Bindandi álit

Bindandi álit nr. 3/07

28.3.2007

28. mars 2007 nr. 3/07

Málavextir.
Í bréfi dagsettu 6. nóvember 2006 fer umboðsmaður álitsbeiðanda fram á að ríkisskattstjóri láti, á grundvelli laga nr. 91/1988 um bindandi álit í skattamálum, uppi álit sitt um skattalega meðferð vaxta af víkjandi láni (e. corporate hybrid instruments) sem álitsbeiðandi hyggst veita innlendum lögaðila. Atvikum máls og fyrirætlunum álitsbeiðanda er lýst með svofelldum orðum:

Hinu víkjandi láni sem um ræðir er lýst í drögum að skilmálum lánsins, sem fylgja með álitsbeiðni þessari í afriti, sem undated deeply subordinated Notes og er skyldu útgefanda lýst sem beinni, ótryggðri og víkjandi skuldbindingu. Láninu er ætlað að vera ótímabundið, þ.e. án gjalddaga. Útgefanda yrði hins vegar heimilt að greiða það upp að ákveðnum skilyrðum uppfylltum innan tíu ára en á hverjum vaxtagjalddaga að þeim tíma liðnum. Fyrstu tíu árin bæri lánið fasta ársvexti en að þeim tíma liðnum yrðu þeir breytilegir. Gjalddagi vaxta yrði einu sinni á ári. Vaxtaprósenta hefur ekki verið ákveðin. 


Samkvæmt skilmálunum verður útgefanda heimilt að fresta vaxtagreiðslu hvenær sem er en vextir teldust þá vera í vanskilum og bæri ætíð að greiða þá á seinni stigum en útgefandi hefði að nokkru leyti frelsi til að ákveða það tímamark, þó aldrei lengri tíma en fimm ár. Útgefanda gæti orðið skylt að greiða vanskilavexti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, t.d. ef hann hefur greitt hluthöfum sínum arð. Undir ákveðnum kringumstæðum yrði skylt að fresta greiðslu vaxta. Það ætti við ef prófun (e. financial test) sem færi fram á grundvelli ársreikninga ábyrgðaraðila sýndi ákveðna niðurstöðu sem tiltekin yrði í skilmálum. 

Útgefanda verður heimilt, eða undir ákveðnum kringumstæðum skylt, að greiða upp gjaldfallna vexti með ákveðnum hætti (ACSM – Alternative Coupon Settlement Mechanism); með því að gefa út hlutabréf eða selja eigin hluti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum (sjá skilmála), selja blönduð verðbréf (e. hybrid securities) eða hækka höfuðstólinn sem nemur gjaldföllnum vöxtum. 

Lánið verður í formi verðbréfa að fjárhæð 50.000 evra eða bandaríkjadollara hvert og verða þau skráð í kauphöll í London eða Luxembourg.

Þá vísar álitsbeiðandi til bindandi álits ríkisskattstjóra nr. 2/2001 sem að mati álitsbeiðanda fjallar um svipað álitaefni:

Í bindandi áliti ......., tekur ríkisskattstjóri á svipuðu álitaefni. Í því áliti var útgefandi lánsins fjármálafyrirtæki sem sérstakar reglur gilda um, t.d. reglur fjármálaeftirlitsins um viðbótareiginfjárliði fyrir fjármálafyrirtæki, nr. 156/2005. Útgefandinn í þessu tilviki mun hins vegar ekki verða fjármálafyrirtæki og lög um fjármálafyrirtæki gilda ekki um starfsemi hans. Í fyrrgreindu máli óskaði álitsbeiðandi eftir svari við því álitaefni hvort heimilt væri að gjaldfæra í skattalegu tilliti áfallna vexti af láninu. Í forsendum sínum og niðurstöðum taldi ríkisskattstjóri m.a. verða að taka til sérstakrar úrlausnar eðli þeirra tekna sem eigendur verðbréfanna fengju frá útgefanda þar sem greiðslur þessar gætu talist vera arður í skattalegu tilliti fremur en vextir. Einnig kemur fram í áliti ríkisskattstjóra að varhugavert þætti að slá því föstu að ótímabundin lán yrðu ekki í neinum tilvikum viðurkennd sem lán í skattalegu tilliti. Í álitinu er gerður samanburður á 8. gr. laga 75/1981, um tekjuskatt og eignaskatt (nú 9. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt), um arð og 9. gr. laga nr. 75/1981 (nú 11. gr. laga nr. 90/2003), um vaxtagjöld. Segir svo eftirfarandi:

Við samanburðarskýringu á ákvæði 8. og 9. gr. laganna sést berlega að vaxtaskilgreiningin er mun víðari og altækari en skilgreining laganna á arði. Þannig er talað um vexti "af víxlum, verðbréfum og öllum öðrum kröfum sem arð bera eða vexti. Ákvæði 9. gr. er aftur á móti samkvæmt orðlagi sínu bundið við "hluti og hlutabréf" og við tekjur af "hlutareign". Þannig virðist ákvæði 9. gr. um arð ganga út frá þeirri forsendu að arður geti einungis verið til staðar þegar um er að ræða eignarhlutdeild í félagi og þannig er sá eignarhluti forsenda þess að um arðstekjur geti verið að ræða. Það að eiga kröfu á hendur félagi verður ekki talið eignarhlutdeild í þessu sambandi heldur einungis raunverulegur eignarhlutur, þ.e. eignarhlutur sem fylgja þau réttindi sem slíkum hlutum fylgir lögum samkvæmt, sbr. einkum lög nr. 2/1995, um hlutafélög.


Í máli þessu liggur fyrir að verðbréf þau sem álitsbeiðandi hyggst gefa út verða skráð í opinberri kauphöll og seld á opnum verðbréfamarkaði. Engin eigendaréttindi fylgja þessum verðbréfum með neinum sambærilegum hætti og gildir um hluti eða hlutabréf í félögum.“

Í tilvitnuðu áliti var það niðurstaða ríkisskattstjóra að þeim álitsbeiðanda væri heimilt að færa til gjalda í skattskilum sínum áfallna vexti samkvæmt verðbréfum þeim sem fyrirhugað var að gefa út. Þar sem niðurstaða ríkisskattstjóra í málinu sýnist að hluta til hafa tekið mið af því að útgefandi væri fjármálafyrirtæki telur álitsbeiðandi í þessu máli að ekki sé hægt að byggja alfarið á því áliti, án frekari staðfestingar.

Álitsbeiðni fylgdu drög að skilmálum fyrirhugaðs láns, dagsett 3. nóvember 2006.

Þann 28. desember sl. kom umboðsmaður álitsbeiðanda til fundar við starfsmenn ríkisskattstjóra og gaf nánari skýringar á efni álitsbeiðninnar. Í máli umboðsmannsins kom fram að umrætt lán yrði í formi peningagreiðslna og að fyrirhugaður lántakandi væri íslenskt hlutafélag. Umboðsmaðurinn tók fram að hann hygðist leggja fram gögn um tilgreiningu láns af umræddum toga í reikningsskilum. Þann 2. febrúar sl. lagði hann fram álitsgerð löggilts endurskoðanda, sem dagsett er 30. janúar 2007. Fram kemur að álitið er byggt á fyrirliggjandi skilmáladrögum álitsbeiðanda. Þá er álitið byggt á þeirri forsendu að útgefandi fari eftir lögum um ársreikninga á Íslandi, en sé ekki skuldbundinn til að setja fram reikningsskil sín skv. alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS). Þrátt fyrir það lætur endurskoðandinn í ljós það álit sitt að niðurstaðan m.v. IFRS yrði í grundvallaratriðum sú sama. Vísar hann til 14. og 51. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga og 3. gr. reglugerðar nr. 696/1996 um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga og lætur í ljós eftirfarandi álit sitt:

Að okkar mati er eðli höfuðstóls víkjandi lánsins nær því að vera eigið fé frekar en skuld. Vextirnir eru hins vegar nær því að vera skuld þar sem greiða skal þá árlega nema með þröngum skilyrðum. Reikningshaldsleg meðferð, m.v. þau fátæklegu ákvæði sem eru í íslenskum lögum, yrði því eftirfarandi:

a)   Útgáfa fjármálagernings og innborgun á eign á móti: Færslan yrði sem víkjandi lán meðal skuldbindinga, milli eigin fjár og skulda. Ekki skal blanda útgáfunni saman við annað innborgað eigið fé.

b)   Kostnaður við fjármálagerning þ.e. vextir yrði færður til gjalda og eðlilegast væri að sýna hann sem sérgreindan lið meðal fjármagnsgjalda í rekstrarreikningi. Mögulega kæmi til greina að færa vextina beint á eigið fé en þar sem þeir eru árlega gjaldkræfir þá er okkar niðurstaða að frekar beri að færa þá til gjalda í rekstrarreikningi. Jafnframt er eðlilegt að í efnahagsreikningi verði áfallnir vextir víkjandi lánsins færðir sérstaklega til skuldar meðal víkjandi lána og skuldbindinga (sér liður) þar sem eðli höfuðstólsins og vaxtanna er ekki það sama.

c)   Setja þyrfti upp nákvæmar skýringar um fjármálagerninginn í skýringum í reikningsskilum. Um eðli hans, lýsingu á kjörum og draga jafnframt fram eiginfjárhlutfall með og án víkjandi lánsins.

Álitaefni:
Álitsbeiðandi fer fram á að ríkisskattstjóri staðfesti í bindandi áliti:

- Að ekki verði litið á vexti af láninu sem ígildi arðgreiðslna til A af framlögðu eigin fé (hlutafé) til hins innlenda lögaðila.


- Að heimilt sé að gjaldfæra í skattalegu tilliti vexti af láninu hjá hinum innlenda lögaðila.

Forsendur og niðurstöður:
Eftirfarandi umfjöllun felur í sér bindandi álit ríkisskattstjóra samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Álitið er byggt á gildandi lögum en getur ekki skorið úr um skattalega stöðu álitsbeiðanda verði breytingar á lögum sem breyta þeim lagalegu forsendum sem álitið er reist á. Álitið miðast við að áform álitsbeiðanda gangi eftir með þeim hætti sem fram kemur í álitsbeiðni og þeim gögnum sem álitsbeiðandi hefur lagt fram, samanber málavaxtalýsingu hér að framan.

Álitsbeiðandi nefnir fyrirhugað fjárframlag sitt víkjandi lán og væntanlegar tekjur sínar af því fé vexti. Þær nafngiftir ráða þó ekki úrslitum um skattalega meðferð heldur eðli teknanna.

Fyrir liggur að álitsbeiðandi hyggst reiða fram fé til íslensks hlutafélags, án þess að áskilja sér kröfu um að fá það fé endurgreitt nema til slita félagsins komi. Komi til slita er kröfu álitsbeiðanda um endurgreiðslu fjárins ætlað að víkja fyrir öllum fjárkröfum á hendur hlutafélaginu öðrum en kröfum hluthafa um úthlutun hlutafjár. Fjárframlagið ber að því leyti fremur svipmót eiginfjárframlags en lánsfjár. Á hinn bóginn eru eðlisþættir sem fremur bera einkenni lánsfjár. Móttakanda fjárins er ætlaður valkvæður réttur til að endurgreiða féð að tíu árum liðnum frá móttöku þess og fyrr við tilteknar aðstæður. Ákvörðun félagsins um endurgreiðslu lýtur ekki reglum um meðferð hlutafjár. Ljóst má vera að fyrirhugaður lánssamningur verður ekki heimildarskírteini fyrir hlut og að álitsbeiðandi mun við framlagningu fjárins ekki öðlast þau félagslegu réttindi sem hlutafjárframlagi fylgja.

Fyrirhugaður lánssamningur mun innihalda ákvæði um vexti af fjárframlaginu. Þannig mun álitsbeiðandi hafa tekjur af framlaginu. Samkvæmt lánssamningnum skulu álitsbeiðanda árlega falla til vextir. Fyrstu tíu árin skulu þeir vextir nema föstum hundraðshluta framlagsins, en að tíu árum liðnum verða vextirnir breytilegir. Gjalddaga fastra vaxta er ætlað að vera einu sinni á ári hverju, en breytilegra ársfjórðungslega. Greiðanda vaxtanna verður heimilt að fresta greiðslu gjaldfallinna vaxta í allt að fimm ár. Vextir sem frestað hefur verið greiðslu á teljast vera í vanskilum og getur komið til greiðslu vanskilavaxta af þeim sökum við ákveðnar aðstæður. Við tilteknar aðstæður getur greiðanda orðið skylt að fresta greiðslu vaxta. Þrátt fyrir heimild, og við vissar aðstæður skyldu til að fresta greiðslu vaxta, er greiðsluskyldan samningsbundin en lýtur ekki ákvörðun hluthafafundar líkt og úthlutun arðs af hlutareign.

Álitaefnið er hvort umsamdar greiðslur, í lánssamningi nefndar vextir, teljist vextir í skilningi laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eða arður af hlutareign í skilningi sömu laga. Hvort tveggja vextir og arður teljast til skattskyldra tekna, sbr. 3. og 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, og eftir atvikum sem tekjur af atvinnurekstri skv. B-lið sömu lagagreinar, í hendi móttakanda sem ber hér á landi ótakmarkaða skattskyldu, sbr. 2. gr. laga nr. 90/2003. Þeir sem hvorki eru heimilisfastir hér á landi né hafa hér fasta starfsstöð eru skattskyldir af arði af íslenskum hlutabréfum en bera hér ekki skattskyldu af vöxtum, sbr. 3. gr. laga nr. 90/2003. Þrátt fyrir það þurfa þeir að sæta afdrætti skatts af vöxtum í staðgreiðslu nema til komi undanþága veitt af skattyfirvöldum. Til staðar er frádráttarréttur vegna móttekins arðs, félaga í tilteknum félagaformum heimilisfastra á Íslandi, skv. 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Á nýliðnu löggjafarþingi var við það ákvæði aukið samsvarandi frádráttarrétti til handa samsvarandi félögum heimilisföstum á Evrópska efnahagssvæðinu. Lög um þá breytingu hafa ekki verið birt og því ekki öðlast gildi, þegar álit þetta er ritað. Vextir af skuldum í atvinnurekstri teljast til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar skv. 1. tölul. 31. gr. Ekki er til staðar frádráttarréttur vegna úthlutaðs arðs af eignarhlutum í félögum.

Hugtökin vextir og arður eru afmörkuð í lögum nr. 90/2003. Í 1. mgr. 8. gr. er svohljóðandi afmörkun vaxta:

"1.   Vextir af innstæðum í innlendum bönkum, sparisjóðum og innlánsdeildum samvinnufélaga, á póstgíróreikningum og orlofsfjárreikningum svo og vextir af verðbréfum sem hliðstæðar reglur gilda um samkvæmt sérlögum. Með vöxtum teljast áfallnar verðbætur á höfuðstól og vexti, verðbætur á inneignir og kröfur sem bera ekki vexti og happdrættisvinningar sem greiddir eru í stað vaxta.

2.   Vextir af stofnsjóðseign í félögum skv. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr.

3.   Vextir hjá innlendum og erlendum aðilum af sérhverjum öðrum innstæðum og inneignum en um getur í 1. og 2. tölul., þar með taldir vextir af víxlum, verðbréfum og öllum öðrum kröfum sem arð bera eða vexti. Með vöxtum teljast einnig áfallnar verðbætur og happdrættisvinningar á sama hátt og um getur í 1. tölul."

Í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003 er kveðið á tímamörk sem tekjufærsla vaxtatekna utan atvinnurekstrar skal miðast við. Málsgreinin fellur þó jafnframt í sér almenna afmörkun vaxtahugtaksins, en samkvæmt niðurlagi 2. málsliðar teljast til vaxtatekna hvers konar tekjur af peningalegum eignum.

Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 er svofelld afmörkun arðs:

"Til arðs af hlutum og hlutabréfum í félögum, sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., telst auk venjulegrar arðgreiðslu sérhver afhending verðmæta til hlutareiganda með takmarkaða eða ótakmarkaða ábyrgð eða hluthafa er telja verður sem tekjur af hlutareign þeirra í félaginu. Til arðs telst ekki úthlutun jöfnunarhlutabréfa samkvæmt lögum um einkahlutafélög, lögum um hlutafélög og lögum um samvinnufélög sem hafa ekki í för með sér breytta eignarhlutdeild hlutareiganda eða hluthafa eða hækkun séreignarhluta félagsaðila í A-deild stofnsjóðs samvinnufélaga eða samvinnuhlutabréf sem félagsaðilum eru afhent við slíka hækkun séreignarhluta í samvinnufélagi samkvæmt lögum um samvinnufélög."

Í 4. gr. 11. gr. laga nr. 90/2003 er ennfremur svohljóðandi afmörkun arðshugtaksins:

"Nú er félagi sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. slitið án þess að um sameiningu félaga sé að ræða, sbr. 51. gr., og skal þá teljast til arðs úthlutun við félagsslit sem er umfram kaupverð bréfanna. Einnig telst til arðs lækkun hlutafjár, sem er greidd út til hluthafa, umfram kaupverð."

Í ákvæðum þessum er sá skilsmunur vaxta- og arðstekna, að vaxtatekjur ná til allra tekna af peningalegum eignum, en arðstekjur eru bundnar við tekjur af hlutareign í hlutafélögum, einkahlutafélögum og samlagshlutafélögum. Um arðstekjur í þessum skilningi getur því aðeins verið að ræða að tekjurnar grundvallist á eignaraðild. Slíkar tekjur geta því ekki öðrum fallið til en þeim er teljast til hlutahafa, skv. lögum nr. 2/1995 um hlutafélög og nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

Það er álit ríkisskattstjóra að umsamdar greiðslur, í lánssamningi nefndar vextir, teljist vextir í skilningi laga nr. 90/2003, þ.e. vaxtatekjur þess er rétt öðlast til greiðslnanna en vaxtagjöld þess er ber greiðsluskylduna.

Álitsorð:
Í skattalegu tilliti ber að líta á umsamda "vexti" af "víkjandi láni" sem vexti af peningalegri eign en ekki sem arð af hlutareign.

Kæruréttur:
Bindandi álit þetta er kæranlegt til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Kærufrestur er þrír mánuðir frá póstlagningardegi álitsins sem fram kemur í dagsetningu bréfs þessa. Kæra skal vera skrifleg. Skal koma fram í henni hvaða atriði álitsins sæta kæru og rökstuðningur fyrir kröfum. Frumrit eða endurrit hins kærða álits skal fylgja kæru, svo og þau gögn sem ætluð eru til stuðnings kærunni.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum