Bindandi álit

Bindandi álit, frávísun nr. 1/06

21.9.2006

Fjárfesting lífeyrissjóðs í írsku Common Contractual Fund. Frávísun: Valdsvið RSK - túlkun ákvæða tvísköttunarsamnings.

Reykjavík, 21. september 2006 Báf 1/06

Ákvörðun varðandi beiðni um bindandi álit í skattamálum.

Í bréfi dagsettu 17. júlí 2006 fer A hf., í umboði B lífeyrissjóðsins, fram á að ríkisskattstjóri láti uppi bindandi álit sitt um tiltekin álitaefni, á grundvelli laga nr. 91/1998 um bindandi álit í skattamálum.

Málavextir:

Fyrirhuguðum ráðstöfunum B lífeyrissjóðsins (álitsbeiðanda) er þannig lýst í álitsbeiðni:

,,Í fyrirliggjandi máli hyggst álitsbeiðandi fjárfesta í írsku CCF. Meðfylgjandi er lýsing á slíku fyrirbæri í Írlandi en um er að ræða nokkurs konar félagssamning án þess að raunverulegt félag stofnist í lagalegum skilningi. Um er því að ræða ósjálfstæðan skattaðila samkvæmt írskum reglum. Meðfylgjandi er einnig ítarlegur samningur sem álitsbeiðandi er aðili að. Í þeim ríkjum þar sem óskað hefur verið eftir áliti á CCF félaginu hefur það verið talið gagnsætt í skattalegum skilningi.

Írski sjóðurinn, CCF, mun síðan samkvæmt samningum fjárfesta í öðrum ríkjum (fjárfestingarríkjum) í hlutabréfum og öðrum verðbréfum. Arðgreiðslur, vaxtagreiðslur o.fl. munu síðan berast frá þeim ríkjum til sjóðsins sem greiðir síðan aftur til fjárfesta í sjóðnum, þ. á m. álitsbeiðanda. Í sumum tilvikum mun skráð eign í sjóðnum hækka, en verðmæti ekki vera greidd beint út."

Umboðsmaður álitsbeiðanda lýsir lagalegum einkennum hinna írsku sjóða, þ.e. Common Contractual Fund (CCF), með eftirfarandi hætti:

,,Írskir CCF eru stofnaðir annað hvort sem UCITS sjóðir eða sem svokallaðir non-UCITS sjóðir. Í megindráttum er munurinn að UCITS sjóðir hafa markaðsleyfi á öllu Evrópska Efnahagssvæðinu meðan non-UCITS sjóðir starfa eingöngu í ákveðnu ríki. Írskir UCITS CCF sjóðir heyra undir írsk lög nr. 211/2003 varðandi verðbréfasjóði á meðan non-UCITS heyra undir lög um verðbréfasjóði og fyrirtæki frá 2005.

Ofangreint löggjöf staðfestir að írsk CCF séu ekki lögaðilar heldur er um að ræða samning milli aðila þar sem þeir samþykkja að fara sameiginlega með sameiginlegt eignarhald á tilteknum sjóðum/eignum. Afleiðing þessa er að CCF hefur ekki lagalega tilveru og málsvarar CCF eru í raun samningsaðilarnir sjálfir í gegnum rekstrarfélag.

CCF sem er hér til skoðunar er UCITS sjóður.

CCF er stofnsett með samningi milli aðilanna, nánar tiltekið með samþykktum CCF (sjá nánar í fylgiskjölum). Samþykktir CCF eru byggðar á sambærilegu skjölum og FCP félög í Lúxemborg.

Samþykktir CCF verða að vera lagðar fyrir og samþykktar af írskum fjármálayfirvöldum. Ákvæði samþykkta CCF eru talin hafa verið samþykkt af aðilum CCF þegar þeir samþykkja að yfirtaka hlut í CFF á grundvelli útboðslýsingar þar sem tiltekið er að aðilar muni vera bundnir af samþykktum CCF.

Megin einkenni CCF félags:

  1. CCF er stofnað með samningi milli aðila að því.
  2. Ekki sérstakur lögaðili aðskilin frá samningsaðilum.
  3. Engin hlutabréf eru gefin út í CCF félaginu.
  4. Engin viðskipti eða umsýsla er framkvæmd af CCF sjálfu, heldur rekstrarfélagi.
  5. Aðilar að CCF eiga tilkall til þess hluta að tekjum CCF í samræmi við eignir sínar í því að frádregnum kostnaði.
  6. Rekstrarfélagið er ábyrgt fyrir skuldum félagins og greiðir öll útgjöld.
  7. Ekki er hægt að fara í mál við CCF þar sem það hefur ekki einkenni lögaðila.
  8. Raunverulegir eigendur eigna í CCF eru samningsaðilarnir."

Í viðauka við álitsbeiðni er frekari grein gerð fyrir lagalegum einkennum írskra Common Contractual Fund (CCF). Þá fylgja álitsbeiðni tveir óundirritaðir samningar um stofnun CCF sjóðs.

Álitaefni:

Í beiðni eru álitaefnin sett fram með eftirgreindum hætti:

  1. ,,Getur ríkisskattstjóri staðfest að skattaleg staða álitsbeiðanda muni ekki breytast við fjárfestingu í CCF félagi frá því sem greinir í 6. tölul. 4. gr. l. nr. 90/2003 en um er að ræða lífeyrissjóð sem starfar samkvæmt III. kafla laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða? M.ö.o. mun fjárfesting álitsbeiðanda í CCF félagi leiða til þess að undanþáguákvæðið í 6. tölul. 4. gr. eigi ekki við?
  2. Getur skattstjóri staðfest að hið írska CCF verði talið gagnsætt í skattalegu tilliti? Vísað er til meðfylgjandi lýsingar í fylgiskjali 1 í því sambandi. Samkvæmt því yrði álitsbeiðandi skattlagður beint vegna hagnaðar sem myndast af þeim verðbréfum sem hið írska CCF fjárfestir í óháð því hvort CCF greiði út hagnaðinn á hverjum tíma. Hagnaður myndi þá myndast hjá álitsbeiðanda líkt og CCF einingin væri ekki til staðar."

Ákvörðun ríkisskattstjóra:

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, skal ríkisskattstjóri láta uppi bindandi álit í skattamálum enda taki álitsbeiðni til álitamála er snerta álagningu skatta og gjalda sem eru á valdsviði skattstjóra eða ríkisskattstjóra og falla undir úrskurðarvald yfirskattanefndar. Þrátt fyrir það ákvæði skal fjármálaráðherra í stað ríkisskattstjóra gefa álit á túlkun og framkvæmd samninga sem ríkisstjórn Íslands gerir, á grundvelli 119. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, við stjórnir annarra ríkja um gagnkvæmar ívilnanir á sköttum, sbr. 4. gr. nefndrar 119. gr.

Í 4. gr. laga nr. 90/2003 eru tilteknir þeir aðilar sem undanþegnir eru skattskyldu samkvæmt þeim lögum. Í 6. tölulið greinarinnar er kveðið á um að tekjuskatt greiði ekki lífeyrissjóðir sem starfa skv. III. kafla laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Það ákvæði var lögtekið með 2. gr. laga nr. 77/2006 um breyting á lögum nr. 90/2003. Í almennum athugasemdum við frumvarp til þeirra laga segir um ákvæðið: ,,Í 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er að finna upptalningu á þeim aðilum sem undanþegnir eru skattskyldu. Þar á meðal eru lífeyrissjóðir, sbr. 5. tölul. 4. gr., svo fremi sem þeir reki ekki atvinnustarfsemi. Í vissum tilvikum hefur leikið vafi á því hvort lífeyrissjóður teljist stunda atvinnustarfsemi, m.a. í tilviki samlagsfélaga, þrátt fyrir takmarkaða ábyrgð á skuldbindingum samlagsins. Tillaga frumvarpsins er sú að tekin verði af öll tvímæli um það að lífeyrissjóðir séu undanþegnir skattskyldu af hvers konar tekjum af starfsemi sem þeim er á annað borð heimil samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Íslenskir lífeyrissjóðir eru þegar meðal stærstu og virkustu fjárfesta á innlendum fjármálamarkaði, en með þessari breytingu er þeim gert kleift að fjárfesta í formi samlaga eða samlagshlutafélaga, t.d. sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum, án þess að skattskylda myndist."

Samkvæmt hljóðan orða ákvæðis 6. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 eru undanþegnir tekjuskatti lífeyrissjóðir sem starfa á grundvelli III. kafla laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í álitsbeiðni er það sett fram sem gefin forsenda, en ekki álitaefni, að álitsbeiðandi starfi á þeim lagagrundvelli. Af nefndum athugasemdum er ljós sá vilji löggjafans að undanþágan taki til hvers konar tekna lífeyrissjóða af starfsemi sem þeim er heimilt að stunda samkvæmt lögum nr. 129/1997. Eina álitamálið í þessu sambandi er því hvaða starfsemi er lífeyrissjóðum heimil samkvæmt þeim lögum. Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 129/1997 er Fjármálaeftirlitinu falið að hafa eftirlit með að starfsemi lífeyrissjóða sé í samræmi við ákvæði þeirra laga, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og staðfestar samþykktir lífeyrissjóða. Það er ekki á valdsviði ríkisskattstjóra að álykta um hvort fjárfestingar lífeyrissjóða samrýmast ákvæðum laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Í álitsbeiðni er gefin sú forsenda að Common Contractual Funds (CCF) á Írlandi séu ekki lögpersónur að írskum rétti og beri því ekki sjálfstæða skattaðild. Álitaefnið er hvort skattlagningu tekna er myndast innan vébanda slíks sjóðs skuli hagað líkt og sjóðurinn væri ekki til staðar. Við úrlausn þess álitaefnis reynir á hvort hlutdeild álitsbeiðanda í starfrækslu CCF á Írlandi feli í sér þátttöku hans í rekstri fastrar atvinnustöðvar þar í landi í skilningi 5. gr. samnings milli Íslands og Írlands til að komast hjá tvísköttun og koma í veg fyrir undanskot frá skattlagningu á tekjur og eignir. Eins og að framan greinir skal fjármálaráðherra, en ekki ríkisskattstjóri, gefa álit á túlkun og framkvæmd þess samnings.

Á framangreindum forsendum og með vísan til 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, vísar ríkisskattstjóri frá umræddri beiðni um bindandi álit.

Frávísun þessi er ekki kæranleg til yfirskattanefndar, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998.

Ákvörðunarorð:

Beiðni um bindandi álit, settri fram í bréfi dagsettu 17. júlí 2006, er vísað frá.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum