Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 970/2001

12.2.2001

Fyrirspurn vegna sölu tollvarnings á uppboði.

12. febrúar 2001
G-Ákv. 01-970

Vísað er til bréfs yðar, dags. 1. desember 2000, þar sem þér óskið eftir því að ríkisskattstjóri kveði upp formlegan úrskurð um það álitaefni hvort um óheimila tvöfalda innheimtu á virðisaukaskatti sé að ræða hjá sýslumönnum þegar þeir innheimta virðisaukaskatt við nauðungarsölu á ótollafgreiddri vöru.

Til svars við erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

Samkvæmt 3. mgr. 111. gr. tollalaga nr. 55/1987 er lögveðsréttur í vöru, sem flutt er til landsins, fyrir aðflutningsgjöldum, dráttarvöxtum, sektum og kostnaði. Í 1. gr. sömu laga segir, að með aðflutningsgjöldum sé átt við tolla svo og aðra skatta og gjöld sem greiða ber við tollmeðferð vöru.

Samkvæmt 5. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt eru uppboðshaldarar skattskyldir aðilar. Hvað framkvæmdina á ákvæðinu varðar þá vísast í bréf ríkisskattstjóra, dags. 7. febrúar 1990, sem er meðfylgjandi. Þar er fjallað um túlkun ríkisskattstjóra á því hvernig haga beri innheimtu á virðisaukaskatti við uppboð. Það sem þar segir er í fullu gildi að því frátöldu að kafli III í bréfinu þar sem fjallað er um skattverð er úreltur en þar kemur fram sú túlkunarregla að skattverðið - sú fjárhæð sem virðisaukaskattur er reiknaður af - sé uppboðsverðið að meðtöldum sölulaunum eða innheimtulaunum og öllum öðrum kostnaði sem kaupandi kann að vera krafinn um vegna sölunnar, sbr. 7. gr. laga nr. 50/1988. Þ.e.a.s. virðisaukaskattur bætist við uppboðsandvirðið. Þessari reglu var breytt með auglýsingu nr. 42/1992, um almenna skilmála fyrir uppboðssölu á lausafjármunum o.fl., en í 4. gr. hennar segir, að kaupandi verði ekki krafinn sérstaklega um greiðslu kostnaðar eða greiðslu virðisaukaskatts af sölu hlutar til viðbótar við boð sitt.

Ríkistollstjóri tók afstöðu til sama álitaefnis með bréfi, dags. 9. mars 1992.  Í því bréfi er fjallað ítarlega um það álitaefni hvort um óheimila tvöfalda innheimtu á virðisaukaskatti sé að ræða við umrædd uppboð. Niðurstaða ríkistollstjóra þar er eftirfarandi

"Samkvæmt framanrituðu er því jafnframt hafnað að um tvísköttun virðisaukaskatts sé að ræða þegar lögveð er selt með umræddum hætti".

Það er niðurstaða ríkisskattstjóra að styðjast verði við þá túlkun sem fram kemur í ofangreindum bréfum ríkisskattstjóra og ríkistollstjóra enda hafa ekki verið gerðar breytingar á lögum sem gefa tilefni til annars.

Rétt er að taka það fram að bréf þetta felur aðeins í sér álit ríkisskattstjóra varðandi gildandi rétt, en ekki bindandi og kæranlega stjórnvaldsákvörðun, enda standa lög ekki til þess að ríkisskattstjóri leysi úr erindi yðar með slíkum hætti.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum