Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1043/2003

10.10.2003

Sala sjávarafla utan aflamarks - uppgjör við Hafrannsóknarstofnun.

10. október 2003
G-Ákv. 03-1043

Þann 16. september sl. barst ríkisskattstjóra í tölvupósti frá yður svohljóðandi fyrirspurn:

"Ég vil fyrir hönd margra viðskiptavina A ehf. sem eru í útgerð og landa svokölluðum Hafróafla á markað spyrja um eftirfarandi atriði:
Getur það talist eðlilegt og í samræmi við góða reikningsskilavenju að útgerðin fái 20% af aflaverðmætinu og útskattinn af öllu aflaverðmætinu (100%) að frádregnum innskattinum af uppboðskostnaði, í uppgjöri frá Fiskmarkaði.
Ef svo er hvernig á þá fyrirtækið að færa þetta í bókhaldinu. Þetta samræmist ekki venjulegri meðhöndlun á sölu og VSK af henni. og veldur ósamræmi þegar stemma þarf af veltu og VSK af henni, sama er líka upp á teningnum varðandi innskattinn af uppboðskostnaði þar sem enginn gjaldfærður kostnaður er tengdur honum. Mér hefði fundist eðlilegra að útgerðin fengi bara 20% af aflaverðmætinu og VSK af þeirri upphæð, útgerðin myndi greiða 20% af uppboðskostnaði og innskatt af þeirri upphæð." 

Til svars fyrirspurninni skal eftirfarandi tekið fram:

Ríkisskattstjóri leggur þann skilning í fyrirspurnina að með "Hafróafla" sé átt við afla sem skipstjóri ákveður að ekki reiknist til aflamarks skips, skv. heimild í ákvæði XXIX til bráðabirgða í lögum um stjórn fiskveiða nr. 38/1990, sbr. 7. gr. laga nr. 129/2001 um breytingu á þeim lögum. Samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu skal andvirði slíks afla renna til Hafrannsóknarstofnunar að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboð aflans. Þá skal útgerð skipsins fá 20% af andvirði aflans. Skilyrði er að umræddur afli sé seldur á uppboðsmarkaði og er lögð sú skylda á forráðamenn uppboðsmarkaðar að standa Hafrannsóknarstofnun skil á þeim hluta andvirðisins sem stofnuninni ber.

Aflinn sem um ræðir er eign útgerðarinnar sem gerir út viðkomandi skip. Við sölu aflans ber útgerðinni að innheimta virðisaukaskatt af heildarsöluverði og standa skil á þeim skatti í ríkissjóð. Heildarsöluverð aflans telst til tekna útgerðarinnar og jafnframt til virðisaukaskattsskyldrar veltu hennar. Fullt samræmi er því milli virðisaukaskattsskyldrar veltu og útskatts vegna viðskiptanna. Uppboðskostnaður vegna sölu aflans telst til gjalda hjá útgerðinni og virðisaukaskattur af uppboðskostnaðinum til innskatts hjá henni. Sama á við um hafnargjöld, þ.m.t. aflagjald. Sú fjárhæð sem rennur til Hafrannsóknarstofnunar telst til gjalda hjá útgerðinni. Enginn virðisaukaskattur er innifalinn í þeirri fjárhæð, enda er ekki um að ræða greiðslu fyrir virðisaukaskattsskylda þjónustu Hafrannsóknastofnunar. Fjárhæðin hefur því engin áhrif á virðisaukaskattsuppgjör útgerðarinnar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum