Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 867/1998

13.7.1998

Notkun frjótækna búnaðarsambands á virðisaukaskattsbifreið - starfsstöð

13. júlí 1998
G-Ákv. 98-867

Vísað er til bréfs yðar, dags. 13. maí sl. þar sem óskað er eftir endurskoðun á áliti ríkisskattstjóra dags. 26. mars sl. (tilv. 846) á því, hvernig fara beri með umsókn búnaðarsambanda um endurgreiðslu á virðisaukaskatti af kaupverði bifreiðar. Bifreiðin er notuð af frjótækni búnaðarsambandsins en utan vinnutíma er hún geymd við heimili viðkomandi starfsmanns.

Í bréfi yðar kemur m.a. fram að frjótæknar hafi ekki starfsstöð eða vinnuaðstöðu á þeim stað sem tilgreindur er sem starfsstöð/póstfang á virðisaukaskattsskrá heldur sinni þessum störfum heiman frá sér vegna hins sérstaka starfs síns. Jafnframt kemur fram að ástæða þess að starfsstöð sambandsins sé skráð þar sem hún er sé að núverandi formaður búnaðarsambandsins sé búsettur þar. Af þessu má ráða að skráð starfsstöð (heimilisfang) sambandsins fylgi lögheimili formanns sambandsins á hverjum tíma.

Álit ríkisskattstjóra dags. 26. mars sl. sem vitnað er til í bréfi yðar er byggt á því að aðalstarfsstöð frjótæknis sé þar sem sambandið er skráð með starfsstöð enda gert ráð fyrir því að þar væri raunveruleg starfsstöð búnaðarsambandsins. Af bréfi yðar má hins vegar ráða að starfsemi frjótækna fari aldrei fram á skráðri starfsstöð enda sé þar frekar um að ræða póstfang formanns sambandsins en engin eiginleg starfsemi á vegum sambandsins fari þar fram.

Ríkisskattstjóri telur að við mat á því hvað teljist föst starfsstöð beri almennt að miða við fastan vinnustað og eða skráð heimilisfang rekstraraðila þar sem starfsemi fyrirtækis fer að nokkru eða öllu leyti fram enda sé þar aðsetur framkvæmdastjórnar, skrifstofu, verksmiðju, verkstæði o.s.frv. Hér verður því að vera fyrir hendi viss varanleiki, bæði landfræðilegur og viðskiptalegur.

Með vísan til framanritaðs er það álit ríkisskattstjóra að skráð aðsetur búnaðarsambandsins geti ekki talist föst starfsstöð þeirrar starfsemi sem frjótæknar sambandsins vinna við enda er þjónusta þeirra þess eðlis að hún er ávallt afhent hjá kaupanda. Auk þess fari ekki fram nein starfsemi á skráðri starfsstöð enda fylgi hún heimilisfesti formanns sambandsins hverju sinni. Þetta leiðir því jafnframt til þess að umrædd notkun frjótækna B á virðisaukabifreið sambandsins telst ekki til einkanota. 

Hins vegar verður ekki fallist á það með fyrirspyrjanda að útkall frjótæknis geti talist vera útkall vegna viðgerðarþjónustu. Því verður ekki fallist á það að slík notkun falli undir ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum