Ákvarðandi bréf nr. 838/1998
Sameining félaga skv. 56. gr. vskl. – 4. mgr. 12. gr. vskl.
2. febrúar 1998
G-Ákv. 98-838
Vísað er til bréfs yðar, dags. 17. desember sl., varðandi virðisaukaskattsuppgjör við sameiningu félaga skv. 56. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981.
Í bréfinu segir:
“Í 12. gr. laga um virðisaukaskatt segir: Eignayfirfærslu vörubirgða, véla og annarra rekstrarfjármuna má ekki telja til skattskyldrar veltu þegar yfirfærslan á sér stað í sambandi við eigendaskipti á fyrirtæki eða hluta þess og hinn nýi eigandi hefur með höndum skráðan eða skráningarskyldan rekstur skv. lögum þessum.
Raddir úr skattkerfinu hafa heyrst um að framangreint ákvæði 12. gr. laga um virðisaukaskatt eigi við þegar um sameiningu fyrirtækja er að ræða sem sameinast á grundvelli 56. gr. laga um tekju- og eignarskatt.
Almenn bókhalds- og reikningshaldsleg meðhöndlun við sameiningar fyrirtækja á grundvelli 56. gr. laga um tekju- og eignarskatt hefur ekki verið með þeim hætti að hlutafélagið sem slitið er með þessum hætti sé að selja hinu hlutafélaginu, þannig að engin velta hefur myndast og þar með færist engin velta í virðisaukaskattsskýrslur félagsins sem slitið er við sameininguna.
Óskað er álits á hvort framangreint ákvæði 12. gr. laga um virðisaukaskatt eigi við þegar félög sameinast á grundvelli 56. gr. laga um tekju- og eignarskatt.”
Að mati ríkisskattstjóra ber að túlka 4. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga svo að eignayfirfærsla sem verður við slit á einu félagi þegar það sameinast öðru falli undir ákvæðið. Ákvæðinu er ætlað að tryggja ákveðinn framgangsmáta þegar eignir eins félags eru afhentar öðru. Samkvæmt þessu telur ríkisskattstjóri að eignayfirfærsla milli félaga, hvort sem eldra félaginu er slitið eður ei, teljist ávallt til veltu í skilningi virðisaukaskattslaga og síðan ráði önnur atvik því hvort umrædd velta er undanþegin virðisaukaskatti, eins og í þessu tilviki, eða ekki eins og þegar rekstrarfjármunir eru seldir milli aðila án þess að um sé að ræða yfirtöku á heilu fyrirtæki eða sjálfstæðri rekstrareiningu innan þess.
Við sameiningu félaga skv. 56. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt fer fram mat á raunverulegu verðmæti beggja félaga fyrir sameiningu og er það lagt til grundvallar yfirtökusamningi og nýjum hlutabréfum til eigenda félagsins sem slitið er. Á virðisaukaskattsskýrslu félagsins sem slitið er skal telja fram til undanþeginnar veltu raunverulegt verðmæti félagsins við yfirtöku.
Ríkisskattstjóri