Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 895/1998

11.12.1998

Virðisaukaskattsbifreiðar – bifreið breytt úr fólksbifreið í sendibifreið

11. desember 1998
G-Ákv. 98-895

Vísað er til bréfs yðar, dags. 16. október 1998, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort heimilt sé að telja til innskatts virðisaukaskatt af kaupverði bifreiðar þegar bifreið uppfyllir ekki formskilyrði 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, fyrr en eftir að kaup gerast.

Í bréfi yðar kemur fram að fyrirtæki yðar keypti þrjár bifreiðar, til notkunar við virðisaukaskattskylda starfsemi, er uppfylltu ekki þau skilyrði sem gerð eru til svokallaðra virðisaukaskattsbifreiða. Við kaup á bifreiðunum stóð fulltrúi yðar í þeirri trú að virðisaukaskattur fengist endurgreiddur þegar gengið hefði verið frá breytingum á bifreiðunum þannig að þær uppfylltu kröfur um skráningu sem virðisaukaskattsbifreiðar. Bifreiðarnar fengu allar rauðhvítar númeraplötur innan sex mánaða frá kaupum. Jafnframt kemur fram í bréfinu að starfsmenn skattstjórans í Reykjavík hafi upplýst yður um að heimild til frádráttar virðisaukaskatts vegna kaupanna hafi ekki verið fyrir hendi þar sem bifreiðunum var breytt eftir að þær komu í eigu félagsins. Síðan spyrjið þér hvort leysa megi málið með vísan til 14. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, þannig að endurgreiðsla innskattsins verði hlutfallsleg miðað við þann tíma þegar bifreiðarnar voru skráðar sem virðisaukabifreiðar.

Til svars erindinu skal tekið fram að réttur til innskattsfrádráttar vegna kaupa bifreiða af því tagi er hér um ræðir (sendibifreiða), sbr. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, stofnast við kaup bifreiðarinnar en ekki síðar. Ágreiningslaust er að bifreiðarnar voru skráðar sem fólksbifreiðar við kaup og uppfylltu því ekki skilyrði framangreinds ákvæðis við kaupin. Fyrirtæki yðar hefur því ekki rétt á innskattsfrádrætti vegna kaupa bifreiðanna, hvorki að fullu né að hluta. Í þessu sambandi skal bent á meðfylgjandi úrskurð yfirskattanefndar nr. 1220/1994 en hann fjallar um þetta efni.

Þess skal enn fremur getið að engin heimild er til að leiðrétta til hækkunar innskatt vegna öflunar umræddra bifreiða ef notkun þeirra breytist. Það er aftur á móti heimilt skv. 3. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, varðandi rekstrarfjármuni sem notaðir eru við blandaða starfsemi ef heimilt hefur verið að draga frá sem innskatt hluta af virðisaukaskatti skv. 5. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Ákvæði innskattsreglugerðar um hækkun eða lækkun innskatts af öflun eftir því hver skattskyld not þeirra eru eiga einungis við um þá rekstrarfjármuni sem hlíta hlutafrádrætti þ.a.l. eiga þau ekki við um bifreiðar sem taldar eru upp í 9. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993 átti aldrei að auðkenna umræddar bifreiðar með rauðhvítum númeraplötum enda ekki heimilt að telja virðisaukaskatt vegna kaupa þeirra til innskatts.

Hvað varðar innskatt af rekstrarkostnaði þá skal tekið fram að ef bifreiðar uppfylla skilyrði þau sem koma fram í 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, njóta þær fulls innskattsfrádráttar vegna reksturs enda séu þær eingöngu notaðar í þágu rekstrarins.

Þó að ekki sé sérstaklega spurt að því í bréfinu hvort telja megi til innskatts virðisaukaskatt af kostnaði við breytingar á bifreiðunum þá þykir rétt að fjalla um það atriði hér. Það er álit ríkisskattstjóra að kostnaður sá sem hér um ræðir sé vegna fólksbifreiða enda fellur hann allur til áður en bifreið er ,,gerðarbreytt” þannig að hún uppfylli ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Með vísan til framanritaðs er ljóst að ekki er heimilt að telja virðisaukaskatt vegna umrædds breytingakostnaðar til innskatts.

Að lokum skal tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 192/1993 er sú regla orðuð að hafi ekki mátt telja virðisaukaskatt vegna kaupa ökutækis til innskatts, sbr. 6. tl. 2. gr. og 9. gr. reglugerðarinnar, teljist sala ökutækis ekki til skattskyldrar veltu. Með vísan til þess sem að framan greinir ber ekki að innheimta virðisaukaskatt af sölu umræddra bifreiða fyrirtækisins.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum