Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1058/2005

15.4.2005

Virðisaukaskattur - birting auglýsinga í Lögbirtingablaði

15. apríl 2005
G-Ákv. 05-1058

Ríkisskattstjóri hefur móttekið bréf yðar sem dagsett er 6. apríl 2005. Í bréfinu er óskað eftir svari ríkisskattstjóra við því hvort innheimta eigi virðisaukaskatt við sölu á auglýsingum í Lögbirtingablaði. Fram kemur m.a. að með nýjum lögum nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað hafi fallið úr gildi ákvæði lokamálsliðar 3. gr. laga nr. 64/1943, um birtingu laga og stjórnvaldserinda þess efnis að heimilt sé að birta í Lögbirtingablaði auglýsingar og tilkynningar einstakra manna. Eftir gildistöku nýju laganna sé því ekki lengur heimilt að birta í Lögbirtingablaði tilkynningar einstakra manna heldur aðeins lögboðnar auglýsingar gefnar út af opinberum stofnunum, embættum eða lögmönnum í umboði opinberra aðila.

Til svars við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hvílir virðisaukaskattsskylda á ríki, bæjar- og sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum, að því leyti sem þau selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Þá skulu ríkisstofnanir greiða virðisaukaskatt af skattskyldum vörum og þjónustu vegna eigin nota, að því leyti sem vörur eru framleiddar og þjónusta innt af hendi í samkeppni við atvinnufyrirtæki.

Nánari ákvæði um skattskyldu ríkisstofnanna er að finna í reglugerð nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila. Í 6. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um það hvenær starfsemi telst vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Ákvæðið er svohljóðandi:

"Starfsemi telst vera rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki skv. reglugerð þessari þegar viðkomandi vara eða þjónusta er almennt í boði hjá atvinnufyrirtækjum hér á landi, enda sé útskattur af hinni skattskyldu starfsemi að jafnaði hærri en frádráttarbær innskattur.
Almennt skrifstofuhald, þ.m.t. færsla eigin bókhalds og rafræn gagnavinnsla í eigin þágu, telst ekki vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki.
Lögbundin starfsemi opinberra aðila telst m.a. ekki vera rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki í skilningi 1. mgr. í eftirfarandi tilfellum:

  1. Þegar öðrum aðilum er ekki heimilt að veita sambærilega þjónustu með sömu réttaráhrifum.
  2. Þegar viðkomandi þjónusta beinist eingöngu að öðrum opinberum aðilum, hún verður ekki veitt af atvinnufyrirtækjum nema í umboði viðkomandi opinbers aðila og að því tilskyldu að virðisaukaskattur af viðkomandi vinnu og þjónustu fáist endurgreiddur samkvæmt 12. gr.""

Lögbirtingablaðið er gefið út af dómsmálaráðherra. Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað er rakið hvað skuli birt í Lögbirtingablaðinu. Er ákvæðið í heild sinni svohljóðandi:

"Í Lögbirtingablaði skal birta dómsmálaauglýsingar, svo sem stefnur til dóms, úrskurði um töku búa til opinberra skipta og áskoranir um kröfulýsingar, auglýsingar um skiptafundi og skiptalok þrotabúa, nauðungarsölur, þar á meðal á fasteignum búa sem eru til opinberra skipta, auglýsingar um vogrek, óskilafé og fundið fé, auglýsingar um kaupmála hjóna, lögræðissviptingu og brottfall hennar, lögboðnar auglýsingar um félög og firmu, sérleyfi er stjórnvöld veita, opinber verðlagsákvæði og annað það er stjórnvöldum þykir rétt að birta almenningi."

Ljóst má vera að aðrir en Lögbirtingablaðið geta ekki veitt sambærilega auglýsingaþjónustu með sömu réttaráhrifum og þá sem kveðið er á um í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 15/2005. Þegar af þeirri ástæðu er sú birting auglýsinga ekki virðisaukaskattsskyld, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 248/1990. Þar sem ekki er lengur fyrir að fara annarri birtingu á auglýsingum en þeirri sem rakin er í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 15/2005 er það álit ríkisskattstjóra að ekki sé fyrir að fara skyldu til innheimtu virðisaukaskatts vegna birtingar auglýsinga í Lögbirtingablaðinu.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum