Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 854/1998

20.5.1998

Endurgreiðsla virðisaukaskatts skv. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988.

20. maí 1998
G-Ákv. 98-854

Vísað er til bréfs yðar, mótt. dags. 24. febrúar sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort ákvæði 1. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, nái til vinnu ófaglærðra manna á launaskrá sérfræðinga þegar vinnan er unnin á byggingarstað.

Í bréfi yðar kemur m.a. fram að þér teljið óheimilt að hafna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manns við verkstjórn á byggingarstað á grundvelli 4. gr. reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, með áorðnum breytingum.

Samkvæmt bréfi yðar þá sá starfsmaður verkfræðistofu þeirrar, sem hafði með höndum eftirlit á byggingarstað og úttekt á verkinu, um yfirverkstjórn í umræddu tilviki. Yfirverkstjórn starfsmannsins var samkvæmt bréfi yðar fólgin í yfirstjórn á verkstað, innkaupum á efni og fleiru sem að verkinu laut ásamt því að starfsmaðurinn sá um að samræma vinnu milli aðalverktaka og annarra verktaka sem unnu við minni verkhluta.

Samkvæmt því sem fram kemur í bréfi yðar þá virðist umrædd verkfræðistofa hafa haft með höndum eftirlit með verkstjórn eigin starfsmanna. Ekki verður séð hvernig verkstjórn verks getur samrýmst þeim skyldum verkfræðistofu sem felst í eftirliti með verki fyrir hönd verkkaupa og óljóst hvar svokallaðri verkstjórn sleppir og eftirlit byrjar, enda vandséð að aðili geti haft með höndum gæðaeftirlit með eigin verkum. Sé á annað borð verið að selja þá þjónustu að hafa með höndum verkstjórn sýnist eðlilegra að hún beinist að verktaka sem þá greiði fyrir hana. Þá kemur að vísu aftur upp spurningin um samrýmanleika ef sami aðili annast eftirlit eða úttekt á verkinu.   

Hvað varðar hugleiðingar yðar um að virðisaukaskattur sé endurgreiddur af þeim hluta verktakavinnu sem lítur að úttektum þá verður ekki séð eðli málsins samkvæmt hvernig verktaki getur séð um úttekt á eigin verki. Í þessu sambandi skal bent á að í byggingarreglugerð nr. 177/1992 (grein 4.11-4.16 um úttektir) er gert ráð fyrir því að úttektaraðili verks sé annar aðili en byggjandi.

Samkvæmt framansögðu er það álit ríkisskattstjóra að umrædd vinna falli ekki undir 3. gr. reglugerðar nr. 449/1990 og sé því ekki heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt af  henni, sbr. 4. tölul. 4. gr. sömu reglugerðar.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á því að svara fyrirspurn yðar. 

 Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum