Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 896/1998

21.12.1998

Sala morgunverðar ásamt gistingu – skattverð – sérgreining á reikningi

21. desember 1998
G-Ákv. 98-896/T-Ákv. 083

Vísað er til orðsendingar ríkisskattstjóra til aðila í veitinga- og gistihúsarekstri þar sem reifaðar voru helstu reglur um tekjuskráningu, virðisaukaskatt o.fl. er varðar skattauppgjör og skattskil þessara aðila.

Í orðsendingunni kemur m.a. fram sú túlkun að ef gisting er seld með morgunverði án þess að kaupandi hafi frjálst val um að kaupa gistingu eða morgunverð sitt í hvoru lagi, beri að innheimta 24,5% virðisaukaskatt af heildarandvirði, þrátt fyrir að meginreglan sé sú að gisting beri 14% virðisaukaskatt.

Framangreind túlkun hefur hlotið töluverða gagnrýni af hálfu hótelrekstraraðila. Er gagnrýnin fólgin í því að almennt sé gisting ekki seld án morgunverðar auk þess sem morgunverður sé almennt ekki seldur án gistingar. Ríkisskattstjóri telur að þar sem hér sé um að ræða viðskiptahætti sem hafa tíðkast um allmörg ár sé óeðlilegt að setja aðilum svo strangar skorður sem raun ber vitni.

Ef morgunverður er afhentur án sérstakrar greiðslu þá telst það afhending án endurgjalds og ber aðila þá að skila virðisaukaskatti af morgunverðinum. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal við afhendingu vöru eða þjónustu án endurgjalds miða skattverð við almennt gangverð í sams konar viðskiptum. Liggi almennt gangverð ekki fyrir skal miða skattverð við reiknað útsöluverð þar sem tekið er fullt tillit til alls kostnaðar að viðbættri þeirri álagningu sem almennt er notuð á vörur eða þjónustu af sama tagi.

Með vísan til framanritaðs er það álit ríkisskattstjóra að þó að kaupandi hafi ekki val um það hvort hann kaupir morgunverð, þ.e. þegar hann fylgir gistingu, þá sé nægjanlegt að sérgreina hvora söluna frá hinni þannig að innheimta ber 24,5% virðisaukaskatt af morgunverðinum og 14% af gistingunni. Ljóst er að við ákvörðun skattverðs morgunverðar í slíkum tilvikum ber að fylgja áðurgreindu ákvæði 8. gr. virðisaukaskattslaga. 

Samkvæmt 4. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal aðgreina  á reikningi skattskylda sölu eftir skatthlutföllum, þannig að heildarverð vöru og þjónustu ásamt virðisaukaskatti komi sérstaklega fram vegna hvors skatthlutfalls. Því ber að aðgreina gistingu og morgunverð á reikningi.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum