Bindandi álit

Bindandi álit nr. 05/15

9.7.2015

Sérstakur fjársýsluskattur – fjármálafyrirtæki í slitameðferð

Tilefni:

Með bréfi dagsettu 1. apríl 2015, sem móttekið var þann 7. sama mánaðar, fer álitsbeiðandinn fram á að ríkisskattstjóri veiti bindandi álit á grundvelli laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. 

Um álitsbeiðanda:

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi sé fjármálafyrirtæki í slitameðferð.  Stjórn Fjármálaeftirlitsins ákvað á árinu 2009 að taka yfir vald hluthafafundar álitsbeiðanda og víkja stjórninni í heild sinni frá störfum.  Skipuð var sérstök skilanefnd sem tók við öllum heimildum félagsstjórnar.  Síðar hafi sérstök bráðabirgðastjórn tekið við verkefnum skilanefndar og enn síðar slitastjórn.

Málavextir:

Álitsbeiðandi upplýsir að slitastjórnin hafi um nokkurt skeið unnið að áætlun um að ljúka slitameðferð með gerð nauðasamnings við kröfuhafa.  Gengið sé út frá því að í samningum felist að kröfuhafar gefi eftir umtalsverðan hluta af kröfum sínum sem álitsbeiðanda beri þá að færa til tekna í skattskilum sínum.  Í álitsbeiðni segir svo:

„Forsenda álitsbeiðninnar er að sú tekjufærsla nemi hærri fjárhæð en viðmiðunarfjárhæð sérstaks fjársýsluskatts, sbr. 3. málsl. 3. mgr. 72. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.“

Álitaefni:

Álitsbeiðandi óskar eftir að ríkisskattstjóri staðfesti að álitsbeiðanda beri ekki að standa skil á sérstökum fjársýsluskatti ef tekjuskattstofn hans verður umfram 1.000.000.000 kr. á því ári sem sérstakri slitameðferð kann að ljúka með gerð nauðasamnings.

Sjónarmið álitsbeiðanda:

Álitsbeiðandi er þeirrar skoðunar að hann verði ekki skyldur til að standa skil á sérstökum fjársýsluskatti miðað við eftirfarandi forsendur:

Í álitsbeiðni rekur álitsbeiðandi að með 18. gr. laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt hafi eftirfarandi texta bætt við 3. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. og 1. málsl. þessarar málsgreinar skal einnig leggja sérstakan fjársýsluskatt á aðila sem skattskyldir eru skv. 2. gr. laga um fjársýsluskatt.  Sérstakur fjársýsluskatturinn skal vera 6% af tekjuskattstofni yfir 1.000.000.000 kr., sbr. 2. tölul. 61. gr.“

Álitsbeiðandi vísar til orðalags framangreinds ákvæðis og telur að samkvæmt því nái skattskyldusvið sérstaka fjársýsluskattsins til þeirra sem skyldugir eru til að standa skil á fjársýsluskatti samkvæmt 2. gr. laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt.  Lögskýringargögn eða hefðbundin aðferðafræði lögfræðinnar leiði til þess að ekki eigi að túlka gildissviðið rýmra en ráða megi beint af orðalaginu.

Fjársýsluskattur sé samkvæmt lögum nr. 165/2011 lagður á allar tegundir launa eða þóknana fyrir hver þau störf sem skattskyld eru samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, hjá félögum sem skattskyld eru samkvæmt lögum um fjársýsluskatt.  Undanþegnar skattskyldusviði laganna sbr. 5. gr. þeirra, eru greiðslur vegna fæðingarorlofs, eftirlauna og lífeyris, launagreiðslur og þóknanir sem varða þann hluta starfseminnar sem er virðisaukaskattsskyldur og fellur utan 9. og 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. 

Álitsbeiðandi tekur orðrétt upp í álitsbeiðni ákvæði 2. gr. laga um fjársýsluskatt þar sem tilgreint er hverjir það séu sem teljast vera skattskyldir aðilar og þar af leiðandi skyldir til að standa skil á bæði fjársýsluskatti og sérstökum fjársýsluskatti.  Þá vísar álitsbeiðandi til þess að fjármálafyrirtæki í slitameðferð, þar sem starfsleyfi hefur verið afturkallað, séu ekki sérstaklega tilgreind í ákvæðinu.  Telur álitsbeiðandi með hliðsjón af því að ekki sé nægilega skýrt, með hliðsjón af kröfum um skýrleika skattlagningarheimilda, að ákvæðið taki yfir höfuð til fjármálafyrirtækja í slitameðferð.

Álitsbeiðandi telur að horfa verði til tilvísunar í lögunum til undanþáguákvæðis 10. tölul. 3. mgr. 2. g. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og skoða hvaða starfsemi fari fram í félaginu komist ríkisskattstjóri að því að fjármálafyrirtæki í slitameðferð heyri undir tilvitnað ákvæði.

Við mat á því hvaða starfsemi falli undir ákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, bendir álitsbeiðandi á að í athugasemdum við lagafrumvarp það sem varð að lögum nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, komi fram að við nánari skilgreiningu á því hvaða starfsemi falli undir tilvitnað ákvæði laga um virðisaukaskatt hafi verið tekið mið af því að um sé að ræða þjónustu sem fjármálafyrirtækjum sé ætlað að veita samkvæmt lögum, óháð því hver veiti þjónustuna eða hverjum hún sé veitt.  Horfa verði til þeirrar löggjafar sem í gildi er á hverjum tíma, sbr. nú IV. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.  Undanþágan hafi eingöngu verið talin taka til eiginlegrar skilgreindrar þjónustu fjármálafyrirtækja en ekki til annarrar þjónustu sem þær stofnanir kunna að veita.  Þannig sé það eiginleg bankastarfsemi og verðbréfamiðlun, eða fyllilega sambærileg starfsemi, sem sé undanþegin virðisaukaskatti.  Önnur starfsemi fjármálafyrirtækja sé virðisaukaskattsskyld samkvæmt meginreglu laga um virðisaukaskatt.  Í athugasemdunum kemur einnig fram að þannig megi gera ráð fyrir að starfsemi einhverra fjármálafyrirtækja verði að hluta til fjársýsluskattsskyld og að hluta til undanþegin.  Upptaka fjársýsluskatts eigi þó ekki að valda neinum viðbótarvandkvæðum í framkvæmd þar sem þetta hlutfall eigi að liggja ljóst fyrir vegna skila á virðisaukaskatti, undanþága frá virðisaukaskatti speglist þannig yfir í fjársýsluskattsskyldu.

Í álitsbeiðni er svo rakið að Fjármálaeftirlitið hafi tekið yfir vald hlutahafafundar álitsbeiðanda á árinu 2009 og skipað sérstaka skilanefnd samkvæmt heimild í lögum um fjármálafyrirtæki, sbr. lög um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.  Frá þessum tíma lagðist eiginleg starfsemi álitsbeiðanda niður og hefur starfsemin síðan einskorðast við úrlausn ágreiningsefna um kröfuskrá félagsins, kröfuhafafundi og samskipti við kröfuhafa. 

Skilanefnd álitsbeiðanda hafi svo verið breytt í bráðabirgðastjórn sem gegndi sömu hlutverkum og skilanefndin.  Á árinu 2009 var svo álitsbeiðanda skipuð slitastjórn.  Starfsleyfi álitsbeiðanda var afturkallað á árinu 2011 á grundvelli 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.  Frá því tímamarki teljist álitsbeiðandi ekki lengur lánastofnun í skilningi tilvitnaðra laga um fjármálafyrirtæki.  Frá þeim tíma sem eiginleg starfsemi álitsbeiðanda lagðist af, 2009, hefur skattaleg staða hans breyst verulega:

  • afskráning af virðisaukaskattsskrá 2012 miðað við að starfslok hafi verið á árinu 2009
  • afskráning af launagreiðendaskrá miðað við að síðustu launagreiðslur hafi verið á árinu 2009
  • niðurfelling á undanþágu álitsbeiðanda skv. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur

Framangreint telur álitsbeiðandi vera til marks og staðfestingar á því að álitsbeiðandi teljist ekki lengur í skattalegu tilliti stunda atvinnustarfsemi, eða a.m.k. að hann stundi ekki lengur starfsleyfisskylda starfsemi sem lánastofnun.

Forsendur og niðurstaða ríkisskattstjóra:

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, er það forsenda þess að ríkisskattstjóri láti uppi bindandi álit sitt, að um sé að ræða álitaefni er varðar verulega skattalega hagsmuni þess sem eftir álitinu leitar. Álitaefni þarf þannig að varða skattalega stöðu álitsbeiðanda sjálfs. Áliti er aðeins ætlað að vera bindandi fyrir skattyfirvöld við skattlagningu álitsbeiðanda að því er þau atvik varðar er álit tekur til, sbr. 6. gr. laga nr. 91/1998. Álitið bindur þannig ekki skattyfirvöld með sama hætti gagnvart öðrum þeim er kunna telja sig vera í sambærilegri stöðu og atvik kunna að varða. Álitið er byggt á skattalegri stöðu álitsbeiðanda miðað við gildandi rétt en verði breytingar þar á kunna þær lagalegu forsendur sem álitið er reist á að falla úr gildi og þar með álitið sjálft.

Með tölvupósti, dagsettum 19. maí 2015, óskaði ríkisskattstjóri eftir því að álitsbeiðandi upplýsti hver væri hin fyrirhugaða ráðstöfun sem óskað væri bindandi álits á.  Með tölvupósti sem barst ríkisskattstjóra þann 28. maí 2015 kemur eftirfarandi fram:

„Því er til að svara að líkt og fram kemur í beiðninni þá hefur slitastjórn [álitsbeiðanda] til skoðunar að ljúka slitameðferð með gerð nauðasamninga við kröfuhafa.  Hin fyrirhugaða ráðstöfun felst því í gerð nauðasamninga sem áætlað er að munu fela í sér eftirgjöf kröfuhafa á skuldum gagnvart [álitsbeiðanda] sem ber að færa þá fjárhæð til tekna sem skattskyldar tekjur.  Áformað er að verði af þessum ráðstöfunum þá muni tekjuskattstofn [álitsbeiðanda] nema hærri fjárhæð en kr. 1.000.000.000 sem er viðmiðunarfjárhæð fjársýsluskatts, sbr. 3. málsl. 3. mgr. 72. gr. laga nr. 90/2003.

Nákvæmlega felur því hin fyrirhugaða ráðstöfun í sér gerð nauðasamnings og tekjufærslu þeirra skulda [álitsbeiðanda] sem gefnar verða eftir í nauðasamningunum.“

Ríkisskattstjóri telur að uppfyllt séu skilyrði laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, fyrir því að hann veiti álit sitt af þessu tilefni.

Með 18. gr. laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, var eftirfarandi málsliðum bætt við 3. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. og 1. málsl. þessarar málsgreinar skal einnig leggja sérstakan fjársýsluskatt á aðila sem skattskyldir eru skv. 2. gr. laga um fjársýsluskatt. Sérstaki fjársýsluskatturinn skal vera 6% af tekjuskattstofni yfir 1.000.000.000 kr., sbr. 2. tölul. 61. gr.“

Af ákvæðinu leiðir að eingöngu þeim aðilum sem falla undir skattskyldusvið hins almenna fjársýsluskatts ber að standa skil á sérstökum fjársýsluskatti.

Í 2. gr. laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, eru þeir aðilar tilgreindir sem skattskyldir eru samkvæmt lögunum. Í 2. tölul. lagagreinarinnar eru fjármálafyrirtæki felld undir skattskyldusviðið, þ.e. „[v]iðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir, rekstrarfélög verðbréfasjóða, svo og önnur fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni inna af hendi vinnu eða þjónustu sem er undanþegin virðisaukaskatti skv. 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.“

Í álitsbeiðninni er vísað til þess að í athugasemdum við lagafrumvarp það er varð að lögum nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, segi að í 2. tölul. 2. gr. séu taldir upp með jákvæðum hætti þeir aðilar sem falla undir IV. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Fyrirtæki í slitameðferð séu þar ekki tilgreind sérstaklega og falli álitsbeiðandi því ekki undir skattskyldusvið laganna. Verður ráðið af orðalagi í beiðni álitsbeiðanda að byggt sé á því að eingöngu fjármálafyrirtæki með gilt starfsleyfi falli undir ákvæðið.

Af þessu tilefni bendir ríkisskattstjóri á að í sjálfu lagaákvæðinu er engin tilvísun til IV. kafla laga nr. 161/2002 heldur er þvert á móti vísað til laganna í heild sinni. Af orðalaginu verður ekki ráðið að gerð sé krafa um að fjármálafyrirtæki hafi gilt starfsleyfi svo það falli þar undir. Tilvísun til IV. kafla laganna í athugasemdum að frumvarpi því er varð að lögum nr. 165/2011 breytir þar engu. Í þessu sambandi skal ennfremur bent á að samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 161/2002 er slitastjórn heimilt, með samþykki og undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins, að annast áfram tiltekna leyfisbundna starfsemi að svo miklu leyti sem hún er nauðsynleg vegna bústjórnar og ráðstöfunar hagsmuna fyrirtækisins. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 129/2008 um breytingu á lögum nr. 161/2002 kemur fram að slík heimild sé mikilvæg til þess að hægt sé að halda áfram ákveðinni starfsemi fjármálafyrirtækis sem miðar að því að verja eignir þeirra og hámarka virði þeirra. Upptalning 2. tölul. 2. gr. laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, afmarkar því ekki skattskylduna með jafn þröngum hætti og fram kemur hjá álitsbeiðanda.

Þá kemur fram í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sbr. þskj. 512 á 140. löggjafarþingi 2011-2012, um frumvarp það sem varð að lögum nr. 165/2011  að í stað þess að undanþiggja fjármálafyrirtæki í slitameðferð skattskyldu, eins og gert hafi verið í lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, verði eðli starfseminnar ráðandi um það hvort hún falli undir lögin.

Til stuðnings því að um sambærilega starfsemi sé að ræða má benda á að hafi verið litið svo á að núverandi starfsemi væri í þeim meginatriðum frábrugðin því sem áður var, þá hefði vart verið talin ástæða til þess að taka sérstaklega fram í bráðabirgðaákvæði b. liðar 2. tölul. 18. gr. laga nr. 165/2011 að ekki skuli taka tillit til yfirfæranlegs taps. Ennfremur má og nefna 5. mgr. 101. gr. a. laga nr. 161/2002 þar sem segir:

Ákvæði greinar þessarar eiga við um rekstur fjármálafyrirtækis sem er stýrt af bráðabirgðastjórn eða skilanefnd eftir því sem við á.“

Að mati ríkisskattstjóra er ljóst að sú starfsemi sem fer fram hjá fjármálafyrirtæki í slitameðferð er í framhaldi af fyrri starfsemi og er sama eðlis og áður var stunduð og tilgreind er í IV. kafla laganna. Sú ráðstöfun að afhenda fjármálafyrirtæki bráðabirgðastjórn leiðir í sjálfu sér hvorki til þess að fyrirtækið teljist ekki lengur vera fjármálafyrirtæki skv. lögum nr. 161/2002 né að þjónustan sé svo breytt að hún njóti ekki lengur undanþágu frá virðisaukaskatti skv. 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt.

Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á bindandi álit ríkisskattstjóra nr. 12/13 þar sem fram kemur að á meðan rekstur álitsbeiðanda helgist af uppgjöri og slitum félagsins í kjölfar bankahruns og setningar laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sé heimilt að nýta yfirfæranlegt rekstrartap á móti rekstrartekjum að teknu tilliti til þess tíu ára hámarkstíma sem lögfestur er í fyrrnefndum 8. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Í álitinu er þó gerður fyrirvari um að ef einhver sú breyting yrði á rekstri álitsbeiðanda að hann gæti ekki lengur talist vera samhangandi uppgjörsferli eða ekki um eðlilegan rekstrartilgang að ræða, gæti komið til skoðunar hvort framangreind skilyrði fyrir nýtingu eftirstöðva rekstrartaps séu uppfyllt. Niðurstaða ríkisskattstjóra var því sú að ekki hafi orðið veruleg breyting á starfsemi álitsbeiðanda við að starfsleyfið hafi verið afturkallað og félagið gæti því fært eftirstöðvar rekstrartapa frá tekjum á grundvelli 8. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Byggði álitið á því að félagið teldist enn fjármálafyrirtæki þrátt fyrir slitameðferð.

Við mat á þýðingu tilvísunar í IV. kafla laga  nr. 161/2002 í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 165/2011 er rétt að líta til tilefnis lagasetningar og tilgangs hennar.

Í athugasemdum með frumvarpinu er fjallað um tilefni lagasetningar um fjársýsluskatt. Kemur þar m.a. fram að rannsóknir sýni að fjármálafyrirtæki beri hlutfallslega minni skatta en aðrar atvinnugreinar, m.a. vegna undanþágu þeirra frá álagningu virðisaukaskatts. Það kalli á endurskoðun á álagningu skatta á greinina í því skyni að jafna þennan mun og skapa meira skattalegt jafnræði milli atvinnugreina.

Sú leið var valin að taka mið af dönskum lögum um launaskatt sem lagður er á tiltekna aðila þar í landi sem veita þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti og kemur að nokkru leyti í stað þeirrar undanþágu. Íslenski fjársýsluskatturinn er með sama hætti lagður á tiltekna aðila sem veita þjónustu sem undanþegin er skattskyldusviði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og leggst á laun og þóknanir fyrir starf og kemur þannig í reynd í staðinn fyrir virðisaukaskattsundanþágu þessara aðila, líkt og segir í athugasemdum frumvarpsins. Ef laun og þóknanir eru greidd fyrir starf er varðar þjónustu fjármálafyrirtækis sem fellur undir skattskyldusvið laga um virðisaukaskatt ber ekki að leggja fjársýsluskatt á endurgjald vegna starfans. Undanþágan speglast þannig frá virðisaukaskatti yfir í fjársýsluskattsskyldu. Þannig er grundvallaratriði að afmarka eðli starfseminnar við mat á því hvort undanþáguákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 eigi við um álitsbeiðanda.

Undanþága 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 tekur til eiginlegrar, skilgreindrar þjónustu banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, samkvæmt lögum sem gilda þar um hverju sinni, en ekki til annarrar þjónustu sem þessir aðilar kunna að veita. Litið er til IV. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, við afmörkun á því um hvaða þjónustu er að ræða. Skýrir það tilvísun í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 165/2011. Hafa ber þó í huga að undanþágan tekur einnig til vinnu sem telja má óaðskiljanlegan þátt í undanþeginni starfsemi þessara aðila. Undanþágan tekur þannig ekki eingöngu til útseldrar þjónustu umræddra aðila. Verður því að leggja sjálfstætt mat á það hvort tiltekin starfsemi aðila sé óaðskiljanlegur þáttur í undanþeginni starfsemi aðila eða hvort hún sé þáttur í þeirri starfsemi sem fellur undir skattskyldusvið laga nr. 50/1988.

Að mati ríkisskattstjóra verður að telja ljóst að kröfur á álitsbeiðanda séu tilkomnar vegna eiginlegrar starfsemi hans sem fjármálafyrirtækis og umsýsla þeirra þannig órjúfanlegur þáttur í undanþeginni starfsemi skv. 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, sbr. IV. kafla laga nr. 161/2002. Ræður það ekki úrslitum í þessu sambandi að starfsleyfi álitsbeiðanda var afturkallað þar sem tilteknir þættir í starfseminni voru skildir frá starfsemi slitabúanna, enda felst starfsemi slitabúa í því að ljúka ákveðnum þáttum sem eru klárlega hluti af undanþeginni starfsemi, sbr. 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Starfsemi álitsbeiðanda, þ.e. endurskipulagning fjárhags, ávöxtun og sala eigna og ráðstöfun þeirra til eigenda eða kröfuhafa, er eðlilegt framhald af þeirri starfsemi sem áður var háð starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins og verður ekki fallist á að slík eðlisbreyting hafi orðið á eiginlegri starfsemi að hún falli ekki lengur undir undanþáguákvæði laga um virðisaukaskatt heldur helgast sú breyting af þeirri tímabundnu stöðu félagsins að vera fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Ef til hefði staðið að undanþiggja fjármálafyrirtæki í slitameðferð greiðslu almenns og sérstaks fjársýsluskatts hefði sérstaklega þurft að tilgreina það í sjálfu ákvæði 2. tölul. 2. gr. laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt. Það var ekki gert heldur þvert á móti ákveðið að í stað þess að undanþiggja fjármálafyrirtæki í slitameðferð skattskyldu ætti eðli starfseminnar að vera ráðandi um það hvort hún félli undir ákvæðið, sbr. fyrrgreint nefndarálit.

Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á að starfsemi álitsbeiðanda sé í meginatriðum frábrugðin því sem áður var.

Í álitsbeiðni segir m.a.:

„Af framangreindu má ráða að um leið og félagi er skylt að standa skil á fjársýsluskatti, þó ekki sé nema af launum eins starfsmanns, vakni skylda hjá félaginu til að standa jafnframt skil á sérstökum fjársýsluskatti af hagnaði yfir þeim mörkum sem tilgreind eru í 3. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.“

Ekki verður fallist á þann skilning sem lesa má úr beiðni álitsbeiðanda að eingöngu þeir sem standi skil á fjársýsluskatti í raun séu jafnframt skattskyldir til sérstaks fjársýsluskatts. Gera verður greinarmun annars vegar á þeim sem ekki falla undir skattskyldusvið laga nr. 165/2011 og sæta þar af leiðandi ekki álagningu fjársýsluskatts og hins vegar þeim sem eru skattskyldir en sæta ekki álagningu þar sem skattstofninn er 0 kr., líkt og er í tilviki álitsbeiðanda.

Að framangreindu virtu og eins og mál þetta er lagt fyrir er það niðurstaða ríkisskattstjóra að álitsbeiðandi falli undir 2. tölul. 2. gr. laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt.  Honum ber því að greiða sérstakan fjársýsluskatt, sbr. 3. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, enda fari skattstofn hans yfir  1.000.000.000 kr., svo sem vegna tekjufærslu í tilefni af nauðasamningum við kröfuhafa.

Álitsorð:

  • Álitsbeiðanda er skylt að standa skil á sérstökum fjársýsluskatti samkvæmt 3. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, enda fari stofn til sérstaks fjársýsluskatts yfir þau fjárhæðarmörk sem lögin kveða á um í kjölfar fyrirhugaðra nauðasamninga.
Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum