Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf 2/2023

Virðisaukaskattur – útleiga á geymslurými

13.2.2023

Ríkisskattstjóri hefur orðið var við mismunandi meðferð virðisaukaskatts vegna útleigu á geymslurými, þ.e. að það sé ýmist selt á leigu sem aðstöðuleiga með virðisaukaskatti eða sem fasteignaleiga án virðisaukaskatts samkvæmt undanþáguákvæði 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Af þessu tilefni skal tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 nær skattskyldusvið laganna til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega undanþegin í 3. mgr. greinarinnar. Sú málsgrein hefur að geyma tæmandi talningu þeirrar vinnu og þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti, eins og skýrt kemur fram í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 50/1988. Undanþágurnar fela í sér undantekningar frá meginreglu um skattskyldu og ber sem slíkar að skýra þröngt og aldrei rýmri skýringu en orðalag ákvæðanna beinlínis gefur tilefni til.

Samkvæmt tilvitnuðum 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. er fasteignaleiga og útleiga bifreiðastæða undanþegin virðisaukaskatti. Útleiga hótel- og gistiherbergja og útleiga tjaldstæða er þó skattskyld, svo og önnur gistiþjónusta þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar. Sama gildir um sölu á aðstöðu fyrir veitingar og samkomur þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar. Í skattframkvæmd hefur verið álitið að við mat á vafatilvikum, hvort um fasteignaleigu sé að ræða í skilningi 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna eða skattskylda aðstöðusölu, verði að hafa í huga að umrætt ákvæði er tekur til fasteignaleigu felur í sér undantekningu frá hinni almennu virðisaukaskattsskyldu og verður þar af leiðandi ekki skýrt rúmri skýringu, sbr. tilvitnuð lögskýringarsjónarmið.

Í lögskýringargögnum er ekki að finna sérstaka skýringu á hugtakinu fasteignaleiga í skilningi 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Í skattframkvæmd hefur hugtakið fasteign verið skýrt í samræmi við almenna skilgreiningu á því hugtaki þannig að hún sé afmarkað land ásamt eðlilegum hlutum landsins, lífrænum og ólífrænum, og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt. Almennt verður að skýra hugtakið fasteign, eins og það kemur fyrir í orðinu fasteignaleiga, með hliðsjón af tilvitnaðri skilgreiningu.

Hugtakið fasteignaleiga í ákvæði 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 hefur verið túlkað svo að það taki fyrst og fremst til þess þegar leigusali lætur leigutaka í té svo víðtæk afnot eignarinnar að þau jafnist nokkurn veginn á við raunveruleg umráð eiganda. Þannig hefur verið litið til þess hvort leigutaka séu látin í té umráð sem jafna megi við almenn réttindi leigutaka að fasteign, þ.e. hvort húsaleigulög nr. 36/1994 taki til réttarsambandsins. Til að mynda er litið til atriða eins og aðgengi leigutaka, t.d. hvort takmarkanir séu á nýtingu á hinu útleigða rými og eins getur þáttur þjónustu skipt máli við mat á því hvort leiga á afmörkuðu rými fasteignar teljist vera fasteignaleiga í umræddri merkingu.

Í samræmi við framangreint verður að telja rekstur sérhæfðrar geymsluþjónustu til skattskyldrar starfsemi, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, sem falli þar af leiðandi ekki undir hugtakið fasteignaleiga í skilningi 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. sömu laga þar sem ekki verður séð að umráðum yfir viðkomandi rými verði jafnað við almenn réttindi leigjanda fasteignar samkvæmt húsaleigulögum.

Ríkisskattstjóri gefur út álit þetta á grundvelli lögboðins samræmingar- og leiðbeiningarhlutverks síns skv. 1. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 5. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988.

Virðingarfyllst,

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum