Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 856/1998

10.6.1998

Virðisaukaskattur - þjónusta ferðaskrifstofa – undirverktakar

10. júní 1998
G-Ákv. 98-856

Vísað er til bréfs yðar, mótt. 4. mars sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort þjónusta verktaka hjá ferðaskrifstofu sé virðisaukaskattsskyld eða ekki.

Í bréfi yðar eru sett fram eftirfarandi tilvik:

  1. Hjá ferðaskrifstofu sér einkahlutafélag, óskilt ferðaskrifstofunni, um sölu og í reynd alla umsjón einnar sérhæfðar deildar ferðaskrifstofunnar. Tekjur einkahlutafélagsins eru aðeins frá ferðaskrifstofunni. Starfssvið einkahlutafélagsins er sala á ferðum og skipulagning ferða. Ber einkahlutafélaginu að innheimta virðisaukaskatt af ferðaskrifstofunni?
  2. Ef einkahlutafélagið ræður til sín einstakling sem verktaka til sölu ferða, skipulagningar ferða og fararstjórn, ber þá viðkomandi einstaklingi að innheimta virðisaukaskatt af einkahlutafélaginu?
  3. Eru fararstjórar innanlands jafnt sem erlendis sem vinna fyrir ferðaskrifstofur sem verktakar skyldir til að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni?

Til svars bréfi yðar skal fyrst tekið fram að þjónusta ferðaskrifstofa er undanþegin virðisaukaskatti skv. 13. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í athugasemdum við frumvarp til virðisaukaskattslaga kemur eftirfarandi fram:

“Hér er eingöngu verið að undanþiggja þá starfsemi ferðaskrifstofa sem felst í milligöngu um ferðaþjónustu en ekki aðra starfsemi sem ferðaskrifstofur kunna að hafa með höndum.”

Að áliti ríkisskattstjóra þá getur einungis verið um að ræða milligöngu um ferðaþjónustu þegar aðstaðan er sú að seljandi kemur fram í eigin nafni sem milligönguaðili gagnvart kaupanda. Auk þess verður að telja að skilyrði fyrir því að starfsemi geti fallið undir undanþáguna sé að seljandi hafi öðlast leyfi til rekstur ferðaskrifstofu skv. reglugerð nr. 281/1995, um ferðaskrifstofur, sbr. lög nr. 117/1994, um skipulag ferðamála.

Af framansögðu þykir ljóst að ekki er um að ræða milligöngu um ferðaþjónustu í framangreindum tilvikum og skiptir þá ekki máli hvert rekstrarform seljanda er. Jafnframt skal tekið fram að skv. 4. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga þá ná undanþágur skv. 3. mgr. ákvæðisins einungis til sölu eða afhendingar vinnu og þjónustu sem þar getur en ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi.

Auk framangreinds skal tekið fram að leiðsögn sem veitt er í atvinnuskyni er virðisaukaskattsskyld þjónusta.

Ríkisskattstjóra þykir jafnframt ástæða til að koma á framfæri eftirfarandi:

Hvort um er að ræða virðisaukaskattsskylda þjónustu getur í einhverjum tilvikum ráðist af því hvort viðkomandi starfar sem verktaki eða launamaður. Heiti samnings eða starfs skiptir ekki máli í þessu sambandi. Að áliti ríkisskattstjóra eru greiðslur til manna, sem fá aðstöðu til verks hjá kaupanda þjónustunnar ásamt aðstoð frá launuðum starfsmönnum hans og þurfa sjáanlega ekki að hafa neinn kostnað við verkið, launagreiðslur en ekki greiðslur til verktaka. Öðru máli gegnir um þá aðila sem taka að sér verkefni og leggja sjálfir til aðstöðu við starfsemina, tæki og áhöld og taka m.ö.o. fjárhagslega ábyrgð og áhættu á verkum sínum. Slíkar greiðslur eru í eðli sínu verktakagreiðslur.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á því að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum