Bindandi álit

Bindandi álit nr. 2/13

18.11.2013

Málsatvik og fyrirætlanir álitsbeiðanda:

Í fyrirliggjandi álitsbeiðni er gerð svohljóðandi grein fyrir álitsbeiðanda:

„Álitsbeiðandi sætir slitameðferð samkvæmt XII. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Þann XX.XX.XXXX tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar álitsbeiðanda, vék stjórn félagsins frá störfum og skipaði því skilanefnd.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur XX.XX.XXXX var álitsbeiðanda veitt heimild til greiðslustöðvunar...

Að beiðni skilanefndar skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur álitsbeiðanda slitastjórn þann XX.XX.XXXX.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur XX.XX.XXXX var álitsbeiðandi tekinn til formlegrar slitameðferðar með réttaráhrifum frá XX.XX.XXXX. Gjaldfelling krafna á hendur álitsbeiðanda miðast við XX.XX.XXXX, svo og umreikningur krafna í erlendum gjaldmiðlum til íslenskra króna. Vextir frá þeim degi hafa stöðu eftirstæðra krafna. Vísast í þessu sambandi til ákvæða 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og 99. gr. og 114. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

Með bréfi dagsettu XX.XX.XXXX tilkynnti Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun sína að afturkalla starfsleyfi álitsbeiðanda sem viðskiptabanka.“

Þá kemur fram í álitsbeiðni að það sé ljóst að eignir álitsbeiðanda muni ekki nægja til fullrar greiðslu á þeim kröfum sem lýst hefur verið á hendur honum. Jafnframt kemur fram að álitsbeiðandi hyggist leita nauðasamnings til lykta slitameðferðar í samræmi við ákvæði 3. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, enda liggi fyrir að slíkt eigi sterkan hljómgrunn hjá kröfuhöfum.

Í álitsbeiðni er að finna eftirfarandi lýsingu á fyrirætlunum álitsbeiðanda:

1. liður.
Álitsbeiðandi greiðir í reiðufé upp í hverja kröfu ákveðna lágmarksfjárhæð sem óveruleg er í ljósi efnahags álitsbeiðanda. Kröfur undir þeirri lágmarksfjárhæð greiðast því að fullu. Jafnframt verður lágmarksfjárhæðin fullnaðargreiðsla krafna sem ekki eru umfram tvöfalda lágmarksfjárhæðina. Framkvæmd þessi helgast af 3. mgr. 29. gr. og 2. mgr. 36. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

2. liður.
Álitsbeiðandi greiðir hlutfallslega upp í kröfur með reiðufé, eftir því sem slíkt fé hrekkur til.

3. liður.
Álitsbeiðandi gefur út skuldabréf til kröfuhafa fyrir hluta þeirrar fjárhæðar sem eftir stendur af kröfum eftir greiðslur samkvæmt 2. lið.

4. liður.
Hlutafé í álitsbeiðanda verður hækkað um fjárhæð sem nemur tilteknu hlutfalli af þeirri fjárhæð krafna sem eftir stendur eftir ráðstafanir samkvæmt 1. til 3. lið. Kröfuhafar skrá sig fyrir hlutafjárhækkuninni í réttu hlutfalli við kröfueign og greiða hlutafjárloforð með skuldajöfnun, þ.e. lækkun kröfu á hendur álitsbeiðanda um sömu fjárhæð og hlutafjárloforð nemur. Samhliða verður það hlutafé sem fyrir er í álitsbeiðanda fellt niður til tapsjöfnunar, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 51. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög.

5. liður.
Kröfuhafar gefa álitsbeiðanda eftir þann hluta krafna sem enn er ógreiddur eftir ráðstafanir skv. 1. til 4. lið. Jafnframt falla eftirstæðar kröfur að öllu leyti niður.“

Um þau skuldabréf sem álitsbeiðandi hyggst gefa út í samræmi við 3. lið fyrirhugaðs nauðasamnings segir í álitsbeiðni að þau muni kveða á um beina og skilyrðislausa skyldu álitsbeiðanda til greiðslu á nafnverði bréfanna. Það nafnverð muni miðast við ætlaðar og raunhæfar væntingar um hámarksheimtur af eignum álitsbeiðanda. Þá muni skuldabréfin hafa jafnan rétt til greiðslna (lat. pari-passu) eins og segir í álitsbeiðni. Jafnframt kemur fram að skuldabréfunum sé ekki ætlað að bera vexti og að þau muni kveða á um ársfjórðungslegar greiðslur. Sú greiðsla mun ekki vera fyrirframákveðin heldur mun hún ráðast af reiðufjárstöðu álitsbeiðanda. Ennfremur kemur fram að lokagjalddaga skuldabréfanna sé ætlað að vera að liðnum 30 árum frá útgáfudegi þeirra.

Álitsbeiðandi vísar til þess að í rekstri hans sem viðskiptabanka á liðnum árum hafi myndast verulegt skattalegt tap og að grein hafi verið gerð fyrir því tapi í skattskilum hans í samræmi við 8. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá er vísað til þess að rekstur álitsbeiðanda frá því að skilanefnd og síðar slitastjórn var skipuð hafi miðað að því að tryggja bestu mögulegu heimtur á eignum til uppgjörs á skuldum. Jafnframt kemur fram að áframhaldandi rekstur álitsbeiðanda eftir að nauðasamningur hefur komist á muni miðast við sama markmið, þ.e. að hámarka verðmæti eigna og heimtur þeirra. Ennfremur kemur fram að þar sem í gildi eru hömlur á fjármagnshreyfingum milli landa þá bindi það að nokkru fé álitsbeiðanda og að af þeim sökum kunni hann að þurfa að ráðast í fjárfestingar til viðhalds og ávöxtunar fjár uns því verði komið í hendur kröfuhafa.

Álitaefni:

Í álitsbeiðni er óskað eftir að ríkisskattstjóri láti uppi bindandi álit sitt, sbr. lög nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, um eftirtalin álitaefni:

„1. Verður álitsbeiðanda  heimilt í skattskilum sínum að líta svo á að útgáfa félagsins á skuldabréfum til kröfuhafa, samkvæmt 3. lið fyrirhugaðs nauðasamning eins og þeim lið er lýst hér að framan, feli í sér formbreytingu á hluta skulda félagsins, en hvorki eftirgjöf á þeim hluta skuldanna né umbreytingu þeirra í eigið fé?

2.   Verður álitsbeiðanda heimilt í skattskilum sínum að telja umrædd skuldabréf, sbr. 1. álitaefni, að fullu til skulda í samræmi við eftirstöðvar nafnverðs skuldabréfanna í lok hvers reikningsárs?

3.   Verður álitsbeiðanda í skattskilum sínum heimilt að draga yfirfæranlegt rekstrartap frá skattskyldum tekjum, þ.m.t. tekjum sem kunna að myndast við að félagið greiði hluta skulda með útgáfu nýs hlutafjár til kröfuhafa og tekjum sem myndast við að félaginu verði gefnar eftir skuldir að hluta, sbr. 4. og 5. lið nauðasamnings eins og þeim liðum er lýst hér að framan?

4.   Við umbreytingu skulda í hlutafé á árinu 2013, samkvæmt 4. lið fyrirhugaðs nauðasamning eins og þeim lið er lýst hér að framan, ber álitsbeiðanda þá að haga skattskilum sínum eftir 6. mgr. ákvæðis XXXVI til bráðabirgða við lög nr. 90/2003, eða tekur það ákvæði einungis til atvika sem eiga sér stað fyrir lok árs 2012, sbr. tímamörk sett í 1. mgr. sama ákvæðis til bráðabirgða?

5.   Ef 6. mgr. ákvæðis XXXVI til bráðabirgða við lög nr. 90/2003 tekur aðeins til umbreytingar kröfu í hlutafé fyrir lok árs 2012, sbr. 4. álitaefni, hvernig ber álitsbeiðanda þá að fara með í skattskilum sínum slíka umbreytingu sem á sér stað eftir lok árs 2012?

6.   Komi til þess að heimtur eigna verði umfram væntingar þannig að kröfuhöfum verði greitt umfram nafnverð skuldabréfa, eins og lýst er í forsendum hér að framan, hvernig ber þá að fara með þær greiðslur í skattskilum álitsbeiðanda, þ.e. ber að líta á greiðslurnar sem lækkun fyrri eftirgjafar, vexti af skuldabréfunum eða hugsanlega sem arð af hlutareign?“

Forsendur og niðurstöður ríkisskattstjóra:

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, er það forsenda þess að ríkisskattstjóri láti uppi bindandi álit sitt, að um sé að ræða mál er varðar verulega skattalega hagsmuni þess sem eftir álitinu leitar. Álitaefni þarf þannig að varða skattalega stöðu álitsbeiðanda sjálfs. Áliti er aðeins ætlað að vera bindandi fyrir skattyfirvöld við skattlagningu álitsbeiðanda að því er þau atvik varðar er álit tekur til, sbr. 6. gr. laga nr. 91/1998, en bindur skattyfirvöld ekki með sama hætti gagnvart öðrum þeim er atvik kunna að varða. Álitið er byggt á skattalegri stöðu álitsbeiðanda miðað við gildandi rétt en verði breytingar þar á kunna þær lagalegu forsendur sem álitið er reist á að falla úr gildi og þar með álitið sjálft.

Álitaefni 1.

Eins og rakið er hér að framan óskar álitsbeiðandi eftir því að ríkisskattstjóri láti uppi álit sitt á því hvort álitsbeiðanda sé heimilt í skattskilum sínum að líta svo á að útgáfa hans á skuldabréfum til kröfuhafa feli í sér formbreytingu á hluta skulda félagsins og að þannig sé hvorki um að ræða eftirgjöf á þeim hluta skuldanna né umbreytingu þeirra í eigið fé.

Í álitsbeiðni kemur fram að fyrirhugað sé að gefa út skuldabréf til kröfuhafa fyrir þeim hluta krafna sem eftir standa þegar allt reiðufé hefur verið greitt. Þá kemur fram að nafnverð umræddra skuldabréfa muni miðast við ætlaðar raunhæfar væntingar um hámarksheimtur af eignum álitsbeiðanda og að skuldabréfin komi ekki til með að bera vexti. Ennfremur kemur fram að í skuldabréfunum verði kveðið á um breytirétt, þannig að heimilt verði að breyta skuld samkvæmt skuldabréfunum í hlutafé.

Í 1. mgr. 29. gr laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., kemur fram að samningskröfur séu þær kröfur á hendur skuldaranum sem ekki eru undanþegnar áhrifum nauðasamnings og falla ekki niður vegna hans eftir ákvæðum 28. gr. laganna.

Þá er ákvæði 2. mgr. 29. gr. áður greindra laga um gjaldþrotaskipti o.fl. svohljóðandi:

„Í nauðasamningi má kveða á um algera eftirgjöf samningskrafna, hlutfallslega lækkun þeirra, gjaldfrest á þeim, breytt form á greiðslu þeirra eða þrennt það síðastnefnda í senn.“

Af lýsingu skuldabréfanna að dæma, sbr. það sem fram kemur í álitsbeiðni, má ráða að um sé að ræða formbreytingu á undirliggjandi kröfum, þ.e. þeim hluta þeirra sem eftir standa þegar greiðsla reiðufjár hefur farið fram í samræmi við 1. og 2. lið í álitsbeiðninni. Hlutafé mun svo verða hækkað um tiltekið hlutfall af þeirri fjárhæð krafna sem eftir stendur við ráðstafanir samkvæmt 1.-3. lið og sá hluti krafna sem enn er ógreiddur eftir þessar ráðstafanir verða afskrifaðar.

Ríkisskattstjóri telur að fáist slík breyting á greiðslu krafna samþykkt við gerð nauðasamninga, sbr. 2. mgr. 29. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., svo sem útgáfu skuldabréfanna er lýst hér að framan, sé ekki um skattalega eftirgjöf krafna að ræða, að því gefnu að greitt verði af skuldabréfunum eftir því sem kröfur innheimtist og því verði þær áfram gildar. Ef síðar kemur í ljós að skuldabréfin verða eftir atvikum ekki greidd að fullu myndi það sem út af stæði teljast til eftirgefinna skulda á þeim tíma sem það lægi fyrir og í samræmi við þau lög sem í gildi verða á þeim tíma. Af þessu tilefni bendir ríkisskattstjóri á að um skattalega meðferð á eftirgjöf skulda, skilmálabreytingum og breytingu skulda í hlutafé gilda nú eftir atvikum ákvæði til bráðabirgða XXXVI og XLIV við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Þá áréttar ríkisskattstjóri að álitsbeiðanda er skylt að varðveita öll gögn sem forsendur skuldabréfanna eru byggðar á og um útreikning verðmætis þeirra þannig að unnt verði að sinna upplýsingaskyldu samkvæmt 92. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og eftir atvikum 94. gr. sömu laga.

Álitaefni 2.

Álitsbeiðandi óskar eftir að ríkisskattstjóri láti uppi álit sitt á því hvort álitsbeiðanda sé heimilt í skattskilum sínum að telja umrædd skuldabréf að fullu til skulda í samræmi við eftirstöðvar nafnverðs skuldabréfanna í lok hvers reikningsárs. Fram kemur í álitsbeiðni að nafnverð skuldabréfanna verði í evrum og allar greiðslur af þeim í evrum.

Í 75. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, kemur fram að á framtali skuli gera grein fyrir skuldum skattaðila og að með skuldum í þessu sambandi teljist áfallnar verðbætur á höfuðstól þeirra sem miðast við vísitölu í janúar næsta ári eftir lok reikningsárs. Þá kemur ennfremur fram að skuldir í erlendum verðmæli skuli telja fram á sölugengi í árslok. Í samræmi við framangreint ákvæði er það álit ríkisskattstjóra að álitsbeiðanda beri í skattskilum sínum að telja eftirstöðvar nafnverðs skuldabréfanna fram í lok hvers reikningsárs. Þá má benda á að samkvæmt 5. tölul. 73. gr. tilvitnaðra laga ber að telja fram til eignar áhættufjármuni og langtímakröfur ýmist á nafnvirði eða skráðu gengi eftir því hvort eignir þessar eru skráðar á skipulegum verðbréfamarkaði eða ekki. Samkvæmt 6. tölul. sömu lagagreinar skal telja til eignar erlenda peninga, innistæður og kröfur á kaupgengi í árslok og verður að ætla að færslur þessar endurspeglist með sama hætti hjá skuldara.

Álitaefni 3.

Í álitsbeiðni fer álitsbeiðandi fram á að ríkisskattstjóri staðfesti að álitsbeiðanda verði heimilt að draga yfirfæranlegt rekstrartap frá skattskyldum tekjum, þ.m.t. tekjum sem kunni að myndast við að hann greiði hluta skulda með útgáfu nýs hlutafjár til kröfuhafa og tekjum sem myndist við að félaginu verði gefnar eftir skuldir að hluta.

Í 8. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, kemur fram að frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkri starfsemi megi draga:

„Eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu tíu árum á undan tekjuári, enda hafi fullnægjandi grein verið gerð fyrir rekstrartapinu og eftirstöðvum þess á því tekjuári þegar tapið myndaðist. Þó er ekki heimilt að nýta rekstrartap til frádráttar tekjum ef veruleg breyting [feitl. hér] hefur orðið á þeim rekstri eða starfsemi sem í hlut á, svo sem með breytingu á eignaraðild að lögaðila eða á tilgangi rekstrar, nema sýnt þyki að umræddar breytingar hafi verið gerðar í eðlilegum og venjulegum rekstrartilgangi.“

Samkvæmt 3. gr. samþykkta álitsbeiðanda sem afhentar voru fyrirtækjaskrá þann XX.XX.XXXX er tilgangur félagsins „almenn eignaumsýsla, s.s. vegna almennra krafna, fasteigna, lausafjár, félaga, viðskiptaverðbréfa, tryggingaréttinda og viðhald og varðveisla hvers konar réttinda.“ Ennfremur kemur fram að tilgangur félagsins nái til „varðveislu, sölu, leigu og rekstur fasteigna, lánastarfsemi og skylds reksturs.“

Ríkisskattstjóri telur að á meðan rekstur álitsbeiðanda helgast af uppgjöri og slitum félagsins og þar með í órofa framhaldi fyrri rekstrar í kjölfar efnahagshrunsins og setningu laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sé heimilt að nýta yfirfæranlegt rekstrartap á móti rekstrartekjum að teknu tilliti til þess tíu ára hámarkstíma sem lögfestur er í fyrrnefndum 8. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Skiptir ekki síst máli í þessu sambandi, þrátt fyrir afturköllun á starfsleyfi sem viðskiptabanki, að starfsemi snúist nú um uppgjör á kröfum frá fyrri starfsemi og rekstrartekjur verði til vegna eftirgjafar á skuldum, sem stofnað var til í fyrri rekstri félagsins. Verði á hinn bóginn einhver sú breyting á rekstri álitsbeiðanda að ekki geti lengur talist vera um að ræða samhangandi uppgjörsferli eða ekki um eðlilegan rekstrartilgang að ræða í samræmi við tilgreindar forsendur, komi til skoðunar hvort framagreind skilyrði fyrir nýtingu eftirstöðva rekstrartaps séu uppfyllt. Er ekki ástæða til að fjalla frekar um þetta á þessu stigi málsins.

Álitaefni 4.

Álitsbeiðandi óskar eftir því að ríkisskattstjóri láti uppi bindandi álit sitt á því hvort álitsbeiðanda beri að haga skattskilum sínum eftir 6. mgr. XXXVI. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 90/2003, eða hvort það ákvæði taki einungis til atvika sem eiga sér stað fyrir lok árs 2012.

Ákvæði XXXVI til bráðabirgða við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, var upphaflega lögfest með a-lið 1. gr. laga nr. 104/2010, um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, sem samþykkt voru á Alþingi 24. júní 2010. Samkvæmt gildistökuákvæði laganna tóku þau gildi þegar í stað. Í athugasemdum við lagafrumvarp það sem varð að lögum nr. 104/2010 kemur fram að um tímabundnar ráðstafanir sé að ræða og að lagt sé til að þær nái til tekjuáranna 2009-2011.

Í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, 195. mál sem lagt var fram á 140. löggjafarþingi 2011-2012, sbr. þskj. 514, kemur fram að lagt sé til að bráðabirgðaákvæði XXXVI við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, verði framlengt um eitt tekjuár. Breytingatillaga þess efnis kom svo fram frá meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar sbr. þskj. 515, 195. mál, 140. löggjafarþing 2011-2012. Með 8. gr. laga nr. 164/2011, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, var framan nefndu bráðabirgðaákvæði XXXVI breytt þannig að gildistími þess nær nú einnig til tekjuársins 2012.

Þann 28. desember 2012 voru lög nr. 146/2012, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, samþykkt á Alþingi. Með 8. gr. þeirra laga var svo gildistími bráðabirgðaákvæðis XXXVI við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, framlengt um enn eitt tekjuár. Þessi framlenging eins og sú fyrri var að frumkvæði meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sbr. þskj. nr. 818 og 819, 468. mál, 141. löggjafarþing 2012-2013. Samkvæmt þessu tekur ákvæði til bráðabirgða XXXVI við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, einnig til tekjuársins 2013.

Í samræmi við framangreint ber álitsbeiðanda að haga skattskilum sínum í samræmi við 6. mgr. XXXVI. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, enda fari umbreyting á kröfum í hlutafé fram fyrir árslok 2013.

Álitaefni 5.

Í álitsbeiðni fer álitsbeiðandi þess á leit að ríkisskattstjóri gefi álit sitt á því hvernig álitsbeiðanda beri að fara með í skattskilum sínum umbreytingar á kröfum í hlutafé eftir árslok 2012 að því gefnu að 6. mgr. XXXVI. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 90/2003 taki aðeins til slíkrar umbreytingar fyrir lok árs 2012.

Ríkisskattstjóri vísar til svars síns hér að framan við álitaefni 4.

Álitaefni 6.

Að lokum er þess óskað að ríkisskattstjóri veiti bindandi álit sitt á því hvernig fara skuli með greiðslur til kröfuhafa sem eru umfram nafnverð skuldabréfa í skattskilum álitsbeiðanda ef svo ólíklega færi að heimtur eigna yrðu umfram væntingar. Álitsbeiðandi varpar fram þeim spurningum hvort líta beri á greiðslurnar sem lækkun fyrri eftirgjafar, vexti af skuldabréfunum eða hugsanlega sem arð af hlutareign.

Í álitsbeiðni kemur eftirfarandi fram um mögulegar viðbótargreiðslur:

„Komi til þess að eftir standi fé í álitsbeiðanda þegar skuldabréfin hafa verið greidd að fullu, þá mun það fé verða greitt þeim sem kröfur áttu samkvæmt skuldabréfunum við uppgreiðslu þeirra, í réttu hlutfalli við nafnverð skuldabréfs hvers og eins af heildarnafnverði skuldabréfanna. Eftir verður þó haldið fé til að standa undir óhjákvæmilegum kostnaði álitsbeiðanda við að ljúka lögboðinni slitameðferð.“

Af þessu tilefni er rétt að árétta það sem fram kemur í álitsbeiðni. Þar segir eftirfarandi:

„Skuldabréf sem fyrirhugað er að álitsbeiðandi gefi út, sbr. 3. lið fyrirhugaðs nauðasamnings, munu kveða á um beina og skilyrðislausa skyldu álitsbeiðanda til greiðslu nafnverðs [feitl. hér] þeirra. ... Skuldabréfunum er ekki ætlað að bera vexti.“

Ennfremur bendir ríkisskattstjóri á að gert er ráð fyrir að mögulegar viðbótargreiðslur komi til greiðslu eftir að skuldabréfin hafi verið greidd að fullu. Samkvæmt þessu er það álit ríkisskattstjóra að ekki sé unnt að líta á mögulega greiðslu umfram nafnverð skuldabréfanna sem vaxtatekjur af þeim.

Almennt er litið svo á að þegar kröfuhafi hefur fengið fullnustu kröfu sinnar, þá séu þau réttindi, sem á kröfunni voru reist niður fallin. Fram hefur komið að eigendur þeirra skuldabréfa, sem hér um ræðir, séu jafnframt hluthafar. Við þær aðstæður að til úthlutunar á fjármunum hlutafélags til hluthafa kæmi umfram það sem leiðir af beinum kröfuréttindum, s.s. um væri að ræða skuldabréf, þá verður að líta til 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatts, kemur fram að til arðs af hlutum og hlutabréfum í félögum, sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., telst auk venjulegrar arðgreiðslu sérhver afhending verðmæta til hlutareiganda með takmarkaða eða ótakmarkaða ábyrgð eða hluthafa er telja verður sem tekjur af hlutareign þeirra í félaginu.

Að teknu tilliti til þess sem fram kemur í álitsbeiðni um tímamark mögulegrar endurgreiðslu má ráða að slit á félaginu færu fyrst fram eftir að slíkar greiðslur yrðu inntar af hendi. Af þeim sökum er ekki unnt að líta svo að um sé að ræða greiðslur til hluthafa í kjölfar félagsslita sbr. 3. og 4. mgr. 114. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög.

Álitsorð:

Ríkisskattstjóri hefur komist að eftirfarandi niðurstöðu vegna þeirra álitaefna sem fram eru sett í álitsbeiðni:

·    Álitsbeiðanda er heimilt að líta svo á að útgáfa skuldabréfa eins og lýst er í álitsbeiðni feli í sér breytt form á greiðslu krafna og verður því ekki talið að um sé að ræða skattskylda eftirgjöf skulda, enda sé um jafngild verðmæti að ræða, sem skipta um hendur með þessum hætti.

·    Álitsbeiðanda ber að telja eftirstöðvar nafnverðs skuldabréfanna í lok hvers reikningsárs til skulda í skattskilum.

·    Álitsbeiðanda er heimilt að nýta yfirfæranlegt rekstrartap frá skattskyldum tekjum, þar með talið tekjum sem kunna að myndast við greiðslu skulda með útgáfu nýs hlutafjár til kröfuhafa og tekjum sem myndast við að félaginu verði gefnar eftir skuldir að hluta. Þetta á við svo framarlega sem rekstrartekjur eru í beinum tengslum við uppgjör og slitameðferð álitsbeiðanda og þann rekstrartilgang, sem í núverandi starfsemi felst.

·    Álitsbeiðanda ber að haga skattskilum sínum í samræmi við 6. mgr. XXXVI. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 90/2003, með síðari breytingum, enda verði kröfum umbreytt í hlutafé fyrir árslok XXXX.

·    Álitsbeiðanda ber að fara með greiðslur til kröfuhafa sem eru umfram nafnverð skuldabréfa sem arð af hlutareign, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum