SMT-Tollafgreiðsla

.

SMT-tollafgreiðsla

 

SMT-tollafgreiðsla stendur fyrir rafræna tollafgreiðslu, sem fer fram með skjalasendingum milli tölva, einnig nefnd EDI-tollafgreiðsla (Electronic Data Interchange). Þegar SMT-tollafgreiðsla fer fram eru tollskýrslur sendar úr viðskiptahugbúnaði fyrirtækis, tollskýrslugerðarhugbúnaði, til tollsins með SMT-skeytum, og lesnar sjálfvirkt inn í Tollakerfið, tölvukerfi tollafgreiðslu. Svör frá Skattsins vegna tollafgreiðslunnar, til dæmis skuldfærslutilkynningar um álögð og skuldfærð aðflutningsgjöld, eru einnig send til fyrirtækis með SMT-skeytum og lesin inn í viðskiptahugbúnað fyrirtækis. Viðkomandi farmflytjendum og flutningsmiðlurum eru einnig sendar inn- og útflutningsheimildir með SMT-skeytum vegna hverrar vörusendingar, sem fær tollafgreiðslu. Allar SMT-skeytasendingar fara fram í gegnum X.400 gagnahólf.

SMT-tollafgreiðsla bíður upp á samfellda tölvuvinnslu upplýsinga í tollskýrslu og svara frá Skattinum í viðskiptahugbúnaði fyrirtækis án tvískráningar upplýsinga, til dæmis vegna birgðabókhalds, vörureiknings, uppgjörs á skuldfærðum gjöldum, verðútreiknings o.fl. Að þessu leyti er SMT-tollafgreiðsla fullkomnari aðferð við tollafgreiðslu en VEF-tollafgreiðsla og leiðir af sér minni vinnu og meiri hagræðingu en VEF-tollafgreiðsla, en stofnkostnaður er meiri hjá viðkomandi fyrirtæki.

Öll helstu hugbúnaðarhús á Íslandi, sem framleiða og selja almennan viðskiptahugbúnað til nota hjá fyrirtækjum, bjóða upp á möguleika til SMT-tollafgreiðslu í sínum viðskiptahugbúnaði. Nánari upplýsingar veita hugbúnaðarhús, framleiðslu og söluaðilar viðskiptahugbúnaðar.

Samkvæmt gildandi tollalögum nr. 88/2005, m.s.br., skulu fyrirtæki, sem stunda inn- og útflutning, skila aðflutnings- og útflutningsskýrslum með rafrænum hætti til Skattsins.

Umsókn um SMT-tollafgreiðslu

Sækja skal um SMT-tollafgreiðslu á eyðublaði E19. Ef fyrirtæki fullnægir þeim kröfum sem settar eru gagnvart þeim sem tollafgreiða samkvæmt gildandi reglugerð er heimild til SMT-tollafgreiðslu veitt með bréfi frá Skattinum.

Breytingar á umboði starfsmanna sem annast SMT- eða VEF-tollafgreiðslu hjá fyrirtæki

Tilkynna ber Skattinum um breytingar á umboði starfsmanna fyrirtækis til að framkvæma SMT- eða VEF-tollafgreiðslu, bæði þegar nýir starfsmenn eru fengnir til þeirra starfa og þegar starfsmenn hætta. Eyðublað fyrir þessar tilkynningar má kalla fram hér:
Tilkynning um breytingar á umboði starfsmanna fyrirtækis til að framkvæma SMT- eða VEF-tollafgreiðslu - Hægt er að fylla eyðublaðið út á vefnum og prenta síðan út.

Aðstoð og upplýsingar varðandi tæknileg mál SMT-tollafgreiðslu fást hjá:

Tæknisvið Skattsins, ut[hja]skatturinn.is eða þjónustuvakt, sími: 442-1000.

 

 

.

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum