Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 873/1998

18.8.1998

Virðisaukaskattur sem veðandlag, sbr. 47. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð

18. ágúst 1998
G-Ákv. 98-873

Vísað er til bréfs yðar, mótt. 18. maí sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort vörureikningsveð skv. 47. gr. laga nr. 75/1997 nái til þess hluta reiknings sem er vegna virðisaukaskatts.

Í bréfi yðar segir m.a.:

“Í þessu sambandi hefur því vaknað sú spurning hvort skjólstæðingi mínum sé heimilt að taka veð í heildarfjárhæð útgefinna reikninga, þ.e. hvort virðisaukaskattshluti reikningsins geti verið veðandlag í þessu tilliti, eða hvort umbjóðanda mínum sé einungis heimilt að taka veð í höfuðstól og vöxtum kröfunnar og hvort honum sé þ.a.l. skylt að halda aðgreindum þeim hluta reikningsins sem er vegna virðisaukaskatts.”

Í 47. gr. samningsveðlaga segir að rekstraraðila sé heimilt að veðsetja þær almennu kröfur sem hann á eða fær í rekstri sínum eða aðgreindum hluta rekstrarins. Samkvæmt 15. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skulu skattskyldir aðilar greiða í ríkissjóð mismun útskatts og innskatts hvers uppgjörstímabils og sé innskattur tímabilsins hærri en útskattur skal ríkissjóður endurgreiða mismuninn. Í 13. gr. virðisaukaskattslaga kemur síðan fram að skattskyld velta á hverju uppgjörstímabili teljist heildarskattverð allra vara sem afhentar hafa verið, svo og heildarskattverð allrar skattskyldrar vinnu og þjónustu sem innt hefur verið af hendi á tímabilinu.

Samkvæmt framansögðu breytir engu í sambandi við tímamark skattskila þótt greiðsla fari fram eftir afhendingu, t.d. við sölu gegn gjaldfresti eða með afborgunar-skilmálum. Til frekari áréttingar skal bent á að seljanda ber skylda til að greiða í ríkissjóð virðisaukaskatt hvers tímabils (mismun innskatt og útskatts) og skiptir þá ekki máli hvort hann hefur greitt virðisaukaskatt (innskatt) af aðföngum tímabilsins eða hvort hann hefur fengið greiddan virðisaukaskatt vegna sölu eða afhendingar á sama tímabili.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki talið að ákvæði virðisaukaskattslaga komi í veg fyrir að seljanda (veðsala) sé heimilt að setja að veði heildarfjárhæð útistandandi kröfu samkvæmt vörureikningi.

Beðist er velvirðingar á þeim ófyrirsjáanlegu töfum sem orðið hafa á því að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum