Bindandi álit

Bindandi álit nr. 9/05

16.11.2005

16. nóvember 2005nr. 9/05
2005100150

Tilefni:
Með bréfi umboðsmanns álitsbeiðanda dagsettu 7. október 2005 er óskað bindandi álits ríkisskattstjóra um skattaleg áhrif fyrirhugaðra ráðstafana álitsbeiðanda. Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hyggst selja vörumerkin "D", "E" og "F" til þriðja aðila og varðar álitsbeiðnin skattalega meðferð sölunnar.

Ríkisskattstjóri telur að fullnægt sé skilyrðum laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, fyrir því að hann gefi bindandi álit sitt af þessu tilefni.

Málavextir.
Í álitsbeiðni er málavöxtum og viðhorfum álitsbeiðanda lýst með eftirfarandi orðum:

„X hf., stofnað 1972, skapaði og þróaði vörumerkin "D", "E" og "F". Vörumerkið "E" var skráð árið 1975 og vörumerkið "F" var skráð árið 1987. Vörumerkið "D" er ekki skráð. Þetta eru drykkjarvörur sem hafa verið á markaði undanfarin ár. Árið 1997 var X hf. sameinað Z hf. undir nafninu Y hf. Árið 2001 eignaðist álitsbeiðandi þessi þrjú vörumerki þegar samkeppnisyfirvöld samþykktu samruna Y hf. og A hf. án skilyrða og voru fyrirtækin þá sameinuð undir nafni A hf. Þessi vörumerki hafa hvorki verið bókfærð né eignfærð hjá fyrirtækinu frá upphafi. Nú hyggst A hf. selja þessi vörumerki til þriðja aðila og þessi álitsbeiðni varðar skattalega meðferð sölunnar.

Keypt vörumerki falla undir fyrnanlegar eignir sbr. 4. tölul. 33. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 90/2003. Eins og fram kemur í málavöxtum er í máli þessu um að ræða vörumerki sem ekki hefur verið keypt heldur skapað og þróað í rekstri álitsbeiðanda.

Í 13. og 14. gr. laga nr. 90/2003 er fjallað um söluhagnað eigna sem heimilt er að fyrna en í 15. og 16. gr. sömu laga er fjallað um söluhagnað eigna sem ekki er heimilt að fyrna. Telja má að meginmunurinn liggi í því að á móti söluhagnaði eigna sem heimilt er að fyrna má fyrna hvers konar aðrar fyrnanlegar eignir og færa þannig söluhagnaðinn niður. Jafnframt má skattaðili fresta skattlagningunni yfir tvenn áramót eigi hann ekki fyrnanlegar eignir á þeim tímapunkti sem um ræðir enda afli hann sér innan þess tímamarks eigna sem fyrna má á móti söluhagnaðinum. Söluhagnaður eigna sem ekki er heimilt að fyrna kemur til skattlagningar strax og um hann gilda ekki framangreindar reglur um aukafyrningar og frestun skattlagningar.

Yfirskattanefnd hefur a.m.k. einu sinni fjallað um sambærileg mál, í úrskurði nr. 65/2003. Í því máli var aðstaðan sú að skattaðili seldi viðskiptavild sem hann hafði ekki keypt heldur búið til eða þróað í sínum rekstri. Keypt viðskiptavild er fyrnanleg eign sbr. 5. tölul. 33. gr. laga nr. 90/2003. Í niðurlagi úrskurðarins kemur fram að almennt verður að telja að samræmisrök standi til þess að skattaleg meðferð viðskiptavildar fari eftir sömu reglum án tillits til þess hvort um er að ræða keypta eða áunna viðskiptavild. Yfirskattanefnd taldi rök ekki standa til þess að líta svo á að tilvísun 11. gr. laga nr. 75/1981 ( nú 13. gr. laga nr. 90/2003) felist, hvað viðskiptavild snertir, að þar beri eingöngu að miða við keypta viðskiptavild samkvæmt ströngustu lögskýringu. Af þessu leiðir að sú heimild til sérstakrar fyrningar fyrnanlegra eigna á móti skattskyldum söluhagnaði, sem kveðið er á um í 1. mgr. 13. gr. (nú 14. gr. laga nr. 90/2003) er til staðar. Með þessum orðum var fallist á kröfu kæranda um heimilt væri að aukafyrna á móti söluhagnaði af viðskiptavildinni.

Álitsbeiðandi lítur svo á að aðstaðan í úrskurði yfirskattanefndar nr. 65/2003 sé sú sama og eigi við um vörumerki sem aðili hefur þróað og búið til. Yfirskattanefnd komst að þeirri niðurstöðu að aukafyrna mætti á móti söluhagnaði af viðskiptavildinni og að reglur núgildandi 13. og 14. gr. laga nr. 90/2003 giltu um meðferð söluhagnaðarins. Álitsbeiðandi telur að vísun yfirskattanefndar í 1. málsl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 75/1981, sem nú er fallin úr gildi, breyti ekki þeirri afstöðu.

Álitsbeiðandi telur að þegar vörumerki sem hann hefur þróað og búið til í atvinnurekstri sínum, eru seld að þá eigi að fara með söluhagnaðinn eftir reglum 13. og 14. gr. laga nr. 90/2003."

Álitaefni:
Óskað er staðfestingar ríkisskattstjóra á þeirri skoðun álitsbeiðanda að ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 90/2003 eigi við um skattlagningu hagnaðar af sölu vörumerkja, sem álitsbeiðandi hefur ekki keypt heldur skapað og því hvorki fært til eignar né fyrnt í rekstri sínum.

Forsendur og niðurstöður:
Í 13. og 14. gr. laga nr. 90/2003 er kveðið á um hvernig hagað skuli skattlagningu hagnaðar af sölu eigna sem heimilt er að fyrna samkvæmt 33. gr. sömu laga, og af sölu réttinda sem tengdar eru þeim eignum. Til eigna sem heimilt er að fyrna telst keyptur eignarréttur að verðmætum hugverkum og auðkennum, þ.m.t. réttur til einkaleyfis og vörumerkis, samkvæmt 4. tölul. nefndrar 33. gr. Keypt viðskiptavild telst til fyrnanlegra eigna samkvæmt 5. tölul. sömu lagagreinar.

Í úrskurði sínum nr. 65/2003 komst yfirskattanefnd að þeirri niðurstöðu að skattlagningu hagnaðar af sölu áunninnar viðskiptavildar skyldi hagað samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 90/2003. Tiltók nefndin að almennt stæðu samræmisrök til þess að skattaleg meðferð viðskiptavildar færi eftir sömu reglum án tillits til þess hvort um væri að ræða keypta eða áunna viðskiptavild. Nefndin tók fram að hugsun löggjafans kæmi ekki fram í lögskýringargögnum, en taldi að ef tilgangurinn hefði verið að binda meðferð hagnaðar af sölu viðskiptavildar samkvæmt umræddum lagaákvæðum við keypta viðskiptavild einvörðungu, þá hefði slíkt þurft að koma skýrt fram.

Að því er varðar vitneskju um vilja löggjafans í þessum efnum skilur skýrt í milli viðskiptavildar og vörumerkja. Í b-lið 2. mgr. 32. gr. laga nr. 90/2003 er kveðið á um að heimilt sé að færa niður kostnað, af öflun einkaleyfis og vörumerkja, á því ári er hann myndast eða með jöfnum fjárhæðum á fimm árum. Í 3. mgr. sömu lagagreinar er kveðið á um að við sölu eigna skv. b-lið 2. mgr. teljist söluverð þeirra að fullu til tekna á söluári að frádregnum þeim hluta sem ekki hefur verið færður niður. Löggjafinn hefur þannig með beinum lagafyrirmælum látið vilja sinn í ljós varðandi skattlagningu hagnaðar af sölu vörumerkja sem ekki hafa verið keypt. Úrskurður yfirskattanefndar nr. 65/2003 hefur þannig ekkert fordæmisgildi gagnvart skattalegri meðferð hagnaðar af sölu slíkra vörumerkja.

Í lögum nr. 90/2003 er gerður greinarmunur á skattlagningu hagnaðar af sölu vörumerkja eftir því hvort þau hafa verið keypt eða ekki. Samkvæmt 13. og 14. gr. þeirra skal skattalegri meðferð hagnaðar af sölu keyptra vörumerkja hagað með sama hætti og annarra fyrnanlegra eigna, þ.m.t. varðandi heimild til frestunar skattlagningar og fyrningu annarra fyrnanlegra eigna um fjárhæð sem söluhagnaði nemur. Samkvæmt 3. mgr. 32. gr. laganna telst hagnaður af sölu vörumerkja að öðru leyti að fullu til skattskyldra tekna á söluári, að frádregnum þeim hluta kostnaðar við öflun þeirra sem ekki hefur verið færður niður á grundvelli heimildar í b-lið 2. mgr. sömu lagagreinar.

Það er gefin forsenda í álitsbeiðni að þau vörumerki, sem álitsbeiðandi hyggst selja, hafi ekki verið keypt. Komi til sölu þeirra, ber að haga skattlagningu hagnaðar af þeirri sölu samkvæmt 3. mgr. 32. gr. laga nr. 90/2003.

Bindandi álit ríkisskattstjóra:
Álit ríkisskattstjóra miðað við fyrirliggjandi forsendur er að skattlagningu hagnaðar af fyrirhugaðri sölu álitsbeiðanda á vörumerkjum, sem ekki voru keypt heldur sköpuð í rekstri félags er nú hefur verið sameinað álitsbeiðanda, beri að haga samkvæmt ákvæði 3. mgr. 32. gr. laga nr. 90/2003. Söluverðið teljist að fullu til tekna á söluári, enda standi ekki eftir til frádráttar eignfærður og óniðurfærður kostnaður við öflun vörumerkjanna. Jafnframt er það álit ríkisskattstjóra að heimildir til frestunar skattlagningar og fyrninga á móti söluhagnaði, samkvæmt 14. gr. laga nr. 90/2003, taki ekki til umrædds söluhagnaðar.

Kæruréttur:
Bindandi álit þetta er kæranlegt til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Kærufrestur er þrír mánuðir frá póstlagningardegi álitsins sem fram kemur í dagsetningu bréfs þessa. Kæra skal vera skrifleg. Skal koma fram í henni hvaða atriði álitsins sæta kæru og rökstuðningur fyrir kröfum. Frumrit eða endurrit hins kærða álits skal fylgja kæru, svo og þau gögn sem ætluð eru til stuðnings kærunni.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum