Áhersluatriði í eftirliti ársreikningaskrár vegna reikningsársins 2021
Í minnisblaði þessu eru sett fram áhersluatriði í eftirliti ársreikningaskrár með reikningsskilum vegna reikningsársins sem hófst 1. janúar 2021. Áhersluatriðin eru birt til umhugsunar fyrir stjórnendur og jafnframt endurskoðendur og skoðunarmenn félaga sem falla undir gildissvið ársreikningalaga. Félög sem falla undir gildissvið laga nr. 3/2006 um ársreikninga (hér eftir lög nr. 3/2006) ber að semja ársreikning í samræmi við ákvæði laganna, reglugerð nr. 696/2019 um framsetningu ársreikninga og samstæðureikninga og settar reikningsskilareglur.
Sé ekki mælt fyrir um tiltekið atriði í lögunum skal fara eftir viðeigandi ákvæðum í settum reikningsskilareglum. Ef vafi leikur á túlkun ákvæða ársreikningalaga og lögskýringargögn greiða ekki úr þeim vafa þá ber að túlka ákvæði ársreikningalaga í samræmi við efnislega sambærileg ákvæði í settum reikningsskilareglum. Þegar kemur að öðrum ákvæðum ársreikningalaga, svo sem vegna skýrslu stjórnar, þar sem vafi leikur á túlkun laganna og lögskýringargögn greiða ekki úr þeim vafa skal horft til ákvæða reglugerða, tilskipana og annars útgefins efnis frá Evrópusambandinu. Ársreikningaskrá vill vekja sérstaka athygli ákvæði 5. gr. laga nr. 3/2006 þess efnis að ef ákvæði laganna nægja ekki til að reikningurinn gefi glögga mynd þá skal bæta við viðbótarupplýsingum svo að reikningsskilin gefi glögga mynd. Gagnsæi í upplýsingagjöf er lykilatriði í að auka traust fjárfesta, lánadrottna og annarra hagaðila á þeim upplýsingum sem birtar eru í reikningsskilum.
Ársreikningaskrá vill benda á að í V. kafla laga nr. 3/2006 um skýringar eru settar fram lágmarkskröfur um skýringar sem skal birta í reikningsskilum. Ársreikningaskrá vill einnig benda á ákvæði 7. gr. í reglugerð 696/2019 um framsetningu skýringa en þar kemur fram að upplýsingar í skýringum skulu vera það ítarlegar að þær geri notendum reikningsskila kleift að leggja mat á eðli og fjárhagsleg áhrif viðskipta og annarra atburða á rekstur og efnahag viðkomandi félags. Við mat stjórnenda á því hversu ítarlegar upplýsingar og sundurliðanir skuli veita í skýringum þarf meðal annars að taka tillit til stærðar og umfangs rekstrar- og efnahagsreiknings og þarfa notenda reikningsskilanna.
Áhersluatriðin taka mið af nýlegum breytingum laga og reglugerða auk atriða sem upp hafa komið við eftirlit með reikningsskilum á síðustu reikningsárum. Að þessu sinni er lögð áhersla á upplýsingagjöf félaga sem kjósa að beita reglu reikningsskilaráðs um reikningshaldslega meðferð leigusamninga í reikningsskilum leigutaka, upplýsingagjafar í skýrslu stjórnar að teknu tilliti til leiðbeininga reikningsskilaráðs um skýrslu stjórnar og ófjárhagslegar upplýsingar í yfirliti með skýrslu stjórnar. Ársreikningaskrá vill ítreka að við eftirlit með reikningsskilum félaga sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum er farið eftir áhersluatriðum í eftirliti sem Verðbréfaeftirlit Evrópu gaf út þann 29. október 2021.
Forsendan um áframhaldandi rekstrarhæfi
Ein af grunnforsendum reikningsskila er forsendan um áframhaldandi rekstrarhæfi sbr. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 3/2006 og 25.-26. gr. alþjóðlegs reikningsskilastaðals IAS 1. Reikningsskil byggjast á forsendunni um áframhaldandi rekstrarhæfi nema stjórnendur þess ætli sér að leysa félagið upp eða hætta rekstri þess eða hafa ekki raunhæft val um annað en að hætta starfsemi þess. Við gerð reikningsskila ber stjórnendum að leggja mat á hvort að viðkomandi félag sé rekstrarhæft eða ekki. Stjórnendur þurfa að nota eigin dómgreind við mat á áframhaldandi rekstrarhæfi.
Ákvæði 8. mgr. 65. gr. laga nr. 3/2006 kveður á um að „ef vafi leikur á rekstrarhæfi skuli greina frá því í skýrslu stjórnar“. Þegar stjórnendur eru meðvitaðir um mikilvæga óvissu vegna atburða eða aðstæðna sem geta valdið verulegum vafa um getu viðkomandi félags til að halda áfram rekstri ber að greina frá þeim óvissuþáttum í skýrslu stjórnar. Dæmi um slíka óvissuþætti eru minni eftirspurn eftir vörum eða þjónustu, röskun á aðfangakeðju félagsins, viðkomandi félag hefur þurft að treysta á tímabundnar stuðningsaðgerðir stjórnvalda eða ef aðgangur félagsins að fjármagni er takmarkaður.