Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1074/2008

16.1.2008

Virðisaukaskattur - tölvustýrð þjálfunartæki - heilbrigðisþjónusta

16. janúar 2008 G-Ákv. 1074-08

Ríkisskattstjóri hefur borist bréf yðar, dags. 10. desember 2007, þar sem þér óskið álits embættisins á því hvort tiltekin heilsustarfsemi sé undanþegin virðisaukaskattsskyldu. Í bréfinu kemur fram að félagið A ehf. reki heilsustarfsemi undir nafninu X og þjónusta þessi felist í að nota tölvustýrð þjálfunartæki til að örva og þjálfa slaka vöðva, styrkja þá, laga húð eftir barnsburð og hjálpa konum til þess að byggja sig upp og grenna sig, ásamt því að hjálpa við þvagleka. Starfsmenn fyrirtækisins séu sjúkraliðar eða aðrir heilbrigðismenntaðir einstaklingar.

Í tilefni af fyrirspurn yðar skal eftirfarandi tekið fram.

Í 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er kveðið á um virðisaukaskattsskyldu bæði manna og lögpersóna. Í 1. tölul. 1. mgr. greinarinnar er sett fram sú meginregla að skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvíli á þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inna af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu. Í 1. tölul. 4. gr. laganna er kveðið á um að undanþegnir framangreindri skyldu séu þeir sem eingöngu selja vörur eða þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti. Í lögunum eru hvorki einstakir menn né starfsstéttir undanþegnar virðisaukaskatti, heldur ræðst virðisaukaskattsskylda manna annars vegar af því hvort þeir stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og hins vegar af því hvort sá varningur sem þeir selja eða sú þjónusta sem þeir veita sé innan skattskyldusviðs virðisaukaskatts.

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint í 2. gr. laganna. Sviðið er markað mjög rúmt. Tekur það til allra vara og verðmæta og til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega undanþegin samkvæmt 3. mgr. greinarinnar. Sú málsgrein hefur að geyma tæmandi talningu þeirrar vinnu og þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti, eins og skýrt kemur fram í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 50/1988. Undanþáguákvæðin fela í sér undantekningar frá meginreglu um skattskyldu og ber sem slíkar að skýra þröngt og aldrei rýmri skýringu en orðalag ákvæðanna beinlínis gefur tilefni til.

Í samræmi við undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, ber hvorki að innheimta virðisaukaskatt af þeirri þóknun sem sá er þjónustunnar nýtur er krafinn um, né reikna og standa skil á virðisaukaskatti af andvirði slíkrar þjónustu sem látin er í té endurgjaldslaust. Undanþága frá skattskyldu samkvæmt lögunum felur hins vegar ekki í sér að sá sem undanþegna þjónustu veitir geti keypt virðisaukaskattsskyld aðföng til starfsemi sinnar án greiðslu virðisaukaskatts, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Þá fæst virðisaukaskattur af aðföngum ekki endurgreiddur úr ríkissjóði í formi innskatts. Þannig ber sá sem undanþegna þjónustu veitir allan virðisaukaskatt af aðföngum er varða hina undanþegnu þjónustu.

Samkvæmt 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga 50/1988, er þjónusta sjúkrahúsa, fæðingarstofnana, heilsuhæla og annarra hliðstæðra stofnana, svo og lækningar, tannlækningar og önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta, undanþegin virðisaukaskatti.

Við afmörkun á hugtakinu „önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta“ í framangreindum skilningi er í skattframkvæmd miðað við að starfsemi þurfi að uppfylla tvö skilyrði, annars vegar að um sé að ræða þjónustu sem fellur undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál, og hins vegar að þjónustan felist í meðferð á líkama sjúklings til lækninga, hjúkrunar eða sambærilegrar meðferðar.

Með bréfi, dags. 28. desember 2007, var leitað eftir áliti landlæknis á því hvort meðferð X tækis sé í einhverjum tilvikum viðurkennd sem heilbrigðisþjónusta. Meðfylgjandi álitsbeiðni ríkisskattstjóra til landlæknis var afrit af erindi yðar og upplýsingarbæklingi. Í svari landlæknis sem barst ríkisskattstjóra 9. janúar 2008, kemur jafnframt fram að hann hafi leitað frekari upplýsinga á vefsíðunum, www.X.is og www.X.com. Þá kemur einnig orðrétt fram í bréfi landlæknis:

Engar upplýsingar eru lagðar fram um vísindalegt mat á gagnsemi þessarar meðferðar og upplýsingar um eðli hennar eru mjög af skornum skammti. Í bréfi umsækjenda er vitnað til raförvunarmeðferðar við þvagleka. Sú meðferð er af allt öðrum toga en það sem virðist vera upp á teningnum hér. Vissulega geta góðar og traustar leiðbeiningar um mataræði verið til gagns, enda eru þær veittar víða. Þrátt fyrir það verður þessi meðferð ekki talin til viðurkenndrar heilbrigðisþjónustu og flestar aðrar leiðir vænlegri til eflingar heilsu en hún.

Í ljósi umsagnar landlæknis er ekki unnt að líta svo á að sú þjónusta sem tilgreind er í fyrirspurn teljist til annarrar eiginlegrar heilbrigðisþjónustu í skilningi 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engu breytir þótt sjúkraliðar eða annað heilbrigðismenntað starfsfólk vinni með umrædd tæki. Starfsemin er því virðisaukaskattsskyld samkvæmt meginreglu 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum