Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 923/1999

22.11.1999

Innskattur - hljómsveit - tónlist - útgáfa - dansleikjahald - samkomu­hald - blönduð starfsemi

22. nóvember 1999
G-Ákv. 99-923

Vísað er til bréfs yðar, dags. 18. mars sl. þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvernig fara beri með virðisaukaskatt (innskattsfrádrátt) þegar um hljómsveit er að ræða þar sem skil á virðisaukaskatti (útskatti) fer ekki fram í gegnum virðisaukaskattsnúmer hljómsveitarinnar heldur dansleikjahaldara sbr. reglugerð nr. 58/1991. Spurt er hvort hljómsveitin fái innskattsfrádrátt af kostnaði, s.s. tækjaleigu, og ef ekki þá hvers vegna ekki sbr. að útskatti er skilað af rekstraraðilum húsanna. Með bréfinu fylgir afrit af fyrirspurn til skattstjórans í Reykjavík dags. 5. febrúar. Í því bréfi kemur m.a. fram að tekjur hljómsveitarinnar séu af hljóðfæraleik, dansleikjahaldi og útgáfu­samningi.

Til svars við erindi yðar skal strax tekið fram að hljómsveit á ekki rétt á innskatts­frádrætti vegna tónlistarflutnings á dansleikjum þótt annar skattaðili standi skil á virðisaukaskatti af skattskyldri starfsemi sinni.

Til frekari skýringa skal eftirfarandi tekið fram:

1.         Undanþegin menningarstarfsemi - tónleikar

Samkvæmt 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er eftirfarandi menningarstarfsemi undanþegin virðisaukaskatti:

„Starfsemi safna, svo sem bókasafna, listasafna og náttúrugripasafna, og hliðstæð menningarstarfsemi. Sama gildir um aðgangseyri að tónleikum, íslenskum kvikmyndum, listdanssýningum, leiksýningum og leikhúsum, enda tengist samkomur þessar ekki á neinn hátt öðru samkomuhaldi eða veitingastarfsemi.

Undanþága skv. 2. málsl. 4. tölul. nær aðeins til aðgangseyris af sýningum, samkom­um og öðrum skemmtunum, eins og t.d. tónleikum, sem sérstaklega eru taldar upp í lagaákvæðinu.

Greiða skal virðisaukaskatt af aðgangseyri að öðrum skemmtunum og samkomum enda sé um atvinnustarfsemi að ræða. Til dæmis eru dansleikir skattskyld skemmtan. og skiptir þá ekki máli þótt samkomuhaldari velji skemmtuninni annað heiti.

Skilyrði fyrir undanþágu skv. 2. málsl. 4. tölul. er að samkoma sé ekki í neinum tengslum við annað samkomuhald eða veitingastarfsemi.

Um þetta efni er nánar fjallað í hjálögðu bréfi nr. 868/98.

2.         Undanþegin liststarfsemi - samning tónlistar og flutningur

Samkvæmt 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt er eftirfarandi lista­starfsemi undanþegin virðisaukaskatti.

„Starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambærileg liststarfsemi.“

Til sambærilegrar liststarfsemi í skilningi ákvæðisins teljast m.a. störf tónlistarmanna.  Þannig er samning tónlistar, svo og flutningur eigin tónlistar eða annarra, undanþegin virðisaukaskatti.

Samkvæmt þessu eru greiðslur til höfundar fyrir rétt að tónverki undanþegnar virðisauka­skatti. Sömuleiðis eru greiðslur samkomuhaldara eða útgefanda til tónlistarmanna fyrir tónlistarflutning undanþegnar virðisaukaskatti.

Á hinn bóginn er önnur starfsemi eins og t.d. útgáfa geisladisks eða dansleikjahald skattskyld starfsemi.

3.         Skattskyld starfsemi - útgáfa og dansleikjahald

Standi tónlistarmenn sjálfir fyrir dansleik eða annarri skattskyldri skemmtun eða samkomu þá ber þeim, eins og öðrum skattskyldum samkomuhöldurum, að innheimta og skila virðisaukaskatti af heildaraðgangseyrinum. Sömuleiðis ber tónlistarmönnum sem standa í útgáfustarfsemi að innheimta og skila virðisaukaskatti af sölu útgefins efnis.

4.         Uppgjör - dansleikjahald - bráðabirgðaskil - regluleg skil

Skylda til að innheimta virðisaukaskatt af aðgangseyri að dansleik eða annarri skattskyldri skemmtistarfsemi hvílir á þeim sem stendur fyrir samkomunni (sam­komuhaldara). Um uppgjörsmátann eru ákvæði í reglugerð nr. 58/1991, um innheimtu virðisaukaskatts af dansleikjum og öðrum skemmtanaskattsskyldum samkomum.

Samkomuhaldari með fastan rekstur samkomuhúss gerir virðisaukaskattinn upp á reglulegum gjalddögum virðisaukaskatts.

Aðrir samkomuhaldarar skulu gera bráðabirgðauppgjör á virðisaukaskatti við lok hverrar skemmtunar. Þeir löggæslumenn, sem annast löggæslu á viðkomandi skemmtun, skulu þegar að skemmtun lokinni afhenda samkomuhaldara virðis­aukaskattsskýrslu sem útfylla skal þá þegar í samræmi við fjölda seldra aðgöngumiða. Á skýrslunni skal koma fram skattskyld velta (aðgangseyrir án virðisaukaskatts) og útskattur. Ekki ber að tilgreina innskatt í þessu bráðabirgðauppgjöri. Löggæslumenn innheimta síðan greiðslu á staðnum í samræmi við skýrsluna og afhenda innheimtumanni næsta virka dag.

Framangreind innheimta er bráðabirgðauppgjör á virðisaukaskatti og eingöngu vegna sölu á aðgangi. Á virðisaukaskattsskýrslu sem skilað er á reglulegum gjalddaga skal samkomuhaldari tilgreina innskatt sinn, sé um hann að ræða, ásamt allri skattskyldri veltu og útskatti. Á skýrslunni skal vísa til fyrri bráðabirgðaskýrslu.

5.         Innskattur í blandaðri starfsemi

Ljóst er að umrædd hljómsveit hefur með höndum blandaða starfsemi, þ.e.a.s. starfsemi sem bæði er skattskyld og undanþegin virðisaukaskatti sbr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Ákvæði um innskattsrétt aðila sem hafa með höndum blandaða starf­semi eru í 3.-5. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.

Þó eru sérreglur um innskatt af ökutækjum og fasteignum í 7.-9. gr. Þannig gildir t.d. ströng sérregla um innskatt af öflun eða leigu sendibifreiða, sem eðli málsins samkvæmt væri ekki uppfyllt í tilviki hljómsveitar.

Verður nú nánar vikið að ákvæðum 3.-5. gr.

Telja má að fullu til innskatts virðisaukaskatt af vörum og þjónustu sem eingöngu er keypt til nota við hinn skattskylda hluta starfseminnar, sbr. 1. mgr. 4. gr., en ekki má að neinu leyti telja til innskatts virðisaukaskatt af vörum og þjónustu sem eingöngu varðar hinn skattfrjálsa hluta starfseminnar, sbr. 2. mgr. 4. gr.

Varði innkaup báða þætti starfseminnar þá má telja virðisaukaskatt af slíkum blönduðum notum til innskatts eftir ákveðinni veltureglu, sbr. 5. gr. Virðisaukaskatt af innkaupum til blandaðra nota má telja til innskatts í sama hlutfalli og sala skattskyldrar vöru og þjónustu (án virðisaukaskatts) viðkomandi reikningsárs er af heildarveltu ársins. Við þennan útreikning skal ekki taka tillit til sölu rekstrarfjármuna o.þ.h. sem skattskyld er skv. 3. mgr. 11. gr. laga um virðisaukaskatt

Við uppgjör á virðisaukaskatti einstakra uppgjörstímabila innan reikningsársins má til bráðabirgða nota frádráttarhlutfall síðasta reikningsárs við útreikning innskatts af blönduðum notum. Við uppgjör virðisaukaskatts vegna síðasta uppgjörstímabils ársins skal fara fram endanleg afstemming á innskattsfrádrætti ársins. Nýstofnuð fyrirtæki verða að reikna frádráttarhlutfallið til bráðabirgða fyrir hvert einstakt uppgjörstímabil en endanlegt uppgjör skal fara fram við skil vegna síðasta tímabils ársins. Til nota við árlega afstemmingu ber að nota eyðublað RSK 10.27.

Dæmi um útreikning frádráttar að hluta:

Velta í skattskyldri starfsemi (tekjur t.d. af seldum aðgangseyri og geisladiskum) 5.000.000 kr.
Velta í undanþeginni starfsemi (tekjur t.d. af tónleikahaldi, höfundarrétti og tónlistarflutningi ) 5.000.000 kr.
Tekjur af sölu rekstrarfjármuna skv. 3. mgr. 11. gr. vsk-laga 500.000. kr.
Heildarvelta við útreikning hlutfallsins 10.000.000. kr.

Velta í skattskyldri starfsemi er í þessu tilviki 50% af heildarveltu án tillits til sölu rekstrarfjármuna. Til frádráttar í dæminu mætti því telja 50% virðisaukaskatts af kostnaði sem bæði varðar skattskylda og undanþegna þætti í starfseminni.

Í bréfi yðar frá 5. febrúar gerið þér grein fyrir hlutfallslegri skiptingu tekna hljómsveitarinnar á árinu 1998 eftir því hvort um er að ræða tekjur af hljóðfæraleik, dansleikjahaldi eða útgáfusamningi. Ekki er nánar tilgreint hvað felst í þessum liðum, sbr. einkum liðinn tekjur af útgáfusamningi og þess vegna er ekki hægt að fullyrða um frádráttarhlutfallið. Ef tekjur af útgáfusamningnum er að öllu leyti skattskyldar virðist frádráttarhlutfallið þó rétt reiknað eða 41%.

Tekið skal fram að ef um er að ræða innkaup sem bæði varða sölu hljómsveitarinnar á skattskyldum vörum og þjónustu og hins vegar eigin not (einkanot eða önnur not sem ekki varða skattskyldan rekstur) þá fer um hlutföllum frádráttar virðisaukaskatts af slíkum sameiginlegum kostnaði eftir matsreglunni í 6. gr. reglugerðar um innskatt.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum