Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 881/1998

2.10.1998

Umsögn vegna kvörtunar S. til Samkeppnisstofnunar

2. október 1998
G-Ákv. 98-881

Vísað er til bréfs ráðuneytisins dags. 14. sept. sl. þar sem óskað er eftir umsögn ríkisskattstjóra um erindi S. til Samkeppnisstofnunar.

Í erindi félagsins til Samkeppnisstofnunar dag. 24. ágúst 1998 kemur fram að félagið telur að það sé brotalöm í framkvæmd á virðisaukaskattslöggjöfinni er leiði til samkeppnislegar mismununar. 

Kvörtun S. varðar að meginstefnu til tvö atriði, þ.e. annars vegar túlkun 5. tölul. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 og hins vegar athugasemdir vegna skattskila ýmissa óskattskyldra aðila sem þjónusta sig sjálfir.

Hvað varðar túlkun á 5. tölul. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 þá hefur yfirskattanefnd túlkað ákvæðið (þá var ákvæðið einungis í 5. tölul. 12. gr. reglugerðar 248/1990) í úrskurði nr. 443/1996. Í úrskurðinum er ákvæðið talið eiga skírskotun í söluskattslöggjöf, þ.e. það eigi við þá sérfræðiþjónustu sem var undanþegin söluskatti lengst af en síðan gerð skattskyld í lægra þrepi, sbr. 18. gr. laga nr. 10/1960, sbr. 7. gr. laga nr 1/1988, sbr. bráðabirgðalög 68/1987, um ráðstafanir í ríkisfjármálum. 

Nefndin komst því að þeirri niðurstöðu að við skýringu á inntaki endurgreiðsluákvæðisins í 5. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 mætti styðjast við 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/1960, sbr. lög nr. 1/1988. Í kjölfar laga nr. 68/1987 gaf fjármálaráðherra út reglur um söluskatt og sérstakan söluskatt af tölvum og tölvubúnaði og er þar skýrt tekið fram að greiða skuli 25% söluskatt af vinnu við viðgerðir á tölvum svo og þjónustusamningum um viðhald og eftirlit með þeim (þ.e. vélbúnaðinum).

Með vísan til þess sem að framan greinir er það álit ríkisskattstjóra að þjónusta við tölvuvélbúnað fellur ekki undir ákvæði 5. tölul. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 5. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990.

Einhvers misskilnings virðist gæta í umræddri kvörtun hvað varðar túlkun á ákvæðinu þar sem vísað er til álits Samkeppnisráðs nr. 7/1995. Í kjölfar álitsins var ákvæði 5. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 breytt með 3. gr. reglugerðar nr. 601/1995 í samræmi við þau tilmæli sem komu þar fram í þeim tilgangi að jafna samkeppnisstöðu þjónustusala með tilliti til menntunar (ekki lengur skilyrði að seljandi sé háskólamenntaður).

Með vísan til þessa er því hafnað að skattyfirvöld mismuni starfsstéttum í þessu tilliti enda var breyting sú sem gerð var á ákvæði 5. tölul. 12. gr. umræddrar reglugerðar eingöngu fólgin í því að ryðja burt þeirri samkeppnisröskun sem gat leitt af ákvæðinu eins og það var fyrir breytingu. 

Enn fremur skal tekið fram að ýmis eigin vinna eða þjónusta innan óskattskyldra aðila (hvort sem það eru opinberir aðilar eða aðilar sem undanþegnir eru virðisaukaskatti á grundvelli 3. mgr. 2. gr. laganna) er þess eðlis að hún er nauðsynleg í öllum rekstri svo sem bókfærsla, ritvinnsla, ljósritun, skjalavarsla og önnur vinna sem tengist skrifstofuhaldi. Þessi eigin vinna/þjónusta er að áliti ríkisskattstjóra ekki virðisaukaskattsskyld þó að hægt sé að kaupa að slíka þjónustu frá ótengdum virðisaukaskattsskyldum aðilum enda nauðsynlegur og órjúfanlegur þáttur í hvers konar  starfsemi.  

Hvað varðar síðari hluta kvörtunar S skal eftirfarandi tekið fram:

  1. Vísað er til álits samkeppnisráðs nr. 9/1998 sem fjallar um skattskyldu Rb.
  2. Það er rangt sem fram kemur í bréfi kvartanda (undir liðnum IV) að veitustofnanir Reykjavíkur innheimti ekki virðisaukaskatt af útsendingarkostnaði innheimtuseðla. Auk þess skal bent á að í bréfi dags. 30. janúar 1997 (tilv. Ts. 130/97) þar sem umræddum aðilum er veitt heimild til að nota sameiginlega reikninga og greiðsluseðla, er sérstaklega tekið fram að slíkur kostnaður skuli teljast til skattverðs sé hann sérgreindur.
  3. Rb. er í sameign þeirra sem njóta þjónustunnar og er ekki um að ræða hagnaðarsjónarmið í rekstrinum heldur er einungis um að ræða kostnaðarskiptingu milli eignaraðila. Samkvæmt þessu verður að telja að hér sé um að ræða eigin þjónustu þeirra sem eru notendur þjónustunnar (bankanna) og fellur því sú starfsemi undir gildissvið reglugerðar nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana.
  4. Sú þjónusta sem umræddir aðilar veita bönkum og er fólgin í nauðsynlegri skráningu á færslum sem fara í gegnum banka, sparisjóði og aðrar lánastofnanir er nauðsynlegur og órjúfanlegur þáttur í þjónustu þessara aðila og því ber ekki að innheimta virðisaukaskatt af slíkri eigin þjónustu.

    Aftur á móti er það álit ríkisskattstjóra að sú þjónusta sem fólgin er í hugbúnaðargerð (forritun) eða viðhaldi hugbúnaðar eða vélbúnaðar sé virðisaukaskattsskyld og beri að innheimta og skila virðisaukaskatti af slíkri þjónustu, sbr. 1. og  5. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 562/1989.

    Það fer svo eftir því hvort slík eigin starfsemi fer fram í sérstakri þjónustudeild eða ekki hvert skattverðið er, sbr. 1. og 2. tölul. 3. gr. reglugerðarinnar.
  5. Eignarhald á tölvubúnaði á ekki að skipta máli við ákvörðun þess hvort viss þjónusta sé sérfræðiþjónusta sem opinber stofnun fær virðisaukaskatt endurgreiddan af heldur skiptir máli hvers eðlis hin veitta þjónusta er. Hvað varðar kröfur kvartanda um að Dómsmálaráðuneytinu verði gert skylt að útskatta þjónustu tölvumiðstöðvar sinnar þá er því til að svara að kvartandi skýrir svo frá í bréfi sínu að ráðuneytið kaupi alla vinnu að en þjónusti sig ekki sjálft. Þegar af þessari ástæðu ber ráðuneytinu ekki að innheimta virðisaukaskatt af umræddri þjónustu heldur ber þeim einungis endurgreiðsla af þeim hluta þjónustunnar er varðar hugbúnaðargerð og viðhald þess búnaðar (ekki vélbúnaðar).

Að lokum er athygli samkeppnisstofnunar vakin á niðurstöðu EB-dómstólsins í úrskurði um skattskyldu tölvumiðstöðva sparisjóða í Danmörku sem birtur er í Tidsskrift for Skatter og Afgifter, bls. 1291- 1302 (28. hefti 1997). Þar er komist að þeirri niðurstöðu að sú tölvuþjónusta sem þar er veitt eignaraðilum (sparisjóðum) sé ekki virðisaukaskattsskyld.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum