Bindandi álit

Bindandi álit, frávísun nr. 6/01

8.5.2001

Rekstrarkostnaður bifreiða, rekstrarleigugjald. Frávísun: Skýr afstaða skattyfirvalda liggur þegar fyrir.

Reykjavík, 8. maí 2001

Ríkisskattstjóri hefur þann 27. mars 2001 móttekið beiðni A ehf., um bindandi álit og hlaut beiðnin númerið ..... í bókum embættisins. Umboðsmaður beiðanda er B hf. og er beiðnin undirrituð af C hdl.

Samkvæmt álitsbeiðninni óskar álitsbeiðandi bindandi álits ríkisskattstjóra á eftirfarandi atriðum:

  1. Að embættið staðfesti að allur kostnaður við rekstur bifreiðar (utan rekstrarleigugjaldsins) sem tekin er á rekstrarleigu fyrir almennan starfsmann félagsins skuli teljast til rekstrarkostnaðar, skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda séu hlunnindi samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra talin fram á launamiða.
  2. Að embættið staðfesti að allt rekstrarleigugjaldið teljist til gjaldfærðs kostnaðar álitsbeiðanda í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981.

Í álitsbeiðninni er málavöxtum svo lýst varðandi fyrra álitamálið að: „…álitsbeiðandi hefur í hyggju að ráða til sín tvo starfsmenn. Annars vegar er um að ræða framkvæmdastjóra og hins vegar almennan starfsmann. Starfsvið framkvæmdastjóra verður stjórnun daglegs reksturs í samræmi við ákvæði einkahlutafélagalaga og ber hann ábyrgð gagnvart stjórn þess. Almenni starfsmaðurinn verður við bókhaldsvinnu fyrst og fremst auk þess að sinna öðrum tilfallandi verkefnum undir stjórn framkvæmdastjórans. Álitsbeiðandi hefur í hyggju að láta báðum þessum starfsmönnum í té fólksbifreiðar, sem þeir munu auk þess að nota í vinnu sinni, hafa til fullra afnota utan vinnutímans. Þessi ótakmörkuðu afnot af bifreiðum verða þannig hluti af launakjörum þeirra…“ Álitsbeiðandi vitnar til bréfs ríkisskattstjóra, dags. 23. mars 1998, sem var svar við fyrirspurn til embættisins, þar sem fram komi sú túlkun embættisins að gjaldfærsla heimilist einungis að því marki sem hlunnindi hafi verið talin til tekna samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra, sbr. 5. tölul. 52. gr. laga nr. 75/1981. Í svarbréfi komi ekki fram greinarmunur varðandi stöðu þess starfsmanns sem um er að ræða en álitsbeiðandi telur að 5. tölul. 52. gr. eigi ekki við í þessu tilviki, enda ekki um að ræða starfsmann sem greinir í ákvæðinu, þ.e. framkvæmdastjóra eða sambærilegan starfsmann. Gagnályktun frá því leiðir til þeirrar niðurstöðu að slík takmörkun eigi ekki við í öðrum tilvikum. Í samræmi við það er óskað eftir staðfestingu þess að ekki sé um að ræða takmarkanir á heimild álitsbeiðanda til gjaldfærslu kostnaðar við rekstur bifreiðarinnar.

Varðandi seinna álitamálið bendir álitsbeiðandi á að í fyrrgreindu svarbréfi ríkisskattstjóra komi fram að í stað fyrningar, sem ella heimilaðist til frádráttar, leyfist rekstrarleigugjaldið að fullu og í öðru svarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 14. október 1999, við annarri fyrirspurn þar sem veitt er svar við spurningunni hvort launagreiðanda, sem lætur starfsmanni í té ótakmörkuð endurgjaldslaus afnot af bifreið á rekstrarleigusamningi, beri að reikna starfsmanninum skattskyld hlunnindi af þeim afnotum, samkvæmt almennum reglum um bifreiðahlunnindi í samræmi við eyðublaðið RSK 4.09. Þær reglur sem ríkisskattstjóri vísi til feli í sér heimild til frádráttar fasta fjárhæð afskriftar eins og hún er ákveðin fyrir hvert ár í stað rekstrarleigugjaldsins.

Álitsbeiðandi telur að svörum embættisins virðist ekki alveg bera saman og óskar því eftir bindandi áliti varðandi það álitamál hvort heimilt sé að gjaldfæra rekstrarleigugjaldið að fullu.

Þá segir orðrétt: „Ekki verður talið að jafna skuli saman rekstrarleigu og fjármögnunarleigu, eins og ríkisskattstjóri virðist gera í síðasta bréfi sínu. Rekstrarleiga er einfaldlega leiga á mun í tilsettan tíma, án þess að verið sé að greiða niður síðara kaupverð munarins eða niðurgreiða muninn að nokkru leyti þó svo að leigugreiðslan taki að sjálfsögðu mið af því að hún nái yfir verðfall munarins á samningstímanum. Eins og um aðra tímabundna leigusamninga gildir hér að í lok leigutíma afhendist munurinn aftur til leigusalans, sem fer með hann að vild þ.e. leigir hann aftur, nýtir hann í eigin þágu eða selur hann. Leigutaki hefur ekki að leigutíma loknum neinn rétt til afnota, kaupa eða leigu á muninum. Rekstrarleigugjaldið felur í sér verðfall munarins (í þessu tilviki bíls) og ákveðið fyrirbyggjandi viðhald. Í samræmi við það er ýmis kostnaður sem tilheyrir eigenda munarins innifalinn í rekstrarleiguverðinu, eins og skoðun, smurning og annað skyldubundið viðhald. Því má segja að rekstrarleiguverðið endurspegli að hluta til þann rekstrarkostnað, sem leigutaki þarf ekki að leggja út í vegna þess að hann er á ábyrgð leigusala. Í samræmi við það verður að telja að árleg föst fjárhæð afskriftar á slíkum bifreiðum væri ekki gjaldfærsla í samræmi við ákvæði 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, enda um að ræða kostnað við öflun tekna, sem félagið hefur þurft að leggja út í. Þegar sama félag myndi taka bifreið á leigu hjá bílaleigu, vegna reksturs síns, yrði almennt ekki talið leika vafi á því að svo lengi sem um væri að ræða notkun í þágu rekstrarins væri um gjaldfæranlegan kostnað að ræða. Á sama hátt er launakostnaður félagsins rekstrarkostnaður og lög standa til þess að kostnaðurinn, sem félagið verður fyrir vegna hlunninda sem veitt eru starfsmönnum, verða talin til rekstrarkostnaðar í skilningi 31. gr. laga nr. 75/1981, enda hafi þau verið talin fram á launamiðum í samræmi við hlunnindamat ríkisskattstjóra, sbr. einnig 1. og 5. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.“

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, skal ríkisskattstjóri láta uppi bindandi álit í skattamálum enda varði beiðni um slíkt álit "álitamál" er snertir álagningu skatta og gjalda. Í athugasemdum við lagafrumvarp það er síðar varð að lögum nr. 91/1998 segir: „Gert er ráð fyrir að skattaðilar geti óskað eftir því við ríkisskattstjóra að hann gefi bindandi álit um skattaleg áhrif fyrirhugaðra ráðstafana skattaðila og þannig fengið úr því skorið fyrir fram hvernig álagning skattstjóra muni verða. Meginmarkmið frumvarpsins er að auka réttaröryggi skattaðila með því að tryggja þeim leið til að fá fyrir fram úr því skorið hvernig skattlagning verður, svo þeir geti tekið ákvarðanir og gert ráðstafanir á grundvelli þeirra upplýsinga.“ Af þessum texta greinargerðarinnar má ráða að gert er ráð fyrir því að um sé að ræða óljós atriði, þ.e. atriði þar sem ekki liggur skýrt fyrir hvaða reglur gilda. Ríkisskattstjóri lítur svo á að í þeim tilvikum þegar fyrir liggur skýr afstaða skattyfirvalda um tiltekin atriði, hvort heldur er um að ræða úrskurð skattstjóra eða yfirskattanefndar, birtar reglur eða túlkanir ríkisskattstjóra þá sé þar ekki um að ræða álitaefni sem gefið verður bindandi álit um samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Þau álitaefni sem borin eru upp í beiðni álitsbeiðanda og hér er til umfjöllunar, snýr að atriði þar sem afstaða skattyfirvalda liggur þegar fyrir í tilvitnuðum bréfum og ber því að vísa beiðninni um bindandi álit frá.

Í tilefni umfjöllunar álitsbeiðanda um fyrrnefnd bréf ríkisskattstjóra um umrætt álitaefni vill ríkisskattstjóri benda á að í bréfinu sem dagsett er 23. mars 1998, er verið að fjalla um skattalega meðferð rekstrarleigusamninga fólksbifreiðar sem einstaklingur í atvinnurekstri tekur á leigu og notar bifreiðina í þágu atvinnurekstrar síns og til einkanota fyrir sig eða lætur starfsmanni sínum í té til ótakmarkaðra eigin afnota eða takmarkaðra afnota. Í fyrri tveimur tilvikunum gildir sama regla og um eigin bifreið væri að ræða, þ.e. í stað leigugjalds komi hin fasta fjárhæð árlegrar fyrningar sem ella væri notuð sem skal hlutfalla eftir notkun ef hann ætti sjálfur bifreiðina. Þegar einkaafnot takmörkuðust eingöngu við akstur launþega milli heimils og vinnustaðar eða tilfallandi og einstök afnot, fer um hlunnindamatið samkvæmt tölul. 2.7. í árlegum auglýsingum RSK um skattmat í staðgreiðslu, (t.d. nr. 2/1999 sem birtist í skattalagasafni, RSK útgefið í september 1999). Það er álit ríkisskattstjóra eins og fram kemur í bréfi hans, dags. 23. mars 1998, að í því tilviki leyfist rekstrarleigugjaldið að fullu til frádráttar eins og annar rekstrarkostnaður enda litið svo á að um atvinnurekstrartæki sé að ræða, s.s. sendibíll.

Í bréfi álitsbeiðanda er fjallað um „rekstrarleigu“ en í 4. tölul. 52. gr. laganna eru notuð orðin „kaupleigu eða fjármögnunarleigu“ en með lögum nr. 149/2000 eru orðin „kaupleigu eða“ felld út og í athugasemdum við breytingatillöguna kemur fram að tilvísun til kaupleigu eigi ekki heima í þessu ákvæði. Þegar um fjármögnunarleigu er að ræða helst eignarrétturinn hjá leigusalanum. Það liggja fyrir upplýsingar um það að samningar um leigu á munum, þ.m.t. á bifreiðum, eru með margvíslegum ákvæðum um það hvað skuli vera innifalið í leigugjaldinu. En þessir samningar eiga það sameiginlegt að eignarrétturinn helst hjá leigusalanum og teljast því til fjármögnunarleigu eins og það hugtak er túlkað hér að framan. Þannig mun vera háttað með rekstrarleigugjaldið sem um er rætt í álitsbeiðninni að innifalið er í leigugjaldinu tilteknir rekstrarliðir sem óumdeilanlega teljast til rekstrargjalda fólksbifreiðarinnar ef þeir væru sérgreindir samkvæmt reikningum hverju sinni. Það er álit ríkisskattstjóra að láti leigusali leigutaka í té fjárhagslegar upplýsingar úr bókhaldi sínu um útlagðan rekstrarkostnað sem innifalinn er í leigugjaldinu (viðhald, smurning, dekk o.s.frv.) vegna þeirrar bifreiðar sem álitsbeiðandi hefur á fjármögnunarleigu (rekstrarleigu) er honum heimilt að gjaldfæra þær fjárhæðir í bókhaldi sínu sem rekstrarkostnað bifreiðarinnar og lækka rekstrarleigugjaldið samsvarandi.

Ríkisskattstjóri vill að lokum taka fram þar sem það liggur ekki fyrir í umræddum bréfum að það er hans álit að orðin „framkvæmdastjórum og öðrum sambærilegum starfsmönnum“ í 5. tölul. 52. gr. laganna sé átt við stjórnendur fyrirtækis og aðra þá starfsmenn þess sem kunna að hafa aðstöðu til að ráð því hvort eða hvers konar bifreiðar eru keyptar eða teknar á leigu og afnot starfsmanna eða þeirra sjálfra af þeim.

Með vísan til framangreinds er beiðni yðar um bindandi álit vísað frá, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Frávísun þessi er ekki kæranleg, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Ályktunarorð:

Álitsbeiðni A ehf., nr. ...., sem varðar það hvort allur kostnaður við rekstur bifreiðar ásamt rekstrarleigugjaldinu sjálfu, sem tekinn er á rekstrarleigu fyrir almennan starfsmann, sé rekstrarkostnaður í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er vísað frá afgreiðslu bindandi álita í skattamálum.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum