Tímabundinn innflutningur

Hægt er að sækja um heimild til tímabundins innflutnings án þess að þurfa að greiða aðflutningsgjöld ef um eftirtaldar vörur er að ræða:

 1. Vörur til sýningar, s.s. á viðskipta- eða iðnsýningum, þar með talið sýningarbásar og skreytingar.
 2. Tæki og annar búnaður, prentað efni, ritföng og því um líkt til notkunar á ráðstefnum, fundum eða til hátíðahalda. Ákvæði þetta tekur m.a. til: tölva og tækjabúnaðar, búnaðar sem ætlaður er til þess að tryggja öryggi þátttakenda, prentaðs efnis, dúka og borðbúnaðar sem til dæmis ber merki viðkomandi fyrirtækis, vara að óverulegu verðmæti sem ætlaðar eru sem viðurkenningar til þátttakenda.
 3. Keppnisbúnað íþróttamanna, sem koma hingað til lands til æfinga eða keppni, s.s. ökutækja og varahluta í þau, íþróttabúninga og því um líkt.
 4. Hljóðfæri, leikmuni og annan búnað listamanna, sem koma hingað til lands til þátttöku í hljómleikum eða listsýningum.
 5. Tæki og annan búnað vísindamanna sem koma hingað til lands vegna rannsókna.
 6. Búnað kvikmyndagerðar- og fjölmiðlamanna, sem koma hingað til lands til kvikmyndagerðar eða efnisöflunar.
 7. Björgunartæki og -búnað aðila sem koma hingað til lands til björgunarstarfa.
 8. Atvinnutæki og annan búnað verktaka sem koma hingað til lands til að vinna tiltekið verk. Vörusvið þessa töluliðar er sama vörusvið og gildir um verktaka samkvæmt auglýsingu númer 25/1970, um aðild Íslands að tollasamningi varðandi innflutning um stundarsakir á atvinnutækjum.
 9. Vélar, tæki og önnur áhöld sem flutt eru til landsins til reynslu um stuttan tíma.
 10. Vörur sem fluttar eru til landsins til viðgerðar eða annarrar aðvinnslu, þar með talið aðvinnslu til þess að forða þeim frá rýrnun eða öðrum skemmdum.
 11. Vörur sem A.T.A. ábyrgðarskjal tekur til, sbr. auglýsingu númer 24/1970, um aðild Íslands að tollasamningi varðandi hlunnindi vegna innflutnings á vörum til kynningar eða notkunar á sýningum, vörusýningum, fundum og við svipuð tækifæri og auglýsingu númer 25/1970, um aðild Íslands að tollasamningi varðandi innflutning um stundarsakir á atvinnutækjum.

Hvernig er sótt um?

Sótt er um heimild til tímabundins innflutnings til Tollstjóra. Umsóknin er rituð á aðflutningsskýrslu, eyðublað E1, með viðeigandi undanþágutilvísun í reit 14 á skýrslunni.

Leggja þarf fram fullnægjandi tryggingu fyrir greiðslu aðflutningsgjalda með beiðni um heimild til tímabundins innflutnings nema þú njótir greiðslufrests á aðflutningsgjöldum.

Eftirfarandi tryggingar teljast fullnægjandi:

 • A.T.A. ábyrgðarskjal.
 • Fjártrygging, eða skilyrðislaus ábyrgð viðskiptabanka, sparisjóðs eða vátryggingafélags.

Hægt er að óska eftir því að Tollstjóri falli frá kröfu um framlagningu tryggingar.

Hægt er að óska eftir því að Tollstjóri framlengi heimild til tímabundins innflutnings en þó aldrei í lengri tíma en til tólf mánaða nema sérstakar ástæður mæli með því.

Þegar kemur að því að flytja vöruna út á ný er mikilvægt að fá staðfestingu Tollstjóra um endurútflutninginn. Sé endurútflutningur vöru ekki staðfestur af Tollstjóra verða aðflutningsgjöld lögð á vöruna.

Ítarefni

Kæruheimild

Hægt er að kæra ákvörðun Tollstjóra um veitingu heimildar til tímabundins innflutnings.

Kæran þarf að uppfylla eftirtalin skilyrði:

 • vera skrifleg og
 • studd nauðsynlegum rökum og gögnum
 • berast Tollstjóra innan 60 daga frá tollafgreiðsludegi eða
 • berast Tollstjóra innan 60 daga frá því heimild til tímabundins innflutnings var hafnað

Úrskurð Tollstjóra er hægt að kæra til fjármálaráðuneytis innan 60 daga frá dagsetningu eða póstlagningu úrskurðar og skal hann vera skriflegur og studdur nauðsynlegum gögnum. 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum