Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1092/2014 (A)

23.6.2014

Frum- og/eða milliinnheimta - endurgreiðsla virðisaukaskatts til opinberra aðila

Reykjavík, 23. júní 2014
G-ákv 1092/14

Vísað er til erindis yðar sem barst ríkisskattstjóra þann 31. mars 2014 með bréfi dagsettu sama dag. Í erindinu er leitað álits ríkisskattstjóra á því hvort frum- og/eða milliinnheimta samkvæmt innheimtulögum nr. 95/2008 falli undir sérstaka endurgreiðslu til ríkis og sveitarfélaga samkvæmt 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, sbr. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Um lagarökstuðning er m.a. vísað til ákvæða 3. og 4. gr. laga nr. 95/2008. Þá er einnig vísað til bréfs ríkisskattstjóra, dags. 21. maí 2003 (tilv. G-ákv. 1033/03). Í því komi fram að það sé ,,innihald þjónustunnar það sem skiptir máli varðandi endurgreiðslu en ekki hvort sérfræðingur framkvæmir hana eða ófaglærður aðili.“ Þá kemur fram í erindi yðar að samkvæmt þeim upplýsingum sem þér hafið aflað þá sé í raun ,,lítill munur á mismunandi stigum innheimtunnar varðandi umgjörð og utanumhald þar sem lögfræðingur eða aðili með sérþekkingu á innheimtumálum er jafnan til staðar og sér um alla umgjörð.“

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

Samkvæmt 5. tölul. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal endurgreiða opinberum aðilum virðisaukaskatt sem þeir greiða við kaup á þjónustu verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda og annarra sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu og lokið hafa háskólanámi eða sambærilegu langskólanámi eða starfa sannanlega á sviði fyrrgreindra aðila og veita sambærilega þjónustu. Sambærilegt ákvæði er að finna í 5. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 en þar er auk framangreindrar þjónustu kveðið á um endurgreiðslu vegna þjónustu tölvunarfræðinga. Ákvæðin taka í fyrsta lagi til þjónustu sérfræðinga sem lokið hafa háskólanámi eða sambærilegu langskólanámi. Hvað sé sambærilegt langskólanám verður að meta í hverju tilviki fyrir sig og þá skal sérstaklega höfð hliðsjón af tegund og lengd námsins.

Í öðru lagi taka ákvæðin til þjónustu aðila sem starfa sannanlega á sviði fyrrgreindra sérfræðinga og veita sambærilega þjónustu. Þetta getur m.a. átt við aðila sem ekki hafa lokið háskólanámi eða sambærilegu langskólanámi en hafa leitað sér menntunar eftir öðrum leiðum, þ.e. með námskeiðum eða sjálfsnámi, og starfa við hlið háskólagenginna og veita sambærilega þjónustu svo sem við getur átt um bókara, forritara og ýmsa tæknimenn.

Ekki er fallist á endurgreiðslu virðisaukaskatts af þeirri þjónustu sérfræðinga sem ekki er í tengslum við sérfræðimenntun þeirra. Ef á reikningi er tilgreind þjónusta sem hluti af sérfræðiþjónustu og almennt er nauðsynlegur hluti af starfi sérfræðinga en ekki þarf sérfræðimenntun til, s.s. ljósritun eða ritvinnsla nauðsynlegra gagna varðandi viðkomandi sérfræðimálefni, þá flokkast sú þjónusta undir ákvæðið.

Gildissvið innheimtulaga nr. 95/2008 er afmarkað í I. kafla laganna. Í 1. mgr. 1. gr. kemur fram að lögin gildi um frum- og milliinnheimtu gjaldfallinna peningakrafna fyrir aðra eða vegna eigin starfsemi. Þau gildi þó ekki um innheimtu opinberra aðila á sköttum og gjöldum og löginnheimtu. Í 2. mgr. kemur fram að með fruminnheimtu sé átt við innheimtuviðvörun skv. 7. gr. Með milliinnheimtu sé átt við innheimtuaðgerðir sem hefjast eftir að skuldari hefur fengið innheimtuviðvörun skv. 7. gr. og áður en löginnheimta hefst. Með löginnheimtu sé átt við innheimtumeðferð á grundvelli 24. gr. a laga um lögmenn, nr. 77/1998. Innheimtuaðili er einstaklingur eða lögaðili sem annast innheimtu, þ.m.t. vörslusviptingu.

Í II. kafla innheimtulaga nr. 95/2008 er að finna ákvæði um skilyrði til að mega stunda innheimtu. Í d. lið 1. mgr. 4. gr. er m.a. það gert að skilyrði að umsækjandi búi yfir nægilegri þekkingu eða starfsreynslu til að geta gegnt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 95/2008 kemur eftirfarandi fram um framangreint ákvæði:

„Ákvæðin um hæfisskilyrði einstaklings sem sækir um innheimtuleyfi, þ.e. að hann búi yfir nægilegri þekkingu eða starfsreynslu til að geta sinnt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt, eiga sér fyrirmynd í 2. mgr. 52. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, en ákvæði þar taka til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja. Þykir eðlilegt að sams konar skilyrði og til fjármálafyrirtækja sé gert varðandi innheimtustarfsemi, þ.e. vegna einstaklinga eða lögaðila er fá leyfi. Telja má að nægileg þekking sé m.a. fólgin í lögfræði- eða viðskiptafræðiprófi. Fái lögaðilar innheimtuleyfi tekur hæfisskilyrði til framkvæmdastjóra eða yfirmanns viðkomandi starfsemi.“

Hvorki í ákvæðinu sjálfu né athugasemdum með greinargerð er gerður greinarmunur á tegund innheimtuþjónustu, þ.e. á fruminnheimtu annars vegar og milliinnheimtu hins vegar. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 95/2008 kemur fram að innheimtuleyfi sé einnig veitt samkvæmt umsókn frá lögaðila enda fullnægi framkvæmdastjóri eða yfirmaður viðkomandi starfsemi skilyrðum 1. mgr. Lögaðilinn skuli fullnægja skilyrðum a- og e-liðar 1. mgr.

Í ljósi framangreinds, m.a. þess sem fram kemur í tilvitnuðum athugasemdum með greinargerð, þykir ríkisskattstjóra einsýnt að telja megi umrædda þjónustu til endurgreiðslubærrar sérfræðiþjónustu í skilningi 5. tölul. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, hvort sem þjónustan er veitt af einstaklingi eða lögaðila.

Virðingarfyllst
Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum