Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1040/2003

30.7.2003

Virðisaukaskattur - þóknun fyrir stjórnarsetu í hlutafélagi.

30. júlí 2003
G-Ákv. 03-1040

Í bréfi dagsettu 18. maí 2003 leitið þér álits ríkisskattstjóra á álitaefni sem svo er lýst:

"Á aðalfundi hlutafélaga eru skv. hlutafélagalögum ákvarðaðar þóknanir til stjórnarmanna. Þessar þóknanir stjórnarmanna hafa ekki verið taldar bera virðisaukaskatt, enda ekki um að ræða sjálfstæða atvinnustarfsemi viðkomandi stjórnarmanns. Það hefur tíðkast að fyrirtæki sem ráða stjórnendur kveði á um í ráðningarsamningi að allar þóknanir fyrir setu í stjórnum annarra félaga skuli renna til viðkomandi vinnuveitanda og þannig sé hluti af starfsskyldum starfsmannsins að sitja í stjórnum annarra félaga, án þess að sérstakar þóknanir fyrir þau störf renni til einstaklingsins sem innir af hendi stjórnarstörfin. Með þessu er í raun í gildi samningur þess efnis að viðkomandi einstaklingur framselji sín stjórnarlaun til aðalvinnuveitanda síns."

Leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort vinnuveitanda, sem við framangreindar aðstæður fær þóknun fyrir stjórnarsetu framselda til sín, beri að innheimta virðisaukaskatt af þóknuninni og ef svo er hvort það eigi jafnt við um vinnuveitanda sem ekki reki atvinnustarfsemi og sé undanþeginn skattskyldu í skilningi laga nr. 75/1981 (nú laga nr. 90/2003), um tekjuskatt og eignarskatt.

Til svars við fyrirspurninni skal eftirfarandi tekið fram:

Kosning manns eða tilnefning til setu í stjórn hlutafélags er persónubundin. Greiðslur fyrir stjórnarstörfin, ákvarðaðar af hluthafafundi, eru að sama skapi með þeim hætti persónubundnar að þær falla undir 2. málsl. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og 1. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Stjórnarlaunin byggjast á starfssambandi milli stjórnarmannsins og hlutafélagsins. Samningur mannsins við annan vinnuveitanda um framsal launagreiðslnanna breytir þar engu um. Líta verður á framsalið sem lið í ráðningarsamningi mannsins við þann vinnuveitanda.

Móttaka fjár sem slík hefur ekki virðisaukaskattsskyldu í för með sér, heldur ræðst virðisaukaskattsskylda af því endurgjaldi sem innt er af hendi gegn greiðslu fjárins, hvort heldur það er í formi vöru eða þjónustu. Komi ekkert endurgjald fyrir móttekið fé er ekki um virðisaukaskattsskyldu að ræða. Eins og álitaefninu er lýst í fyrirspurn verður vart litið svo á að vinnuveitandi mannsins inni af hendi þjónustu eða afhendi vöru, hvorki til mannsins né hlutafélagsins. Það er því álit ríkisskattstjóra að vinnuveitandanum beri ekki að innheimta virðisaukaskatt af mótteknu fé við umræddar aðstæður.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum