Arður talinn sem laun
Þessi regla féll úr gildi 1. janúar 2014 en gildir um arðgreiðslur sem ákveðnar voru á tekjuárunum 2010 til og með 2013.
Fari heimil arðsúthlutun hlutafélags/einkahlutafélags samtals umfram 20% af skattalegu bókfærðu eigin fé þess í árslok viðmiðunarárs skal skattleggja 50% af því sem umfram er með sérstökum hætti hjá þeim hluthöfum sem skylt er að reikna sér endurgjald vegna starfa í þágu félagsins.
Þessi regla gildir varðandi arðgreiðslur sem ákveðnar hafa verið á tekjuárinu 2010 og síðar. Reglan gildir ekki ef um er að ræða úthlutun arðs úr fyrirtæki sem skráð er á opinberum verðbréfamarkaði.
Tekjur sem ákvarðaðar eru með þessum hætti mynda hvorki stofn til tryggingagjalds né lífeyrisiðgjalds né teljast til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar hjá greiðanda (lögaðilanum).
Sá hluti heimilaðs úthlutaðs arðs til hlutahafa sem telst vera fjármagnstekjur er skattlagður samkvæmt því skatthlutfalli sem í gildi er þegar tekjufærsla á sér stað. Tekjuárin 2012 og 2013 er fjármagnstekjuskattshlutfallið 20%.
Þann hluta heimilaðs úthlutaðs arðs til hluthafa sem sæta skal sérstakri skattlagningu skal skattleggja hjá móttakanda miðað við skatthlutfall samkvæmt miðþrepi. Þessar tekjur skulu þó ekki vera meðtaldar þegar reiknuð er millifærsla milli skattþrepa hjá samsköttuðum (hjónum og sambýlisfólki).
- Tekjuárið 2010 er skatthlutfallið 27% auk útsvars.
- Tekjuárið 2011 er skatthlutfallið 25,8% auk útsvars.
- Tekjuárin 2012 og 2013 er skatthlutfallið 25,8% auk útsvars.
Skila á fjármagnstekjuskatti af arði á því uppgjörstímabili sem greiðsla fer fram eða í síðasta lagi á síðasta uppgjörstímabili þess tekjuárs sem ákvörðun um úthlutun fer fram á. Af þeim hluta arðgreiðslu sem telst til launa og skattlagður er samkvæmt sérstökum reglum á að skila staðgreiðslu á venjulegri staðgreiðsluskilagrein vegna launa í þeim sama mánuði og greiðslan átti sér stað, eða í síðasta lagi með desemberskilagreininni sem greidd er í janúar. Þetta er gert á sama hátt og varðandi venjubundin mánaðarleg laun og skil á staðgreiðslu vegna þeirra, þ.m.t. rafrænt. Það á hvorki að greiða tryggingagjald né lífeyrissjóðsiðgjald af þessum hluta arðgreiðslunnar og staðgreiðsluhlutfallið á alltaf að vera samkvæmt miðjuþrepi.
Sá hluti arðgreiðslu sem telja ber sem laun viðkomandi einstaklings skal telja til tekna í skattframtali og miðast skattlagning þessara tekna ætíð við sama skatthlutfall en tekur ekki breytingum miðað við fjárhæð annarra tekna.
Ekki skal sérgreina í skattframtali hlutafélaga/einkahlutafélaga þann hluta arðgreiðslna félagsins sem sætir sérstakri skattlagningu hjá viðkomandi hluthafa, heldur ber að færa heildarfjárhæð arðgreiðslna í skattframtalið með venjubundnum hætti.
Ítarefni