Um útflutning

Allar vörur sem flytja á frá landinu skulu vera á farmskrá, nema annað sé sérstaklega ákveðið. Farmflytjandi gefur viðkomandi vörusendingu sérstakt auðkenni, sendingarnúmer. Farmflytjandi á að tilgreina sendingarnúmerið á flutningsgjaldsreikningi eða tilkynningu um vörusendinguna. Sendingarnúmer póstsendinga kemur fram á tilkynningu viðkomandi pósthúss.

Vakin er athygli á því að útflytjanda ber skylda til að skila inn útflutningsskýrslu til Skattsins áður en vara fer frá landinu og nægjanlega tímanlega til að hægt sé að koma við tollskoðun.

Skili útflytjandi ekki inn útflutningsskýrslu innan tímamarka getur hann átt von á því að Skatturinn loki á tollafgreiðslu til viðkomandi aðila, bæði varðandi inn- og útflutning.

Farmflytjandi verður þá að hafa skilað inn farmskrá í tollakerfi embættisins með þar til gerðu sendingarnúmeri.

Útflutningur fer þannig fram gagnvart tollyfirvöldum að útflytjandi leggur inn útflutningsskýrslu, eyðublað E-2, ásamt fylgiskjölum á útflutningstollstöð. Hafi útflytjandi aðgang að rafrænu tollafgreiðslukerfi getur hann óskað eftir tollmeðferð við útflutning í gegnum SMT- eða VEF-tollafgreiðslu. Tollmeðferðin fer þá fram með skeytasendingum milli tölva.

Útflytjanda ber að gefa réttar og fullnægjandi upplýsingar um viðkomandi vörur og skal tollflokka þær í samræmi við gildandi tollskrá. Sé viðkomandi í vafa um rétta tollflokkun getur hann leitað aðstoðar Skattsins.

Liggi fullnægjandi gögn ekki fyrir við tollafgreiðslu getur útflytjandi í sérstökum tilvikum og með vissum skilyrðum ráðstafað vörunni til útflutnings með bráðabirgðatollafgreiðslu.

Hvaða gögn ber að leggja fram við útflutning?

Útflutningsskýrsla

Vörureikningur

Farmbréf

Flutningsgjaldareikningur

Leyfi eða vottorð

Önnur skjöl

Fríðindameðferð

Tollafgreiðsla

Við tollafgreiðslu skal leggja fram frumrit eða samrit nefndra skjala, enda leiði ekki annað af lögum, reglugerðum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Með sama hætti er heimilt að leggja fram slík skjöl sem útflytjandi hefur fengið send um gagnaflutningsnet, til dæmis símbréf.

Ef Skatturinn telur ástæðu til, getur hann jafnan áskilið að útflytjandi framvísi frumriti umræddra skjala.

Þegar útflutningsskýrsla hefur verið afhent skattinum er hún skráð í tollakerfið og send í athugun. Uppfylli hún öll skilyrði er hún afgreidd og útflutningsheimild veitt ásamt staðfestingu á tollafgreiðslu. Leiði athugun í ljós ófullnægjandi gögn eða upplýsingar er krafist leiðréttingar eða frekari gagna þannig að unnt sé að ljúka tollafgreiðslu. Þegar um rafræna tollafgreiðslu er að ræða er afgreiðsluheimild veitt jafnóðum og farið er fram á tollafgreiðslu útflutningssendingar með skjalasendingum milli tölva.

Vakin er athygli á því að útflytjandi ber ábyrgð á því að upplýsingar, sem veittar eru í útflutningsskýrslu séu réttar, hvort heldur sem tollmeðferð fer fram með rafrænum hætti eða ekki.

Greiða ber útflutningsgjöld, séu þau áskilin, og fullnægja útflutningsskilyrðum hjá Skattinum.

Ef útflytjandi vöru er annar en framleiðandi hennar þarf að liggja fyrir yfirlýsing framleiðanda sem staðfestir að framleiðsluvaran uppfylli skilyrði um fríðindameðferð samkvæmt fríverslunar- eða milliríkjasamningi sem Ísland er aðili að. Einnig þarf upprunavottorð útflytjanda að liggja fyrir.

Ótollafgreiddar vörur, sem flytja á út eða koma til landsins í umflutningi skulu settar í geymslur farmflytjenda, tollvörugeymslur, frísvæði eða aðrar þær geymslur sem tollyfirvöld viðurkenna. Pósturinn annast vörslu á þeim vörum sem hann tekur til flutnings. Áður en vörurnar eru fluttar úr þessum geymslum í útflutningsfar verða þær að hafa fengið tollafgreiðslu hjá Skattinum. Tollstarfsmenn geta hvenær sem er óskað eftir að vörunum sé framvísað vegna tolleftirlits.

Geymsluhafi er ábyrgur gagnvart tollyfirvöldum fyrir greiðslu tolla og annarra gjalda vegna vara sem hverfa við flutning í nefndar geymslur svo og úr þeim eða afhentar eru þaðan án leyfis tollyfirvalda.

Geyma má vörur í geymslum farmflytjanda í allt að eitt ár, en selja má þær á uppboði að þeim tíma liðnum til greiðslu á opinberum gjöldum.

Ítarefni

Eyðublöð


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum