Sektarmeðferð

Í skattalögum er að finna ákvæði um sektarheimildir skattyfirvalda. Yfirskattanefnd hefur víðtækar heimildir en ríkisskattstjóri getur þó einnig lagt á sektir í fáeinum tilvikum.

Sektarmeðferð máls fyrir yfirskattanefnd

Yfirskattanefnd úrskurðar um sektarkröfur sem skattrannsóknarstjóri ríkisins gerir í kjölfar skattrannsóknar, nema máli sé vísað til opinberrar rannsóknar og dómstólameðferðar. Tekið er fram að nefndin skuli veita sakborningi færi á að taka til varna. Í lögum um yfirskattanefnd kemur fram að við meðferð máls skal gæta ákvæða laga um meðferð sakamála að því er varðar rétt sökunautar og varnir hans. Skattrannsóknarstjóri ríkisins kemur fram af hálfu hins opinbera fyrir nefndinni við ákvörðun sekta og annast kröfugerð í sektarmálum. Nú er í gildi reglugerð nr. 808/2022 , um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna, og vísast til hennar um efnið.

Sektarmeðferð samkvæmt lögum um olíugjald og kílómetragjald

Í lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, eru ákvæði í 19. og 20. gr. um sektarheimild ríkisskattstjóra. Sé ökutæki heimildarlaust í umferð án þess að það sé búið ökumæli eða ef ökumælir telur ekki eða akstur er ranglega færður eða ekki færður í akstursbók eða ef heildarþyngd ökutækis með farmi er umfram gjaldþyngd þess, varðar það sektum allt að 100.000 kr. Sé sekt greidd innan 14 daga lækkar hún um 20%.

Ríkisskattstjóri hefur einnig heimildir samkvæmt lögum nr. 87/2004 til þess að beita sektum vegna misnotkunar á litaðri olíu.

Nánari upplýsingar um þessar sektarheimildir

Sektarheimildir ársreikningaskrár

Ársreikningaskrá getur lagt dagsektir á eftirlitsskyld félög veiti þau ekki umbeðnar upplýsingar innan hæfilegs frests. Greiðast dagsektirnar þangað til umbeðnar upplýsingar hafa borist ársreikningaskrá. Dagsektirnar geta numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til fjárhagslegs styrkleika viðkomandi félags og hvort um ítrekað brot er að ræða. Þá hefur ársreikningaskrá einnig heimildir til þess að leggja á dagsektir ef eftirlitsskyld félög samkvæmt reglum um alþjóðlega reikningsskilastaðla sinna ekki skyldum sínum. 

Nánari upplýsingar um sektarheimildir ársreikningaskrár

Sektarmeðferð samkvæmt lögum um virðisaukaskatt

Ríkisskattstjóri hefur heimildir til þess að leggja á virðisaukaskattsskyldan aðila gjald að fjárhæð 5.000 kr. ef virðisaukaskattsskýrsla berst eftir að skattaðili hefur sætt áætlun. 

Nánari upplýsingar um uppgjör og skil virðisaukaskatts

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Sektarmeðferð yfirskattanefndar  – 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, lög nr. 30/1992, um yfirskattanefnd og 808/2022, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna.

Sektarheimildir ársreikningaskrár – 94. gr. a og 3. mgr. 126. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga

Sektarheimildir vegna vanskila á virðisaukaskattsskýrslu – 27. gr. b laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Sektarmeðferð samkvæmt lögum nr. 87/2004 – Lög nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum