Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf 3/2024

Virðisaukaskattur – Leiga á aðstöðu fyrir veitingar og samkomur

15.2.2024

Af gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri vekja athygli á þeim reglum sem gilda um virðisaukaskatt vegna hvers konar skammtímaleigu á aðstöðu til ýmis konar viðburðahalds. Sem dæmi um slíka starfsemi má nefna leigu á sölum eða aðstöðu fyrir veislur, leiksýningar, ráðstefnur, funda- og námskeiðshald.

Skattskyldu virðisaukaskatts er markað rúmt gildissvið í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 tekur skattskyldan til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, enda sé hún ekki sérstaklega undanþegin í 3. mgr. greinarinnar þar sem er að finna tæmandi talningu á þeirri vinnu og þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti. Undanþágurnar fela í sér undantekningar frá meginreglu um skattskyldu og ber sem slíkar að skýra þröngt og aldrei rýmri skýringu en orðalag ákvæðanna beinlínis gefa tilefni til.

Samkvæmt 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 er fasteignaleiga og útleiga bifreiðastæða undanþegin virðisaukaskatti. Útleiga hótel- og gistiherbergja og útleiga tjaldstæða er þó skattskyld, svo og önnur gistiþjónusta þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar. Sama gildir um sölu á aðstöðu fyrir veitingar og samkomur þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar.

Þegar lög nr. 50/1988 komu til framkvæmda hinn 1. janúar 1990 var í 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. þeirra kveðið á um að öll fasteignaleiga væri undanþegin virðisaukaskattsskyldu. Ákvæðinu hefur þrívegis verið breytt síðan og að því er varðar sölu á aðstöðu fyrir veitingar og samkomur, sem hér er til umfjöllunar, var með 1. gr. laga nr. 106/1990 kveðið á um að útleiga veitinga- og samkomuhúsnæðis væri skattskyld þótt fasteignaleiga væri almennt undanþegin virðisaukaskatti.

Með vísan til athugasemda með frumvarpi því er varð að lögum nr. 106/1990 gaf ríkisskattstjóri út nokkur álit þess efnis m.a. að skattskylda vegna salarleigu tæki einvörðungu til skammtímaleigu (aðstöðuleigu) á sal í þeim tilvikum þegar leigan ætti sér stað í tengslum við sölu eða framreiðslu veitinga eða þar sem eðlilega væri gert ráð fyrir þeim. Skipti þá ekki máli í því sambandi hvort leigutaki keypti veitingar af leigusala eða legði þær til sjálfur, sbr. t.a.m. bréf ríkisskattstjóra, dags. 18. júní 1991 (tilv. G-ákv. 289/1991).

Með b-lið 46. gr. laga nr. 111/1992 var m.a. ákvæði lokamálsliðar 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 breytt á þann veg að sala á aðstöðu fyrir veitingar og samkomur væri skattskyld þegar leigt væri til skemmri tíma en eins mánaðar. Í athugasemdum við greinina í frumvarpi að sömu lögum kom m.a. fram að ákvæðið taki ekki til eiginlegra húsaleigusamninga um atvinnuhúsnæði, þ.e. samninga sem falla undir húsaleigusamningalög nr. 44/1979 (sbr. nú húsaleigulög nr. 36/1994), þótt viðkomandi húsnæði væri ætlað til veitinga- eða samkomuhalds.

Með vísan til framangreindra lagabreytinga og samkvæmt beinu orðalagi ákvæðisins er sala á aðstöðu fyrir samkomur af öllu tagi, þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar, virðisaukaskattsskyld og skiptir ekki máli í því sambandi hvort slík leiga sé í tengslum við framreiðslu veitinga eða ekki. Í framhaldi af þessum lagabreytingum hefur framkvæmdin um langt árabil verið sú að aðgreining á milli skattskyldrar aðstöðuleigu og undanþeginnar fasteignaleigu miðast við þau umráð sem leigutaki hefur yfir hinu leigða húsnæði fremur en tiltekin not hans af því. Hugtakið fasteignaleiga í skilningi 1. málsl. ákvæðis 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 hefur því í framkvæmd verið túlkað á þann veg að það taki fyrst og fremst til þess þegar leigusali lætur leigutaka í té svo víðtæk umráð eignarinnar að þau jafnist nokkurn veginn á við raunveruleg umráð eiganda án þess að því fylgi réttur til sölu eða veðsetningar (lagaleg umráð). Þá er höfð hliðsjón af því hvort húsaleigulög nr. 36/1994 taki til réttarsambandsins.

Sé um að ræða leigu á aðstöðu fyrir veitingar og samkomur til lengri tíma en eins mánaðar og ef um réttarsamband leigusala og leigutaka fer eftir ákvæðum húsaleigulaga er hún undanþegin virðisaukaskatti sem fasteignaleiga óháð því hvort viðkomandi húsnæði sé ætlað til veitinga- og samkomuhalds eða ekki. Leiga á aðstöðu sem felur ekki í sér jafn víðtæk réttindi og að framan greinir er hins vegar skattskyld, sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 13. febrúar 2023 (tilv. G-ákv. 2/2023).

Með vísan til alls framangreinds er það afstaða ríkisskattstjóra að leiga á samkomusal til skemmri tíma en eins mánaðar er virðisaukaskattsskyld samkvæmt 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, óháð því hvort fram séu reiddar veitingar eða ekki. Slík leiga á samkomusal fellur í almennt skatthlutfall virðisaukaskatts samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, nú 24%, enda ekkert ákvæði 2. mgr. sömu greinar sem fellir leiguna undir lægra skatthlutfallið.

Álit þetta gefur ríkisskattstjóri út á grundvelli lögboðins samræmingar- og leiðbeiningarhlutverks síns samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 5. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum