Bindandi álit

Bindandi álit nr. 5/08

18.3.2008

Fyrirhugaðar ráðstafanir álitsbeiðanda:

Með ódagsettu bréfi, sem móttekið er hjá embætti ríkisskattstjóra þann 18. mars 2008, er farið fram á með vísan til laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, að ríkisskattstjóri láti uppi bindandi álit sitt vegna fyrirhugaðra ráðstafana álitsbeiðanda, sem lúta að sölu fasteignarinnar ......

Málavextir:

Eins og fram hefur komið óskar álitsbeiðandi eftir bindandi áliti ríkisskattstjóra á því hvernig söluhagnaður sem álitsbeiðandi mögulega fær við sölu á fasteigninni ..... verði skattlagður. Áætlað söluverð er rúmlega kr. 20.000.000.

Í álitsbeiðni kemur eftirfarandi fram:

„Með svari dags. 4/3 2008, tilv. ......, við beiðni um álit hefur ríkisskattstjóri vikið sér undan því að svara erindinu á þeim forsendum að ekki hafi legið fyrir hvers vegna eignin var færð á persónulegt framtal A. Sú niðurstaða er ekki frekar rökstudd um þýðingu þess að þessar upplýsingar liggi fyrir eða hvaða hugsanleg áhrif það hefði. Það hangir hins vegar í lausu lofti hvort skattskil hafi verið röng þrátt fyrir athugasemdarleysi skattstjóra þar að lútandi sem og hvort skattyfirvöld hyggist með illa dulbúinni hótun reyna að jafna meintar sakir við meðferð söluhagnaðar.

A hefur átt eignina frá árinu 1992 og hefur fasteignin verið leigð X sf frá þeim tíma til ársloka 2005 þegar A hætti störfum. Frá þeim tíma hefur A nýtt húsnæðið sem geymsluhúsnæði til eigin persónulegra nota. X sf voru í helmingseigu A.

Frá árinu 1992 til ársloka 1998 var skattskilum hagað þannig að gerður var rekstrarreikningur vegna tekna og gjalda af fasteigninni og hún fyrnd en frá árinu 1999 hefur leiga verið talin fram athugasemdalaust af hálfu skattstjóra, í samræmi við ákvæði 2. tl. C-liðar 7. gr.

A hyggst selja eignina og óskar eftir bindandi áliti ríkisskattstjóra um skattalega meðferð söluhagnaðar og önnur atvik ef til kemur, þ.e. hvort sala eignarinnar muni falla undir ákvæði 8. tl. C-liðar 7. gr. l. 90/2003 í ljósi málavaxta.“

Álitaefni:

Eftirfarandi álitaefni eru sett fram í álitsbeiðni:

  1. „Óskað er eftir bindandi áliti um hvort væntanlegur söluhagnaður eignarinnar skuli skattlagður eftir ákvæðum 8. tl. C-liðar 7. gr. l 90/2003 eða öðrum ákvæðum og þá hverjum. Óskast niðurstaðan rökstudd með tilvísun í viðeigandi lagagreinar.
  2. Ef sú aðgerð að færa umrædda fasteign á persónuframtal telst hafa áhrif á Bindandi álit þá óskast það rökstutt og í hverju meint röng skattskil kunna að hafa verið fólgin ef svo verði talið."

Forsendur ríkisskattstjóra:

Eftirfarandi umfjöllun felur í sér bindandi álit ríkisskattstjóra samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Álitið er byggt á skattalegri stöðu álitsbeiðanda miðað við gildandi rétt en verði breytingar á lögum kunna þær lagalegu forsendur sem álitið er reist á, að falla úr gildi. Álitið miðast við að áform álitsbeiðanda gangi eftir með þeim hætti sem fram kemur í álitsbeiðni.

Í álitsbeiðni kemur fram að sú fasteign sem álitsbeiðandi hyggist selja hafi verið í eigu hans frá árinu 1992. Jafnframt kemur fram að á árunum 1992 til 1998 hafi álitsbeiðandi hagað skattskilum sínum þannig að gerður hafi verið rekstrarreikningur vegna tekna og gjalda af fasteigninni og hún fyrnd, en fasteignin var leigð til X sf. Ennfremur er upplýst að álitsbeiðandi hafi á árinu 1999 talið leiguna fram í samræmi við ákvæði 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Óskar álitsbeiðandi eftir því að ríkisskattstjóri gefi bindandi álit um það hvernig væntanlegur söluhagnaður verði skattlagður.

Eignarhlutur álitsbeiðanda í fasteigninni ....., Reykjavík er skráður hjá Fasteignamati ríkisins sem atvinnuhúsnæði. Þá er upplýst í álitsbeiðni að álitsbeiðandi hafi hagað skattskilum sínum á árunum 1992 til ársloka 1998 þannig að gerður hafi verið rekstrarreikningur vegna tekna og gjalda af eigninni og að eignin hafi verið fyrnd í skattskilum. Hann hafi hins vegar frá og með árinu 1999 talið leiguna fram sem fjármagnstekjur utan rekstrar sbr. 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Hvað sem líður þessum síðari framtalsskilum álitsbeiðanda er ljóst að eignarhlutur hans í fasteigninni að ....., Reykjavík, telst til fyrnanlegra eigna skv. 33. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en það ákvæði kveður á um að fyrnanlegar eignir teljist vera varanlegir rekstrarfjármunir sem notaðir eru til öflunar tekna í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi og rýrna að verðmæti við eðlilega notkun eða aldur. Þá er einnig ljóst að almennt teljast tekjur af útleigu atvinnuhúsnæðis til rekstrartekna ekki hvað síst þegar um er að ræða útleigu til lengri tíma sbr. m.a. úrskurði yfirskattanefndar nr. 276/2006 og 11/2008.

Í 8. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, kemur fram að hagnaður af sölu eigna, sbr. 12.-27. gr. teljist til skattskyldra tekna. Í 13. gr. laganna kemur til að mynda fram að hagnaður af sölu eigna sem heimilt er að fyrna skv. 33. gr. teljist að fullu til skattskyldra tekna á söluári og skiptir ekki máli hversu lengi viðkomandi eign hefur verið í eigu skattaðila. Ennfremur kemur fram að söluhagnaður telst mismunur á söluverði annars vegar og stofnverði hins vegar. Samkvæmt 33. gr. eru fyrnanlegar eignir varanlegir rekstrarfjármunir sem notaðir eru til öflunar tekna í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi og rýrna að verðmæti við eðlilega notkun eða aldur. Þá kemur fram í B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að allar tekjur af atvinnurekstri og sjálfstæðri starfsemi, teljist til skattskyldra tekna, þar með talið hvers konar tekjur sem upp eru taldar í öðrum liðum 7. gr. og tengdar eru atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Að framangreindu virtu er ljóst að mögulegur söluhagnaður álitsbeiðandi vegna sölu á eignarhluta í ....., Reykjavík, telst til skattskyldra tekna af atvinnustarfsemi.

Eins og fram hefur komið nýtti álitsbeiðandi eignina til tekjuöflunar í atvinnurekstri um árabil og taldi fram sem eign og tekjur af sjálfstæðri starfsemi á árunum 1992 til ársloka 1998. Að mati ríkisskattstjóra hefur ekkert komið fram í álitsbeiðni sem gefi til kynna að þær breytingar hafi orðið á starfsemi álitsbeiðanda og/eða nýtingu eignarinnar sem leiði til þess eða réttlæti að skattskil hans hafi tekið þeim breytingum á árinu 1999 sem lýst er í beiðninni. Álitsbeiðanda bar að telja tekjurnar áfram fram sem tekjur af sjálfstæðri starfsemi og fyrna eignina í samræmi við nýtingu hennar, sbr. og skráningu hjá Fasteignamati ríkisins. Einhliða ákvörðun álitsbeiðanda um að haga skattskilum sínum á annan veg skapar honum ekki þann rétt síðar að telja söluhagnað af eign, sem nýtt var til tekjuöflunar í atvinnurekstri fram sem fjármagnstekjur utan rekstrar í samræmi við 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 3. mgr. 66. gr. sömu laga. Þaðan af síður skapar aðgerðarleysi eða tómlæti skattstjóra - um sinn - við röngum framtalsskilum álitsbeiðanda þann rétt eða réttmætar væntingar um ranglega framtaldar tekjur, sem utan rekstrar væru, verði forsenda fyrir skattlagningu við sölu eignarinnar. Söluhagnað þann sem álitsbeiðandi mögulega fær við sölu á ....., Reykjavík, ber honum því að telja fram sem tekjur tengdar atvinnurekstri, sbr. B-lið 7. gr. sbr. og b-lið 3. tölul. 61. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Síðara álitaefni álitsbeiðanda er svohljóðandi:

„Ef sú aðgerð að færa umrædda fasteign á persónuframtal telst hafa áhrif á Bindandi álit þá óskast það rökstutt og í hverju meint röng skattskil kunna að hafa verið fólgin ef svo verði talið."

Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum var komið á kerfi þar sem gjaldendur geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar ráðstafana sem viðkomandi hefur í huga. Svar ríkisskattstjóra er bindandi við álagningu skatta ef álitsbeiðandi framkvæmir þá ráðstöfun sem lýst var í álitsbeiðninni. Í athugasemdum við 1. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 91/1998 kemur fram að megintilgangur með lögfestingu frumvarpsins sé að koma á fót úrræði er þjóni hagsmunum þeirra sem þurfa að fá úr því skorið fyrirfram hvernig skattlagningu verði háttað undir nánar greindum kringumstæðum. Eðli málsins samkvæmt skal því óska bindandi álits áður en ráðstafanir eru gerðar.

Að framangreindu virtu er það álit ríkisskattstjóra að síðari spurning álitsbeiðanda sé þess eðlis að ekki sé verið að óska eftir bindandi áliti ríkisskattstjóra á einhverjum ráðstöfunum sem álitsbeiðandi hyggst ráðast í heldur mati á því hvort og hvernig skattskil álitsbeiðanda kunni að hafa verið röng og hvaða áhrif það hafi á niðurstöðu ríkisskattstjóra varðandi fyrra álitaefnið. Af þessu tilefni skal það tekið fram að afstaða ríkisskattstjóra kemur fram í forsendum úrlausnar við fyrri spurningu álitsbeiðanda að svo miklu leyti sem atvik þessi varða úrlausn málsins.

Álitsorð:

Álit þetta miðast við fram færðar forsendur og að áform álitsbeiðanda gangi eftir með þeim hætti sem fram kemur í málavaxtalýsingu álitsbeiðnar.

  • Mögulegur söluhagnaður álitsbeiðanda af fasteigninni ....., Reykjavík, telst til skattskyldra tekna skv. B-lið 7. gr., sbr. b-lið 3. tölul. 61. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Kæruréttur:

Bindandi álit þetta sætir kæru til yfirskattanefndar samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Kærufrestur er þrír mánuðir frá póstlagningardegi álitsins sem er jafnframt dagsetning þess. Kæra skal vera skrifleg og skal koma fram í henni hvaða atriði álitsins sæta kæru og rökstuðning fyrir kröfum. Frumrit eða endurrit álitsins skal fylgja kæru, svo og þau gögn sem ætluð eru kærunni til stuðnings.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum