Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1041/2003

2.9.2003

Virðisaukaskattur - hafnir - aflagjöld - tekjuskráning

2. september 2003
G-Ákv. 03-1041

Ríkisskattstjóri hefur móttekið fyrirspurn yðar, dags. 18. ágúst 2003, varðandi framkvæmd á innheimtu virðisaukaskatts af aflagjöldum.  

Í fyrirspurnarbréfinu segir m.a. eftirfarandi:

"Almennt má segja að tvenns konar fyrirkomulag sé á kaupum á lönduðum afla. Annars vegar kaupa sjávarútvegsfyrirtæki aflann beint af útgerðinni til vinnslu eða hann er boðinn upp með milligöngu fiskmarkaða. Viðkomandi fyrirtæki (sjávarútvegsfyrirtæki og fiskmarkaðir) hafa síðan sent hafnarstjórum skilagrein um aflagjöld hvers mánaðar. Mismunandi er hvort hafnarsjóður hefur gert reikning fyrir aflagjöldum til viðkomandi fyrirtækja eða þeim er skilað beint inn á reikning hafnarinnar með skilagrein án þess að reikningur hafi verið gerður. Sú spurning hefur komið upp í þessu sambandi hvort hafnarsjóður á hverjum stað þurfi að gera reikning á hvern og einn seljanda afla í framtíðinni til þess að seljandi aflans hafi í höndum formlegan pappír til að mynda innskattsstofn eða nægir seljanda að fá afreikning frá kaupenda aflans til að byggja sinn innskattsstofn á?"

Til svars við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Samkvæmt 2. tölul. 17. gr. hafnalaga nr. 61/2003 er aflagjald vörugjald af sjávarafla sem lagður er á land á hafnarsvæði.  Þann 21. maí sl. setti samgönguráðherra gjaldskrá fyrir hafnir á grundvelli ákvæðis nr. I til bráðabirgða í lögunum. Um aflagjald er fjallað í 12. gr. 4. fl. gjaldskrárinnar. Þar segir að kaupanda afla beri að afhenda hafnarstjóra skýrslu um keyptan afla mánaðarlega, t.d. afrit af aflaskýrslu til Fiskistofu. Aflagjaldið falli í gjalddaga um leið og afla er landað. Kaupandi aflans innheimti gjaldið hjá seljanda og sé ábyrgur fyrir því til hafnarsjóðs þótt hann vanræki innheimtu þess. Samkvæmt framansögðu hefur aflagjald ákveðna sérstöðu meðal vörugjalda. Þegar um önnur vörugjöld er að ræða er það afgreiðslumaður skips (skipafélag) sem skal standa skil á vörugjaldi sem móttakandi greiðir af vörum sem koma til hafnar en sendandi af vörum sem fluttar eru úr höfn.

Í 20. og 21. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og í II. kafla reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, er kveðið á um skyldur virðisaukaskattsskyldra aðila varðandi tekjuskráningu. Í 1. mgr. 20. gr. laganna og 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram sú meginregla að við sérhverja afhendingu á skattskyldri vöru eða þjónustu skuli seljandi gefa út sölureikning. Kveðið er á um form slíkra reikninga í 2. mgr. 20. gr. laganna og í 4. gr. reglugerðarinnar. Lögákveðnar aðferðir við söluskráningu, sem víkja frá meginreglunni, eru skráning í sjóðvél, notkun gíróseðla og útgáfa afreikninga.

Meginreglan varðandi útgáfu sölureikninga er að þá skal gefa út í síðasta lagi við afhendingu vöru eða þjónustu. Þrátt fyrir þá meginreglu er þjónustusölum öðrum en þeim sem falla undir 8. gr. reglugerðar nr. 50/1993 (smásöluverslanir og þjónustusalar sem nær eingöngu selja til endanlegra neytenda) heimilt að gefa út sölureikning í lok hvers mánaðar vegna þeirrar þjónustu sem innt var af hendi frá upphafi til loka þess mánaðar. Ekkert er því til fyrirstöðu að sölureikningur sé gefinn út fyrr. Ef söluverð er greitt að fullu eða að hluta fyrir afhendingu, án þess að sölureikningur sé gefinn út samhliða, skal móttakandi greiðslu gefa út kvittun til greiðanda, sbr. 2. mgr. 20. gr. laganna og 7. gr. reglugerðarinnar. Útgáfa slíkrar kvittunar leysir seljanda ekki undan skyldu til útgáfu sölureiknings.

Í ljósi hinnar sérstöku skilaskyldu á aflagjaldi sem lögð er á kaupanda afla skv. gjaldskrá fyrir hafnir þykir það ekki ganga í berhögg við ákvæði vsk-laga og reglugerða settra á grundvelli þeirra, að höfn geri reikning á hendur kaupanda afla fyrir þeim aflagjöldum sem skilaskylda hans tekur til, auk virðisaukaskatts til viðbótar aflagjöldunum, og að kaupandinn geri reikning (eða afreikning þegar það á við) á hendur hverjum og einum seljanda sem gjaldskyldan hvílir á. Ber þá kaupanda afla að tilgreina aflagjald ásamt virðisaukaskatti á hverjum reikningi/afreikningi óháð því hvernig sambandi kaupanda og hins gjaldskylda kann að vera háttað að öðru leyti. Ekkert er því til fyrirstöðu að kaupandi tilgreini á afreikningi jafnframt kaup sín af hinum gjaldskylda, eigi þeir í viðskiptum sín í milli.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum