Almenn skattskylda

Lögaðilar sem bera ótakmarkaða skattskyldu eru skattskyldir hér á landi vegna allra sinna tekna hvar sem þeirra er aflað í heiminum og öllum sínum eignum óháð staðsetningu þeirra. Hafa ber þó í huga að í tvísköttunarsamningum sem gerðir hafa verið við önnur ríki til að koma í veg fyrir tvísköttun tekna er að finna ýmis ákvæði sem valda því að tekjur, sem án slíkra samninga væru skattskyldar hér á landi, eru það ekki. Því er mikilvægt að skoða viðeigandi tvísköttunarsamninga áður en ákvarðað er hvort umræddar tekjur koma til skattlagningar hér á landi.

Eftirtaldir lögaðilar bera ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi:

  1. Skráðum hlutafélögum og einkahlutafélögum, svo og samlagshlutafélögum, enda sé þess óskað við skráningu að samlagshlutafélagið sé sjálfstæður skattaðili. Hjón ein sér eða með ófjárráða börnum sínum geta ekki myndað samlagshlutafélag er sé sjálfstæður skattaðili.
  2. Gagnkvæmum vátryggingar- og ábyrgðarfélögum, kaupfélögum, öðrum samvinnu­félög­um og samvinnufélagasamböndum.
  3. Samlagsfélögum og sameignarfélögum með ótakmarkaðri ábyrgð félagsaðila, enda sé félagið skráð í firma­skrá hér á landi, þess óskað við skráningu að félagið sé sjálfstæður skattaðili og við skráningu afhentur félagssamningur þar sem getið sé eignarhlutfalla eigenda, inn­borg­aðs stofnfjár svo og hvernig félagsslitum skuli háttað. Senda skal ríkisskattstjóra vottorð um skráningu og staðfest eftirrit af félagssamningi með fyrsta skattframtali þessara félaga. Hjón ein sér eða með ófjárráða börnum sínum geta ekki myndað samlagsfélag eða sameignarfélag er sé sjálfstæður skattaðili.
  4. Samlögum og samtökum sem hafa það að meginmarkmiði að annast vinnslu eða sölu á framleiðsluvörum félagsaðila sinna, innkaup á rekstrarvörum eða þjónustu í beinum tengslum við atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi þeirra, enda séu þau skráð í firmaskrá hér á landi og þess getið við skráningu að þau séu sjálfstæðir skattaðilar. Við skráningu skal afhentur félagssamningur þar sem getið sé eignaraðildar, innborgaðs stofnfjár svo og hvernig félagsslitum skuli háttað. Senda skal ríkisskattstjóra vottorð um skráningu og staðfest eftirrit af félagssamningi með fyrsta skattframtali þessara félaga.
  5. Öðrum félögum, sjóðum og stofnunum, þar meðtöldum sjálfseignarstofnunum, sem hér eiga heimili, þó ekki þau félög sem eru sérstaklega undanþegin samkvæmt 5. og 6. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga, svo og dánarbúum og þrotabúum.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Ótakmörkuð skattskylda lögaðila – 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Skatthlutföll – 1.-3. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Annað

TvísköttunarsamningarÞessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum