Vöruskoðun

Vöruskoðun er afgreiðslueining tollgæslunnar er annast eftirlit og skoðun á ótollafgreiddri vöru.

Tollgæslu er heimilt að skoða og rannsaka allar vörur sem fluttar eru til landsins, hvort sem um er að ræða vörur á farmskrá, póstflutning, farþegaflutning eða annað. Almennt fer slík skoðun fram í vörugeymslum farmflytjanda. Heimilt er að krefjast þess að vörurnar séu fluttar í húsakynni skattsins eða á annan tiltekinn stað þar sem tolleftirlit fer fram og þeim framvísað þar til skoðunar.

Innflytjendum og vörsluhöfum ótollafgreiddrar vöru er skylt að aðstoða við tollskoðun með því að framvísa vöru að beiðni tollgæslu, opna töskur og aðrar umbúðir, taka upp úr þeim, loka þeim aftur að skoðun lokinni og veita alla þá aðstoð og upplýsingar sem leitað er eftir. Sinni innflytjandi eða vörsluhafi ekki skyldu sinni til að aðstoða við tollskoðun er Skattinum heimilt að fela tollvörðum eða öðrum starfsmönnum Skattsins að vinna verkið eða ráða menn til starfsins og innheimta hjá innflytjanda eða vörsluhafa þóknun er nemur kostnaði.

Vörufölsun

Tollyfirvöld athuga reglulega innfluttar vörur með tilliti til fölsunar á vörumerki og eftirlíkingum.

Fylgst er með innfluttum varningi og er varningur stöðvaður sem verndaður er hugverkarétti ýmist að beiðni leyfishafa eða að eigin frumkvæði skattsins ef hann hefur í höndum fullnægjandi gögn þess efnis að varan brjóti gegn hugverkaréttindum.

Ef grunur leikur á að innflutningur eigi sér stað á vöru sem brýtur gegn hugverkaréttindum er Skattinum heimilt að fresta tollafgreiðslu vörunnar á meðan rétthafi leitar bráðabirgðaaðgerða hjá þar til bærum yfirvöldum og í framhaldi af þeim hefur málarekstur fyrir dómstólum. Ákvæðið á ekki við um vörur í litlu magni í farangri ferðamanna eða litlar vörusendingar, enda sé ekki um innflutning í viðskiptaskyni að ræða.

Eftirfarandi skilyrði eru fyrir heimild Skattsins:

  1. að rétthafi leggi fram skriflega beiðni til Skattsins um að tollafgreiðslu verði frestað og skuldbindi sig til að greiða þann kostnað sem leiðir af aðgerðum tollyfirvalda
  2. að rétthafi leggi fram fullnægjandi gögn þess efnis að hugverkaréttindi njóti verndar hér á landi, að hann sé handhafi þess réttar og að innflutningur vörunnar muni brjóta á rétti hans; hann skal jafnframt leggja fram nógu nákvæma lýsingu á vörunni til að tollyfirvöld geti borið kennsl á hana
  3. að rétthafi leggi fram tryggingu í formi fjárgreiðslu, eða með öðrum þeim hætti er Skatturinn telur fullnægjandi, er nægi til að bæta rétthafa, eiganda eða innflytjanda vörunnar það tjón eða þann kostnað sem óréttmæt frestun tollafgreiðslu kann að hafa í för með sér.

Menningarverðmæti

Minjastofnun Íslands veitir leyfi til flutnings menningarverðmæta úr landi.

Óheimilt er að flytja úr landi forngripi, listgripi, skjöl, bækur, samgöngutæki og aðrar menningarminjar sem taldar eru upp í lögum um menningarminjar nr. 80/2012 nema að uppfylla ákveðin skilyrði og að fengnu formlegu leyfi frá Minjastofnun. Sótt er um leyfi skriflega til Minjastofnunar.

Náttúrugripir

Náttúrugripi má ekki flytja úr landi nema með leyfi Náttúrufræðistofnunar Íslands og með þeim skilyrðum sem stofnunin setur hverju sinni, samanber 4. málsgrein 15. greinar laga númer 60/1992 um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.

Förgun

Vörum er fargað undir tolleftirliti af ýmsum ástæðum. Í flestum tilfellum er það vegna niðurfellingar á aðflutningsgjöldum eða um leyfisskylda vöru er að ræða sem ekki fæst leyfi fyrir.

Ef vara er flutt til landsins andstætt fyrirmælum laga eða stjórnvaldsfyrirmæla, sem banna innflutning hennar, skal skatturinn mæla fyrir um hvar og með hvaða hætti hún skuli geymd þar til ákvörðun hefur verið tekin um frekari meðhöndlun hennar af þar til bærum stjórnvöldum, svo sem um förgun eða flutning úr landi. Ef ákveðið er að farga vörum skal viðeigandi eftirlitsaðili gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að vörurnar og förgun á þeim sé undir eftirliti. Förgun fer fram undir tolleftirlit þ.e.a.s. vörunni er fargað að viðstöddum tollvörðum til að koma í veg fyrir möguleika á endurnýtingu eða endurnotkun.

Förgunargjald er innheimt samkvæmt gjaldskrá vegna eyðileggingar vöru að beiðni eiganda vörunnar, farmflytjanda eða leyfishafa geymslusvæðis fyrir ótollafgreiddar vörur.

Telji skatturinn ekki ástæðu til að selja vöru nauðungarsölu eða á frjálsum markaði vegna ástands hennar er honum heimilt að láta farga henni á kostnað innflytjanda.

Haldlagður varningur

Vörur sem haldlagðar eru hjá innflutningsaðilum, ferðamönnum og farmönnum meðal annars vegna innflutningstakmarkana eru færðar til geymslu meðan á málsmeðferð stendur. Að málsmeðferðinni lokinni er varan seld á uppboði eða færð til förgunar skv. úrskurði.

Vörur sem ekki uppfylla innflutningsskilyrði

Ef vara er flutt til landsins andstætt fyrirmælum laga eða stjórnvaldsfyrirmæla, sem banna innflutning hennar, skal skatturinn mæla fyrir um hvar og með hvaða hætti hún skuli geymd þar til ákvörðun hefur verið tekin um frekari meðhöndlun hennar af þar til bærum stjórnvöldum, svo sem um förgun eða flutning úr landi.

Vörur sem ekki uppfylla innflutningsskilyrði skulu gerðar óhæfar til neyslu og færðar til förgunar.

Lyfja- og efnasendingar

Lyfjum og vörum er fargað að beiðni Lyfjastofnunar telji stofnunin alvarlega hættu stafa af notkun vörunnar.

Förgun ýmissa efna s.s. eiturefna og tækja sem er háð leyfum af öryggisástæðum til að tryggja viðeigandi förgun spilliefna.

Matvæli

Heilbrigðisnefnd hefur undir yfirumsjón Matvælastofnunar opinbert eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla.

Innflutt matvæli, þar með talin fæðubótarefni, án tilskilinna leyfa er fargað undir tolleftirliti.

Hugverkaréttur

Verði með dómi kveðið á um að innflutningur vöru brjóti á hugverkarétti og í dóminum er ekki mælt fyrir um ráðstöfun vörunnar, er þá embættinu heimilt að farga vörunni eða að ráðstafa henni á annan þann hátt sem ekki brýtur á rétti rétthafa.

Áfengi

Áfengi sem verður fyrir skemmdum við innflutning eða geymslu, áfengi sem haldlagt er hjá ferðamönnum eða farmönnum er fargað undir eftirliti tollyfirvalda.

Takmarkanir og bönn

Hafa ber í huga við inn- og útflutning að leyfi getur þurft til flutningsins eða hann verið bannaður. Upplýsingar um bönn, leyfi og undanþágur sem skráð eru í tollakerfi má skoða hér:

Bönn

Leyfi

Undanþágur

 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum