Bindandi álit

Bindandi álit, frávísun nr. 1/05

17.1.2005

Frádráttarbærni niðurfærslu hlutafjár í kjölfar nauðasamninga. Frávísun: Skýr lagaregla.

Reykjavík, 17. janúar 2005 Báf 01/05

Þann 13. desember 2004 móttók ríkisskattstjóri beiðni A hf., um bindandi álit á grundvelli laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, fyrir hönd B ehf., Reykjavík. Beiðnin varðar gjaldfærslu hlutafjár í kjölfar nauðasamninga.

Í beiðninni kemur fram að C ehf. (hér eftir C) hafi í hyggju að leita nauðasamninga samkvæmt lögum nr. 21/1991. Álitsbeiðandi sé annar aðaleigandi félagsins og því teljist málið varða verulega hagsmuni hans. Þá segir að rekstur C hafi verið mjög takmarkaður undanfarin tvö ár en eigendur félagsins hafi tapað umtalsverðu fjármagni vegna inngreidds hlutafjár og lánveitinga til félagsins. Hlutafé félagsins sé nú skráð 60 milljónir en það sé í eigu tveggja aðila. Þeir hafi lánað félaginu 100 milljónir sem félagið komi ekki til með að geta endurgreitt. Þar sem hluthafar C eru einu lánardrottnar þess hafa aðilar hug á að leita nauðasamninga samkvæmt lögum nr. 21/1991. Tilgangur nauðasamninganna sé fyrst og fremst sá að færa framangreinda fjárfestingu í hlutafé C til gjalda skv. 5. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003. Nauðasamningar yrðu þannig að skuldastaða C myndi fara í u.þ.b. 20 milljónir þ.e. lánardrottnar myndu gefa eftir kröfur að fjárhæð kr. 80 milljónir króna. Í kjölfarið yrði hlutafé C lækkað í kr. 500.000 og niðurfærsla um kr. 59,5 milljónir yrði færð til gjalda hjá hluthöfum en 80 milljónir til tekna hjá C. Loks er þess óskað að ríkisskattstjóri taki á því í áliti sínu hvor sú niðurfærsla sem verður á hlutafé í kjölfar framangreindra nauðasamninga sé frádráttarbær í skilningi 31. gr. laga nr. 90/2003.

Í beiðninni sem hér er til umfjöllunar er eins og áður segir óskað eftir því að ríkisskattstjóri gefi álit sitt á því hvort niðurfærsla á hlutafé í kjölfar nauðasamninga sé frádráttarbær í skilningi 31. gr. laga nr. 90/2003. Í 31. gr. laga nr. 90/2003 eru tilgreindar frádráttarheimildir frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri. Í 2. mgr. 5. tölul. 31. gr. kemur fram að sannanlega tapað hlutafé í félögum sem orðið hafa gjaldþrota er frádráttarbært frá tekjum þessara aðila og það sama gildir um "hlutafé sem tapast hefur vegna þess að það hefur verið fært niður í kjölfar nauðasamninga samkvæmt lögum nr. 21/1991." Orðalag ákvæðisins, sem bætt var inn í lög nr. 75/1981 með 3. gr. laga nr. 30/1995, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, er skýrt og án nokkurra fyrirvara.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, skal ríkisskattstjóri láta uppi bindandi álit í skattamálum enda varði beiðni um slíkt álit "álitamál" er snertir álagningu skatta og gjalda. Í almennum athugasemdum við lagafrumvarp það er varð að lögum nr. 91/1998 segir: "Gert er ráð fyrir að skattaðilar geti óskað eftir því við ríkisskattstjóra að hann gefi bindandi álit um skattaleg áhrif fyrirhugaðra ráðstafana skattaðila og þannig fengið úr því skorið fyrir fram hvernig álagning skattstjóra muni verða. Meginmarkmið frumvarpsins er að auka réttaröryggi skattaðila með því að tryggja þeim leið til að fá fyrir fram úr því skorið hvernig skattlagning verður, svo þeir geti tekið ákvarðanir og gert ráðstafanir á grundvelli þeirra upplýsinga." Af þessum texta greinargerðarinnar má ráða að gert er ráð fyrir því að um sé að ræða óljós atriði, þ.e. atriði þar sem ekki liggur skýrt fyrir hvaða reglur gilda.

Ríkisskattstjóri lítur svo á að í þeim tilvikum þegar fyrir liggur skýr lagaregla um tiltekin atriði þá sé þar ekki um að ræða álitaefni sem gefið verður bindandi álit um samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Það álitaefni sem borið er upp í beiðni álitsbeiðanda og hér er til umfjöllunar snýr að atriði þar sem skýr lagaregla liggur fyrir.

Með vísan til framangreinds er beiðni um bindandi álit vísað frá, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Frávísun þessi er ekki kæranleg, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum