Bindandi álit

Bindandi álit nr 2/03

10.2.2003

10. febrúar 2003 Bál 02/2003

Álitsbeiðendur:

Þann 28. janúar 2003 barst ríkisskattstjóra beiðni um bindandi álit í skattamálum. Álitsbeiðendur í máli þessu eru A hf., Reykjavík og Lífeyrissjóðir B.

Umboðsmaður álitsbeiðenda er C Reykjavík.

Tilefni og málavextir:

Í álitsbeiðni er álitaefnið skilgreint svo:

"Virðisaukaskattur vegna skiptingar sameiginlegs rekstrarkostnaðar milli banka og lífeyrissjóðs við rekstur tölvukerfis."

Greint er frá því að álitsbeiðendur hyggist gera með sér samstarfssamning um rekstur tölvukerfis, lífeyriskerfisins D. Til standi að kerfið verði rekið sem sjálfstæð eining innan A hf. og að allur almennur rekstur þess verði í höndum starfsmanna A hf. Forritunarvinna tengd kerfinu hafi verið keypt af tölvufyrirtækinu E ehf. og muni það fyrirtæki annast forritun vegna breytinga á kerfinu. Þá er fullyrt að álitsbeiðendur séu, ásamt E ehf., sameigendur tölvukerfisins og skipti á milli sín kostnaði vegna daglegs rekstrar þess.

Álitsbeiðninni fylgja drög að samningi álitsbeiðenda um rekstur lífeyriskerfisins D. Í 3. gr. samningsdraganna er tiltekið:

"Samningurinn nær til:

  1. aðgangs að og rekstri á miðlægum vél- og kerfishugbúnaði sem er í eigu A hf. og nauðsynlegur er til að tryggja öruggan og hagkvæman rekstur á lífeyriskerfinu D, svo sem netþjónum, gagnagrunnsþjónum, afritunarbúnaði, netstýribúnaði og gagnagrunni.
  2. aðgangs að og rekstri á miðlægum búnaði sem er í eigu A hf. og notaður er við tengingu á útstöðvum notenda við kerfisþjónustu A hf., svo sem vefþjónum, eldveggjum, "Terminal Server" beinum, leiðstjórum og gagnalínum.
  3. nýrra útgáfa og leiðréttinga, ásamt uppsetningu, á ofangreindum vél- og kerfishugbúnaði sem framleiðandi dreifir og lífeyrissjóðirnir telja nauðsynlegar til að tryggja áframhaldandi öruggan og hagkvæman rekstur á kerfinu.
  4. leiðbeininga vegna úrlausna vandamála og aðstoðar við notkun á ofangreindum búnaði, sem fulltrúi lífeyrissjóðanna óskar eftir."

Í 4. gr. samningsdraganna er svohljóðandi ákvæði varðandi rekstrarkostnað:

"A hf. að höfðu samráði við lífeyrissjóðina skal setja fram áætlun um mánaðarlegan kostnað við rekstur á lífeyriskerfinu D. Að því skal stefnt að áætlunin standi undir venjulegum rekstrarkostnaði við lífeyriskerfið D. Í febrúar ár hvert skal áætlunin borin saman við raunkostnað kerfisins árið á undan og mismunur gerður upp í jöfnu hlutfalli. Áætlunin skal staðfest af báðum samningsaðilum."

Þá er í 5. gr. samningsdraganna að finna svofellt ákvæði varðandi greiðslutilhögun:

"A hf. skal í lok hvers mánaðar senda reikning fyrir hlutdeild í mánaðarlegum kostnaði. Með öllum reikningnum (sic) skulu fylgja vinnuskýrslur sem tilgreina hvað hefur verið unnið, hversu lengi og af hverjum. Fyrir hvert verk skal fylgja tilvísun í verkbeiðni eða nafn þess starfsmanns lífeyrissjóðanna sem bað um verkið. Vinnuskýrslur skulu nægilega sundurliðaðar til að hægt sé að sannreyna þær."

Um aðgang að þjónustu segir svo í 8. gr. samningsdraganna:

"Starfsmenn lífeyrissjóðanna geta óskað eftir þjónustu með því að hringja í símanúmer þjónustuborðs A hf. Þjónustuborð skráir þjónustubeiðnina sem fer í úrvinnslu í samræmi við mikilvægi. Starfsmenn lífeyrissjóðanna geta einnig haft beint samband við þjónustufulltrúa."

Um ábyrgð samningsaðila segir svo í 12. og 13. gr. samningsdraganna:

"A hf. ber ábyrgð á að þjónusta sé í samræmi við samning þennan og fylgiskjöl hans." og "Lífeyrissjóðirnir bera ábyrgð á að starfsmenn þeirra fylgi almennum reglum A hf. um notkun tölvukerfa sem A hf. annast rekstur á."

Álitaefnið:

Eftir að hafa rakið þessa málavexti og þær forsendur sem forsvarsmaður álitsbeiðenda telur nauðsynlegar til að afmarka þá umgjörð sem þarf til að unnt sé að gefa bindandi álit í máli þessu er gerð grein fyrir því að álitsbeiðendur líti svo á, að um sameiginlegan rekstrarkostnað sé að ræða sem sé eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í starfsemi sem sé undanþeginn virðisaukaskatti samkvæmt 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Er þess farið á leit við ríkisskattstjóra að hann gefi bindandi álit, sbr. lög nr. 91/1998, um það “hvort skattyfirvöld geti staðfest að skipting kostnaðar vegna rekstur lífeyrissjóðskerfisins sé undanþegin virðisaukaskatti”.

Forsendur og niðurstöður:

Samkvæmt upphafsákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal greiða í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innanlands á öllum stigum. Samkvæmt 2. gr. sömu laga nær skattskyldan til viðskipta með hvers konar vörur og verðmæti og hvers konar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega tiltekin undanþegin í 3. mgr. greinarinnar.

Efni framlagðra samningsdraga milli álitsbeiðenda felur í sér að A hf. veiti lífeyrissjóðum B þjónustu gegn greiðslu. Um viðskipti í skilningi virðisaukaskattslaga er því að ræða, sbr. og skilgreiningu virðisaukaskattsskyldrar veltu í 1. mgr. 11. gr. laganna nr. 50/1988. Þjónustan, eins og henni er lýst, fellur undir skattskyldusvið virðisaukaskatts, enda tekur ekkert undanþáguákvæði nefndrar 3. mgr. 2. gr. til hennar. Þannig fellur þjónustan ekki undir undanþáguákvæði 10. töluliðar málsgreinarinnar, þar sem kveðið er á um að undanþegin virðisaukaskatti sé þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, svo og verðbréfamiðlun. Ákvæðið þykir verða að skýra svo að undanþágan taki aðeins til þeirrar þjónustu banka, og sparisjóða sem þeim er ætlað að veita lögum samkvæmt. Skilgreiningu á þjónustu banka og sparisjóða þykir verða að sækja til löggjafar um banka og sparisjóði hverju sinni, sbr. nú 1. mgr. 44. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði. Sú þjónusta sem hér um ræðir getur ekki á nokkurn hátt fallið undir þá skilgreiningu á bankaþjónustu sem fram kemur í því ákvæði. Að áliti ríkisskattstjóra verður andvirði umræddrar þjónustu ekki haldið utan skattskyldrar veltu virðisaukaskatts á þeirri forsendu að þjónustan sé undanþegin virðisaukaskatti.

Samkvæmt málavaxtalýsingu í álitsbeiðni hafa álitsbeiðendur þegar keypt þjónustu tölvufyrirtækisins E ehf. við gerð hugbúnaðar (forritunarvinnu) og samið um kaup á þjónustu E ehf. vegna viðhalds (breytinga) hugbúnaðarins. Um skattaleg áhrif þeirra viðskipta verður því ekki látið uppi bindandi álit, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, þar sem kveðið er á um að ekki sé heimilt að óska eftir bindandi áliti um skattaleg áhrif ráðstafana sem þegar hafa verið gerðar.

Bindandi álit ríkisskattstjóra:

Ríkisskattstjóri álítur að sú þjónusta sem fyrirhugað er að A hf. veiti lífeyrissjóðum B, falli undir skattskyldusvið virðisaukaskatts og sé sem slík liður í virðisaukaskattsskyldum viðskiptum.

Kæruréttur:

Þetta bindandi álit er gefið miðað við þær forsendur sem fram koma í álitsbeiðni og raktar hafa verið hér að framan. Bindandi álit ríkisskattstjóra sætir kæru til yfirskattanefndar samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Kærufrestur er þrír mánuðir frá póstlagningardegi álits þessa, sbr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 1. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Ef kært er skal kæra send yfirskattanefnd, Rauðarárstíg 10, 105, Reykjavík. Kæra skal vera skrifleg og henni skal fylgja frumrit eða endurrit álits þessa. Ennfremur skal koma fram í kærunni hvaða atriði álitsins sæta kæru og rökstuðningur fyrir kröfum. Kærunni skulu og fylgja þau gögn sem ætluð eru til stuðnings kærunni.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum