Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1025/2003

20.2.2003

Sala á þjónustu til hrossaeigenda - endurgreiðsla á virðisaukaskatti til erlendra fyrirtækja - form sölureikninga

20. febrúar 2003
G-Ákv. 03-1025

Ríkisskattstjóri hefur móttekið bréf yðar, dags. 22. ágúst 2001, þar sem þér óskið eftir upplýsingum um meðferð virðisaukaskatts vegna tiltekinnar þjónustu sem þér seljið hrossaeigendum. Í bréfinu er þjónustunni lýst með eftirfarandi hætti:

  1. Þér takið að yður að fóðra og ala upp hross í eigu erlends ríkisborgara. Óskið þér eftir upplýsingum um það hvort hinn erlendi ríkisborgari geti fengið virðisaukaskatt, sem hann greiðir vegna umræddra þjónustukaupa, endurgreiddan þegar hrossið er flutt úr landi. Jafnframt óskið þér eftir upplýsingum um það hvaða skilyrði sölureikningur frá yður þurfi að uppfylla til þess að eigandi hrossins geti byggt endurgreiðslurétt á honum.
  2. Erlendur ríkisborgari, sem á ræktunarhryssu, kemur henni í fóðrun hjá yður til þess að geta ræktað undan henni. Hryssunni er haldið undir stóðhesti, hún kastar og afkvæmið síðan alið upp hjá yður í 3-4 ár. Að þeim tíma loknum er afkvæmið flutt úr landi. Óskið þér eftir upplýsingum um það hvort hinn erlendi ríkisborgari geti fengið virðisaukaskatt, sem hann greiðir vegna umræddra þjónustukaupa (þ.e. folatolls, meðgöngu og uppeldiskostnaðar) endurgreiddan.
  3. Að lokum óskið þér eftir svari ríkisskattstjóri við því hvort sömu reglur gildi um Íslendinga sem búsettir eru erlendis.

Til svars við fyrirspurn yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Upphafsákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, kveður á um að greiða skuli í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innanlands á öllum stigum. Skyldan til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvílir á hverjum þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selur eða afhendir vöru eða verðmæti ellegar innir af hendi skattskylda vöru eða þjónustu, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988. Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laganna. Nær skattskyldan til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, og til allrar vinnu og þjónustu sem ekki er sérstaklega lýst undanþegin í 3. mgr. lagagreinarinnar. Sérhver afhending vöru og skattskyldrar þjónustu gegn greiðslu telst til skattskyldrar veltu nema undanþága verði byggð á einhverju ákvæða 12. gr. laganna.

Að áliti ríkisskattstjóra er framangreind þjónusta yðar við fóðrun, umhirðu og uppeldi hrossa virðisaukaskattsskyld. Verður hún hvorki felld undir undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt né ákvæði 12. gr. sömu laga, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 388/1996 (ljósrit af úrskurðinum fylgir með bréfi þessu). Það hefur engin áhrif á skattskylduna hver kaupandi þjónustunnar er.

Skv. reglugerð nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja, getur erlent fyrirtæki, þ.e. fyrirtæki sem hvorki hefur búsetu né starfsstöð hér landi, fengið endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem það hefur greitt hér á landi vegna kaupa á vöru og þjónustu til atvinnustarfsemi sinnar. Skilyrði endurgreiðslu eru:

i) að virðisaukaskattur sem umsókn tekur til varði atvinnustarfsemi sem aðili rekur erlendis.

ii) að starfsemi hins erlenda fyrirtækis væri skráningarskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt ef hún væri rekin hér á landi.

iii) að um sé að ræða virðisaukaskatt sem skráður aðili hér á landi gæti talið til innskatts eftir ákvæðum 15. og 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Sækja skal um endurgreiðslu á þar til gerðu eyðublaði til skattstjórans í Reykjavík. Með bréfi þessu fylgir ljósrit af reglugerð nr. 288/1995, sérstakar leiðbeiningar, útgefnar af ríkisskattstjóra, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlenda fyrirtækja og eintök af tilheyrandi eyðublöðum.

Með umsókn um endurgreiðslu á virðisaukaskatti skv. reglugerð nr. 288/1995 skulu m.a. fylgja frumrit greiddra sölureikninga. Sölureikningur, sem endurgreiðslubeiðni er byggð á, skal uppfylla þau formskilyrði sem getið er í 20. gr. laga nr. 50/1988, sbr. reglugerð nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Með bréfi þessu fylgir ljósrit af 20. gr. laga um virðisaukaskatt og ljósrit af reglugerð nr. 50/1993.

Íslendingar, sem búsettir eru erlendis, geta sótt um endurgreiðslu á virðisaukaskatti með sama hætti og erlend fyrirtæki, ef þeir hafa hvorki búsetu né starfsstöð hér á landi og uppfylla að öðru leyti þau skilyrði sem fram koma í reglugerð nr. 288/1995.

Beðist er velvirðingar á þeim óhæfilega drætti sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum