX.XXXX. Í heild var X kröfum lýst fyrir lok kröfulýsingarfrests og nam heildarfjárhæð þeirra X milljörðum íslenskra króna. Slitastjórn tók afstöðu til allra krafna fyrir kröfuhafafund XX.XX.XXXX. Ágreiningur ríkir í mörgum málum og þar til allur ágreiningur hefur verið leystur er nákvæm fjárhæð krafna óljós. Samþykktar almennar kröfur nema nú um það bil X milljörðum íslenskra króna. Áætluð verðmæti eigna A námu X milljörðum í árslok 2011.

Uppsafnað skattalegt tap X í lok árs 2011 nam X milljörðum íslenskra króna. Stærsti hluti þessa taps kom til eftir fall X í október 2008, eða X milljarðar íslenskra króna.“

Álitsbeiðandi setur fram eftirfarandi forsendur fyrir álitsbeiðni sinni:

„Lok slitameðferðar og fyrirhugaður nauðasamningur A

Samkvæmt 103. gr. a laga um fjármálafyrirtæki getur þeirri sérstöku slitameðferð sem A sætir einungis lokið með nauðasamningi eða gjaldþrotaskiptum. Að mati slitastjórnar er ljóst að núverandi verðmæti eigna A nægir ekki til fullrar greiðslu viðurkenndra krafna á hendur A. Að loknu ítarlegu samráði við hið óformlega kröfuhafaráð A og ýmsa aðra stóra kröfuhafa A, er niðurstaðan sú að eindreginn stuðningur þessara aðila er við að leitað verði nauðasamninga.

Á grundvelli þessa hefur A undanfarna mánuði unnið að undirbúningi og kannað grundvöll og möguleika þess að gera nauðasamninga við kröfuhafa félagsins. ...

Nú liggur fyrir að verði nauðasamningur lagður fyrir kröfuhafa til samþykktar eða synjunar yrði efni hans í grófum dráttum eftirfarandi:

 1. Forgangskröfur samkvæmt 109., 110. og 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti yrðu greiddar upp að fullu. Nauðasamningurinn hefði því engin áhrif á þessar kröfur.
 2. Kröfur sem njóta veðréttar eða annarra tryggingaréttar yrðu greiddar að því marki sem tryggingaréttindi nægðu til greiðslu slíkra krafna. Nauðasamningur hefði því einungis áhrif á þessar kröfur af því marki sem tryggingaréttindi nægja ekki til greiðslu þeirra, en eftirstöðvar þeirra myndu lúta ákvæðum 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti.
 3. Kröfur samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti („samningskröfur“) yrðu efndar með eftirfarandi hætti:
  1. Með eingreiðslu í reiðufé samkvæmt heimild í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 21/1991 („lágmarksgreiðsla“). Fjöldi kröfuhafa myndi fá fullar endurheimtur með þessari greiðslu;
  2. með greiðslu í reiðufé í tilteknu hlutfalli við fjárhæð krafna („hlutfallsgreiðsla“)
  3. með útgáfu nýrra hluta í A gegn niðurfellingu tiltekins hluta krafna („hlutabréfin“);
  4. með allt að 50% afskrift krafna (þó aldrei lægri en 40% afskrift); og
  5. með útgáfu skuldabréfa með breytirétti („skuldabréfin“). Sjá fylgiskjal nr. 2
 4. Eftirstæðar kröfur samkvæmt 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti myndu falla niður að fullu.
 5. Núverandi hlutafé yrði fært algerlega niður og nýtt hlutafé yrði gefið út gegn afskriftum hluta krafna á hendur A.

Skuldabréfin

          Nafnvirði skuldabréfanna sem ætlunin er að gefa út mun nema sömu fjárhæð og fjárhæð núverandi krafna á hendur A, umfram þær kröfur sem ekki fást greiddar með reiðufé, er umbreytt í hlutafé eða gefnar eftir fyrir útgáfu skuldabréfanna. Skuldabréfin sem ætlunin er að gefa út verða breytanleg í heild sinni af hálfu kröfuhafa eftir 31. desember 2013 og af hálfu A eftir 30. júní 2018. Bréfin verða á öllum tímum breytanleg að hluta af hálfu kröfuhafa og af A frá og með 30. júní 2018. Breyting að hluta eða í heild mun gilda til allra skuldabréfahafa hlutfallslega (það er að segja við umbreytingu verður öllum skuldabréfum umbreytt á sama tíma og í sömu hlutföllum).  Skuldabréfin verða á lokagjalddaga 30. desember 2019, en verði þau ekki greidd fyrir þann tíma getur félagið nýtt rétt sinn til breytinga og umbreytt þeim í hlutafé til að koma í veg fyrir að þau falli á gjalddaga. Skuldabréfin veita eigendum sínum ekki nein réttindi til ákvörðunartöku á hluthafafundi eða til stjórnar á A. Eignarhald á hlutabréfum í A er ekki bundið við eignarhald á skuldabréfunum. Þar sem óljóst er hvenær hægt verður að selja eignir félagsins og þá á hvaða verði og vegna núgildandi gjaldeyrishafta sbr. lög nr. 87/1992 um gjaldeyrismál verða skuldabréfin ekki með föstum afborgunum heldur koma þau til greiðslu eftir því sem lausafjárstaða félagsins leyfir, þ.e. eftir að tekið hefur verið tillit til rekstrarkostnaðar félagsins og eigna þess og annars tilfallandi kostnaðar. Þá verða skuldabréfin ekki vaxtaberandi.“

Álitaefni:

Í álitsbeiðni eru sett fram þrjú álitaefni og ríkisskattstjóri beðinn að staðfesta að:

 1. A sé heimilt að líta svo á að skuldabréfin feli í sér breytt form á greiðslu krafna, en ekki skattskylda eftirgjöf skulda?
 2. A sé heimilt að nýta rekstrartap félagsins við eftirfarandi aðstæður;
  • á móti tekjum sem myndast við umbreytingu skulda í hlutafé við nauðasamning;
  • á móti tekjum sem myndast við afskriftir skulda við nauðasamning; og
  • á móti tekjum sem myndast í rekstri félagsins eftir nauðasamning
 3. A sé heimilt að miða við að bókfært virði viðskiptakrafna og lánveitinga sem færðar hafa verið niður í samræmi við 2. málsl. 3. gr. laga um skattskyldu lánastofnana myndi réttan skattstofn umræddra eigna þegar Fjármálaeftirlitið afturkallaði starfsleyfi félagsins sem viðskiptabanka í júlí 2011.

Í álitsbeiðni kemur ennfremur fram að álitsbeiðandi telji að uppfyllt séu skilyrði laga um bindandi álit í skattamálum fyrir því að ríkisskattstjóri láti uppi bindandi álit um ofangreint enda varði álitaefnin verulega hagsmuni álitsbeiðanda auk þess sem að ráðstöfun sú sem er tilefni beiðninnar hafi ekki verið framkvæmd. 

Viðhorf álitsbeiðanda varðandi einstök álitaefni:

Í álitsbeiðni er gerð svofelld grein fyrir fyrsta álitaefninu:

„Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. laga um gjaldþrotaskipti má í nauðasamningi kveða á um algera eftirgjöf samningskrafna, hlutfallslega lækkun þeirra, gjaldfrest á þeim, breytt form á greiðslu þeirra eða þrennt það síðastnefnda í senn.

Eins og fram kemur [í álitsbeiðni] gerir efni nauðasamningsins ráð fyrir að samningskröfur verði að hluta til greiddar í reiðufé og með umbreytingu skulda í hlutafé. Sá hluti krafnanna sem ekki kemur þannig til greiðslu mun áfram standa sem krafa á hendur félaginu í formi skuldabréfanna. Þannig mun nafnvirði skuldabréfanna nema sömu fjárhæð og þær kröfur sem eftir standa að frádregnum þeim kröfum sem ekki fást greiddar með reiðufé, er umbreytt í hlutafé eða gefnar eftir fyrir útgáfu skuldabréfanna. Gert er ráð fyrir að afskriftir muni nema allt að 50% útistandandi krafna eftir greiðslu reiðufjár og umbreytingu skulda í hlutafé, en þó aldrei lægri fjárhæð en 40% krafna. A mun upplýsa ríkisskattstjóra um endanlegt hlutfall afskrifta um leið og slík ákvörðun liggur fyrir (svo framarlega sem að slík ákvörðun verði tekin fyrir útgáfu bindandi álits). Vísað er í töflu 5 í lið C hér að ofan að því er varðar fjárhæðir uppsafnaðs taps eftir eftirgjöf skulda. Rétt er að taka fram að við ákvörðun slíkra afskrifta verður að hafa í huga að verðmæti eigna félagsins gæti hækkað og er því eðlilegt að fjárhæð skuldabréfanna geri ráð fyrir slíkri hækkun. Kröfuhafar munu ekki samþykkja afskriftir krafna að því marki sem slíkar afskriftir valdi því að kröfur á hendur félaginu yrðu lægri en mögulegar endurheimtur á síðari stigum.

Af almennum reglum leiðir að skuld telst gefin eftir þegar lánveitandi samþykkir að innheimta ekki skuldina eða hluta hennar gagnvart lántaka þannig að lántaka beri í raun ekki lengur skylda til að greiða skuldina. Eftirgjöf skulda sem tengjast atvinnurekstri teljast til skattskyldra tekna samkvæmt 7. gr. B laga nr. 90/2003 um tekjuskatt („lög um tekjuskatt“).

A lítur svo á að með útgáfu skuldabréfanna sé verið að breyta formi krafna á hendur félaginu, en ekki sé um skattskylda eftirgjöf skulda að ræða. Kröfuhafar munu áfram eiga kröfu á hendur A í formi skuldabréfanna og munu því ekki afskrifa þann hluta krafna sinna á hendur félaginu sem skuldabréfin mynda. Skuld A á grundvelli skuldabréfanna mun lækka eftir því sem greiðslur berast til kröfuhafa. Komi hins vegar til þess að A geti ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt ákvæðum skuldabréfanna er félaginu heimilt að umbreyta skuldunum í hlutafé. Slík umbreyting skulda í hlutafé myndi hafa í för með sér skattskyldan hagnað fyrir félagið samkvæmt 6. mgr. bráðabirgðaákvæðis nr. XXXVI laga um tekjuskatt.

Með nauðasamningnum mun fjárhagsleg staða A batna verulega frá því sem er í dag, þrátt fyrir að félagið verði nokkuð skuldsett eftir útgáfu skuldabréfanna. Þannig verða eftirstæðar kröfur felldar niður að fullu og hluta krafna verður umbreytt í hlutafé. Þá verða 40- 50% krafna á hendur A gefnar eftir. Loks er rétt að ítreka að skuldabréfin munu vera með breytirétti og því er ljóst að geti félagið ekki staðið undir greiðslu þeirra hefur það að ákveðnum tíma liðnum heimild til að umbreyta skuldabréfunum í hlutabréf og þannig lækka verulega skuldabyrði félagsins. Skuldabréfin bera enn fremur ekki vexti og mynda því ekki vaxtakostnað hjá félaginu.

Með hliðsjón af framangreindu telur A ljóst að útgáfa skuldabréfanna feli í sér að formi krafna á hendur félaginu er breytt þannig að kröfuhafar eigi enn kröfur á félagið í formi skuldabréfanna. Þar sem kröfuhafar A eru ekki að fella niður kröfur sínar á félagið með móttöku skuldabréfanna hefur útgáfa þeirra ekki í för með sér skattskyldar tekjur fyrir A. Komi hins vegar til breytingar skuldabréfanna í hlutabréf á síðari stigum myndi slík breyting samkvæmt núgildandi lögum hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir félagið.“

Um annað álitaefni segir svo í álitsbeiðni:

      „Samkvæmt 8. tl. 31. gr. laga um tekjuskatt er félögum heimilt að nýta eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu tíu árum á undan tekjuári, enda hafi fullnægjandi grein verið gerð fyrir rekstrartapinu og eftirstöðvum þess á því tekjuári þegar tapið myndaðist. Í öðrum málslið ákvæðisins er gerð sú takmörkun á þessari heimild að ekki má nýta rekstrartap til frádráttar tekjum ef veruleg breyting hefur orðið á þeim rekstri eða starfsemi sem í hlut á, svo sem með breytingu á eignaraðild að lögaðila eða á tilgangi rekstrar, nema sýnt þyki að umræddar breytingar hafi verið gerðar í eðlilegum og venjulegum rekstrartilgangi. Orðalag 8. tl. 31. gr. „nema sýnt þyki að umræddar breytingar hafi verið gerðar í eðlilegum og venjulegum rekstrarartilgangi“  bendir til þess að breytingarnar þurfi að vera á valdi stjórnar félags. Þá verður einnig að telja skýrt af orðalagi ákvæðisins og athugasemdum í frumvarpi með ákvæðinu að tilgangur ákvæðisins sé að sporna við sniðgöngu skatta, en í frumvarpinu segir:

      „Hafa verið nokkur brögð að því í framkvæmd að rekstraraðilar hafi reynt að sniðganga reglu 57. gr. A [54. gr. núgildandi laga um tekjuskatt] í þeim tilgangi að komast yfir skattalegt tap. Aðferðirnar við það eru með ýmsum hætti og hefur töluverður fjöldi deilumála risið um gerninga af þessu tagi. Má í því skyni nefna að farin hefur verið sú leið að sameina ekki fyrirtæki heldur kaupa eigendur fyrirtækis A, sem rekið er með hagnaði, meiri hluta hlutabréfa í fyrirtæki B sem á mikið ónotað rekstrartap frá fyrri árum. Í framhaldi af þessu kaupir fyrirtæki B eignir A og yfirtekur skuldir þess. Fyrirtæki A er síðan lagt niður. Tilgangi B er síðan breytt og jafnvel nafni til samræmis við nafn það sem A hafði og rekstur A þannig í reynd fluttur yfir í B án þess að eiginleg sameining hafi átt sér stað. Í ljósi þessa eru lagðar til breytingar á 7. tölul. 31. gr. þar sem settar eru skýrari reglur um þær skorður sem reistar eru við nýtingu rekstrartapa og samræmdar reglur settar um nýtingu tapa.“

      Fyrir liggur að breytingar hafa orðið á rekstri A síðan í október 2008 þegar Alþingi samþykkti lög nr. 125/2008 um  heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Í kjölfar þessarar lagasetningar var bankanum skipuð skilanefnd og nokkrum mánuðum síðar slitastjórn. Skilanefnd var svo lögð af frá og með XX.XX.XXXX og tók þá slitastjórn yfir þau hlutverk sem skilanefnd hafði áður með höndum. Hinn XX.XX.XXXX var A tekinn til formlegrar slitameðferðar með réttaráhrifum frá XX.XX.XXXX. Ljóst er að umræddar breytingar hafa ekki verið á valdi stjórnar A heldur er um að ræða breytingar sem komið hafa til vegna ákvarðana stjórnvalda byggðum á heimildum í lögum. Hafa stjórnvöld rökstutt þessar ákvarðanir og þær aðgerðir sem gripið var til með vísan til þeirra sérstöku aðstæðna sem sköpuðust á íslenskum fjármálamarkaði á þeim tíma sem ákvarðanirnar voru teknar. Tilgangur umræddra aðgerða hafi verið að takmarka tjón eða hættu á íslenskum fjármálamarkaði. Enda þótt talið væri að breytingarnar hefðu verið á valdi stjórnar félagsins, verður að líta svo á að þær hafi verið gerðar í eðlilegum og venjulegum rekstrartilgangi, enda eru nauðasamningar og slit félaga og lok þeirra hluti af rekstri almennt. Þannig er á engan hátt hægt að líta svo á að þær breytingar sem orðið hafa á rekstri A undanfarin þrjú og hálft ár hafi verið til að forðast greiðslu skatta.

      Þá liggur fyrir að með bréfi FME dagsettu XX.XX.XXXX var starfsleyfi A sem viðskiptabanki afturkallað með vísan til 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga um fjármálafyrirtæki, á þeim grundvelli að A væri fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Umræddar aðgerðir má rekja til þeirra aðgerða sem gripið var til á haustmánuðum 2008 sem og þeirrar sérstöku slitameðferðar sem A sætir. Um er að ræða ákvörðun tekna einhliða af FME á grundvelli framangreinds ákvæðis 6. tl. 1. mgr. 9. gr. laga um fjármálafyrirtæki sem heimilar FME að afturkalla starfsleyfi á fjármálafyrirtækis í heild eða hluta hafi verið kveðinn upp úrskurður um slit fyrirtækisins.  Ekki er um að ræða ákvörðun sem var á valdi stjórnar félagsins og því ljóst að takmörkun á heimildum til nýtingar á uppsöfnuðu tapi eiga ekki við vegna þessa. Enda þótt talið væri að breytingarnar hefðu verið á valdi stjórnar félagsins, verður að líta svo á að þær hafi verið gerðar í eðlilegum og venjulegum rekstrartilgangi. A sem fjármálafyrirtæki í slitameðferð sætir eftirlitsskyldu FME. FME hefur ákvörðunarvald um leyfisveitingar fjármálafyrirtækja og er afturköllun slíks leyfis hluti af því sem eðlilegt má teljast í rekstri fjármálafyrirtækis í slitameðferð.

      Framangreindu til viðbótar er ljóst að ef kröfuhafar A samþykkja nauðasamning munu kröfuhafar A eignast félagið að fullu. Allt núverandi hlutafé verður afturkallað og fellt niður og nýtt hlutafé verður gefið út til kröfuhafa sem hluti af endurgjaldi fyrir samningskröfur. Eftir nauðasamning mun A halda áfram að sinna þeim rekstri og þeim eignum sem félagið á í dag þar til þær eignir hafa verið seldar. Í þeim rekstri munu einkum felast þau verkefni sem félagið sinnir í dag, það er að segja að styðja við þær eignir sem félagið á í dag og vinna að endurheimtum útistandandi krafna. Ekki er fyrirséð að A hefji nýjan rekstur eða taki þátt í öðrum verkefnum en þeim sem varða eignasafn félagsins eins og það stendur í dag. Komi til þess að dótturfélög taki þátt í slíkum verkefnum er ljóst að uppsafnað tap A gæti ekki nýst á móti tekjum sem þannig myndi myndast þar sem ekki fyrir samsköttunarheimild að dreifa í dag.

      Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki getur þeirri sérstöku slitameðferð sem A sætir aðeins lokið með nauðasamningi eða gjaldþroti. Verði nauðasamningur samþykktur yrði það á þeim grundvelli að kröfuhafar teldu nauðasamning til þess fallinn að hámarka endurheimtur þeirra á fjármunum sem annars teldust tapaðir. Þá verður að leggja áherslu á að kröfuhafar félagsins myndu ekki samþykkja nauðasamning án þess að þeim væri tryggt fullt eignarhald yfir félaginu sem hluti af slíkum samningi. Samkvæmt framansögðu má ljóst vera að þær breytingar á eignarhaldi A sem nauðasamningur hefur í för með sér hefur þann tilgang einan að tryggja kröfuhöfum hámarks endurheimtur úr búinu, en ekki að forðast greiðslu skatta og eru því gerðar í eðlilegum og venjulegum rekstrartilgangi.

      Miðað við framangreindar forsendur telur A að ekki verði að annarri niðurstöðu komist en að félaginu verði heimilt að nýta uppsafnað tap á móti hagnaði sem myndast við (a) umbreytingu skulda félagsins í hlutafé (b) afskriftir eftirstæðra skulda (og samningskrafna komi til slíkra afskrifta) við nauðasamning og (c) rekstur félagsins eftir nauðasamning. Rétt er að skýrt komi fram að A mun einungis nýta uppsafnað tap á móti afskriftum skulda kröfuhafa gagnvart A, hagnaði sem myndast við umbreytingu skulda á hendur A í hlutafé og á móti hagnaði sem myndast af og rennur til A vegna þeirra eigna sem A á í dag, hvort sem um er að ræða vaxtatekjur, fjármagnstekjur eða tekjur af söluhagnaði. Ætlunin er hvorki að hefja nýjan rekstur innan A til að nýta umrætt tap né að sameina rekstur A og dótturfélaga í þeim tilgangi að nýta tap sem myndaðist hjá A á móti hagnaði slíkra dótturfélaga.“

Að lokum segir svo í álitsbeiðni um þriðja álitaefnið sem borið er undir ríkisskattstjóra:

Fyrir fall A í október 2008 starfaði félagið sem viðskiptabanki og hafði til þess starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu. Hinn XX.XX.XXXX var starfsleyfi A sem viðskiptabanki afturkallað með vísan til þeirra breytinga sem orðið hefðu á rekstri á A frá því í október 2008 og þess að félagið væri í slitameðferð.

A hefur sem félag með starfsleyfi sem viðskiptabanki hagað skattskilum sínum í samræmi við lög um skattskyldu lánastofnana nr. 65/1982 („lög um skattskyldu lánastofnana“). Í 1. og 2.  mgr. 3. gr. laga um skattskyldu lánastofnana segir:

„Heimildir til niðurfærslu viðskiptaskulda í 2. málsl. 3. tölul. 1. mgr. 31. gr. og 2. og 3. málsl. 5. tölul. 73. gr. laga nr. 90/2003 , um tekjuskatt, gilda ekki um skattskylda aðila samkvæmt lögum þessum.

Frá tekjum aðila sem skattskyldir eru samkvæmt lögum þessum má draga þau almennu og sérstöku framlög í afskriftareikning útlána sem gjaldfærð eru í rekstrarreikningi í samræmi við gildandi reglur um ársreikning þessara aðila. Staða afskriftareiknings útlána í árslok dregst frá við uppgjör á eignum og skuldum.“

Tilvísuð ákvæði laga um tekjuskatt heimila að útistandandi viðskiptakröfur og lánveitingar í lok hvers árs séu færðar niður um allt að 5%  og mismunurinn á þeirri niðurfærslu og niðurfærslunni frá árinu á undan talinn til skattskyldra tekna eða gjalda.

Lög um skattskyldu lánastofnana heimila þeim aðilum sem falla undir lögin að færa virði tiltekinna krafna niður í samræmi við gildandi reglur um ársreikninga og ganga því mun lengra en almennt gildir um niðurfærslu krafna samkvæmt lögum um tekjuskatt. Mynda niðurfærslur samkvæmt lögum um skattskyldu lánastofna  skattskyldar tekjur eða gjöld hjá lánastofnunum, eftir því hvort niðurfærsla viðkomandi árs er meiri eða minni en sú er átti sér stað árið á undan.

Á grundvelli 2. mgr. 3. gr. laga um skattskyldu lánastofnana hefur A við uppgjör rekstrar  fært niður virði útlána í samræmi við þær reglur sem gilda um ársreikninga og nýtt sér framangreinda heimild í lögum um lánastofnanir til að færa skattskilin með sama hætti. Niðurfærslur þessar hafa verið meðal þess sem myndað hefur uppsafnað skattalegt tap A.

Hvorki lög um skattskyldu lánastofnana og né lög um tekjuskatt tilgreina afleiðingar þess á skattskil félaga að félag falli ekki lengur undir lög um skattskyldu lánastofnana. Þannig er félagi ekki gert skylt að færa til baka þær niðurfærslur sem gerðar hafa verið á grundvelli laga um skattskyldu lánastofnana í samræmi við lög um ársreikninga, þrátt fyrir að félag falli ekki lengur undir lögin.

Óumdeilt verður að telja að á þeim tíma er A hafði starfsleyfi féll það sannanlega undir lög um skattskyldu lánastofnanna. Voru umræddar niðurfærslur í bókhaldi gerðar með réttmætum hætti og í samræmi við gildandi lög um starfsemi og skattskil félagsins. Þannig voru umræddar niðurfærslur til þess fallnar að mynda varanlegan skattstofn á tilteknum eignum A á þeim tíma sem leyfi félagsins sem viðskiptabanki var afturkallað. Lítur A svo á að réttur skattstofn eignanna teljist bókfært virði þeirra á þeim degi þegar A uppfyllir ekki lengur skilyrði laga um skattskyldu lánastofnana. Afturköllun Fjármálaeftirlitsins á starfsleyfi A sem viðskiptabanka hefur þannig ekki áhrif á núverandi bókfært virði umræddra eigna og uppsafnað skattalegt tap félagsins vegna niðurfærslanna. Rétt er að taka fram að ef síðar kemur í ljós að virði umræddra niðurfærðra útlána  verði meira en sem nemur bókfærðu virði þeirra verður sá mismunur færður til tekna.

Með hliðsjón af framangreindu telur A, þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi afturkallað starfsleyfi félagsins sem viðskiptabanka, sér ekki skylt að færa til baka í bókhaldi þær niðurfærslur sem mynduðust á grundvelli þess að félagið færði bókhald sitt og hagaði skattskilum í samræmi við lög um skattskyldu lánastofnana.“

Forsendur og niðurstöður ríkisskattstjóra:

      Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, er það forsenda þess að ríkisskattstjóri láti uppi bindandi álit sitt, að um sé að ræða mál er varðar verulega hagsmuni þess sem eftir álitinu leitar. Álitaefni þarf þannig að varða skattalega stöðu álitsbeiðanda sjálfs. Áliti er aðeins ætlað að vera bindandi fyrir skattyfirvöld við skattlagningu álitsbeiðanda að því er þau atvik varðar er álit tekur til, sbr. 6. gr. laga nr. 91/1998, en bindur skattyfirvöld ekki með sama hætti gagnvart öðrum þeim er atvik kunna að varða. Álitið er byggt á skattalegri stöðu álitsbeiðanda miðað við gildandi rétt en verði breytingar á lögum kunna þær lagalegu forsendur sem álitið er reist á að falla úr gildi. Álit þetta varðar eingöngu skattskil álitsbeiðanda, en ekki kröfuhafa álitsbeiðanda og miðast við þær forsendur og upplýsingar sem fram koma í álitsbeiðni.

1. Er A heimilt að líta svo á að skuldabréfin feli í sér breytt form á greiðslu  krafna, en ekki skattskylda eftirgjöf skulda?

Í fyrirliggjandi beiðni álitsbeiðanda kemur fram að áformað er að gefa út skuldabréf sem nema munu þeim fjárhæðum sem eftir standa þegar kröfur hafa verið greiddar með reiðufé, verið umbreytt í hlutafé eða gefnar eftir. Í álitsbeiðni, sbr. að framan, er nánari lýsing á skuldabréfunum. Þar kemur m.a. fram að þau verða breytanleg og ekki vaxtaberandi.

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. kemur fram að samningskröfur séu þær kröfur á hendur skuldaranum sem ekki eru undanþegnar áhrifum nauðasamnings og falla ekki niður vegna hans eftir ákvæðum 28. gr. laganna.

Þá er ákvæði 2. mgr. 29. gr. áður nefndra laga um gjaldþrotaskipti svohljóðandi:

„Í nauðasamningi má kveða á um algjöra eftirgjöf samningskrafna, hlutfallslega lækkun þeirra, gjaldfrest á þeim, breytt form á greiðslu þeirra eða þrennt það síðastnefnda í senn.“

Af lýsingu á útgáfu skuldabréfanna má ráða að um sé að ræða formbreytingu á undirliggjandi kröfum, þ.e. þeim hluta þeirra sem eftir stendur þegar greiðsla reiðufjár hefur farið fram, hluti skulda verið afskrifaður og skuldum breytt í hlutafé. Sá hluti skuldanna sem verður afskrifaður er samkvæmt álitsbeiðni háður mati á virði félagsins og fjárhæð útgefinna skuldabréfa tekur mið af því. Óumdeilt er að sú eftirgjöf telst til skattskyldra tekna samkvæmt almennum reglum. Álit þetta gerir ráð fyrir að þeir fjármunir sem innheimtast gangi til eigenda skuldabréfanna eftir því sem þeir innheimtast. Af lýsingu í álitsbeiðni verður eingöngu um formbreytingu krafnanna að ræða en ekki eftirgjöf þeirra á því tímamarki sem um ræðir, hvað sem síðar kann að verða.

Ríkisskattstjóri telur að fáist slík breyting á greiðslu krafna samþykkt við gerð nauðasamninga, sbr. 2. mgr. 29. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, svo sem útgáfu skuldabréfanna er lýst hér að framan, verði ekki talið að um skattskylda eftirgjöf krafna sé að ræða, enda verði greitt af skuldabréfunum eftir því sem kröfur innheimtist og því verði þær áfram gildar. Ef síðar kemur í ljós að skuldabréfin verða ekki greidd að fullu mun það sem út af stendur teljast til eftirgefinna skulda á þeim tíma sem það liggur fyrir.

Tekið skal fram að um skattalega meðferð á eftirgjöf skulda, skilmálabreytingum og breytingu skulda í hlutafé gilda eftir atvikum bráðabirgðaákvæði XXXVI og XLIV við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Þá er áréttað að álitsbeiðanda ber að varðveita öll gögn sem forsendur skuldabréfanna eru byggðar á og um útreikning verðmætis þeirra þannig að unnt verði að sinna upplýsingaskyldu skv. 92. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

2. Er A heimilt að nýta rekstrartap félagsins á móti tekjum sem myndast (a) við umbreytingu skulda í hlutafé við nauðasamning; (b) við afskriftir skulda við nauðasamning; og (c) á móti tekjum sem myndast í rekstri félagsins eftir nauðasamning?

Í 8. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, segir að frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkri starfsemi megi draga:

„Eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu tíu árum á undan tekjuári, enda hafi fullnægjandi grein verið gerð fyrir rekstrartapinu og eftirstöðvum þess á því tekjuári þegar tapið myndaðist. Þó er ekki heimilt að nýta rekstrartap til frádráttar tekjum ef veruleg breyting hefur orðið á þeim rekstri eða starfsemi sem í hlut á, svo sem með breytingu á eignaraðild að lögaðila eða á tilgangi rekstrar, nema sýnt þyki að umræddar breytingar hafi verið gerðar í eðlilegum og venjulegum rekstrartilgangi.“

Álitsbeiðandi er skráður í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra sem viðskiptabanki sem starfi samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.  Í fyrirliggjandi beiðni kemur fram að stærstur hluti þess taps sem um ræðir myndaðist í bankastarfsemi álitsbeiðanda. Telja verður jafnframt að hluti af því ferli hafi verið afturköllun fjármálaeftirlitsins á starfsleyfi álitsbeiðanda hinn XX.XX.XXX. Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi áformar að halda áfram rekstri félagsins þar til kröfur þess eru greiddar.

Ríkisskattstjóri telur að á meðan rekstur álitsbeiðanda helgast af uppgjöri og slitum félagsins í kjölfar bankahruns og setningu laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sé heimilt að nýta yfirfæranlegt rekstrartap á móti rekstrartekjum að teknu tilliti til þess tíu ára hámarkstíma sem lögfestur er í fyrrnefndum 8. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Skiptir ekki máli í því sambandi þótt rekstrartekjur verði til vegna eftirgjafar á skuldum. Verði á hinn bóginn einhver sú breyting á rekstri álitsbeiðanda að ekki geti lengur talist vera um að ræða samhangandi uppgjörsferli eða ekki um eðlilegan rekstrartilgang að ræða, kemur til skoðunar hvort framangreind skilyrði fyrir nýtingu eftirstöðva rekstrartaps séu uppfyllt. Verður ekki fullyrt um það á þessu stigi málsins heldur verður að skoða það sérstaklega, ef og þegar sá tími kæmi.

Ríkisskattstjóri fellst á að álitsbeiðanda sé heimilt að nýta rekstrartap félagsins á móti tekjum sem myndast (a) við umbreytingu skulda í hlutafé við nauðasamning og (b) við afskriftir skulda við nauðasamning.  Að því er varðar nýtingu á eftirstöðvum rekstrartaps eftir gerð nauðasamninga fellst ríkisskattstjóri á að slíkt sé heimilt svo fremi að rekstrartekjur sé í beinum tengslum við uppgjör og slitameðferð álitsbeiðanda og eðlilegan rekstrartilgang.

3. Er A heimilt að miða við að rétt bókfært virði og þar með skattstofn eigna félagsins sé sá sem hann var þegar fjármálaeftirlitið afturkallaði starfsleyfi félagsins sem banki í júlí 2011?

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi starfað sem viðskiptabanki þar til starfsleyfi hans var afturkallað þann XX.XX.XXXX. Félagið hagaði því skattskilum sínum í samræmi við lög um skattskyldu lánastofnana nr. 65/1982. Framangreind lög heimila þeim aðila sem fellur undir lögin að færa virði tiltekinna krafna niður í samræmi við gildandi reglur um ársreikninga og ganga því mun lengra en almennt gildir um niðurfærslu krafna samkvæmt lögum um tekjuskatt. Á grundvelli 2. mgr. 3. gr. laga nr. 65/1982 hefur álitsbeiðandi við uppgjör rekstrar fært niður virði útlána í samræmi við þær reglur sem gilda um ársreikninga og nýtt sér framangreinda heimild til að færa skattskilin með sama hætti. Niðurfærslur þessar hafa verið meðal þess sem myndað hefur uppsafnað skattalegt tap álitsbeiðanda.

Ríkisskattstjóri fellst á, með vísan til þess sem fram kemur á bls. 10 í álitsbeiðni, að álitsbeiðanda beri ekki að færa tilbaka áður bókfærða niðurfærslu á kröfum, enda hafi hún verið gerð á grundvelli gildandi laga um skattskyldu lánastofnana og laga um ársreikninga.  Þessi niðurstaða er í samræmi við túlkun ríkisskattstjóra á áhrifum þess þegar nýju bankarnir keyptu kröfur af gömlu bönkunum á niðurskrifuðu verði í kjölfar bankahrunsins í október 2008. Komi aftur á móti í ljós að meira fæst greitt fyrir kröfu en nemur bókfærðu verði hennar ber að tekjufæra mismuninn þegar það liggur fyrir.

Álitsorð:

 1. A er heimilt að líta svo á að útgefin skuldabréf sbr. álitsbeiðni feli í sér breytt form á greiðslu krafna og teljast ekki til eftirgefinna skulda.
 2. A er heimilt að nýta rekstrartap félagsins við eftirfarandi aðstæður;
  • á móti tekjum sem myndast við umbreytingu skulda í hlutafé við nauðasamning;
  • á móti tekjum sem myndast við afskriftir skulda við nauðasamning; og
  • á móti tekjum sem myndast í rekstri félagsins eftir nauðasamning svo fremi rekstrartekjur séu í beinum tengslum við uppgjör og slitameðferð álitsbeiðanda og eðlilegan rekstrartilgang.
 3. A er heimilt að miða við að bókfært virði viðskiptakrafna og lánveitinga sem færðar hafa verið niður í samræmi við 2. málsl. 3. gr. laga um skattskyldu lánastofnana myndi réttan skattstofn umræddra eigna þegar Fjármálaeftirlitið afturkallaði starfsleyfi félagsins sem viðskiptabanka í júlí 2011.
Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum