Tollflokkun
Athygli er vakin á mikilvægi þess að vanda vel til tollflokkunar, einnig er vakin athygli á því réttaröryggi sem innflytjendum er boðið upp á með möguleikanum um að óska bindandi álits um tollflokkun vöru.
Ef tollflokkun er rétt tryggir það:
- Greiðslu réttra aðflutningsgjalda (tollur og virðisaukaskattur)
- Nákvæmari tölur við hagskýrslugerð í tengslum við inn- og útflutning
- Vitneskju um þörf á leyfum við inn- og útflutning
Sé tollflokkun röng er hætta á að:
- Fyrirtæki verði gert að greiða aukin aðflutningsgjöld við endurákvörðun auk dráttarvaxta frá tollafgreiðsludegi vörunnar
- Tollafgreiðsla vörunnar kann að tefjast
- Hugsanlegt er að varan verði gerð upptæk og fyrirtækinu gert að greiða sekt
Fyrirtæki sem sendir Skattinum aðflutningsskýrslu um vöru með rammaskeyti um gagnaflutningsnet vegna SMT-/VEF-tollafgreiðslu ber ábyrgð á því að upplýsingar, sem þar eru veittar, séu réttar. Það sama á við afhendi fyrirtækið skriflega aðflutningsskýrslu eða veiti upplýsingar með öðrum hætti vegna tollafgreiðslu vöru.
Enn fremur ber hann ábyrgð á að um sé að ræða allar þær upplýsingar sem eiga að koma fram vegna tollafgreiðslunnar og að þær séu byggðar á þeim tollskjölum sem hefði átt að leggja fram með aðflutningsskýrslu ef vöru hefði ekki verið ráðstafað til SMT-tollafgreiðslu.
Til að tollflokka vörur er nauðsynlegt að nota tollskrána.
Bindandi álit
Kæruleið
Unnt er að kæra ákvörðun Skattsins um bindandi tollflokkun til yfirskattanefndar.
Skatturinn getur afturkallað ákvörðun sína um bindandi tollflokkun að eigin frumkvæði. Tilkynna ber aðila sem óskað hefur bindandi tollflokkunar um afturköllun ákvörðunar.