Tollflokkun

Athygli er vakin á mikilvægi þess að vanda vel til tollflokkunar, einnig er vakin athygli á því réttaröryggi sem innflytjendum er boðið upp á með möguleikanum um að óska bindandi álits um tollflokkun vöru.

Ef tollflokkun er rétt tryggir það:

 • Greiðslu réttra aðflutningsgjalda (tollur og virðisaukaskattur)
 • Nákvæmari tölur við hagskýrslugerð í tengslum við inn- og útflutning
 • Vitneskju um þörf á leyfum við inn- og útflutning

Sé tollflokkun röng er hætta á að:

 • Fyrirtæki verði gert að greiða aukin aðflutningsgjöld við endurákvörðun auk dráttarvaxta frá tollafgreiðsludegi vörunnar
 • Tollafgreiðsla vörunnar kann að tefjast
 • Hugsanlegt er að varan verði gerð upptæk og fyrirtækinu gert að greiða sekt

Fyrirtæki sem sendir Skattinum að­flutnings­skýrslu um vöru með ramma­skeyti um gagna­flutnings­net vegna SMT-/VEF-toll­af­greiðslu ber ábyrgð á því að upp­lýsingar, sem þar eru veittar, séu réttar. Það sama á við afhendi fyrirtækið skriflega aðflutningsskýrslu eða veiti upplýsingar með öðrum hætti vegna tollafgreiðslu vöru.

Enn fremur ber hann ábyrgð á að um sé að ræða allar þær upp­lýsingar sem eiga að koma fram vegna toll­af­greiðslunnar og að þær séu byggðar á þeim toll­s­kjölum sem hefði átt að leggja fram með að­flutnings­skýrslu ef vöru hefði ekki verið ráð­stafað til SMT-toll­af­greiðslu.

Til að tollflokka vörur er nauðsynlegt að nota tollskrána.

Bindandi álit

Með því að óska bindandi álits Skattsins um tollflokkun vöru er innflytjandi að tryggja sér það fyrirfram tollflokkun vörunnar sé rétt og í samræmi við lög og túlkun tollyfirvalda.

Réttaröryggið fyrir innflytjanda felst í því að ákvörðun embættisins um bindandi tollflokkun vöru er bæði bindandi fyrir tollyfirvöld og innflytjanda.

Innflytjandi þarf því ekki að eiga von á því að tollyfirvöld endurákvarði aðflutningsgjöld vegna innflutnings þar sem fengist hefur bindandi tollflokkun vöru. Innflytjandinn veit því þá þegar við innflutning vörunnar hvaða gjöld teljast vera réttilega álögð gjöld á umrædda vöru lögum samkvæmt.

Hvernig óskað er bindandi álits

Ef óskað er bindandi álits um tollflokkun vöru þarf að senda skriflega beiðni.

Beiðni þurfa að fylgja þau gögn sem nauðsynleg eru til þess að unnt sé að ákveða tollflokkun vöru. Sem dæmi um fylgigögn mætti nefna:

 • teikningu
 • mynd
 • vörulýsingu
 • bækling
 • sýnishorn af vöru

Beiðni um bindandi álit verður svarað skriflega, innan 30 daga frá því beiðni barst eða frá því gagnaöflun lýkur.

Kæruleið

Unnt er að kæra ákvörðun Skattsins um bindandi tollflokkun til yfirskattanefndar.

Skatturinn getur afturkallað ákvörðun sína um bindandi tollflokkun að eigin frumkvæði. Tilkynna ber aðila sem óskað hefur bindandi tollflokkunar um afturköllun ákvörðunar.

Ítarefni

Eyðublöð

Eyðublað R-44 - Umsókn um bindandi álit um tollflokkun vöru

Nánari upplýsingar

Bindandi álit

Hagstofa Íslands

TollskráÞessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum