Bindandi álit

Bindandi álit nr. 07/13

11.9.2013

Málsatvik í álitsbeiðni:

Álitsbeiðendur eru tveir, sveitarfélagið A og félag í eigu þess B.  Í álitsbeiðni kemur fram að fráveita A sé alfarið í eigu A og að rekstur fráveitunnar fari fram á B-hluta í reikningsskilum hans. Undir B-hluta reikningsskila falli starfsemi sem yfirleitt er að mestu fjármögnuð með þjónustugjöldum s.s. rekstur hafna, veitustarfsemi og rekstur félagslegs húsnæðis. Á A-hluta séu aftur á móti þau verkefni sem fjármögnuð eru með skatttekjum s.s. fræðslumál, félagsþjónusta, umhverfismál, æskulýðs- og íþróttastarfsemi og skipulagsmál.

Þá eru ákvæði laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna, rakin og kemur fram að sveitarfélög séu skyldug til að starfrækja fráveitur í þéttbýli í þeim tilgangi að frárennsli valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið. Samkvæmt lögunum eiga sveitarfélög einkarétt á rekstri skyldubundinnar fráveitu innan sinna staðarmarka en heimilt sé að fela stofnun eða félagi skyldur og réttindi sem varða rekstur fráveitunnar að því gefnu að stofnunin eða félagið sé í meirihlutaeigu sveitarfélagsins.

Í álitsbeiðninni er rakið hvernig gjaldtöku fyrir fráveitu er háttað og kemur fram að heimilt sé að innheimta fráveitugjald með fasteignaskatti og til tryggingar gjaldinu sé lögveðsréttur í viðkomandi fasteign. Þá kemur fram að miða skuli við að fjárhæð fráveitugjalds ásamt öðrum tekjum fráveitunnar standi undir rekstri hennar.

Þá segir svo í álitsbeiðni:

„Rekstur fráveitu er skyldubundið verkefni sveitarfélaga sem almennt er ekki í samkeppni við starfsemi atvinnufyrirtækja. Fráveitugjald telst vera skattur en ekki þjónustugjald. Rekstur fráveitu hefur almennt ekki þann efnahagslega tilgang að skila hagnaði og er því ekki atvinnurekstur í skattalegum skilningi.“

Álitsbeiðendur vísa til reglugerðar um fráveitu A þar sem fram kemur að A starfræki fráveituna en að bæjarsjóður kosti reksturinn og framkvæmdir við hana. Þá kemur fram að tæknideild bæjarins fari með umsjón, framkvæmdir og rekstur fráveitunnar í umboði bæjarstjórnar og að bæjarverkfræðingur hafi yfirumsjón. Þá eigi bæjarsjóður allar holræsalagnir fráveitunnar, útrásir, stofnræsi, götuholræsi, ofanvatnsræsi í götum og á opnum svæðum og götufráræsi að fráræsum húseigna, sem og allan fráveitubúnað, brunna, niðurföll, dælustöðvar og hreinsistöðvar.

Þá kemur fram í álitsbeiðni að ekkert sérstakt félagaform sé um rekstur fráveitunnar og að rekstur hennar sé undanþegin tekjuskatti skv. 2. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Í álitsbeiðninni er einnig að finna umfjöllun um ástæður þess að B var breytt í hlutafélag.  Breytingar á raforkulögum sem tóku gildi 2003 kváðu á um aðskilnað á milli framleiðslu og sölu rafmagns annars vegar og dreifingu hins vegar. Í framhaldinu keypti B hlut í C hf. sem vann að uppbyggingu virkjana í D. Skilið hafi verið á milli annars vegar dreifingar og hins vegar framleiðslu og sölu með því að fela C, dótturfélagi B, síðarnefndan hluta rekstrarins. Sérleyfisþátturinn, uppbygging, rekstur og viðhald dreifikerfisins á A hafi þar með orðið eina hlutverk rafveitu B. Á árinu 2005 hafi A hf. svo keypt allt hlutafé í C ehf.

Í álitsbeiðninni kemur fram að í dag séu hluthafar B sex að tölu, A sá stærsti með 98% eignarhlutdeild, en aðrir hluthafar séu X, Y, Z, Þ og Æ. Þá er rakið að rekstur félagsins skiptist í tvö svið.  Þjónustu- og fjármálasvið stýri þjónustuveri, hafi umsjón með birgðahaldi, bókhaldi og fasteignum félagsins. Framkvæmdasviðið fari með framkvæmdir, kerfisstjórn, raforkudreifingu, mælaumsjón og reki teiknistofu. Þá sé þróunarsvið stoðsvið sem hafi umsjón með mannauðsmálum, gæðamálum, umhverfis- og kynningarmálum.

Þá segir svo orðrétt í álitsbeiðni:

„Þó svo að B sé hlutafélag ber að hafa í huga að það hefur þá sérstöðu að allur meginrekstur þess fellur undir sérleyfis-starfsemi og er háð sérlögum þar að lútandi. Þetta þýðir með öðrum orðum að allar megintekjur félagsins og þar með verðskrá þess er háð eftirliti og eftir atvikum samþykki opinberra aðila.“

Í álitsbeiðninni segir ennfremur:

„Samkvæmt stefnumörkun félagsins er tilgangur B hf. rekstur rafveitu og dreifing á raforku, vinnsla, dreifing og sala á heitu vatni og neysluvatni.“

Þá kemur fram að félagið stundi nauðsynlegar rannsóknir og leit að nýtanlegum jarðvarma og neysluvatni til að mæta þörfum viðskiptavina á hverjum tíma. Þá sé félaginu heimilt að taka þátt í hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækisins sem og þróun og nýsköpun af hverju tagi ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt stefnumörkun og ákvörðun stjórnar hverju sinni. Ennfremur kemur fram að B hf. sé heimilt að eiga og reka eða taka að sér rekstur fráveitu samkvæmt samkomulagi við sveitarfélög þar að lútandi, sem og að eiga og  reka dótturfélög og eiga hlut í öðrum félögum. 

Fyrirætlun álitsbeiðenda:

Í álitsbeiðni segir svo um fyrirætlanir álitsbeiðenda:

„Til stendur að kanna ítarlega þann möguleika á að selja fráveitu A til B. Fyrirhuguð sala fráveitunnar er liður í endurskipulagningu A í því skyni að stuðla að frekari hagkvæmni í rekstri fráveitunnar, enda er talið að rekstur fráveitunnar falli vel að núverandi starfsemi B.“

Álitaefni:

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðendur telji að uppfyllt séu lagaskilyrði fyrir því að ríkisskattstjóri láti uppi bindandi álit um fyrirhugaða sölu fráveitunnar, sbr. lög nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Álitaefni varði verulega hagsmuni álitsbeiðenda auk þess sem ekki hafi verið ráðist í þá ráðstöfun sem óskað er eftir bindandi áliti um. Ríkisskattstjóri er því beðinn um bindandi álit á eftirfarandi álitaefnum:

„(i)  Að engin skattskylda myndist hjá A vegna fyrirhugaðrar sölu fráveitunnar til B?

(ii)  Að B verði heimilt að líta svo á að fráveita A verði áfram undanþegin tekjuskatti, eins og áður þegar fráveitan var eign A, þannig að áður hafi undanþágan byggt á 2. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga, en eftir sölu fráveitu A til B komi undanþágan til með að byggja á 5. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga?

(iii)  Að B verði heimilt að líta svo á að ef fráveitan verði seld í framtíðinni, í heild eða hluta, frá B, að það myndi ekki skattskyldan söluhagnað hjá B, samanber 4. mgr. 71. gr. tekjuskattslaga?“

Forsendur og niðurstöður ríkisskattstjóra:

Bindandi áliti er aðeins ætlað að vera bindandi fyrir skattyfirvöld við skattlagningu álitsbeiðenda að því er þau atvik varðar er álit tekur til, sbr. 6. gr. laga nr. 91/1998. Álitið bindur þannig ekki skattyfirvöld með sama hætti gagnvart öðrum þeim er kynnu að telja sig vera í sambærilegri stöðu hvað atvik kunna að varða.

Álitið er byggt á skattalegri stöðu álitsbeiðenda miðað við gildandi rétt en verði breytingar þar á kunna þær lagalegu forsendur sem álitið er reist á að falla úr gildi og þar með álitið sjálft.

Ríkisskattstjóri telur að uppfyllt séu lagaskilyrði fyrir því að hann gefi bindandi álit sitt af þessu tilefni sbr. lög nr. 91/1998.

Álitaefni 1.

Eins og kemur fram hér að framan óskar álitsbeiðandi, A, eftir því að ríkisskattstjóri staðfesti að engin skattskylda myndist hjá kaupstaðnum við sölu fráveitunnar til B.

Samkvæmt 8. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, telst hagnaður af sölu eigna til skattskyldra tekna allt eftir nánari tilgreiningu í 12.-27. gr. laganna.

Í 2. tölul. 4. gr. kemur  fram að sýslu- og sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir sem þau reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á séu undanþegin tekjuskatti.

Í 1. málsl. 4. mgr. 71. gr. sömu laga er engu að síður að finna ákvæði sem kveður á um skattskyldu af tilteknum tekjum hjá m.a. þeim aðilum sem undanþegnir eru skattskyldu samkvæmt áður tilvitnuðu ákvæði 2. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga.  Ákvæðið er svohljóðandi:

„Lögaðilar þeir sem, er undanþegnir eru skattskyldu skv. 1., 2., 4., 5., 6. og 7. tölul. 4. gr., skulu þrátt fyrir það greiða tekjuskatt af fjármagnstekjum, sbr. 3., 4. og 5. tölul. C-liðar 7.gr. svo og skv. 8. tölul. sama stafliðar 7. gr., að því er varðar söluhagnað af hlutabréfum.“

Samkvæmt framanrituðu eru aðilar sem undanþegnir eru skattskyldu skv. 2. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga þannig eingöngu skattskyldir af söluhagnaði hlutabréfa en ekki af söluhagnaði sem myndast getur  vegna sölu annarra eigna. Ríkisskattstjóri staðfestir því að engin skattskylda myndast hjá A við fyrirhugaða sölu á fráveitunni til B.

Álitaefni 2.

Álitsbeiðandi B. óskar eftir því að ríkisskattstjóri staðfesti að heimilt verði að líta svo á að rekstur fráveitu verði undanþegin tekjuskatti skv. 5. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, verði af sölu fráveitunnar til félagsins.

Samkvæmt lögum nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna, ber sveitarfélögum skylda til að koma á og reka fráveitu í þéttbýli. Að sama skapi hvílir á sveitarfélögum skylda til að haga fráveitu með ákveðnum hætti í dreifbýli sbr. 4. gr. áður nefndra laga. Í 5. gr. laganna kemur fram að sveitarstjórn fari með rekstur og stjórn fráveitu á vegum sveitarfélagsins nema annað rekstrarform hafi verið ákveðið sbr. 6. gr.

Ákvæði 6. gr. kveður á um að sveitarstjórn sé heimilt að fela stofnun eða félagi sem að meiri hluta er í eigu sveitarfélaga skyldur og réttindi hvað varðar uppbyggingu, rekstur og eignarhald fráveitna samkvæmt lögunum. Í 2. og 3. mgr. 6. gr. er svo að finna ákvæði um hvernig með skuli fara þegar fráveitu er ráðstafað til félags eða stofnunar skv. 1. mgr. Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 9/2009 segir svo um ákvæði 6. gr.:

„Með ákvæðinu í 1. mgr. er gert ráð fyrir þeim möguleika að sveitarstjórn feli stofnun eða félagi sem að meiri hluta er í eigu sveitarfélaga skyldur sínar og réttindi hvað varðar fráveituframkvæmdir og rekstur samkvæmt  frumvarpinu. Nokkur dæmi eru um að þetta hafi verið gert. Dæmi eru einnig um að sama félagið reki fráveitur í fleiri en einu sveitarfélagi.  Gerir frumvarpið ráð fyrir að þetta verði áfram mögulegt. Gera má ráð fyrir að þessi heimild verði nýtt í einhverjum mæli til að ná fram hagræðingu í uppbyggingu og rekstri fráveitna. Í 2. mgr. er kveðið á um að við ráðstöfun skv. 1. mgr. skuli í samningi, eftir því sem við á, kveðið á um eignarrétt á fráveitu, eftirlit, sveitarstjórnar með rekstri fráveitunnar, innlausnarrétt sveitarfélagsins á fráveitu og fastafjármunum fráveitunnar auk annarra atriða sem sveitarstjórn telur nauðsynleg. Ef ekki er kveðið á um annað í samningum aðila skal, samkvæmt ákvæði 3. mgr., innlausnarverð fráveitu og fastafjármuna miðast við afskrifað endurstofnverð þessara eigna. Ef ágreiningur verður um verð skera dómkvaddir matsmenn úr nema samningsaðilar verði ásáttir um að leysa ágreininginn á annan hátt.“

Að framangreindu virtu er ljóst að samkvæmt lögum er A heimilt að selja rekstur og eignir fráveitunnar til B, enda sé uppfyllt lagaskilyrðið þess efnis að B sé í meiri hluta eigu sveitarfélaga. Í álitsbeiðni hefur verið upplýst að svo sé. Jafnframt er í lagaákvæðinu gerður áskilnaður um að í samningi sé kveðið á um innlausnarrétt sveitarfélags og innlausnarverð fráveitu og fastafjármuna.

Í dag er rekstur fráveitunnar, eins og upplýst er í álitsbeiðni, kostaður af bæjarsjóði og að ekkert sérstakt félagaform hafi verið um reksturinn. Þessi þáttur í lögbundinni starfsemi A hefur þannig hingað til verið undanþeginn tekjuskatti skv. 2. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Verði af fyrirætlunum álitsbeiðenda verður ekki annað ráðið af álitsbeiðni en að fráveitan öll, rekstur hennar og þær eignir sem þeim rekstri tengjast, færist yfir til B við sölu. Miðað við þær upplýsingar sem fram koma í álitsbeiðni er ekki gert ráð fyrir að nein breyting verði á hlutverki fráveitunnar sem slíku við þessa tilfærslu / sölu. Í álitsbeiðni er ekki upplýst hvort rekstur fráveitunnar verði sameinaður rekstri B eða hvort sérstakt félag verði stofnað um rekstur veitunnar en af orðalagi álitsbeiðnarinnar dregur ríkisskattstjóri þá ályktun að rekstur veitunnar verði ekki í sérstöku félagi. Þá er heldur ekki upplýst hvernig háttað verði gjaldtöku fyrir þjónustu fráveitunnar en í álitsbeiðni er að finna misvísandi upplýsingar um hvort að það gjald sem innheimt er í dag sé skattur eða þjónustugjald sbr. annars vegar texta á bls. 2 í álitsbeiðni þar sem fram kemur að rekstur fráveitunnar sé á B hluta þar sem um sé að ræða starfsemi sem alla jafna sé fjármögnuð með þjónustugjöldum og hins vegar texta á sömu blaðsíðu þar sem fram kemur að fráveitugjald teljist vera skattur en ekki þjónustugjald.

Hlutafélög sem heimilisföst eru hér á landi falla undir 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 hvað varðar skyldu til að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum. Kemur þannig ekki til þess að hlutafélagið B verði jafnframt fellt undir 5. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga, líkt og álitsbeiðandi vísar til í álitsbeiðni, en þar segir að undanþegin skattskyldu séu :

„Félög, sjóðir og stofnanir, sbr. 5. tölul. 2. gr., sem ekki reka atvinnu.

Í því máli sem hér til álitsgjafar er B hlutafélag sem stofnað var til með sérstökum lögum. Í 9. gr. upphaflegu  laganna kemur fram að um skyldu B til greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarsjóða fari á sama hátt sem um skyldu fyrirtækja og stofnana sem sýslu- og sveitarfélög reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á og hafa slíkan rekstur með höndum. Í athugasemdum við ákvæðið, sem þá var 10. gr. frumvarpsins sagði:

„Í greininni segir í 1. mgr. að um skyldu B til greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarsjóða fari á sama hátt sem um skyldu fyrirtækja og stofnana sem sýslu- og sveitarfélög reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á og hafa slíkan rekstur með höndum. Ákvæðið á sér rót í því að flest fyrirtæki landsins sem annast dreifingu og sölu á heitu vatni, rafmagni og vatni eru í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga og bera eigendur ótakmarkaða ábyrgð á rekstri þeirra. Í 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eru fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga sem ríkissjóður eða sveitarfélög reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á undanþegin skattskyldu. Í frumvarpsgreininni er lagt til að skattalega staða B haldist óbreytt þrátt fyrir breytt rekstrarform. [feitletrað hér] Með þessu er tryggt að fyrirtækið njóti sömu skattalegu stöðu og önnur raforkufyrirtæki. Þetta ákvæði frumvarpsins byggist á 80. gr. orkulaga, nr. 58/1967, með síðari breytingum.

Á næstunni munu verða breytingar á skipulagi raforkumála. Í tengslum við þær breytingar verður skattaleg staða raforkufyrirtækja tekin til skoðunar. Hugsanlegt er að þessi skoðun leiði til breytinga á því skattalega fyrirkomulagi sem nú er. Ákvæðinu er ætlað að standa þar til þessi skoðun hefur farið fram.

Í 2. mgr. er kveðið á um að við nauðsynlegar eignatilfærslur á milli A og B við formbreytinguna verða þær eignatilfærslur ekki andlag skatttöku. “

Við gildistöku laganna taldist félagið þannig undanþegið tekjuskatti skv. 7. tölul. fremur en 2. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga.

Á árinu 2003 var lögunum breytt á þá leið að nýjum málslið var bætt við 1. mgr. 9. gr. sem kvað á um að félaginu var gert að greiða til sveitarfélaga þau opinberu gjöld sem lögð eru á fasteignir.

Með lagabreytingum á árinu 2005 féll niður undanþága félagsins frá greiðslu tekjuskatts. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 65/2005 segir:

„Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar nýrra raforkulaga, nr. 65/2003, sem fela í sér heildarendurskoðun á löggjöf um vinnslu, flutning, dreifingu og sölu á raforku, og samhliða frumvarpi um skattskyldu orkufyrirtækja. Frumvarp um skattskyldu orkufyrirtækja var samið af starfshópi fjármálaráðherra sem fjallaði um skattalegt umhverfi raforkufyrirtækja með það fyrir augum að tryggja jafnræði í skattalöggjöf á þessu sviði. Það var niðurstaða starfshópsins að rökréttast væri að skoða starfsemi orkufyrirtækja heildstætt en ekki einungis raforkustarfsemina enda væri það ýmsum vandkvæðum bundið í skattalegu tilliti, vegna þess hversu blandaður rekstur orkufyrirtækjanna væri, að skilja á milli kostnaðar vegna sölu á raforku annars vegar og heitu vatni hins vegar. Jafnframt taldi starfshópurinn nauðsynlegt að orkugeirinn sem heild byggi við sambærileg skattaleg skilyrði, ekki síst út frá almennum samkeppnissjónarmiðum.

Í frumvarpi um skattskyldu orkufyrirtækja er gert ráð fyrir að orkufyrirtæki, þ.e. fyrirtæki sem stunda vinnslu, dreifingu, flutning, sölu og afhendingu á raforku og heitu vatni, verði skattskyld frá og með 1. janúar 2006. Samhliða því frumvarpi er nauðsynlegt að afnema öll ákvæði í sérlögum sem veita orkufyrirtækjum sérstakar undanþágur frá sköttum og öðrum opinberum gjöldum. Í þessu frumvarpi eru því felld brott sérákvæði um skattundanþágur sem finna má í orkulögum, nr. 58/1967, lögum um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja, nr. 10/2001, lögum um stofnun hlutafélags um Norðurorku nr. 159/2002, lögum um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða, nr. 40/2001, lögum um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, nr. 139/2001, lögum um Landsvirkjun, nr. 42/1983, og lögum um raforkuver, nr. 60/1981. Í frumvarpinu felst að undanþága framangreindra fyrirtækja frá greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarfélaga fellur niður, þ.m.t. greiðsla stimpilgjalds.“ [feitletrað hér]

Brottfall sérákvæðis þess, sem tók gildi 20. maí 2005 leiðir þannig til almennrar skattskyldu B sem hlutafélags sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Lög um skattskyldu orkufyrirtækja nr. 50/2005 tóku gildi þann 30. maí 2005. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að þeim lögum kemur fram að ætlunin sé að fella niður undanþágur orkufyrirtækja frá tekjuskatti og eignarskatti og að orkufyrirtækin greiði eftir gildistöku laganna tekjuskatt og eignarskatt með sama hætti og önnur atvinnufyrirtæki. Ennfremur kemur fram að um skattlagningu skuli gilda öll ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt.  Þá segir svo orðrétt:

„Þessi regla leiðir til þess að orkufyrirtækjum ber að haga uppgjöri til skatts með þeim hætti sem skattalög áskilja, m.a. að því er varðar ákvörðun um hvað teljist tekjur og gjöld svo og eignir til fyrninga á komandi árum.“

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 50/2005 er kveðið á um skattskyldu orkufyrirtækja. Jafnframt kemur fram að skattskyldan taki til allra orkufyrirtækja þrátt fyrir undanþáguákvæði 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í 2. mgr. 1. gr. kemur fram að sé rekstur orkufyrirtækis hluti af starfsemi opinbers aðila skal bæði rekstur og efnahagur hins skattskylda hluta að fullu aðgreindur bókhaldslega frá annarri starfsemi. Þá er í 2. gr. laganna að finna eftirfarandi skilgreiningu á orkufyrirtæki og afmarkast skattskyldan samkvæmt því við eftirgreinda rekstrarþætti:

„Í lögum þessum merkir orkufyrirtæki fyrirtæki sem stundar vinnslu, dreifingu, flutning, sölu og afhendingu á raforku og heitu vatni.“

Eins og fram hefur komið, þá var undanþága B skv. 4. gr. tekjuskattslaga felld niður við gildistöku laga nr. 50/2005, sbr. 3. gr. laga nr. 65/2005, og leiðir af því að skattskyldusvið laga nr. 50/2005 einskorðast við þá aðila sem falla undir undanþáguákvæði 4. gr. laga nr. 90/2003. Ekki kemur þannig til þess að B verði einungis skattskyld af þeim þætti starfseminnar sem varðar „vinnslu, dreifingu, flutning, sölu og afhendingu á raforku og heitu vatni“ heldur verður almennt litið svo á að allir þættir starfsemi hlutafélagsins falli undir skattskyldusvið skattskyldra lögaðila skv. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 komi ekki annað til.

Samkvæmt samþykktum B er tilgangur félagsins:

„vinnsla og nýting jarðhita, vatnsorku, vatns og hvers konar annarra auðlinda.  Einnig dreifing og viðskipti með orku, vatn og aðrar afurðir félagsins svo og hver önnur starfsemi sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað félagsins.  Að eiga og reka fasteignir.  Að vinna að iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi sem er ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.“

Samkvæmt framangreindu telst B því skattskyldur lögaðili samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ákvæði tekjuskattslaga gilda þannig um skattskil félagsins að þessu leyti með hliðsjón af sérákvæðum laga nr. 50/2005, s.s. hvað varðar yfirfæranlegt tap þeirra orkufyrirtækja, sem undanþegin voru skattskyldu, hvað þessa þætti vörðuðu, endurmat eigna og fyrningar. Af samþykktum félagsins dags. 1. júlí 2008 – sjá 13. gr. kemur fram að á aðalfundi skuli taka ákvörðun um úthlutun arðs, en fram hefur komið að eigendur félagsins og þar með móttakendur arðsgreiðslna eru sex nafngreind sveitarfélög.

Hér að framan hefur verið rakinn aðdragandinn að stofnun hlutafélagsins B og forsendur þeirra sérákvæða, sem efni þóttu til að setja varðandi undanþágu frá almennri skyldu hlutafélaga til þess að greiða tekjuskatt. Almennt teljast hlutafélög, skv. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. skattskyld af starfsemi sinni, nema þau séu sérstaklega undanþegin skattskyldu, skv. 7. tölul. 4. gr., eða verji hagnaði sínum einungis til almenningsheilla samkvæmt samþykktum sínum, sbr. 4. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga. Jafnframt geta félög, sjóðir og stofnanir, sem skattskyld eru samkvæmt 5. tölul. 2. gr. verið undanþegin skattskyldu, skv. 5. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga ef þau reka ekki atvinnu.

Engin dæmi eru um það að lögaðili sem í krafti sérákvæðis hefur verið undanþeginn skattskyldu, skv. ákvæðum 4. gr. tekjuskattslaga og að þeirri undanþágu brottfelldri, sbr. 3. gr. laga nr. 65/2005, verði aftur að óbreyttu felldur undir önnur ákvæði tilvitnaðrar 4. gr. Ljóst má þannig vera að ef að lögboðin starfsemi sem sveitarfélögum er ætlað að halda uppi, svo sem starfræksla fráveitna, skv. lögum nr. 9/2009, yrði færð til B þá félli niður sú undanþága frá tekjuskatti, sem þessi starfsemi nýtur nú innan vébanda þeirrar starfsemi sýslu- og sveitarfélaga, skv. 2. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga.

Álitaefni 3.

Álitsbeiðandi B óskar eftir því að ríkisskattstjóri staðfesti að heimilt verði að líta svo á að komi til sölu fráveitunnar í heild eða að hluta frá félaginu þá myndi það ekki skattskyldan söluhagnað hjá B. Álitsbeiðandi vísar til 4. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, til stuðnings þessari niðurstöður sinni.

Samkvæmt framangreindu telst B skattskyld af öllum tekjum sínum sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 3. gr. laga nr. 65/2005. Ákvæði tekjuskattslaga gilda þannig um skattskil félagsins að þessu leyti.

Samkvæmt 8. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, telst hagnaður af sölu eigna til skattskyldra tekna allt eftir nánari tilgreiningu í 12.-27. gr. laganna.

Á grundvelli þess sem fram kemur í áliti ríkisskattstjóra sbr. álitaefni 2 hér að framan þá hefur undanþága B til greiðslu tekjuskatts skv. 4. gr. laga nr. 90/2003, verið felld niður, sbr. ákvæði 3. gr. laga nr. 65/2005 og bæri B þannig skylda til að greiða tekjuskatt af þeim söluhagnaði sem myndast gæti við sölu á rekstri og eignum fráveitunnar sbr. 12. – 27. gr. tekjuskattslaga. 

Álitsorð:

Ríkisskattstjóri hefur samkvæmt framansögðu komist að eftirfarandi niðurstöðu vegna þeirra álitaefna sem fram eru sett í álitsbeiðni:

·         A ber ekki skylda til að greiða tekjuskatt vegna söluhagnaðar sem myndast gæti við sölu á rekstri og eignum fráveitu A til B.

·         B er á grundvelli almennrar skattskyldu skv. ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skattskyld af öllum tekjum sínum.

·         B ber skylda til að greiða tekjuskatts vegna söluhagnaðar sem myndast gæti við sölu á rekstri og eignum fráveitunnar skv. almennum ákvæðum 12. -27. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum